Að appa

Pabbi sagði við mig í gær: Þú veist að mér hafa löngum leiðst orðin þema og gúgla.

Ég: Ja, ég vissi um þema [og svo lét ég dæluna ganga um að það félli að íslenska málkerfinu og jaríjarí]. En ég var ekki búin að átta mig á að þú vildir ekki að menn gúgluðu [annar fyrirlestur um hljóðlíkindi mála].

Pabbi: Og nú appa menn öll kvöld í sjónvarpinu.

Ég hló í klukkutíma og gat ekki flutt neinn fyrirlestur. Pabbi er 90 ára og þótt hann sé rafvirki er hann ekki með alla símatæknina á hreinu. Og ég veit ekki ... ekki nákvæmlega ... hvað er að appa. Ætlið appið muni festa rætur í íslenskum veruleika?


Forgangsröðun - fjáröflun

Það er hægara um að tala en í að komast, ég veit, þegar maður hefur ekki allar tölurnar og hefur ekki valdið til að hrinda hlutum í framkvæmd eða láta það ógert. En núna þegar verið er að hrókera í heilbrigðismálum svíður mörgum, líka þeim sem niðurskurðurinn bitnar ekki á. Vinur minn sagði í dag að honum fyndist nær að pönkast á bókasjúklingnum sér en að loka líknardeild, réttargeðdeild og spítalanum í Hafnarfirði (umorðað og hagrætt aðeins). Honum finnst óþarfi að eyða milljónum í að senda kjörna fulltrúa til Frankfurtar (aftur mitt orðalag).

Það þarf ekki að vera annað hvort eða, ég held að við getum lagt út bókmenntanetin og dregið fenginn á land án þess að naga velferðina inn að beini.

-Gætum við ekki veitt meiri fisk?

-Gætum við ekki framleitt meira, t.d. grænmetið, í stað þess að flytja það inn?

-Gætum við ekki búið til meira úr álinu okkar og selt úr landi fullunna vöru frekar en að selja hráefnið?

Ég þykist leggja mitt af mörkum með því að kaupa íslenskt. Við þurfum hvert og eitt að leggja inn í hagkerfið eftir getu.

Ert ÞÚ með hugmynd handa mér?


Eldsneyti leiðsögumanna

Mér finnst næstum alltaf gaman að vera leiðsögumaður en í kvöld var líka gaman að vera á fundi í Félagi leiðsögumanna. Fundurinn var málefnalegur, upplýsandi, lausnamiðaður - en djöss kaffiglundrið var áreiðanlega jafn ódrekkandi og venjulega. Ég lét bara hvorki á glundrið né súkkulaðikökuómyndina reyna.

Leiðsögumenn eru menntaðir, áhugasamir, vel að sér (já, með undantekningum), vel meinandi (já, með örfáum undantekningum) og kunna að ganga um landið (með hjálp elsku bílstjóra). Nú ræddum við laun og önnur kjör, löggildingu (lausn í sjónmáli), hugsanlegt verkfall, gildi leiðsögumanna, veru í eða úrsögn úr norrænum og evrópskum leiðsögumannasamtökum, starfið á skrifstofunni og  heimasíðuna (hahha) - og menn fóru að fundarsköpum.

Margt nýtt fólk var mætt og guð og óðinn, gerið það, látið það góða fólk mæta aftur.


Biblíuþýðingar - hvað er sönn og rétt þýðing?

Ég er sjaldséður gestur í kirkjum en átti erindi í dag, kom reyndar svo seint að ég var látin sitja á hanabjálka og dingla í kóngulóarvef. Guði sé lof fyrir að ég hef lést upp á síðkastið. Þrátt fyrir að vera í órafjarlægð heyrði ég samt ágætlega í prestinum. Meðal þess sem hann talaði um var nýja biblíuþýðingin. Ég mundi ekki þá að biblían hefði verið umþýdd en man það núna. Var það ekki í fyrra? Meðal þess sem breyttist var sálmurinn sem er svo fallegur af því að lagið er svo fallegt, 23. Davíðssálmur (Drottinn er minn hirðir). Það sem var þýtt upp á nýtt í þeim sálmi var að tvö smáorð fremst í línu voru tekin út.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal > Þótt ég fari um dimman dal

, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína > Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína

Að óathuguðu máli er ég alveg bit. Er ekki einhvers konar hefðarhelgun á svona sálmum, einkum þegar lagið sem sálmurinn hefur verið klæddur í er svo miklu fallegra en sálmurinn?

Hér er kannski sanngjarnt að láta þess getið að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni 2001 og að ég hef ekkert vit á tónlist, bara smekk.


Prentað mál og óprentað

Fyrir sakir einnar tegundar leti er ég áskrifandi að TMM. Í mörg ár hef ég tekið tímaritið úr plastinu og sett lítt lesið í hilluna. Leiðinlegt, en ég hef fáránlega sterka tilhneigingu til að lesa lánsefni en ekki eigið. En nú er ég þó búin að lesa fyrstu greinina, Rányrkjubú, þar sem höfundur gerir tilraun úr fjarlægð til að greina íslenskt samfélag, klíkurnar, almenna græðgi og að refsa fólki fyrir verðleika, og þótt ég sé ugglaust sammála ýmsu er ég eftir mig. Það hljómar fáránlega smásmugulega að segja þetta en greinin er bara ekki nógu vel prófarkalesin. Ef hún hefði fengið almennilegan lokalestur liði mér ekki eins og höfundurinn hefði verið í spreng að reyna að koma frá sér því sem honum lá á hjarta.

Í gær las ég tölvubréf um efni sem kom mér ekkert við. Ég var ekki alveg sammála efni þess en það var sett fram af svo mikilli yfirvegun að ég gat ekki annað en lesið það af íhygli.

Já, og ég er af þeirri kynslóð (og sennilega tegund) að mér finnst að menn eigi að reikna með að prentað efni lifi.


Flugfreyjur og Airwaves

Mikið svakalega er ég fegin að flugfreyjur og viðsemjendur virðast hafa komið sér saman. Virðast, segi ég því að ég þykist hafa heyrt það í útvarpinu en nú finn ég enga frétt um það. Hins vegar man ég að ég heyrði viðtal við Grím sem skipuleggur Iceland Airwaves og hann var alveg bit á því hvernig verkfallið myndi bitna á tónlistarhátíðinni hans. Já, sammála því, en það er nú eðli margra verkfalla að bitna á þriðja aðila.

En ég vona að ég hafi tekið rétt eftir, að samningar hafi tekist og verkfalli aflýst. Það væri hrikalegt fyrir orðspor okkar allra ef menn kæmust ekki til landsins.

Og best að setja Mugison beint frá býli í geislaspilarann ...


Birtuvillur

Hallgrímskirkja sést alveg ljómandi vel víða í Reykjavík. Í vikunni var ég svo dolfallin yfir birtunni í bænum og haustlitunum að ég dró upp litlu myndavélina sem ég er alltaf með í skjóðu minni og tók mynd af Hljómskálagarðinum með hina stuðluðu kirkju í bakgrunni. Hún sást ekki! Hún sást ekki fyrr en ég skipti aðeins um sjónarhorn. Það mætti halda að ég hefði strokað hana út en ég kann ekki einu sinni að fótósjoppa.

Hér rétt grillir í HallgrímskirkjuOg hér er ég búin að færa mig aðeins til suðurs og austurs


,,Leyfðu mér að kyssa yður"

Í gær var dagur þýðenda eins og jafnan 30. september. Bandalag þýðenda og túlka bauð upp á dagskrá um leikritaþýðingar í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Hrafnhildur Hagalín, Sigurður Karlsson og Friðrik Erlingsson fluttu erindi og svo var fólki leyft að spjalla við þau á eftir.

Eins og við er að búast lifa frjóar umræður með manni í huganum þótt þeim ljúki í tíma. Þau sóttu öll ýmislegt spaklegt úr eigin reynsluheimi og voru hin áheyrilegustu og allt í einu skaut núna upp í kollinn á mér því sem Sigurður sagði um skilning eða skilningsleysi áhorfenda. Fólk er svo oft hvatt til að bera ekki á borð neitt torskilið, nýstárlegt - eða gamaldags - og þá bregða úrtölumenn fyrir sig hugsuninni: Já, en þetta skilur enginn.

Og Sigurður sagði: Er einhver goðgá þótt fólk læri eitthvað nýtt, t.d. í leikhúsinu? Er ekki allt í lagi að nota orð sem kannski skilst ekki nema af samhenginu og þá hefur fólk stækkað orðaforðann?

Verra er náttúrlega ef fólk sem ætlar að nota orðin (og slá um sig kannski) hefur ekki vald á merkingunni, sbr. leikarann sem sagði: „Leyfðu mér að kyssa yður.“ Gott ef það var ekki Tsjekoff þar sem þéranir eru mikið notaðar.

Hrafnhildur, Friðrik og Sigurður


Heyrt í sundi

Stúlka 1: Ertu hjá móður þinni þessa vikuna?

Stúlka 2 (forviða): Nei, ég er hjá mömmu.


Stórhættulegar hjólreiðar

Kostum fylgja gallar, a.m.k. stundum. Nú hjóla orðið svo margir (kostur), líka á gangstéttunum, og þá þarf eiginlega að koma upp umferðarreglum. Eða hvernig á maður að komast hjá því að lenda á öðru hjóli á blindhorni?

Ég er tvisvar nýlega búin að lenda í hjólaárekstri (galli) en hlýt að vera sveigjanleg því að mig sakaði í hvorugt skiptið. Verra með hitt fólkið. Og hjólið sem er farið að haltra.


Hefur húsnæðismarkaðurinn glæðst?

Fréttaveitum er auðvitað vandi á höndum og þurfa að fara eftir opinberum tölum en sögurnar sem ég heyri eru ýmist að fólk kaupir eignir upp á 30 milljónir eða minna og greiðir út í hönd, fólk sem býr t.d. í útlöndum og gerir þannig hagstæð kaup með gjaldeyrinum sínum eða fólk sem er komið á þann aldur að það átti sparifé þegar hrunið varð, skuldaði ekki í húsnæði og sá þar af leiðandi ekki skuldir rjúka upp, eða að það er átthagabundið í yfirskuldsettum eignum.

Það að 2.800 eignir hafi skipt um hendur á árinu til samanburðar við 1.550 á sama tíma í fyrra gefur mér ekki sama tilefni og greiningardeildunum til að álykta að húsnæðismarkaðurinn hafi glæðst. Og ég er nú farin að halda að við sófahagfræðingarnir séum ekkert vitlausari en ...

Ég vona að hagur fólks sé að vænka en ég þrái ekkert tiltakanlega heitt að allir rjúki í fasteignakaup.


Mugison rokkar

Ekki aðeins einkennir Mugison og félaga mikil spilagleði og frjór söngur, heldur rokkaði bandið á eins konar útgáfutónleikum í kvöld í skemmu við Köllunarklettsveg. Mér var boðið og ég hélt að hann myndi spila á kassagítarinn og svona - en þetta var ekki fyrir hjartveika. Sem ég er hvort eð er ekki og enginn sem ég sá á svæðinu.

Þeir eru fjórir nema þegar kemur Rúna inn í ballöðurnar og mér fannst þetta allt alveg frábærlega gaman. Þeir spiluðu nokkur ný lög en þau eru ekki svo frábrugðin að maður viti ekkert úr hvaða átt þau koma. En hvað heitir þessi diskur sem á að koma út á morgun? H-eitthvað.

Við Ásgerður komum auðvitað á hjólum á bíllausa deginumMugison á tónleikum í kassagerðarhúsinuRúna og MugisonTrommarinn töffaði!Hinir gítarleikararnir (eða leika þeir á rafmagnsúkúlele?)


Þjófstartaði í bíó

Á sunnudaginn verður sýnd í sjónvarpi allra landsmanna heimildarmyndin Frá þjóð til þjóðar. Ég sá hana hins vegar í Bíó Paradís áðan og varð ósköp hrifin. Hún fangar stemninguna, rekur söguna, þær Berghildur og Ásta Sól tala við fjöldann allan af fólki sem tengist stjórnarskrárgerðinni - og svo spilaði band sem var stofnað í kringum stjórnarskrárskrifin.

Gæðastund með góðu fólki.

Guðrún IngólfsÁsgerði var líka boðiðVið höldum að hann verði frægur, hann kom fram í myndinni


Semjum við lögregluna

Ég hef enga reynslu af lögreglunni en trúi auglýsingunni* - mikill er máttur hennar - sem birtist í blaði um helgina. Lögreglumenn eru of lágt launaðir og of störfum hlaðnir. Það getur vel verið að það séu svartir sauðir innan um en það má ekki ganga nær þessari stétt. Meira að segja unglingar sem eru að velta fyrir sér framtíðarmenntun og starfsmöguleikum sjá þetta.

*finn hana ekki á vefnum


Skjól af jakkafötum

Ég er að horfa á rás 98 í fjölvarpinu mínu og sé að herrarnir sem birtast þar dag eftir dag gætu verið í sömu fötunum dag eftir dag en ég sé glöggt að konurnar sem koma í ræðustólinn eru ævinlega í öðrum fötum, kannski sömu fötunum og í fyrradag en alls ekki þeim sömu og í gær. Ansi eru karlarnir heppnir að geta falið sig bak við ein jakkaföt alla vikuna ef því er að skipta.

Það er nefnilega ekki eins og maður svitni umtalsvert við ræðuhöld og þurfi að skipta daglega um föt þess vegna - eða hvað?


Að færa til klukkuna eftir árstíma

Hefur septembermánuður áður verið svona grand og gordjöss? Núna loks skil ég gildi þess að láta vinnudaginn byrja klukkutíma fyrr og enda klukkutíma fyrr, það er ómögulegt að sleppa ekki út í birtuna og góða veðrið fyrr en klukkan fimm.

Verðmiðalaust skilningsleysi

Arion segist hafa hagnast um 10,2 milljarða á fyrri hluta ársins. Hagnaðurinn er samt ekki vegna reglulegrar starfsemi. Heldur hvers? Arion segist hafa gert vel við fjölskyldur, sennilega betur en aðrir bankar. Samt kvarta þær. Hvers vegna? Bankastjórinn er spurður hvort komist hafi til tals að lækka launakostnað hæstlaunuðu stjórnendanna og hann segir nei, að hann hafi verið ráðinn inn fyrir rúmu ári á þessum kjörum, samkeppnishæfum launum en ekki leiðandi, og þau hafi ekki hækkað. Ertu ekki að kidda mig?

Það sem ég skil er að ef starfsemin breytist, verkefni klárast og önnur koma ekki í staðinn er orðið of margt starfsfólk og þá þarf að segja upp umframfólkinu eða láta það velta út með starfsmannaveltunni. Það skil ég en ég er ekki sannfærð um að það liggi þannig í því. Fólkið sem fékk uppsagnarbréf langar áreiðanlega ekki til að vera tölfræði en kemur til greina að þetta séu einhvers konar 2007-uppsagnir?

Þetta skilningsleysi mitt kostar ekki neitt og er bara alveg ókeypis.


... kann ekki gott að meta ...

Noam Chomsky er frægur málvísindamaður og hefur sett heim margra á feiknarlega hreyfingu. Ég er í markhópnum hans en hef verið svo óheppin að heillast ekki. Og nú skil ég ekki að þegar fólk fer út af fyrirlestrinum hleypur það að tölvunum sínum, launað eða ekki, og dásamar hann ÁN ÞESS AÐ SEGJA MEÐ AUKATEKNU ORÐI HVAÐ VERÐSKULDAR ÞESSA HRIFNINGU.

Ég bið ekki fólk á Facebook að tíunda öll herlegheitin en væri ekki alveg eðlilegt að segja frá einu eða tvennu sem var alveg sérdeilis heillandi, þessu alnýjasta sem svipti fótunum undan þeim sem lýsir yfir hrifningunni? Ju, ég vissi ekki að einræðisherrar yrðu ríkjandi í arabaheiminum heillengi enn. Eða: Ég hélt að VSO-orðaröðin héldi lengur velli. Eða: Hann borðar spergilkál fimm sinnum í viku. - Augljóslega er ég uppiskroppa með hugmyndir.


Íslenskt grænmeti, íslenskir ávextir

Mikið vildi ég að mangó væri ræktað á Íslandi, ræktað við rétt hitastig, geymt við rétt hitastig og flutt um skamman veg áður en það hafnaði í ísskápnum mínum. Eða á borðinu ef ég ætlaði að nota það fljótlega.

Ég kaupi alltaf íslenska kirsuberjatómata eða þá sem heita konfekttómatar nema kílóverðið sé 900 krónur, þá hætti ég við. Mig minnir að uppáhaldsgulræturnar mínar séu frá Fljótshólum, það liggur við að ég þekki þær á svipnum þótt ég muni ekki bæjarnafnið gjörla.

Innflutt grænmeti og innfluttir ávextir eru verri af því að þeir hafa ferðast um langan veg og tapað gæðum á leiðinni. Þar að auki er margt grænmeti og margir ávextir á Íslandi framleitt við kjöraðstæður, hreint loft, hreint vatn, mengunarfrítt. Ég held að ég búi við fæðuöryggi af því að ég bý á Íslandi þar sem rafmagn ólgar og hægt að nota það til framleiðslu á ýmsum mat, lambakjötið spókar sig á hálendinu sumarnæturnar langar, fiskurinn spriklar undan landi og í landi er nægur mannskapur til að töfra fram heilnæman mat úr hráefninu.

Þess vegna held ég að ég skilji ekki verndartolla í landbúnaði. Nú gætu bændabörn, sem ég þekki fá (og alls enga bændur), sagt að ég viti ekkert hvað ég er að segja. Nei, en ég vildi alveg vita út á hvað tollarnir ganga af því að ég get ekki skilið að það þurfi að vernda gæðavöru sem á stutt á markað. Af hverju er ekki íslenskt grænmeti á boðstólum allt árið á samkeppnishæfu verði? Þessi umræða hjálpaði mér ekki að skilja það.


Viðskiptahugmynd til 50 ára?

Ég heyrði í útvarpinu nýlega vitnað í Kínverja sem átti að hafa sagt um okkur Íslendinga fyrir fáum árum að við hugsuðum til fárra ára ólíkt þeim sem hugsuðu í áratugum. Mikið til í því, sennilega hugsa ráðamenn í kjörtímabilum og gera í mesta lagi áætlanir til 10 ára sem eru svo teknar upp næst þegar nýr meiri hluti myndast.

Og? sagði útvarpsmaðurinn sem varð fyrir svörum, er ekki gott að hugsa til lengri tíma? Jú, sagði konan sem hringdi, en það er einmitt það sem við virðumst ekki ætla að gera ef við stökkvum á vagninn hans Huongs Nubos. Gulrótin virðist vera milljarðurinn eða milljarðarnir sem er sveiflað fyrir framan nefið á okkur núna.

Mér var líka nýlega sagt frá stórfelldri landasölu í Mýrdalnum (sem svo var fjallað um í DV í gær ef ég man rétt) sem fékk enga umfjöllun að ráði þegar hún varð í upphafi aldarinnar. Og nú eru menn uggandi af því að einhver (já, útlendingur) á heilan dal og getur bannað umferð um hann.

Ég viðurkenni að ég er svolítið skelkuð við tilhugsunina um að (fyrrverandi) alfaraleiðir verði í einkaeigu og þar fyrir utan skil ég ekki þessa viðskiptahugmynd fyrir norðan, lúxussvæði umlukið svæði þar sem grunnþjónustu er ábótavant.

Ætlar viðskiptamaðurinn Huong Nubo að fljúga með alla farþega sína á svæðið og gulltryggja þeim það veður og útsýni sem þeir kaupa trúlega? Ég er ekki svona treg, það vantar sannfæringuna í málflutninginn - hvað hangir á spýtunni? Mér finnst tímabært að við hættum að hugsa í skammtímaeiningum og förum einmitt að hugsa svolítið fram í tímann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband