Kornflex í kökubitum

Það mætti halda að ég hefði verið að baka fyrir barnaafmæli ...

Gaman að þeyta eggjahvítur í rot

Og hræra varlega saman ...

Næstum 50 stykki þegar allt er talið

Og te innan seilingar enda ekki endilega barnanammi

Eggjahvítur, heslihnetur, súkkulaðispænir, kornflex, smásalt og smávanillusykur.


Engiferkökur á álfadegi

Mér gengur svo bölvanlega að baka smákökur að mér finnst það efni í bloggfærslu þegar baksturinn heppnast. Þetta var fyrsta tilraun með þessar kökur sem í er meðal annars púðursykur, engifer (duft) og kanill, allt hreinasta nammi.

Fyrsta plata, kúlurnar verða gjörbreyttar eftir 12 mínútur

Aðeins farið að hitna í kolunum

Myndin farin að skýrast

Vinkonurnar tilbúnar til átu, spillir ekki að vera heitar

Í mínum augum fullkomin í útliti!


Allan Karlsson

... er gamlinginn sem var slétt sama hvort hann lifði eða dó, tók hvarvetna áhættu og lét skeika að sköpuðu, var sama hvort hann talaði við hinn æðsta eða hinn óæðsta og skipulagði í mesta lagi einn leik fram í tímann. Hann er maðurinn sem var svo áhugalaus um pólitík og framvindu heimsins að hann gerði öllum greiða sem báðu hann ef hann gat. Sérsvið hans var stórhættulegt þannig að hann skildi eftir sig för, eða öllu heldur göt.

Ég held að ég sé tæpast búin að ljóstra upp of miklu úr Gamlingjanum sem hefur farið um Ísland með blys á lofti og heimtaði athygli.

Hún er rúmar 400 blaðsíður og fyrstu 100 þóttu mér fyndnar. Svo þrjóskaðist ég í gegnum 250 síður sem voru sami brandarinn aftur og aftur með viðkomu hjá Maó Tse Tung, Churchill, Stalín og fleiri frægum en svo varð ég í lokin forvitin um afdrif hins skringilega hóps sem tók þátt í meinleysislegri uppreisn Allans.

Þýðingin hefur verið rómuð. Ég heyrði meðal annars Bryndísi Loftsdóttur prísa hana í útvarpsviðtali. Ég veit að auðvitað var margt vel gert en stundum kenndi mig samt til. Þegar maður er læstur inni lemur hann á dyrnar og hrópar: Sleppið mér út. (bls. 31) - Það heyra allir hvernig þetta hefur verið á sænsku og vita allir hvernig þetta er eðlilegra á íslensku. Svo fara mílurnar ósegjanlega í taugarnar á mér. Ef einhver lesandi veit leið til þess að uppræta þann pirring hjá mér - sem væri bara með því að láta mig vita að ég hefði rangt fyrir mér - væri sú leiðrétting vel þegin. Á milli Genfar og Basel minnir mig að séu 20 mílur í bókinni. Það eru þá 200 kílómetrar því að sænska mílar er rúmir 10 kílómetrar. Í mínum augum er rangt að tala um mílur á íslensku því að kílómetrar eru okkar mælieining.

Ég á bókina þannig að ef einhver vill fá hana lánaða er hún á lausu.


Skaupið 2012 - fyrstu áhrif

Dásamlega skemmtilegt. Söguþráður. Geitin blóraböggull (scapegoat á ensku, hef ekki fyrr skilið að þetta væri tilvísun í biblíuna). Sá fjóra vini mína í hlutverkum. Ég hef aldrei séð Tobbu Marinós, Kristrúnu Ösp og Hildi Líf tala og veit ekki hvort Anna Svava og hinar voru þeim líkar en sá sem lék Ásgeir Kolbeins var ekki líkur þeim sem maður hefur séð í kvikmyndaþættinum á laugardögum. Samt skemmtilegt.

Endalaus keyrslan í snjónum höfðaði til mín og bílstjórarnir sem keyrðu niður öll háleitu áformin, hjólreiðamaður tók fram úr, aftursætisbílstjórinn sem tróð sér inn með allar syndirnar - á geitinni - vel gert. Hinir formennirnirnir fengu líka sína útreið sem og biskupinn, stjórnlagaráð, símaskráin (en var það ekki í alvörunni kona sem réð Egil Einarsson til að höfða til unga fólksins og útlitsins?) og Orkuveitan.

Óli spes var góður og síendurtekið stefið frá Mugison smellpassaði alls staðar.

Apa- og kjúklingalæti virtust eiga vel við á fundinum meðan Kínverjinn beið eftir viðtalsbili. Staðgöngufeðrunin var frábært innlegg, bráðandskotifyndið.

Víkingur og Þorsteinn eru ótrúlega fjölbreytilegir leikarar, ég verð að segja það. Aðrir voru líka góðir.

Ég saknaði einskis sérstaklega og fannst fáu ofaukið. Ég skildi reyndar alls ekki norska brandarann.

Kannski er bara svona auðvelt að gera mér til hæfis ...

http://www.ruv.is/sarpurinn/aramotaskaupid/31122011

Snilldarinnkomuna átti barnakórinn í lokin með nafnlausu stelpunni í einsöngnum. Fyrir utan kraftmikinn söng boðaði atriðið bjart árið 2012. Og ég trúi á það.


Bókapalladómar

--- Júlíus mundi þegar pabbi hans hafði dáið við að ná kvígu upp úr feni. Það þótti Júlíusi miður því að honum var hlýtt til kvígunnar.

Ég skellihlæ að svona húmor. Hvaða bók er þetta?

Hins vegar gafst ég hratt og örugglega upp á að lesa um Starkað Leví sem vantaði óflekkað mannorð. Auðvitað er ég þá ekki almennilega til frásagnar en persónusköpunin á þessum 40 síðum sem ég splæsti í var mjög flöt - og frágangur óásættanlegur.


Det blinde punkt eftir Julie Hastrup

Rebekka Holm er búin að stimpla sig inn hjá mér. Nýja bókin (frá 2010, nú samt komin ný) er mjög spennandi  glæpasaga. Einkalíf Rebekku höfðar minna til mín, a.m.k. þegar kemur að Michael og Niclas. Aldrei þessu vant gat ég giskað á morðingjann (að vísu ekki rétt) og í lokin vísar endirinn á næstu bók, enda er Rebekka sem sagt komin til að vera.

Nú er tíminn til að sökkva sér í lestur.


Mataruppgötvun jólanna

Kanill út á rauðkál gerir gæfumuninn, sérstaklega ef manni finnst rauðkál á mörkunum að vera gott. Mér hefur fundist rauðkál súrt á bragðið - kanillinn er núna uppáhaldskryddið mitt og leysir ferskan engifer af hólmi.

Svo er kanillykt sérlega jólaleg.


Að spila Fimbulfamb er góð skemmtun

Við hlógum okkur úrvinda yfir dvergkýtlingi, búkhlaupi og alls kyns helti. Ég datt á gólfið þannig að innispilamennska getur líka verið stórhættuleg. Alveg eins og íþróttir ...

Varist eftirlíkingar ...

Þótt þessi jólaköttur sé pikkfastur á vegg við Laugaveginn eru aðrir á sveimi þannig að það er vissast að sjá til þess að allir fái einhverja flík á morgun. Úr því að Grýla er komin í megrun má líka reikna með því að kötturinn sé frekari til fjörsins. Passa sig ...

Jólakötturinn í fjötrum


Stórsveit Mugisons

Ég er í þeim hópi aðdáenda Mugisons sem varð að láta sér nægja að horfa og hlusta heima. Ekkert að því. En ég verð að skrifa það - aftur - að það er unun að horfa á trommarann. Hann lifir sig alla leið inn í það sem hann gerir. Ég sá hann á tónleikum í Kassagerðinni í haust. SVona ættu allir að hafa mikla ástríðu fyrir því sem þeir gera.

Það hefur náttúrlega Mugison líka.


Órökrétt auglýsing

Af  hverju á maður að falla fyrir því að metsölubók hljóti að vera skotheld í jólapakkann? Eru ekki þegar of margir búnir að kaupa hana?


Ganga á Álftanesinu

Það er næsta lítið að marka veðurspár þegar maður ætlar í láglendisgöngur. Eða hvað á ég að halda? Fyrir hálfum mánuði gengum við á Mælifell í Kjós í meintu 10 stiga frosti og það var eins og sumardagur í 300 metra hæð. Nú gengum við í kringum Bessastaðatjörn, hækkun 0,5 metrar, og hiti var samkvæmt kortinu +1°C. Og eftir einn og hálfan tíma kem ég krókloppin í kaldan bílinn. Ef hér eru einhverjar ásláttarvillur er sem sagt komin skýring ...

Við athuguðum ekki hvort sundlaugin væri á einhverri hreyfingu.

Bessastaðatjörn á Álftanesi

Og nærmynd af Besstastaðatjörn:

Bessastaðatjörn mjög nálægt ...


Misþyrming 2. persónu

Þá bara gefstu upp.

Eða:

Þú færð þér alltaf hafragraut á morgnana og ert bara góður langt fram eftir degi.

Þú veist hvað ég meina. Þetta lítur sakleysislega út hér og nú en þegar mælandinn er að tala um sjálfan sig er notkun 2. persónu einfaldlega kolandskotiröng. Grr.

Þetta gerir þér gramt í geði ...


Desember - bíómynd

Ég missti næstum af síðasta sunnudagsbíói sjónvarpsins. Annað hvort hef ég horft (of) lítið á sjónvarpið upp á síðkastið eða hún var of lítið kynnt.

Mér finnst Desember flott mynd. Mér finnst skemmtileg tilbreyting að íslensk bíómynd gerist í Reykjavík. Mér finnst fullmikil lenska að setja íslenskar bíómyndir niður á litlum stöðum víðs fjarri mér. Ég held að ef ég væri útlendingur að stúdera íslenskar bíómyndir kæmist ég að þeirri niðurstöðu að landsbyggðin væri langtum frekari til fjörsins en hún er.

Ég hef sko ekkert á móti landsbyggðinni, ég er bara að spá í speglunina í þessu.

Sagan: Jonni (Tómas) kemur heim úr sjálfskipaðri útlegð og kemst að því að Ásta (Lay Low) er gengin honum úr greipum. Hann er hins vegar svo miklu meira sjarmatröll en Albert (Stefán Hallur Stefánsson) að Ásta á erfitt með að horfa framhjá honum og endurkomu hans. Á daginn kemur að systir Jonna (Laufey) er virkur alkóhólisti og vanrækir börnin sín tvö. Mamma (Guðrún Gísladóttir) og pabbi (Ellert A. Ingimundarson) Jonna hafa verið meðvirk og börnin hafa liðið fyrir það.

Ég er mjög skælin þegar börn verða illa úti og hér var mjög vel haldið á því, m.a. var systirin mjög geðug af og til sem gerir það hálfu sársaukafyllra.

Lay Low kann að syngja og hún naut sín vel í hlutverkinu. Mér fannst enginn standa sig illa en stjörnurnar í mínum augum voru krakkarnir sem léku krakkana (veit ekki hvað þau heita) og svo hann Jón Páll Eyjólfsson. Skrambans að hann skuli ekki leika meira.

Fegin að ég missti ekki af myndinni.


Spekúlerað í gönguferð

Í þessum kulda - sem er ekki fyrir greyið mig - er dýrmætt þegar sólin skín og útsýnið er íðilfagurt. Þannig var í dag og ég fór út í hádeginu, gekk um og hugsaði um tíðindi vikunnar. Eins og ævinlega tjáir sig frekar lítill og hávær hópur um það sem hæst ber.

Og hvað bar þá hæst? Ekki meinta nauðgun, heldur myndbirtingu á vef sem fólk fordæmir ógurlega. Las fólk þennan vef áður? Var hann á mörkum hins siðlega? Hafði fólk dálítið gaman af slúðrinu og  grensunni? Sá það þessa mynd sem velti hlassinu?

Ég les netið og hef skoðanir en ég hafði ekki fyrr en í þessari viku lesið texta eftir Egil sem er fréttaefnið hér. Kannski hafði ég afgreitt hann sem kjána í stað þess að taka alvarlega þá slæmu fyrirmynd sem hann er. Mér fannst hann hlægilegur en sumt fólk leit upp til hans. Og hann telur sig í færum til þess að vísa fólki veginn.

Sem neytendur frétta berum við líka ábyrgð. Ef dagblöð eru keypt vilja auglýsendur auglýsa í þeim. Í netheimum virka smellirnir.

Ég veit ekki hið sanna í málinu en ég held að fólk sé aðallega brjálað út í sjálft sig fyrir að gefa slúðrinu líf og stoppa ekki vafasamar fyrirmyndir. Og nú ætlar það að bæta fyrir allar syndir sínar í einu lagi.

Hádegið var í styttra lagi, kannski er ég ekki búin að spekúlera nóg ...

Esjan


Nigella eða Jói Fel?

Mér finnst ótrúlega hávær aðdáun á Nigellu sem eldar upp úr pökkum og dósum og ber svo fram grátt og guggið. Oft. Hins vegar horfði ég áðan á Jóa Fel baka smákökur sem voru svo girnilegar að ég þurfti að hafa mig alla við að rjúka ekki í hverfisbúðina til að kaupa í uppskriftirnar (nema náttúrlega súkkulaðikökuna, þær eru aldrei girnilegar). Tilviljun?

Kókostoppar hafa hingað til alltaf orðið flatir hjá mér en nú er ég komin með ástæðu til að láta enn reyna á.

Já, neinei, finn ekki uppskriftina ...


hendur.is

Loksins hundskaðist ég til að leggja inn hjá Guðmundi Felix, handlangara, sem fær sáralítinn stuðning frá hinu opinbera, ef nokkurn. Þvílíkur kraftur í manninum, þvílíkt geðslag, þvílíkt sem ég óska honum nýrra handleggja. Hann langar í þá, hann langar í fínhreyfingarnar, hann langar að verða sjálfbjarga. Og það er ekki til of mikils mælst.

Guðmundur Felix er búinn að safna rúmum tuttugu milljónum. En betur má ef duga skal því markmiðið er að safna 40 milljónum.

Ný uppáhaldsbúð

Í Austurveri er snilldarbasar með notaðar vörur. Ég keypti þar áðan alls kyns fínerí fyrir 15.600 krónur, aðallega flíkur, og til viðbótar við frábær kaup mín fer peningurinn að mestu leyti í að styrkja illa leikin svæði í Afríku.

Tóm sæla sem ég mæli eindregið með.

basarinn-mynd


Huggun harmi gegn

Í gær átti að heita kaldasti dagurinn í háa herrans tíð. Ég fór út í hádeginu og eins og nýlentur útlendingur féll ég í stafi yfir birtunni. Esjan var ekkert slor.

Bæjarfjallið í hádeginu þremur vikum fyrir stysta daginnEsjan aðeins austarSeinni partinn byrjaði svo að kvölda ...


Hin danska Tove Ditlevsen

Ansi er magnað að vera í námi, sérstaklega þegar maður tekst á hendur verkefni sem maður velur ekki, heldur sem velur mann.

Ég á að fjalla um danskt höfundarverk og Tove Ditlevsen valdi mig. Ég ætlaði að velja Vitu Andersen en Tove tók fram fyrir hendurnar á mér. Hún er búin að vera dáin í 35 ár en er fólki enn minnisstæð, bæði sem höfundur og manneskja. Ég las Götu bernskunnar fyrir margt löngu, er núna rétt að byrja að skoða og spennt að sjá að hverju ég kemst.

Tove Ditlevsen

Bogens forside


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband