Eru ekki bankarnir sprengfullir af peningum?

Einhvers staðar heyrði ég að bankarnir væru yfirfullir af peningum, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég held að það væri nær að þeir peningar færu í vinnu en að stíla inn á og stóla endalaust á erlent fé. Það er eðli viðskipta að vilja fá arð af peningunum sínum og ég held ekki að Juan, Huong eða Jón séu í góðgerðastarfsemi, alveg sama hvort þeir eiga lopapeysur eða flíspeysur.

Það eru svo margir búnir að tjá sig um bæði kínverja og Kínverja upp á síðkastið að það er að bera í bakkafullan lækinn að segja aukatekið orð til viðbótar en ég segi samt að ég held að hinn stóri þögli meirihluti vilji að landgæði séu í almannaeigu rétt eins og fiskimiðin. Svo heyrði ég í kvöld að íslenskur auðmaður hefði keypt ógrynni lands fyrir austan um árið og allir haldið að hann ætlaði að græða upp landið, skaffa vinnu og snúa hamingjuhjólinu. Það varð ekki, ekki frekar en hjá auðmanninum sem keypti dobíu í Mýrdalnum.

Að koma með (erlent) fé er engin andskotans lausn, það vantar vinnu og hvers vegna framleiðum við ekki meira sjálf? Fullvinnum fiskinn? Vinnum úr hráefninu áli? Ræktum grænmeti og ávexti í gróðurhúsunum? Fáum ferskara grænmeti sem hefur ekki ferðast mörg þúsund kílómetra áður en það kemst í salatið okkar?


Hjólreiðar sem lífsstíll?

Eftir hart vor, blítt sumar og frábært haust er nú komin vetraráminning. Kannski þurrkar snjórinn út glerbrotin og gerir mér lífið léttara en það var ekki alveg frábært að hjóla á deigu dekki milli hverfa í dag.

Eymingjans hjólið norpaði úti


N4 - fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2012

Ég er svo mikill áhugamaður um upplýsingastreymi af fundum að það er hætt við því að ég muni hafa kveikt á N4 fram á nótt. Nú er þar bein útsending frá bæjarstjórnarfundi og ekki aðeins getur þar að heyra ýmislegt um fjárhag bæjarins, heldur líka líta. Meðan forseti bæjarstjórnar talaði sáum við glærur með tölum! Hipp hipp.

Ekki kannast ég við að borgarstjórn míns hrepps, Reykjavíkur, bjóði upp á sjónrænar útsendingar og alls ekki tölulegar upplýsingar fyrir augað. Og þótt þingið sé með sérstaka stöð í sjónvarpinu fær maður aðeins að berja ræðumanninn hverju sinni augum (og reyndar málsheiti og mælendaskrá). Indælt væri að fá að sjá gögn meðan maður hlustar - því að maður hlustar gjarnan, ekki satt?

Ég geri ráð fyrir að þetta sé N4 að þakka. En hversu lengi mun fundurinn standa?


Heimur hlýnandi fer

Þar sem ég sveiflast dálítið eftir veðri jaðrar við himnaríkissælu í mínum herbúðum þessa dagana. Margra stiga hiti, logn og gott skyggni dag eftir dag í nóvember styttir veturinn framundan og það hljóp aldeilis á snærið hjá mér um helgina fyrir vikið.

Þetta er myndskreytt hamingjublogg þar sem ég gekk 14 km leið milli Nesjavalla og Hveragerðis á laugardaginn og á slóðum Trölladyngju á Reykjanesinu á sunnudaginn.

Það eina sem skyggir á sæluna er að mér finnst sem ég eigi að vera með samviskubit gagnvart öllum heiminum fyrir að senda þessi hlýindi alla leið hingað norður í rassgatarófu.

En ætli maður fái ekki vetrarhörkur um helgina sem endast fram í júní? Úps, þar fór hamingju-hlutinn af hamingjublogginu fyrir lítið, hehe.

Við óðum sprænu - en það er NÓVEMBERHey, við þurftum að vaða, jíeiOg svona var um að litast á Reykjanesi á sunnudaginn


Danska er málið ...

... sem ég legg akademíska stund á um þessar mundir. Nú er ég spennt að sjá hvort nýja veforðabókin verður að liði við þýðingar og almennan skilning.

Osom í tilefni dagsins

Djók, ég myndi (næstum) aldrei skrifa svona, hehe. Samt hlýtur mér að verða hugsað til Megasar sem sagði þegar hann var spurður um þýðingu þess að hljóta verðlaun Jónasar Hallgrímssonar um árið: Bönts ovv monníj.

Tungumálið er síkvikt og þrífst á fjölbreytileika þannig að maður verður að þola dálítið af þanþoli þess. Svo líður bullið hjá, þráðbeinn ritháttur framburðar leiðréttist og málkenndin lifir. En ekki hjá öllum. Frekar en áður.

Ég fór á hvínandi góða dagskrá Mímis í tilefni dagsins. Hún var haldin í Árnagarði og fengu ekki allir áhugasamir sæti. Ég held að áhuginn á tungumálinu, ljóðum, ritlist, sögum og öllum texta lifi og lifi.

Jónas lifi!

Vigdís Grímsdóttir las úr nýju bókinni sinni og vakti lukku


Bónus með Hreinsun í Þjóðleikhúsinu

Ég sá 6. sýningu á Hreinsun, fantafínni sýningu um þrælahald, oft kallað mansal, og undirokun, hremmingar stríðsins, heljargreipar oftrúar á til dæmis kommúnismann, gagnrýnisleysi og annað það sem líka mátti lesa um í bókinni eftir Sofi Oksanen.

Tímaskeiðunum er blandað saman, Aliide er ung og Aliide er gömul og allt skilst það ljómandi vel. Ég get svo sem ekki vitað hvort það hjálpaði skilningnum hjá mér að ég hef lesið bókina en ég held að þessi 2,5 tíma sýning plumi sig án þess forskots.

Mér fannst varla veikur hlekkur í leiknum, kannski er bara orðið svona auðvelt að gera mér til hæfis eða kannski eru leikarar almennt svona góðir. En bónusinn var að strax að sýningu lokinni settust leikarar, leikstjóri, hönnuður leikmyndar og leiklistarráðunautur niður og ræddu sýninguna við þá sem höfðu áhuga á og tíma til að sitja aðeins lengur.

Melkorka, Stefán, Margrét Helga, Arnbjörg, Þorsteinn, Pálmi, Stefán Hallur, Vigdís Hrefna, Ólafur Egill og Ilmur

Spurningar voru helstar um leikmyndina og hvernig væri að leika svona hrylling. Ég skildi Margréti Helgu þegar hún talaði um að hennar persóna lokaði hringnum sínum og hreinsaði sig burtu og þess vegna sæti hún í lok sýningar ekki uppi með eins erfiðar tilfinningar og þyrfti fyrir vikið ekki að fara út á Gróttu og garga upp í vindinn eins og stundum jaðrar við að vera nauðsynlegt þegar tilfinningarnar stoppa í brjóstholinu. Svo virtust þau á einu máli um að erfiðustu tilfinningarnar væru á æfingatímabilinu, þegar heimildavinnan er unnin og ýmis hryllingur skoðaður.

Það má mikið vera ef ég kaupi mig ekki inn á fleiri 6. sýningar. 


Heillandi bjórbann í bland við strípibúllur og tugthús

Helgi Gunnlaugsson leiddi í gær göngu á vegum HÍ og þræddi tugthúsasögu Íslendinga meðfram öðru forvitnilegu. Ef ég væri að leita mér að námsleið myndi ég umyrðalaust fara í tíma til Helga. Það sem maðurinn sagði skemmtilega frá!

Helgi Gunnlaugsson, afkomandi Jóhannesar Zoëga, fyrsta tugthúsmeistara sem sóttur var út fyrir landsteinana Kannski vissu ýmsir af frásagnargleði hans, sem var opinberun fyrir mig, því að fjöldinn var þvílíkur að ekkert varð þverfótað fyrir framan Stjórnarráðið. Að vanda þekkti ég fáa, mínir vinir hafa ekki áhuga á svona

Helgi er hafsjór af þekkingu um málið, enda afbrotafræðingur, en hann leiklas og lék og miðlaði en las ekki bara eða sagði þurrpumpulega frá. Svo ljóstra ég ekki fleiru upp en segi að lokum að hlutfallslega voru umtalsvert fleiri karlar í þessari göngu en ég hef áður séð. Strípibúllur ...?


Um allan heim - en Ísland rokkar

Ég var svo ljónheppin að fá að rúnta um suðvesturhornið með Kanadamenn í heimsreisu. Þetta var sprækt og kátt fólk sem var búið að fara víða á einum mánuði, byrjaði í Kína og endaði á Íslandi. Einhverjir skráðu sig í þessa lúxusferð af því að Ísland var með, eina landið í Evrópu. Ég var spurð um eldgos og afkomu, atvinnuástand og hjátrú, brottflutning fólks - en aðallega talaði ég eins og gefur að skilja. Mér og rútunni minni samdi svo vel að ég fékk að vita að það væri pláss í Kanada fyrir mig og ef mér skjöplast ekki var mér boðið starf á útvarpsstöð ...

Ég hafði ekki komið til Þingvalla síðan 19. september og sá núna í fyrsta skipti sundurgrafna Almannagjá. Mér láðist að taka myndavélina með mér úr rútunni en sjónin var býsna svakaleg. Klósettmálin þar eru líka mjög dularfull. Kostar? Eða ekki? Opið? Lokað? Fyrir ferðaþjónustuna væri betra að hafa þessa hluti eins frá degi til dags.

Mitt ágæta fólk var alsælt með allan viðurgjörning og flaug burt í gærmorgun með bros um allt andlit. Orðspor okkar vex vonandi. Hópstjórinn minn bloggaði um alla ferðina og ég var að reyna að ná mynd af mér af blogginu hennar. Það tókst alls ekki, líklega varið gegn stuldi sem kemur vel á vondan því að hún hefur svolítið dularfullt eftir mér um glæpatíðni og athafnasemi lögreglunnar - sem ég mun auðvitað aldrei gangast við.


Sums staðar gengur betur en illa

Hugsanlega steytir einhver hnefann framan í mig núna en ég gerði örlitla lífskjarakönnun á barnum á föstudaginn. Allir sem ég talaði við báru sig vel, áttu blómstrandi fyrirtæki í Hafnarfirði eða Mosfellsbæ, bifvélaverkstæði eða prentsmiðju eða voru í vegagerð, með mörg járn í eldinum og á fleygiferð að sinna verkefnum.

Mér er farið að finnast þreytandi að heyra bara hinar sögurnar. Kannski þora þeir sem gengur vel hjá ekki að fara í útvarpið eða láta taka við sig glanstímaritaopnuviðtöl.


Gvakamólí

Ég prófaði fyrir viku að búa til mitt eigið gvakamólí og mér fannst það heppnast. Sumir vildu samt hafa sterkara bragð. Í mínu er bara avókadó, laukur, tómatur og kreistur límónusafi (í óskilgreindum hlutföllum). Svo bjó ég það til aftur og tók myndir með ýmsum stillingum en allar með sama sjónarhorninu og á sömu mínútunni.

Verður sennilega uppáhalds

Man ekki hvaða stilling þetta er ...

... og ekki heldur þessi ...Ég játa ekkert lengur


Kosningavefur opnaður

Í hádeginu var opnaður gagnagrunnur vegna rannsókna á kosningum á Íslandi 1983-2009. Mér fannst þessi samkoma merkileg af því að ég heyrði eitt sem ég vissi ekki fyrir. Í rannsókninni voru undir flokkarnir fjórir sem lengst af hafa verið í boði, þ.e. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking/Alþýðuflokkur og Vinstri hreyfingin - grænt framboð/Alþýðubandalag. Það sem ég hafði ekki áttað mig á var að kjósendur á miðjunni litu svo á að flokkarnir sem þeir kusu væru á miðjunni en kjósendur hinna flokkanna, á báðum jöðrunum kannski, héldu að flokkarnir sínir væru fjær miðjunni en þeir sjálfir.

Hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins lítur sem sé svo á að flokkurinn sé hægrisinnaðri, hallari undir einkavæðingu og minni ríkisafskipti en hann er sjálfur. Að sama skapi heldur hinn almenni kjósandi VG að flokkurinn sé meira gegn stóriðju og hlynntari skattahækkunum en hann er sjálfur.

Kjósendur Samfylkingarinnar hafa hallast aðeins meira til hægri með árunum.

Ég saknaði spurninga í lok erindanna. Hefði ekki verið ástæða til að skoða hvað kjósendur minni flokkanna héldu um flokkana og sig sjálfa? Hvar staðsetja sig til dæmis kjósendur Borgarahreyfingarinnar?

Dr. Hulda Þórisdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild

Kjósendur eru miðsæknir þegar þeir eru sjálfir spurðir

Bekkurinn var þétt setnari en ég reiknaði með


Kirsuberjagarðurinn - hraðferð

Þegar ég fer á hálfs dags námskeið finnst mér orðið ágætt ef ég læri eitthvað eitt nýtt sem ég get notað. Þegar ég fer í leikhús geri ég mig ánægða með að vera ánægð með eitt til tvennt, einhvern leikara, leikritið sjálft, tónlistina, sviðsmyndina, eitthvað eitt eða tvennt.

Í ljósi þessarar heimspeki get ég verið ánægð með Kirsuberjagarðinn. Ég ætla bara að nefna einn neikvæðan punkt, mér leiðist leikkonan sem allir hinir (snögg könnun í hléi og eftir sýninguna) eru hæstánægðir með, ekki vegna þess að hún leiki ekki bærilega heldur vegna þess að hún er með svo yfirspennta rödd.

Ég þykist hafa farið dálítið í leikhús á langri ævi en ég er ekki sérlega verseruð í Tékkoff og held alltaf að hann sé hægt drama. Þessi sýning var ekki hæg þegar fyrstu 20 mínútunum sleppti og við vorum eitthvað að flissa að því hvort heimilislífið væri víða svona tjúttað og ekki bara einn sem segir við annan: Hvar er fjarstýringin?

Nóg um það, Tékkoff er stofnun sem fólk þekkir. Fyrsta undrunarefni mitt var Guðjón Davíð Karlsson sem mér fannst frábær. Ég þekkti hann ekki strax en þegar hann tók langt eintal kveikti ég. Þetta er varla hægt að rökstyðja, hann var bara svakalega ferskur. Ég var ánægð með fleiri leikara en hinn leikarinn sem ég kýs að stilla upp er Ilmur Kristjánsdóttir. Hún var að vísu sjálfri sér lík en það er ekki gagnrýnisvert.

Leikmyndin var flott hús og flott uppsviðs sem tók grundvallarbreytingum í lokin. Æði sem hékk saman við spilarana þrjá. Lifandi tónlist er bónus og þeir Leifur, Óttar og Sigtryggur slógu hvergi af. Húmorinn spillti ekki.

Líklega er ég bara býsna ánægð með Hilmi Snæ þegar á allt er litið.


Nöldur á hrekkjavöku

Nei, engir krakkar hafa hringt og lokkað mig út í dyr til að sníkja af mér nammi (er það annars einhvers staðar?) heldur hefur nú bankinn tekið upp á þeim óskunda að rukka mig um vexti af greiðslukortinu mínu - án þess að láta vita. Af hverju lætur bankinn samviskusamlega vita um allan hugsanlega óþarfa en ekki það sem kemur manni við?

Upphæðin er að sönnu lág, en hvenær breytist það?


Ljóðaþýðingar úr dönsku

Ég gæti ekki hugsað mér að þýða ljóð, enda enginn tiltakanlegur ljóðaunnandi og finnst óvinnandi vegur að virða hrynjandi og rím eftir þörfum, en mér finnst samt gaman að skoða og bera saman þýðingar.

Piet Hein orti þetta gruk:

Uselviskhed
er dog det bedste
som man kan ønske
for sin næste.

Magnús Ásgeirsson þýddi smáljóðið svona:

Óeigingirni
er með sanni
yndisleg dyggð
hjá öðrum manni.

Helgi Hálfdanarson svona:

Ósérhlífni
í öllum vanda
er besta óskin
öðrum til handa.

Og Auðunn Bragi Sveinsson svona:

Ósérplægni
vér óska þorum,
einkanlega
af náunga vorum.

Grand hjá þeim merkingarlega - en gaman að bera saman atkvæðafjöldann.


Stuð í búðinni

Ég fór í matvöruverslun í hádeginu. Röðin var stutt en maðurinn fyrir framan mig átti ekki fyrir því sem hann keypti, innan við 2.000 krónur, augljóslega engar nauðþurftir samt. Kassadaman tók súkkulaðið burt en það dugði ekki, þá kleinuhringina og tyggjóið, hamborgarann - og mjólkina en allt kom fyrir ekki, hann átti engan pening á kortinu. Kassadaman var alveg óskaplega þolinmóð og hvatti hann til að athuga innstæðuna á reikningnum áður en hann verslaði.

Svo bað hún mig afsökunar en rósemdin yfir henni hafði smitað mig svo að ég var alveg róleg, sagði svo í spaugi þegar ég rétti henni kortið: Spennan í algleymingi.

Ég átti fyrir því sem ég hafði tínt ofan í körfuna og í kveðjuskyni sagði hún: Fallegur trefill sem þú ert með og mikið ertu fallega klædd.

Það er hægt að senda mig káta út úr Bónus, hehe. Er þetta ekki að aukast, að fólk hrósi fólki sisona? Ég er alltaf að lenda í þessu nú orðið ...


Of feitur eða offeitur

Hver er of feitur (e. too fat) og hver offeitur (e. obese)? Er það ekki reiknað með þessum vafasama BMI-stuðli?


Glerbrot og glersalli

Rekstrarkostnaðurinn við hjólið eykst stöðugt. Þetta eru að verða alveg 3.000 krónur á mánuði (stofnkostnaður 60.000) því að slangan springur eða slitnar á að giska svo oft þegar mér tekst ekki að sneiða hjá fíngerðu glerinu á leið minni um hverfi borgarinnar.

Viðgerðamaðurinn góði sem er kominn í þessa áskrift hjá mér sagði í dag að mest væri um glerbrot í miðborginni. Er borgarstjórinn að spara í hreingerningunum eða var ég bara alltaf áður óvart heppnari en ég er núna?

Es. Sama sprangan sprakk eða liðaðist í sundur tveimur sólarhringum síðar.


Að vinna eða ekki að vinna og verða til gagns

Mér finnst afar fráhrindandi tilhugsun að vera atvinnulaus, öllu heldur kannski aðgerðalaus. Kannski gæti ég hugsað mér að vera í skóla alla ævi og læra alltaf eitthvað nýtt og nýtt; til kokks, viðskiptafræði, köfun, útvegsfræði, hönnun, til ráðherra, mannauðsstjórnun - eiginlega hvað sem er annað en blómaskreytingar, förðun og súludans. En mér þætti samt óþægilegt að vera ekki í vinnu og afla ekki eigin tekna.

Um helgina áttum við unglingurinn spjall um atvinnumál. Hann byrjaði í menntaskóla í haust og ég spurði hann hvort hann héldi að hann vildi frekar afla 400.000 kr. eftir 10 ár með vinnu eða sem atvinnulaus. Í spurningunni gaf ég mér að það væri hlaupið að því að lifa af hvort sem maður væri á vinnulaunum eða atvinnuleysislaunum.

Unglingur: Þetta er góð spurning sem ég er einmitt mikið búinn að velta fyrir mér.

Ég: Jaaaá? [Ég veit nefnilega ekki hvaðan spurningin kom í kollinn á mér.]

Unglingur: Ég geri ráð fyrir að læra lögfræði af því að það er hægt að fá góða og vel launaða vinnu sem lögfræðingur en ég hefði mestan áhuga á að læra eðlisfræði. Ef ég verð eðlisfræðingur er ég hins vegar að dæma mig til að vera í einhverri skonsu í háskólanum með lélegt kaup.

Ég:

Unglingur: En ég held að flestir vilji bara fá kaup og sleppa því að vinna.

Ég: Neeei ...

-Þetta er skynjun hans á umhverfinu. Ég er enn ekki sannfærð um að fólk almennt vilji ekki vera í vinnu. Fólk vill hins vegar auðvitað ekki vinna hvað sem er, maður vill vinna við eitthvað sem maður hefur vit á, þekkingu til að sinna og áhuga á. Er það ekki? Og helst ætti vinnan að skila einhverju góðu (nú er ég, prófarkalesarinn, kannski komin í glerhús), tekjum sem og óefnislegum arði. Ég vil svoooooooo leggja inn í hagkerfið og þess vegna eyði ég tekjunum mínum í að styrkja íslenska framleiðslu.

En ætli það geti verið að flestir sem gætu unnið áhugaverða vinnu fyrir 400.000 á mánuði myndu velja atvinnuleysi fyrir 400.000 á mánuði ef þeir hefðu það val? Það er ekki nógu mikill peningur til að vera á endalausu flandri um allan heim. Okkur unglingnum kom saman um að það væri hægt að vera án atvinnu til langs tíma ef maður legðist í ferðalög. Svona ef við tökum eigingjarna sjónarhornið á málið.

Ég held samt enn að flestir þurfi fasta punkta í tilverunni.


Fréttamat

Ég fullyrði að fyrstu fimm mínúturnar af fréttatíma Bylgjunnar í hádeginu hafi snúist um slagsmál. Til vara voru það fyrstu fimm fréttirnar. Eru lögreglufréttir málið í hádeginu á sunnudögum? Annars hefur Bylgjan oft farið yfir það helsta sem kom fram á Sprengisandi.

Nema mig misminni allt saman, ég gef því séns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband