Miðvikudagur, 25. nóvember 2009
Litlu búðirnar, þær keðjulausu
Mig vantaði, já, bráðvantaði naglaherði (svo ég geti klórað frá mér) og fór mjög meðvitað í Laugarnesapótek sem er ekki í eigu þeirra stórbokka sem gera mér lífið leiðast þessa mánuðina. Í leiðinni keypti ég mér líka sundbol sem er örugglega sá fallegasti sem ég hef eignast - og kostaði 3.500 krónur.
Í allt sumar leitaði ég dyrum og dyngjum að brúkhæfum fatnaði til að synda í eftir að mér hafði í fyllstu fúlmennsku verið bent á visst gagnsæi (já, það á ekki allt allt að vera uppi á borðum). Útilíf kom auðvitað ekki til greina þannig að ég endaði í Sportveri á Glerártorgi og fann þar vel nothæfan sundbol en hann kostaði 12.000 kr. Og ég fer svo oft í sund að báðir tveir eiga eftir að koma í góðar þarfir.
Gagnsæi - gegnsæi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 22. nóvember 2009
Ari Jón er að vísu búinn að missa mig ...
... en e.t.v. hugsa fleiri viðskiptavinir sér til hreyfings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. nóvember 2009
Komast Vestmannaeyjar inn í Gullhringinn?
Ég vildi að ég væri flink eins og Kjartan við að tölvuteikna kort. Hann hefur varpað fram mörgum forvitnilegum hugmyndum í ferðaþjónustu, m.a. þeirri að breyta Gullhringnum, bjóða upp á fleiri útgáfur og nýta ónýtta möguleika. Ég er ginnkeypt fyrir nýjungum ef þær eru gáfulegar, og ef ég kynni að teikna myndi ég máta Vestmannaeyjar við Gullhringinn. Ég hef heyrt því fleygt að vonir sumra standi til þess að flétta Eyjarnar inn í hringinn þegar Landeyjahöfn verður að veruleika næsta sumar og sjálfri þætti mér það afar spennandi.
Ég held samt frekar að Eyjarnar henti betur með jöklaferð í Mýrdalinn, tala nú ekki um ef til stæði að gista utan höfuðborgarsvæðisins, og vitaskuld í hringferðunum um *Norðureyju*. Siglingin frá fastalandinu skilst mér að muni taka tæpan hálftíma og að ferðir verði ekki færri en sex á dag.
Ætli ferðarekendur séu búnir að kveikja? Eða er ég e.t.v. of bjartsýn?
Landeyjahöfnin verður langtum austar, myndin er tekin af Hellisheiðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. nóvember 2009
Predikun í skáldsögu
Þegar maður er ekki opinber gagnrýnandi getur maður maður leyft sér að hafa tilfinningalegri afstöðu til bókmennta. Karitas án titils heggur í minningunni nálægt fullkomnun og ég gerði mig því seka um að munnhöggvast við væna manneskju sem fannst bókin sú leiðinleg.
Kannski voru væntingarnar fullmiklar þegar ég breiddi út faðminn á móti Karlsvagninum. Hún er vel innan við 200 síður og ég þurfti að pína mig til að klára. Stóri gallinn í mínum augum er predikun aðalpersónunnar. Hún er geðlæknir og lendir í þeirri fáránlegu stöðu að dragnast heila helgi með óstýriláta unglingsstúlku sem er bilaðislega (stolið orð úr nærumhverfi mínu) ósannfærandi karakter.
Og geðlæknirinn er í innra og ytra tali að vanda um við hana, umhverfið og samfélagið gjörvallt bókina í gegn. Ef ég gæti skilið söguna sem allegóríu um síðasta ár, fyrsta árið eftir peningahrunið, væri mér hugarhægra en ég get ekki teymt textann út úr sjálfum sér.
Þetta var skelfilega raunalegt, þeim mun raunalegra auðvitað fyrir það að Kristín er flinkur penni og frábær sagnamaður þegar hún er í góðu formi. Ársform hennar 2009 er í mínum augum hins vegar félagsfræðiritgerð með ögn af persónulegu ívafi.
Eins gott að veðrið verði gott á morgun, það sem eftir lifir viku er það eina vonin, hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 16. nóvember 2009
Þegar Jónas hefði orðið 202 ára
Skynsamlegasta ganga lífs míns er skólagangan. Eðlilega verður mér hugsað til hennar á degi íslenskrar tungu því að með henni, íslenskri tungu, hef ég unnið fyrir mér.
Að fólk skuli borga mér fyrir að tala, lesa og skrifa - og hlusta - er ómetanlegt.
Ef ég þyrfti hins vegar að söðla um veldi ég frumframleiðslu því að þess hef ég helst saknað í atvinnulífi mínu - að hafa lítinn þátt tekið í áþreifanlegri verðmætasköpun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 12. nóvember 2009
Spennandi lesning
Til stendur að SUS útlisti hugmyndir sínar um stjórn fiskveiða von bráðar.
Ég lýg því ekki, þær mun ég vakta.
Á þetta trúi ég ekki:
Hvað þjóðkirkjuna varðar telur SUS rétt að aðskilja ríki og kirkju með öllu. Það verður hins vegar ekki gert á einu bretti og því telur hópurinn rétt að gefa kirkjunni aðlögunartíma. Þannig mætti aðskilja ríki og kirkju á 10 ára tímabili.
Ég vona samt að hugmyndinni vaxi ásmegin. Óðinsmegin þess vegna.
Fjárlagatillögur SUS eru í 28 blaðsíðna fljótlesinni skýrslu. Í kaflanum 2.2 Eflum atvinnulífið fjölgum störfum (bls. 7-8) fann ég ekkert um fjölgun starfa, bara að aukin skattheimta yrði dragbítur. Skýrslan er náttúrlega stutt og mestu plássinu eytt í niðurskurð í ráðuneytunum þannig að atvinnutillögurnar eru sennilega bara ókomnar. Ég sé heldur ekki að Atvinnuleysistryggingasjóður fái neitt til að mæta því að fjöldi fólks verður sendur á launaskrá hjá honum. Kannski er meiri vilji til að senda þann hóp beint til Keflavíkur.
SUS leggur ekki til að dregið verði úr fjárframlögum til stjórnmálasamtaka upp á 371,5 m.kr. Þau mega vera á forræði skattgreiðenda áfram, ólíkt t.d. Listasafni Einars Jónssonar (16,9 m.kr.), Hafró (1.356,8 m.kr.), talsmanni neytenda (15,6 m.kr.), Jafnréttisstofu (60,5 m.kr.), Fjarskiptasjóði (84 m.kr.) og Hekluskógum (22,6 m.kr.).
Þetta var fyrsta vers, í fallegum litum og að mestu vel frágengið. Ég hlakka til að fá meira að heyra. Alls staðar að.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 11. nóvember 2009
Það er víst glæta
Á meðan veðrið er bærilegt miðað við árstíma og Jóni Jóhannessyni verða ekki gefnir eftir milljarðar held ég skítsæmilega skapinu. Í minningunni er nóvember 2008 hálfu blautari og drungalegri en nóvember 2009.
Til að lengja líftíma skítsæmilega skapsins fór ég í ljósaseríubúð í gær og keypti mislita seríu og varð fyrir hrósi frá bláókunnugri konu (ekki fyrir seríuval þó). Gærdagurinn var fyrir vikið rúmlega skítsæmilegur, hehe.
Gaman að þessu óþekkta, og líka ókunnuga fólkinu. Gústi, hvernig er veðrið á miðunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. nóvember 2009
Gerðist það ekki 10. nóvember 1989?
Þegar maður lifir atburðinn man maður stundum verr hvenær hann varð. Ég man að Rás 2 var tiltölulega ný af nálinni (jæja, sex ára) þegar Berlínarmúrinn féll og fréttum var útvarpað með reglulegum hléum alla nóttina. Mér fannst mér málið skylt því að ég hafði verið í Berlín um hvítasunnuna 1987 ...
Ég fylgdist spennt með fréttum alla nóttina, aðfaranótt 10. nóvember - er það ekki bara dagurinn? - enda var mér ekki boðið í þrítugsafmæli Egils.
Súrt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. nóvember 2009
Höfuðborgarsvæðið verði eitt sveitarfélag
Ef ég mætti ráða væru Seltjarnarnes, Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Álftanes eitt sveitarfélag með einn sveitarstjóra/borgarstjóra. Og Kjalarnes.
Seltirningar fengju að borga meira til samneyslunnar, ég hef þá grunaða um að vilja það, Kjalnesingar væru ekki gildraðir og umkringdir Reykjavíkinni, strætósamgöngur væru eðlilegar í sveitarfélaginu Reykjavík sem teygði sig víða - og minna væri um smákónga- og -drottingalæti á hreppamörkum.
Er ekki hægt að gera svona lítið fyrir mig, t.d. í sveitarstjórnarkosningunum 2010?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 3. nóvember 2009
Þú læst á endanum
Í dag heyrði ég útvarpsviðtal þar sem andlát bar á góma. Þegar viðmælandinn talaði um sjúkling sem lýkur hérvist sinni ætlaði hún að segja: Þegar hann læst ... en fannst orðmyndin líklega svo sérkennileg að hún breytti því í: Þegar hann deyr er hann fluttur beint upp í líkhús (eða eitthvað).
Það er synd hvað við veigrum okkur við að nota sum orð í öllum sínum fjölbreytileika.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 1. nóvember 2009
Ó, hví eru fréttir (stundum) svo lítið upplýsandi?
Heimild mín hermir að vandaðri fyrirspurn hafi verið varpað fram á borgarafundi á Sauðárkróki í síðustu viku þar sem fundarefnið var fyrirhuguð skerðing fjár til stofnana á staðnum. Spurningin var hvort embættismenn Skagafjarðar ættu (ætluðu?) ekki að nota tækifærið meðan þeir væru enn að störfum og ekki sameinaðir öðrum héruðum og taka á kaupfélagsveldinu. Vísir ákvað að skrúfa bara frá krana fréttatilkynningarinnar. Mbl.is sýnist mér gera það líka en
Villa
Ekki fannst frétt með þessu númeri.
kom upp þegar ég smellti á fréttina. Ég fann ekkert á DV-síðunni og ekki heldur á Eyjunni. RÚV skautaði frekar létt yfir, á ,,fremsta fréttaskýringavef landsins" fann ég ekki einu sinni leitarvél, vandleitað var á Pressunni og síðasta hálmstráið reyndist státa af myndum einum saman umfram fréttina sem fundurinn ákvað sjálfur.
Svo að ég hnykki á spurningunni sem ég nefni í fyrstu línu var hún víst eitthvað á þá leið hvort ekki væri ráð að nýta sýslumann og lögreglu sem enn væru að störfum í Skagafirði - ef störfin yrðu stokkuð upp í sparnaðarskyni (sem er allt annað umfjöllunarefni) - til að vinna gegn misnotkun, einokun og spillingu sem allir vissu að viðgengist á staðnum. Mér skilst að spurningin hafi ekki vakið lukku - og það er skýlaust fréttaefni.
Ég tipla á þessu af varfærni vegna þess að ég var ekki á staðnum. En hvert er hlutverk miðlanna sem vinna fyrir alla landsmenn? Úr því að ég frétti af þessu gef ég mér að víða falli sprengjur sem menn þegja um en ættu að segja frá - og taka á.
-Mikið fann ég hins vegar um villtar kindur sem sóttar voru á kettanibbur af mannúð og fluttar milli héraða af mannúð til að slátra af mannúð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. október 2009
,,Glefsur úr Víðu og breiðu"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 30. október 2009
Má mismuna?
Ég fæ ekki betur séð en að svar Hæstaréttar sé: Já.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnda telur hann áfrýjendur sem stjórnarmenn í félaginu hafa á fundi 30. apríl 2007 brotið gegn ákvæðum 76. gr. laga nr. 2/1995 og óskráðri meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna með því að gera áðurnefnda samninga við tvö einkahlutafélög í eigu Bjarna Ármannssonar um kaup á hlutum þeirra í Glitni banka hf. fyrir 29 krónur hvern þegar meðalgengi í viðskiptum í kauphöll hafi verið 26,66 krónur á hlut, en kaupverðið hafi þannig orðið 549.800.550 krónum hærra en markaðsverði nam. Einnig hafi stjórn félagsins skort viðhlítandi heimild til að láta það kaupa eigin hluti og virt að vettugi með kaupunum, sem hafi verið hluti af starfslokasamningi fráfarandi forstjóra, starfskjarastefnuna sem samþykkt hafi verið á aðalfundi 20. febrúar 2007, en að auki hafi í þessu efni verið brotið gegn svonefndri ráðdeildarreglu félagaréttar.
Hér áður er í helstu atriðum greint frá málsástæðum, sem stefndi reisir málsókn sína á, en þeim er jafnframt nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ef frá er talin málsástæða hans, sem lýtur að broti gegn reglum um jafnræði hluthafa og afstaða hefur þegar verið tekin til, er þeim það sammerkt að þær eru reistar á ávirðingum í garð áfrýjenda vegna starfa þeirra í stjórn Glitnis banka hf., sem gætu ef réttar væru fellt á þau skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eða eftir atvikum refsiábyrgð, en ekki skaðabótaskyldu gagnvart einstökum hluthöfum. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfum stefnda.
Dómurinn er snöggtum lengri.
Óli Björn er líka á því að Hæstarétti hafi orðið á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. október 2009
Lafandi appelsínuhúð og afmyndað sílspik
Eða ekki.
Eftir að hafa séð umfjöllun um að Vísir sé mjög óforskammaður gagnvart fræga fólkinu fór ég að taka eftir að DV og Eyjan eru það líka. Veit ekki með Moggann.
Ég læt þetta vitaskuld sem vind um eyru þjóta en öll sólarmerki hníga að því (vonandi gef ég mér heilan vitlausan helling hérna) að ómótaðir og óharðnaðir unglingar lesi þetta og sumir lifi eftir þessu.
Geta foreldrar vaktað þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. október 2009
Jafnvirði
Nú tala ég bara innan úr svartholi þess sem hefur enga aðra hagfræði lært en þá sem blöðin hafa birt okkur síðasta árið. Ég heyri menn tala um þá nýju uppgötvun að í lánasamningum vegna húsnæðiskaupa standi að endurgjalda skuli jafnvirði og þá hafa menn túlkað það svo að færri evrur, færri jen eða færri dollararar skuli koma til greiðslu úr því að gengið hefur fallið.
Af því að ég er enn ekki útskrifuð úr hagfræði fjölmiðla 2008-2009 spyr ég: Ætluðu menn þá ekki að græða heldur ef íslenska krónan styrktist?
Sjálf er ég ekki með erlend húsnæðislán en finnst enn sanngirnismál að lánin verði færð aftur til sanngjarnrar dagsetningar, annað hvort 1. janúar 2008 eða 1. júlí 2008. Peningarnar sem þannig ,,afskrifuðust" voru hvort eð er aldrei til. Stórir aðilar tóku stöðu gegn krónunni sem tók fyrir vikið einhverja undarlega sveiflu. Peningar eru bara ávísun á verðmæti og það er andstyggilegt að fólk fari á límingunum yfir hégóma úr pappír þegar enn er hægt að sækja sér mat, vefa föt og snúa túrbínum. Verðmæti eru ekki fólgin í pappírspeningunum heldur því sem fá má fyrir peningana. Hefur það horfið yfir móðuna miklu?
Sjálf myndi ég mest sakna þess lúxuss sem nettengd tölva er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. október 2009
Eins og gerst hafi í gær
Mér er í fersku minni ýmislegt frá fermingunni minni. Ég eignaðist svart satínpils og satínvesti. Ég gleymdi mér í athöfninni og stóð ekki upp fyrr en presturinn gaf mér merki með augunum og þá spratt ég upp eins og fjöður og hélt að allir hefðu tekið eftir bara því. Mér er minnisstætt að presturinn er mér ekki minnisstæður fyrir annað en að vera indæll fullorðinn kall en hinn presturinn í sókninni reyndi að galdra til sín fermingarbörn með appelsíni og prinspólói. Það var a.m.k. þrálát saga í sókninni.
Guðs orð hefur ekki átt greiðan aðgang að mér, það skal viðurkennt, en mér hefur líka löngum fundist fráleitt að ferma börn sem eru 13-14 ára. Af hverju ekki að bíða til 18 ára aldurs? Og er ekki tímabært að klippa á naflastreng kirkjunnar við ríkið - ríkiskassann?
Ekki veit ég hvað presturinn á Selfossi tók sér fyrir hendur en mikið ósköp er ég fegin að þótt ég hafi asnast til að láta ferma mig í árdaga sitji ég a.m.k. ekki uppi með ónotatilfinningu út af þjóni kirkjunnar.
Er það ekki reyndar lágmarkskrafa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. október 2009
Af hverju Helgi?
Frá því að nýja fréttin af Icesave var birt á sunnudaginn er ég búin að velta fyrir mér hvers vegna Helgi Áss (t.v.) og Páll (t.h.) voru með á blaðamannfundinum. Í fréttatilkynningunni sem var hengd við sé ég nafnið hans:
Við samningsgerðina hafa stjórnvöld notið fulltingis Nigel Ward hjá Ashurst lögmannsstofunni og samningu lagafrumvarps hafa annast þau Benedikt Bogason, héraðsdómari, Björg Thorarensen, deildarforseti Lagadeildar HÍ, Eiríkur Tómasson, prófessor við Lagadeild HÍ og Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur hjá Lagastofnun HÍ auk þess sem þau hafa veitt stjórnvöldum almenna ráðgjöf.

En Páls er í engu getið og af hverju er hann með á fundinum? Var enginn fréttamaður forvitinn um framsetninguna? Og hvar voru Nigel, Benedikt, Björg og Eiríkur?
Að lokum vil ég geta um það aðalatriði að mér finnst Nigel vitlaust beygður í eignarfallinu (enda er ég s-eignarfalls-fastisti) og mér finnst að Ármann eigi að lýsa næstu söngvakeppni - ef einhver verður sendur til Óslóar!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 18. október 2009
H1N1
Getur verið að óttinn við silungaflensuna gagnist einhverjum? Hver framleiðir vörnina, hver selur, hvað kostar hún og hver borgar?
Græðir einhver á hysteríunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 14. október 2009
Stöðlunaraðgerð
Er hægt að keppa í stöðluðu útliti? Hvaða nef uppfyllir best stöðlunarstuðulinn? Er handhafi þess sigurvegarinn? Heppnaðist megrunin á stórutánni?
Ja, lýtalæknar (sumir, til að særa engar tilfinningar) væru vísir með að svara þessum spurningum í fyllstu alvöru.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. október 2009
Af hverju ætti ég að kaupa Ævintýraeyjuna?
Mig langar ekki að lesa um mann sem slysast af Trabantinum inn í bankaheiminn.
Mig langar ekki að lesa um mann sem lítur langar leiðir upp til Toms Jones.
Mig langar ekki að lesa um gullsleginn kavíar.
Mig langar ekki að lesa um partí.
Og ég vil alls ekki að aðalpersónan hafi svo mikið sem krónu upp úr krafsinu.
Á ég þá ekki bara líka að leiða hjá mér útvarpsstöðvarnar sem hampa þessum gaur um þessar mundir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)