Sif Vígþórsdóttir og Norðlingaskóli

Ég las umfjöllun um skólann og starfsemi hans í Mogganum í flugvél fyrir helgina. Það hríslaðist alveg um mig af gleði yfir þessum metnaði og ég var næstum farin að tala við útlenskan sessunaut minn.

Það er svooooo mikilvægt að stíga skref í skólunum, mér liggur við að segja skref til breytinga breytinganna vegna. Það er til hellingur af metnaðarfullum kennurum og stjórnendum líka og það þarf að beina sjónum að þeim og styrkja vilja þeirra til framfara. Þetta sem mér sýnist Sif hafa gert með því m.a. að binda viðveruna er að auka samvinnuna. Það er einmitt einyrkjaþátturinn sem gerir mörgum erfitt fyrir í kennslu, að geta ekki borið sig saman, að vera aldrei að vinna saman að framförum nemenda, vera ekki í samvinnu. Þess saknaði ég mest meðan ég var í kennslu. Þess sakna ég líka svolítið í leiðsögninni.

Ég hitti í Þórbergssmiðjunni í dag góðkunningja minn í kennarastétt. Hann kennir íslensku bæði í menntaskóla og háskóla og honum finnst hann alltaf vera að fara yfir ritgerðir. Hann staldraði skemur við í dag en hann hefði viljað af því að heima beið hans bunki. Og menn vilja alltaf grynnka á bunkanum. Stundum þvælist hégómlegt smáatriði fyrir manni við yfirferð ritgerða af því að maður getur ekki leitað til neins sem staðfestir skilning manns í snatri.

Jæja, þetta er kannski ekki röklega framsett hjá mér - en þótt einstaka fólk kunni best við 100% einveru við undirbúning kennslu trúi ég að obbinn vilji samvinnu. Og væri ekki ráð að láta reyna á? Það virðist gefa góða raun hjá Sif Vígþórsdóttur, skólastjóra Norðlingaskóla.

Og vonandi lætur ekki forysta Kennarasambandsins steyta á bókun fimm sem hefur í hennar augum svona eða hinsegin skírskotun, grrr. Leyfum framförunum að taka á rás.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Sammála Berglind mín, það þarf að hrista upp í öllu af og til og það er í samskiptum við aðra sem hugmyndir kvikna.

Steingerður Steinarsdóttir, 11.3.2008 kl. 09:43

2 identicon

Las'etta líka og sendi Sif hrós dagsins af því tilefni. Var nærri búin að sækja um hjá henni :o)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 15:26

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Sendirðu henni hrós ... hvernig, í tölvupósti? Þekkirðu hana kannski? Nú segir mér reyndar fólk (undir fjögur augu) að bundin viðvera hafi tíðkast árum saman í grunnskólum. Ég veit ekki hvort ég á að taka mark á því en get svo sem ekki hrakið það.

Berglind Steinsdóttir, 11.3.2008 kl. 16:09

4 identicon

Iss nei ég þekki hana ekki neitt. Sendi henni bara hrós í huganum þar sem ég trúi að hafi komist til skila.

Og nei, bundin viðvera er ekki til klukkan 17:00 í grunnskólanum sem mitt barn gengur í. Og grunnskólakennararnir sem ná í börnin sín á leikskóla yngri barnanna minna eru ekki að koma þangað um fimm leytið. Þeir koma milli tvö og fjögur.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 08:57

5 identicon

Ég þekki son hennar! (Þetta snilldarfólk er vitaskuld að austan.)

Spurning um að setja Norðlingaholtið alvarlega inn í framtíðarfasteignaleitina næst þegar maður nennir að stækka við sig.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 20:19

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nei, Siggalára, nei. Nei, fjölga frekar svona metnaðarfullum skólum, fá þá í vesturbæinn líka. Ég mátti vita að þú þekktir til, hún Sif byrjaði ferilinn fyrir austan. Skilaðu endilega bestu kveðjum til alls þessa snilldarfólks frá aðdáendum. (Ég þekki hins vegar Kristínu sem gerði úttektina, vinn með henni.)

Berglind Steinsdóttir, 12.3.2008 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband