Ketilríður segir (bls. 847):

Ekki gat ég vitað, að þú værir þarna, steinþegjandi eins og draugarnir. Ég bið forláts, ef ég hef farið með einhverja fjarstæðu. En mér þykir líklegt, að þú reiðist ekki stórhöggunum, frekar en steðjinn. Þú líkist honum talsvert hvort eð er.

Guðræknislegri verð ég ekki á páskum. Uni mér vel við lestur fagurra bóka.


Ríflega 100 meðmæltar bækur

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri stóð fyrir skemmtilegum samkvæmisleik nýlega, gaf út lista yfir allnokkurt safn íslenskra bóka sem bókavörðum um allt land finnst lesendur verða að lesa.

Á listanum eru tvær bækur sem ég ætla ekki að lesa vegna fyrri reynslu af höfundunum, u.þ.b. 60 er ég þegar búin að lesa en nokkrar á ég sannarlega eftir að lesa. Dalalíf er núna hálfnað, tók mér svolítið hlé enda má maður ekki lesa yfir sig af Jóni á Nautaflötum.

Og nú vantar sambærilegan heimsbókmenntalista í þýðingu. Ætlar þú að taka hann saman eða á ég að bíða eftir að starfsfólk bókasafna eða bókaverslana geri það?

Eftirlætisbækurnar mínar tvær eru í H-inu.


Getnaðarvarnir gegn afa

Einu sinni heyrði ég brandara um konu á efri árum sem ætlaði að fá sér getnaðarvarnir svo hún yrði ekki amma strax aftur.

En hvað á fólk á þeim aldri að gera ef það vill verða amma eða afi en börnin kunna að verjast getnaði?

Ein leið er kynnt í nýju leikriti Árna Hjartarsonar, langreynds Hugleikara, og sýnd í nokkur skipti á Eyjarslóð 9 fram í maí.

Hjón á fertugsaldri hafa tekið þá framakenndu ákvörðun að eignast ekki börn. Börn trufla starfsframann, skíðaferðirnar, matarboðin, rauðvínsdrykkjuna og ráðstefnuferðirnar. Við erum bara ekki barnafólk, það er prinsipp, segir sá sem ekki vill verða faðir en þegar betur er að gáð vill konan hans verða móðir og ýta framanum, öðrum hlunnindum og prinsippunum til hliðar.

Og þá eru góð ráð dýr.

Þurfa ekki hjón að taka grundvallarákvarðanir saman, s.s. um barneignir, búsetu, atvinnutekjur, útlát og tannburstategund? Getur annar aðilinn ákveðið að hundsa samkomulag sem báðir aðilar hafa gert? Eða gengur kannski annar aðilinn alltaf yfir hinn?

Svo eru feðgarnir hálfgerðir nerðir þegar þeir koma saman og geta tapað sér yfir prímtölum og kvaðratrót, sbr.:

„Jú, 36 ára afmæli er merkilegt. Það er kvaðratrótartala. Það gerist ekki næst fyrr en 49.“

Góð skemmtun hjá Hugleik lengst úti í 101. Lógó


Reiðarekskenningin

Ef við látum okkur í léttu rúmi liggja að tungumálið þróast hratt, kannski of hratt, aðhyllumst við reiðarekskenninguna. Þetta hugtak heyrði ég fyrst í gær og hváði við. Í henni felst umburðarlyndi, ég velti bara fyrir mér hvort það sé of mikið. Ég er umburðarlynd gagnvart þeim sem velja sérviskulega en ég held að ég sé ekki til í að láta reka of mikið á reiðanum.

Þetta rifjaðist upp af því að ég er að stelast til að hlusta á málfarsþátt á Bylgjunni.

Hins vegar velti ég alvarlega fyrir mér hvaða kenningu kjarasamningaviðmælendur aðhyllast. Hvernig má það vera að aðildarfélög SA vilji láta umdeildan kvótann ráða samningum? Getur rafvirki hjá Samskipum ekki samið fyrr en ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um fiskveiðistjórn? Verslurmaður í Smáralind? Hönnuður á Hvammstanga? Þetta þjónar kannski hagsmunum SpKef?

Fólk talar um að LÍÚ haldi kjarasamningunum í gíslingu, aðildarfélag með áætluð 4.700 ársverk af 56.800.

Ég átta mig ekki á hvaða kenning á hér við.

 

Aðildarfélög SA starfa á grundvelli atvinnugreina og hafa frumkvæði í málefnum fyrirtækja á sínu sviði. Þau leiðbeina m.a. fyrirtækjum í samskiptum þeirra við stjórnvöld og um allt það sem snertir sívaxandi fjölda opinberra reglugerðarákvæða og fyrirmæla. Áætlað er að rúmlega 56.800 ársverk séu unnin innan þeirra 2.100 fyrirtækja sem aðild eiga að SA.

Aðildarfélögin átta eru:

 Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)
Um 190 útgerðir eiga aðild að LÍÚ en áætlaður fjöldi ársverka innan þeirra er um 4.700.

  Samorka - Samtök orku- og veitufyrirtækja

Aðildarfyrirtæki Samorku eru um 36 og fjöldi ársverka innan þeirra er um 1.500.

 Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)
Aðildarfyrirtæki SAF eru um 350 og fjöldi ársverka innan þeirra er um 6.500. 

 SART - Samtök rafverktaka
Átta aðildarfélög eru í SART, aðildarfyrirtæki eru um 230 og fjöldi ársverka innan þeirra er um 1.100.

 Samtök fiskvinnslustöðva (SF)
Aðild að SF eiga um 130 fyrirtæki og fjöldi ársverka innan þeirra er um 6.000.

 Samtök fjármálafyrirtækja (SFF)
Í samtökum fjármálafyrirtækja eru um 50 fyrirtæki. Ársverk innan vébanda samtakanna eru um 4.800.

 Samtök iðnaðarins (SI)
Innan SI eru 25 aðildarfélög með um 1.100 fyrirtæki. Fjöldi ársverka er um 19.000.

 SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ)
Aðild að SVÞ eiga um 340 fyrirtæki og ársverk þeirra eru um 12.500


Hélt upp á stórafmæli Eyjafjallajökulsgossins á hafnarbakkanum í dag


Umburðarlyndi prófarkalesarinn

Ég er sjálf þessi umburðarlyndi og skilningsríki prófarkalesari sem um er rætt. Nú er ég að lesa yfir mína eigin þýðingu og finn þar snilldarlega:

 Pia rétti honum öndina.

Þar á hins vegar að standa:

Pia rétti honum höndina.

Að vísu voru þau nálægt vatni - en nei, samt að heilsast.

Og það er meira enda er þetta hluti af þýðingarferlinu. Kannski ætti ég að vera duglegri að prenta út og lesa á pappír, kannski verður maður að fórna umhverfissparnaðinum að einhverju marki. Ég góni eins og fáni og fálki til samans og skil ekki hvernig þetta slapp, lapp, app.


Sunnudagur til súrs

Ég er orðlaus. Það er 10. apríl og mér finnst vera haust.


Svarti svanurinn á Hverfisgötunni

Ég hef á tilfinningunni að ég sé á skjön við marga þegar ég segist ekki vera hrifin af Svarta svaninum sem sýndur er í Bíó Paradís um þessar mundir. Myndin hefur fengið ýmsar tilnefningar og ég get ekki þrætt fyrir að hún sé vel gerð. En efni máls, það að skora gegndarlaust á sjálfan sig og ganga fram af sér, gæti komist til skila á skemmri tíma. Maður hefur svo sem líka gagnrýnt myndir fyrir að færast of mikið í fang og hafa of margt undir, en ég trúi tæpast á Ninu sem er komin svo langt að hún er valin í aðalhlutverkið en á samt svona svaðalega mikið ólært um lífið, listina og starfið. Fullkomnun hvað?

Grafíkin í átökunum fer líka aðeins of langt fyrir minn smekk.

Til að fullkomna lágkúruna hjá mér ætla ég að færa til bókar að Vincent Cassel var hrikalega heillandi og ég ætla að leggja nafnið á honum á minnið. Ég veit svo sem á hvern hann minnir mig en hann gerði hlutverkinu samt góð skil.


Smástafir

Ég hef tekið eftir að smáorðin já og nei eru allt í einu komin með stöðu sérnafna í rituðu máli. Hjá sumum er já og nei Nei, líklega til áhersluauka. Vona að tungumálið sé ekki í hættu ...

,,Synjað um landvistarleyfi af mannúðarástæðum"

Þegar þessi orðastrengur hljómar í ljósvakanum finnst mér alltaf eins og verið sé að segja mér að af mannúðarástæðum sé viðkomandi manneskju synjað um leyfið. Forsetningarliðir eru vandmeðfarnir. Kannski finnst mönnum of langt mál að segja: Synjað um landvistarleyfi sem sótt er um af mannúðarástæðum.

,,Á Íslandi ætlum við að leysa eldsneytisvandann með repjuolíu"

Þetta sagði hann í Speglinum rétt í þessu. Vildi að satt væri. Vonandi áhrínsorð sem eiga eftir að rætast. Eða með öðrum umhverfisvænum orkugjöfum.

Þorsteinn í Okkar eigin Osló

Ég var búin að heyra ýmislegt um Okkar eigin Osló áður en ég fór. Þess vegna átti ég von á ýmsu misjöfnu. Og vissulega fannst mér brandarinn um hundinn lélegur.

En mér var skemmt, ég hló oft og mér fannst þar að auki persónusköpunin ganga upp. Þorsteinn leikur verkfræðinginn Harald sem er svo bóngóður og viljugur og ferkantaður og kúgaður af látnum föður sínum og slappur söngvari og strangur/góður við systur sína og hlýr og klaufalegur. Sem sá sanntrúaði lúser sem hann er í raun fer hann yfir strikið tvisvar eða þrisvar.

Brynhildur er Vilborg og enginn glæpamaður þótt vissulega hefðu einhverjir getað haldið það í Lækjargötunni.

Þau eru í burðarrullum.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir fannst mér varla geta verið mamma Þorsteins en að öðru leyti smellpassaði hún í hlutverkið. Hilmi Snæ tókst að vera heldur ófrýnilegur sem er afrek í sjálfu sér. Að auki var hann Pálminn með gretturnar og minnimáttarkenndina sem braust út úr sjálfumgleðinni.

Handritið hafði óvæntar vendingar og tókst að koma mér á óvart. Fyrir utan að skemmta mér. Og ég var sko ekki sú eina sem hló í fámennum salnum, það heyrðust stöðugar rokur um allan salinn.

Reynir Lyngdal á áreiðanlega stóran þátt í þessu verki en Þorsteinn er kominn á stall hjá mér, hann er óborganlegur.


Sama hvaðan gott kemur?

Ég sá ekki allt Kastljósið í gærkvöldi en ég fæ samt hroll við tilhugsunina um að 10 loðnir um lófana renni hýru auga til íslenska ríkisborgararéttarins. Alltaf þegar harðnar í ári hjá smáfuglunum eru langtímamarkmiðin látin fyrir róða, s.s. varðandi jafnrétti og náttúru, og hugsunarhátturinn um að það sé sama hvaðan gott komi skýtur sterkt upp kollinum.

Það er ekki allt falt ef gjaldið er nógu hátt. Þar að auki er gjaldið ekki einu sinni svo öruggt eins og dæmin sanna. Kannski er það tungumálið sem skilst, það er alls óvíst að gróðinn skili sér þótt honum sé lofað hástöfum.


Ég er hjólisti

Ég hjólaði úr miðbænum í gær upp í Grafarvog af því að ég þurfti að nálgast bók í Foldasafni. Þótt ég sé hjólisti er ég ekki virkasti hjólisti Reykjavíkur þannig að þetta voru svolítil átök. Þegar ég kom að Bílabúð Benna var ég orðin svo leið á mótlætinu að ég ákvað að hvíla hjólstigið og gekk einn rúnt á planinu.

Vá, hvað Chevrolet er fallegur bíll.

Á leið upp brekkuna rakst ég á bíl með kerru sem var lagt á gangstéttina. Öllu heldur hefði ég átt að rekast á hann, en auðvitað steig ég af hjólinu og lempaði það framhjá bílnum sem vel að merkja var þar enn þegar ég kom aftur niður eftir þannig að þetta var greinilega ekkert skyndistopp.

Aumingja Volkswagen-bíllinn fékk ekkert bílastæði

Ég skil illa að Sundabraut sé ekki komin sem væri afar mikil og góð samgöngubót, en ég skil alls ekki að ekki sé einhvers konar göngu- og hjólaleið úr Grafarvoginum niður í bæ. Hjólamenn þurfa virkilega að fara stofnbrautir bílanna til að komast hverfa á milli. Ég þurfti sem sagt að hjóla meðfram Grafarvoginum tvisvar í stað þess að hjóla yfir hann.

Ég var að vísu verðlaunuð með fallegum æðarfuglum.

Ó, sá blauti Grafarvogur Æðarfuglinn sífagri

 

 

 

 

Á leiðinni til baka hjólaði ég Bryggjuhverfismegin við stórbrautina og þá var ég afvegaleidd sem lengdi leiðina aðeins. Á leið upp brekkuna kom svo á daginn að hjólastígurinn er fráleitur.

Ekki ætlað fólki fyrir eigin vélarafli

Harðir áhugamenn um bíllausan lífsstíl geta alveg linast í borg bílanna.


Laugardagsfár á föstudegi

Mér finnst það eiginlega fyndið að RÚV skuli ætla að sýna myndina sem John Travolta skein svo skært í í kvöld - öðru sinni á tæpu ári. Myndin sú er náttúrlega ekki nema 34 ára. Og dagskrárstjórinn virðist aftur ekki hafa séð hana því að hefði hann horft (eða fengið álit) væri á henni hóflegt bannmerki. Það eru nefnilega býsna fjandsamlegar senur í þessari mynd sem flestir muna sem hugljúfa dansmynd.

Þetta man ég aðeins af því að í hið fyrra sinni (á síðasta ári) urðu umræður á Facebook um ljótu senurnar og mannfjandsamlegu sem enginn mundi eftir úr bíó.

Nei, annars, þetta er ekki fyndið. Þetta er lélegt og ófaglegt af RÚV.

 


Tek áminninguna til mín

Í gær voru Fjöruverðlaunin veitt í fimmta sinn. Á vef Rithöfundasambands Íslands er þennan nokkurra ára texta að finna um verðlaunin:

Þær raddir verða sífellt háværari sem segja að jólabókaflóðið og þær markaðsaðferðir, sem þá ráða ferðinni, gefi ekki rétta mynd af þeirri fjölbreyttu flóru rita sem gefin er út á Íslandi. Margar áhugaverðar bækur nái sér ekki á flot í flóðinu og drukkni jafnvel með öllu. Telja ýmsir að bókum eftir konur sé sérlega hætt við þessum örlögum.

Verðlaunin eru sem sagt veitt konum sem hafa tilhneigingu til að fara með veggjum. Ég er áhugamaður um bókmenntir en þessi verðlaun hafa farið framhjá mér þangað til núna. Ástæðan fyrir því að ég fór var að Marín, vinkona mín og langömmubarn Guðrúnar frá Lundi, var búin að lofa að flytja erindi um langömmu sína.

Hún gerði það líka, og hún gerði það vel. Fyrsta bók Guðrúnar frá Lundi kom út þegar hún var 59 ára. Hún þóttist ekkert vilja af skriftunum vita, reyndi að fara laumulega með þetta þráláta áhugamál sitt og þegar blaðamaður hringdi að sunnan til að grennslast fyrir um hana og ritstörfin gerði hún hvað hún gat til að stytta í samtalinu og draga úr öllu. Hún reyndi að þagga niður í sjálfri sér.

Nú er ég búin með tvö bindi af Dalalífi og þótt ég eigi 1600 síður eftir ætla ég samt að treina mér lesturinn og lesa ekki 3. bindið fyrr en ég fæ útgáfuna frá 2000 á bókasafninu. Ég lagði fyrir skemmstu út af bókunum og ætla ekki að endurtaka það hér.

Næst bar Guðrún Jónsdóttir, bókmenntafræðingur og bóka(vörður?) úr Borgarfirði, saman Guðrúnu og Indriða G. Þorsteinsson. Það var fróðlegt að rifja upp hvernig Guðrún hefur verið töluð niður fyrir meint kaffiþamb en Indriði upp. Samt er enn eftirspurn á bókasöfnunum eftir Dalalífi. Já, að sönnu er ekki alltaf best það sem meirihlutinn vill og velur, en Dalalíf er enn í pöntun á sumum bókasöfnum 60 árum eftir frumútgáfu.

En kannski er hugarfarið að breytast og Guðrún að fá sinn réttmæta sess. Guðrún Jóns sagði að Jón Yngvi, bókmenntafræðingur og háskólakennari, hefði einhverju sinni í tíma hafið Dalalíf á loft og beðið nemendur að hafa hugfast að það væri rangt að kalla þessar bækur ekki bókmenntir. Þetta sat í Guðrúnu og varð til þess að hún valdi bækurnar sem umfjöllunarefni í lokaritgerð.

Síðan voru verðlaunin veitt og það var hlý stund.

En nú kemur að þeim hluta sem gaf mér sinn undir hvorn. Tek aftur fram að ég kýs að taka áminninguna til mín þótt skipuleggjandi hafi gert sig seka um þöggun, óbeina kannski en samt sláandi. Þegar Ingunn tók dagspartinn saman í lokin og þakkaði gestum fyrir komuna tók hún fram að Árni Matthíasson á Morgunblaðinu ætti þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á verðlaununum, fyrstu árin hefði verðlaunahafanna varla verið getið og þá ekki fyrr en talsvert var liðið frá athöfninni. Þá ræskti sig Jórunn Sigurðardóttir frá RÚV (Okkar á milli) og benti á að hún hefði fjallað um verðlaunin frá upphafi en líklega þætti Ingunni ekkert til þess koma að kona á Rás 1 hefði fjallað um þau, athyglina fengi karlinn á blaðinu.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig orðin féllu og verð að hnykkja á því að ég tek áminninguna sem fólst, nei, opinberaðist í hógværri gagnrýni Jórunnar líka til mín. Ég held að konum hætti líka til að þagga niður góð verk kvenna. Við eigum enn langt í land og verðum að varast að reyna að falla í fjöldann - því að hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.

Og nú ætla ég að halda áfram með Ljósu. Reyndar veit ég ekki hvernig Kristínu ætti að takast að skáka bókinni Sólin sest að morgni sem ég las um daginn og dáleiddi mig alveg.


... engu til sparað?

Ég var að hlusta á hinn mæta þátt Kviku og þar sagði maðurinn að engu hefði verið til sparað. Hvernig verður svona málbreyting? Maður sparar peninga eða mikið eða lítið - eða ekkert. Er það ný þágufallslenska að segjast spara engu? Spara engu til?

Það er ekki Sigríður Pétursdóttir, umsjónarmaður þáttarins, sem sagði þetta heldur maður sem veit mikið um þýskar kvikmyndir og nú veit ég ekkert lengur hvað hann sagði.

Auðvitað fæ ég heilbrigðar efasemdir um sjálfa mig og málkennd mína. Þá fletti ég upp í google sem þekkir svo marga og margt. Á málfræði.is segir þetta:

Spara ekkert til

Orðasambandið kosta e-u/miklu/litlu/öllu til (e-s) vísar til þess er menn kosta fé/peningum til e-s og er það allgamalt í málinu. Orðasambandið spara ekki/ekkert til (e-s) er eldfornt, jafngamalt elstu heimildum. Í Íslensku hómilíubókinni stendur: vísar oss til þess fagnaðar er vér skyldum ekki til spara að vér næðum. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að þessu tvennu sé ruglað saman svo að úr verður spara engu til, t.d.: Tyrknesk yfirvöld ætla engu til að spara í þeim ásetningi sínum (11.10.07); Engu er til sparað [til að gera tónleikana sem best úr garði] (16.8.07) og verður engu til sparað til að hafa upp á hinum seku (8.7.05).

Þá get ég haldið áfram að spyrja: Hvað veldur svona tilgangslausum málbreytingum?

Að svo mæltu verð ég að láta þess getið að mig rak í rogastans þegar ég las bls. 468 í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi:

Þóra var sízt að skilja ...

Um miðbikið stendur (byrjar aftast í línu): Þóra var sízt að skilja, hvað þær gætu verið að tala saman, og fékk heldur aldrei að vita það.

Málbreytingin að vera ekki að skilja eitthvað er örfárra ára gömul. Þess vegna kemur þessi lína mér spánskt fyrir sjónir. Ég er ekki að skilja þessa bók er engin merkingarbreyting frá því að segja: Ég skil ekki þessa bók, bara málbreyting. Og mér finnst hún ljót og tilgangslaus og fyrst og fremst fletja tungumálið út og gera það einsleitara. Ég er ekki að gera eitthvað merkir nákvæmlega á þeirri stundu. Ég er að tala í símann NÚNA. Ég var að hlusta á útvarpið.

Dalalíf er merkileg bók, falleg og hrífandi saga um Jón á Nautaflötum og Þóru í Hvammi (ég er bara búin með fyrstu tvö bindin) en ekki síður er hún tíðarandalýsing, saga um útjaskaðar vinnukonur og aðra sem vinna í sveita síns andlitis, muninn á búsældarlegri sveitinni og sólríkari ströndinni, um gæði og vangæftir, útþrá, dauða og uppeldi. Kannski dálítið melódramatísk inn á milli en aðallega mjög trúverðug saga af breysku fólki sem á misgóðar stundir.

Allir líta upp til Lísibetar en hún dröslaðist með sitt þungbæra leyndarmál allt lífið. Jakob var gæfur og blíður og lagði öllum gott til en þjáðist áreiðanlega í hljóði fyrir útlitið. Jón sonur þeirra er miðdepillinn sem allir þrá og allir þrá að líkjast. Honum leiðist það ekki en þegar sorgin bankar á er hann óviðbúinn og ræður illa við mótlætið.

Ég á heil þrjú bindi eftir, best að skrifa ekki frá sér allt vit um ólesin hundruð blaðsíðna.


Hver reykir gangandi í frosti og fjúki?

Svar: Ótrúlega margir.

Undanfarna daga hef ég vart getað þverfótað fyrir fólki sem hangir á sígarettunni þrátt fyrir vonskuveður. Er ekki ráð að hækka pakkaverðið á einu bretti um hálfan annan helling til að gera fólki það auðveldara að hætta? Langar ekki alla að hætta að reykja?

Ef það er mótlæti (sem ég skil ekki) skal ég á móti hætta að borða lakkrís og normalbrauð.

 


Dávaldurinn er tvöföld saga

Nú er ég búin að eyða nokkrum klukkutímum á hálfum mánuði í að lesa Dávaldinn eftir Lars Kepler, sögu sem lofsorði var lokið á fyrir góða þýðingu. Og ég er alls ekkert svikin, hún er spennandi og hún er vel þýdd.

Mér finnst það samt galli á sögunni hvað hún dettur í tvennt um miðbikið. Rammasagan er um lækninn og dávaldinn Erik og rannsóknarlögregluna Joona sem reyna í sameiningu að komast að því hvaða kaldrifjaði morðingi drap heila fjölskyldu af viðbjóðslegri grimmd.

Fljótlega virtist alveg liggja í augum uppi hver hinn seki væri og þá horfði ég á 400 ólesnar blaðsíður og velti fyrir mér hvað þar væri fjallað um. Það var alveg skemmtilegt að þá var farið út í alls kyns sálfræðilegar bollaleggingar - en þá kom hliðarsagan um leitina að syni Eriks. Og þar er sumt óleiðinlegt en sumt alveg hrútleiðinlegt, alltof ævintýralegt og minnti mig á leðurblökumyndina sem George Clooney lék í, mynd sem var ágæt fram í miðbikið og varð svo hvínandi óskiljanleg og leiðinleg eftir því. Dávaldurinn minnir mig líka dálítið á Da Vinci lykilinn sem er með ofmetnari bókum. Sú bauð upp á gátu sem höfðaði til mín og svo voru langir og hrútleiðinlegir kaflar með eftirför, byssuhríð, konu hlaupandi á háum hælum, þyrluflugi og öðru svona yfirgengilega hraða-spennutengdu. Dan Brown ætlaði að heilla alla markhópa í einni bók en tryggði sér um leið að ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir hann. Og fæ enn kjánahroll við tilhugsunina um lykilinn hans.

Núna eru tveir dagar síðan ég kláraði Dávaldinn og ég er strax byrjuð að gleyma endinum. Það þarf ekki að spilla upplifuninni því að þegar til stykkisins kemur er það eiginlega sagan af Lydiu og uppvexti hennar, dáleiðslunni og úrvinnslunni sem sagði mér eitthvað. Unglingurinn Josef sem er næstum dáinn í byrjun rís af sjúkrabeði, hleypur uppi fólk og ratar á ólíklegustu staði - ótrúverðugt bull sem er komið í glatkistu minnisins. Og þótt ég sé byrjuð að gleyma kjánalega söguþræðinum þori ég næstum að hengja mig upp á að hann var ekki hnýttur alveg í lokin.

Best að lesa með væntingastuðulinn lágt stilltan.


Hvert stefnir í skólamálum?

Sá megnið af fínum þætti um menntamál í sjónvarpinu í gærkvöldi. Vinnuskylda kennara er gríðarlega viðkvæmt mál og vissast að tala varlega. Síst langar mig að kasta rýrð á góð störf góðra kennara. Reyndar held ég að flestir góðir kennarar njóti virðingar og aðdáunar bæði nemenda og foreldra þeirra þannig að orð mín mættu sín líklega hvort eð er lítils ...

En hvað er góður kennari? Í mínum augum er góður kennari áhugasamur um starfið, vel að sér í faginu og umhyggjusamur. En góður kennari getur átt erfitt uppdráttar í fjandsamlegu umhverfi og ég held, já, ég held að skólastarf á Íslandi takmarkist sums staðar, kannski víða, af of mikilli rammasetningu. Ég held að þeir sem gagnrýna að skólastarf taki fullmikið mið af kjarasamningum kennara hafi nokkuð til síns máls.

Sif Vígþórsdóttir hreif mig í þættinum í gær og ekki í fyrsta skipti. Í mars 2008 las ég um starfið í Norðlingaskóla og hugsaði það sama og núna, að hún væri frumkvöðull og að of fáir væru á þessari vegferð. Kannski binda sumir skólastjórar viðveru kennara meira, kannski vinna kennarar meira saman, kannski fara fleiri kennarar í vettvangsferðir en áður og og meira en ég endilega veit um, en meðan ég kenndi fannst mér ansi mikið mér gert af því að staglast í því sama. Áhugi nemenda er frumkraftur en það að reyna að virkja hvern og einn gerir öðruvísi kröfur til kennara. Meiri kröfur.

Ég vona að skólastarf stefni fram á við eins og öll umræðan í þættinum í gær lofaði. Ekki kenna meðaltal og orðflokkagreiningu bekk eftir bekk eftir bekk og gera bæði áhugalausa og áhugasama nemendur leiða.

Kennarinn minn í stjórnsýslufræðum er skýr í framsetningu, orðar hlutina af skynsemi og hlustar eftir röddum nemenda - en sem háskólanemar verðum við fyrst og fremst að hafa eigin innri aga. Hvort sem ég spreyti mig samt á prófinu eða ekki finnst mér ég skilja vanhæfi, málsmeðferðarhraða, andmælarétt o.fl. betur en ég gerði 5. janúar.

Lifi framsækið skólastarf á öllum skólastigum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband