Föstudagur, 15. janúar 2010
Það er dýrara að leggja saman 1.000.000 og 1.000.000 en 100 og 100
Eða hvað á maður að halda þegar maður les um ýtrustu kröfur lögmannsstofu?
Um er að ræða hálft prósent af heildarskuldinni en síðasta fylgiskjalið í kröfu Seðlabankans var einmitt gjaldskrá Lex, þar sem hin háa þóknun var rökstudd.
Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður á Lex, segir að í þóknunni séu gerðar ítrustu kröfur. Upphæð þóknunarinnar sé miðuð við gjaldskrá og raunar sé upphæðin aðeins um tólf prósent af því sem hún gæti verið samkvæmt gjaldskrá sé að ræða jafn háan höfuðstól þurfi að reikna verð niður. Semsagt, stofan gæti innheimt átta milljarða. Helgi bendir jafnframt á að ekki sé búist við því að nema brot af upphæðin fáist innheimt og líklegt að þóknunin verði lægri á endanum.
Rétt að taka fram að ég valdi appelsínugula litinn til að brennimerkja skilaboðin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. janúar 2010
Uppsettur gremjusvipur
Bjarnfreðarson stóð að sumu leyti undir væntingum.
Handritið er gott, ögn sundurlaust flakk milli tímaskeiða en samt gott og teiknaði Georg vel upp. Það finnst mér. Þroskasaga hans, hægfara breytingar, skyndileg uppgötvun, tilraun til að sættast við fortíðina og síðan lokaákvörðunin gekk lóðbeint ofan í mig. Ólafur Ragnar dansar á línunni með óendanlegt fattleysi sitt, en er réttu megin. Svipinn mætti selja og rétta þannig hlut ýmissa sem hafa farið flatt í útrásinni.
Frasarnir voru að mestu leyti fjarri, og var það vel þótt ég snarfélli fyrir þeim í þáttunum. Já, sæll; eigum við að ræða þetta eitthvað; fimm háskólagráður. Frasalaus mynd.
Leikurinn stóð ekki undir væntingum, nema leikur Jóns Gnarrs og Jóhanns Péturs Sigfússonar, og jú, litli Georg stóð sig frábærlega. Svipbrigðin voru sterk og sá litli texti sem hann flutti var góður. Mörg minni hlutverk voru ekki truflandi en nokkur stærri hlutverk voru það. Jörundur er voða eins, bæði í þáttunum, myndinni og á sviði. Sú sem leikur konuna hans (ég finn engan leikaranöfn þegar ég gúgla) getur ekki sagt sannfærandi: Er kominn dagur? - en kannski er hún þannig í karakter.
En það er blessunin hún Ágústa Erlendsdóttir sem fær falleinkunnina hjá mér. Hún átti og mátti vel vera reið og femínísk með uppeldisaðferðir niðri í dimmasta kjallara en reiði- og umvöndunarsvipurinn var alltaf svo leikinn, eins og hún setti hann upp fyrir myndavélina. Ég trúði aldrei á hann. Og það voru nokkur vonbrigði.
Ragnar Bragason hefur leikstýrt svo frábærri mynd sem Börnum og ef hann er ánægður með Ágústu Evu í Bjarnfreðarsyni greinir okkur á.
Mæli ég með henni? Hmm, ekki nauðsynlegt að sjá í bíó.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. janúar 2010
Feigðarför vörubílstjóra í Tékklandi?
Þýðandi spyr sig: Gæti titillinn í fyrirsögninni selt danskan krimma sem gerist að hluta í Kaupmannahöfn og að hluta í Tékklandi?
Bein þýðing væri: Hin tékkneska tenging/Hin tékknesku tengsl/Hið tékkneska samhengi sem mér finnst algjör geispvaki (reyndar á dönsku líka).
Ég las bókina samt og hafði gaman af. Dómar um hana eru um flest neikvæðir og einum bókmenntarýninum finnst hún ekki einu sinni jafnast á við hina slæmu Lizu Marklund. Ég læt mér annarra bókmenntapáfa dóma í léttu rúmi liggja og birti hér minn eigin páfadóm:
Den tjekkiske forbindelse er spennandi lesning um Bettinu sem er fréttamaður á sjónvarpsstöð með heldur fánýt verkefni. Ögrandi tækifæri til að leita uppi tíðindi af dauða vörubílstjóra í ferðum til Austur-Evrópu kemur skyndilega undir kvöld einn daginn þegar allir karlarnir eru farnir heim af stöðinni! Og hún bindur fyrir augun (eða þannig) og æðir út í óvissuna þar sem hún heldur síðan til lengst af. Eins og Bond 007 hefði hún átt að steindrepast nokkrum sinnum en ekki er að sjá að hún hruflist til muna, þvert á móti kemur hún ófrísk út úr hildarleiknum! Dramatísku atburðirnir eru ekki skornir við nögl, byssukúlur setja skíðalyftur á hreyfingu, maður villir illa á sér heimildir, bræðraregla segir uú! og maður brennur lifandi. Morðingjarnir reynast ekki morðinginn (ekki ásláttarvilla), greiðvikna stúlkan varð ástfangin, arsenik varð sætt á bragðið - og löggan er gargandi spillt. Bettina er mjög ligeglad í ástarmálum en fær algjört hland fyrir hjartað við tilhugsunina um að vera einstæð móðir. Eins og krimma er siður blandast alls kyns fjölskyldumál inn í starfið og Bettina á mjög alkóhólskemmda blanka mömmu sem lætur kærastann lúberja sig.
Já, sitthvað þarna minnir mig á Hafið ... Maður fær ekki að koma upp til að anda. Og það getur vel verið gaman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. janúar 2010
Án viðvörunar - núna, takk
Hekla gaus síðast fyrir tæpum 10 árum. Ég get ekki þóst og giskað og getið í eyðurnar, þetta er allt skjalfest og munað af viðstöddum. Það var laugardaginn 26. febrúar 2000. Enginn var í fjallinu. Fræðingar höfðu pata af gosinu 20 mínútum áður en Hekla lét til skarar skríða. Grunurinn rataði í fréttatíma RÚV og í fyrsta sinn í sögunni vissi fólk af fyrirætlun eldfjallsins fyrirfram.
Þar á undan gaus Hekla 1991, þar á undan 1980-1 og þar á undan 1970. Eðlilega finnst mönnum eðlilegt að gera kröfu um gos á næstu vikum. Alltaf læt ég ferðamennina mína vita af þessum möguleika - þótt ég lofi engu.
Ég held að margir myndu fagna þeirri kúvendingu í umræðunni sem Heklugos byði upp á. Ekki síst útlendinganna vegna. Af Hollendingum er það annars að frétta að ég talaði við einn af þeirri tegund um helgina. Ég sagði: Úps, hatarðu okkur ekki? Og hann sagði: Nei, hatið þið okkur ekki?
Tómar ranghugmyndir.
Svo fór bara vel á með okkur.
Aukaspurning: Hvað verður um HR-húsið í Ofanleiti þegar öll starfsemin flyst í Hlíðarfót á árinu?
Sunnudagur, 10. janúar 2010
Alain Lipietz
Alain Lipietz var í slagtogi með Evu Íslandsvini Joly í Silfri Egils í dag - mikið var hressandi að hlusta á stjórnmálamenn sem þurftu að hugsa sig um meðan þau töluðu (ég veit að bæði töluðu ensku sem er ekki móðurmálið þeirra). Mér finnst mjög margir undir sjálfvirknina seldir og þá finnst mér gjarnan að þeir hlusti ekki á ... t.d. rök.
Kannski ég ætti bara að skríða aftur ofan í holuna mína, hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. janúar 2010
Er til ærleg bensínselja?
Sumir dagar eru manni mótdrægir.
Á gamlaársdag ætlaði ég að kaupa bensín í sjálfsala. Ég renndi 5.000 kr. í slíðrið og ætlaði að bæta um betur en sjálfsalinn fúlsaði við báðum þúsundköllunum sem ég prófaði. Og svo kom hvorki bensín úr dælunni né kvittun úr kassanum.
Ég hringdi í símanúmerið sem gefið var upp og fékk þar að vonum símsvara. Þá gretti ég mig til frekara sannindamerkis framan í myndavélina og keyrði í burtu á blikkandi tanki.
Svo prófaði ég að hringja á laugardagsmorguninn í bensínseljuna en fékk sama símsvarann. Á slaginu kl. 9 á mánudagsmorguninn hringdi ég enn og fékk mjög liðlega konu í símann sem sagði mér að seðlateljarinn (nei, hún notaði eitthvert annað orð) ætti eftir að fara á milli sjálfsalanna og tæma þá en tók niður nafn og númer og ætlaði að láta hringja í mig þegar mál skýrðust.
Í morgun hringdi ég enn og fékk svar annarrar mjög elskulegrar konu sem ætlaði að hnykkja á þessu.
Rétt eftir hádegið hringdi síðan einhver gæðakarl sem var búinn að finna þann bláa og bauð mér að sækja hann til hvaða selju sem ég vildi. Auðvitað hefði mér þótt eðlilegast að leggja hann inn hjá mér eða senda til mín með öðrum hætti - eða gerði ég einhver mistök? - en hann var svo kurteis að ég varð eins og smjörlíki í heitri gluggakistu.
Svo lagði ég lykkju á leið mína til að nálgast herlegheitin en þegar ég kom með mitt hóflega tilkall KANNAÐIST ENGINN VIÐ MÁLIÐ. Lipur afgreiðslustúlka hringdi og fékk engin svör. Ég hringdi í númerið sem hringdi í mig í dag (já, ég persónugeri bara símanúmerið) og Securitas svaraði! Þegar ég hváði svo að undir tók í seljunni útskýrði kurteis karl að sennilega væri flutningur á símanum en samt vissi hann ekkert um það og þaðan af síður um mitt mál.
Fimm dögum eftir að bensínselja fékk minn bláa að láni er málinu enn ekki lokið. Ég er hvorki eins kurteis né þolinmóð og allt það fólk sem ég er búin að tala við út af myndinni af Ragnheiði Jónsdóttur biskupsfrú og nú lofa ég við æru óþolinmæði minnar að einhver hjá Olís þarf að grátbiðja um gott veður á morgun.
Helsti lærdómurinn af sögunni er samt sá að maður á að losa sig við helvítis bílinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 1. janúar 2010
Krosseldur Heimis
Icesave vekur fólki hroll, að vonum, hvernig sem allt veltist. Eldurinn sem Heimir reyndi að vekja í Krosseldinum í gær var ansi hrímaður líka, einkum fannst mér reyndar standa út úr Heimi kaldur strókur til Margrétar sem var honum á vinstri hönd.
Það er eitthvað við Krosseldinn sem hefur ekki virkað í mörg ár, eitthvert tilgerðarlegt uppgjör en sérstaklega var það gapandi leiðinlegt í ár.
Af hverju var ekki Halldór E. í miðjunni og stjórnaði með sínum frábæra húmor? Einhver húmor hefði strax verið til bóta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. janúar 2010
Fullorðins
Ég er í hópi þeirra kröfulitlu sem finnst áramótaskaupið yfirleitt heppnast vel. Það er erfitt að gera 300.000 manns til hæfis í einu og mér finnst eðlilegt að sólóa í liðinu sem finnst það fínt.
Reyndar er ég ekki í alvörunni svona hógvær, yfirleitt skil ég tilvísanirnar, yfirleitt þekki ég leikarana og þannig finnst mér ég bara hafa forsendur til að kunna gott að meta.
Og þetta er ekkert Ragnars Reykáss heilkenni. Þetta stenst rökrétta skoðun. Þetta er húmor ...
Meðal leikara í gær voru Stefán Jónsson (SJS), Hanna María Karlsdóttir (Jóhanna), Gunnar Hansson, Laddi (ÓRG), Sigrún Edda Björnsdóttir, María Pálsdóttir (Margrét Tryggva), Árni Pétur Guðjónsson (Þráinn), Pálmi Gestsson (Björgólfur), Örn Arnarson (,,tær snilld"), Erlingur Jóhannesson (JÁJ), Víkingur Kristjánsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og svo var Anna Svava Knútsdóttir þarna og hinn nýlega útskrifaði Hannes Óli Ágústsson sem Sigmundur Davíð ef mér skjöplast ekki. Sævar Sigurgeirsson, stórvinur úr Hugleik, lék Sigmund Erni þáttarstjórnanda í byrjun skaups og Ármanni Guðmundssyni úr sama leikfélagi brá fyrir sem fornmanni. Ég saknaði auðvitað Björns Thors (sem verður sjálfsagt ofnotaður á næstu árum) og veit ekki hver lék Björgólf yngra.
Helsti gallinn á sameiningasrafli þessa áramótaskaups er að það getur ekki hafa höfðað til barna, ekki fyrr en Páll Óskar tók Michael Jackson á línuna í lokin.
Eftir að hafa séð eitt atriði úr skaupinu í Kastljósi í fyrrakvöld var ég sannfærð um að mér þætti það leiðinlegt og ósmekklegt. Mér sýnist nefnilega sem raunverulegar myndir af niðurbroti húss hafi verið notaðar í bland við baráttu Víkings við að stjórna gröfunni sem var trúlega vísun í Hamarinn reyndar líka. En val Kastljóss endurspeglaði ekki skoðun mína á skaupinu. Með hroka beturvitrungsins gef ég skaupinu ágætiseinkunn (eitt atriði var þó notað of oft). Ég mundi heldur ekki (nema ég hafi raunverulega ekki vitað það) að á meðal höfunda var Halldór E. sem er fyndnasti útvarpsmaður sem ég heyri í.
Helsti vandi minn var að ég þurfti svo mikið að útskýra fyrir öðrum í gær (varist harkalega dóma!) og hef fyrir vikið þegar afráðið að horfa öðru sinni á Spaugstofutíma á morgun.
Samt - samt held ég að tími áramótaskaupsins sé liðinn, það á ekki að binda menn yfir sjónvarpinu síðasta kvöld ársins.
Og nú má ávarpið fara að koma frá Bessastöðum!
Dægurmál | Breytt 2.1.2010 kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 27. desember 2009
,,... þegar hann freistaðist til þess að bjarga ..."
Af tillitssemi við umfjöllunarefnið sem er göfugt ætla ég ekki að vísa í fréttina en viðkomandi bjargvættur lét alls ekki freistast. Hann freistaði þess að bjarga manneskjunni sem er allt annarrar merkingar.
Marga amböguna sé ég flesta daga en þessi afvegaleiðir umræðuna svo mikið að ég verð að ergja mig á prenti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. desember 2009
Clive Owen er ... ólýsanlegur
Ekki ætlaði ég að fara að horfa á einhvern Inside Man um bankarán í gærkvöldi - bankarán, huhh, komin með nóg af því - en sá þá ofurleikarann Clive Owen sem hefur hingað til ekki brugðist. Og úr varð að bankaránið fékk óskipta athygli mína í tvo tíma.
Mikið er gott að geta enn heillast af bíómynd/leikara.
Og þá er að halda áfram að lesa Horfðu á mig þrátt fyrir að vera eftir Yrsu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 23. desember 2009
,,Þriðja prentun á leiðinni"
Að sönnu er ég ekki mjög öflugt jólabarn. Ég er þó hænd að bókum og langar alltaf að lesa einhver býsn. Ég veit líka að ekki dugir að allir fái bækurnar lánaðar á bókasöfnum, einhver þarf að kaupa þær því að ella hætta þær að koma út.
Og mér leiðist þessi árátta bókaútgefenda að láta alltaf eins og (góðar) viðtökurnar komi svo gleðilega á óvart að nú hafi þurft að ræsa prentvélarnar á ný. Hver trúir á svona lélegt skipulag? Þar fyrir utan hafa svona meintar sölutölur alltaf þveröfug áhrif á mig, ef einhver bók hefur selst í þotuförmum eru mun meiri líkur á að eitt eintak slæðist fyrirhafnarlaust til mín og ég fer á stúfana til að kaupa bók sem enginn hefur hrópað um á torgum.
Að öðru leyti er ég bara orðin nokkuð jólaleg og tilbúin að taka fagnandi á móti frídögunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. desember 2009
Hvað er fæðuöryggi?
Ég skal ekki vera eini einfeldningurinn sem hélt að fæðuöryggi hefði með hollustuhætti að gera. Þangað til í vikunni hélt ég að það varðaði salmónellu eða gerla - eða bráðadauða.
Nei, fæðuöryggi snýst um það hvort þjóðin hefur nóg að borða, sé sjálfbær með matvælaöflun. Það mætti orða þetta faglegar og af meira öryggi (sit hér titrandi af óvissu öryggisleysi) en heila málið er að það er leitun að landi sem er með meira fæðuöryggi en Ísland! Að vísu vantar dálítið upp á okkar eigið grænmeti en við gætum haft fisk og lambakjöt í annað hvert mál - og það þótt við værum fleiri en 317.000 stykki. Við erum einstaklega fæðuörugg.
Hvorki fæðu- né matvælaöryggi fær svörun í orðabókinni minni, Google snýr bara út úr en þegar ég prófa food security er Wikipedia vel heima. Food security refers to the availability of food and one's access to it. Það gæti ekki verið öllu skýrara - nema þá kannski á íslensku: Matur öryggi er átt við aðgengi að mat og aðgang einn dag í það - þýðing í boði Googles, já, nei, enskan er bara betri hérna.
Og af hverju þessi skyndilega meðvitund Berglindar?
Jú, ég spjallaði um þetta - og margt fleira - við minn góða vin hjá Hagstofunni sem ekki aðeins veit allt (og ætlar að láta reyna á í spurningakeppni hjá RÚV eftir hálfan mánuð) heldur vann líka hjá FAO í Róm um árið. Þegar hann talar ... hlusta ég ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. desember 2009
Ármannarnir
Um daginn spurði mig maður hvort ég væri búin að lesa Ármann. Vonarstræti? hváði ég. Hann hnussaði nei, hann væri að meina bankabókina.
Nú er ég búin að lesa báðar bækurnar og mikið eru hughrifin ólík. Ég þekki ekki bankabakgrunninn eins og Tony Shearer sem brá fyrir í Silfri Egils um síðustu helgi en Ármann Ævintýraeyjunnar virkar á mig eins og kjáni sem fannst m.a. eðlilegt að hann fengi mikinn arð á silfurfati þegar hann hafði lagt nótt við dag til að hámarka gróða af einstakri sölu eða fyrirgreiðslu sem fól ekki í sér neina eiginlega verðmætasköpun (eins og kom á daginn) en þegar hann hafði lagt nótt við nýtan dag til að hafa af fólki sparifé (óvart, náttúrlega ...) vildi hann bara klapp á bakið og samúðarkveðjur. Fleira langar mig ekki að segja um bókina því að ég ætla ekki að eyðileggja fyrir mér vikuna frekar en orðið er. Ég get engan veginn mælt með henni og hvet fólk til að kaupa hana alls ekki. Út á mig fær hann ekkert í kassann.
Vonarstrætisbókina um Skúla og Theodóru Thoroddsen og uppkastið 1908 þarf maður hins vegar að lesa hægt og njóta hverrar síðu. Ármann segir bókina skáldsögu sem byggi á raunverulegum persónum. Það er það eina sem þjakar mig svolítið, ég vildi vita hversu miklar heimildir hann hefur um það sem hann gerir skáldleg skil. Var Skúli slæmur í eyranu? Var hann háður Theodóru? Gat hann ekki borðað með fjölskyldunni? Var Tryggvi Gunnarsson sem grafinn er í Alþingisgarðinum virkilega svona mikil frenja?
Í æviágripinu sé ég hvaða stjórnmálaslóð Skúli fetaði (flokkaflakk er ekki nýtt af nálinni) en ekkert umfram hefðbundnar upplýsingar.
Mig langar að vita meira um milliþinganefndina og uppkastið þannig að Vonarstræti er hungurvaki. Það er ekki galli á bók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 15. desember 2009
*You know*
Þú veist, sem leiðsögumaður hef ég verið hundskömmuð af bílstjóra (einu sinni í hvataferð þar sem ég var hljóðtengd í nokkra jeppa) fyrir að segja *you know* of oft. Og þú veist, ég tók það þráðbeint til mín og varð meðvituð.
Nú er ég að fylgjast með Mark Flanagan og Þóru Arnórs í sjónvarpinu mínu. Og þau nota hikorðasamsetninguna - alveg eins og enski blaðamaðurinn gerði líka ótæpilega í Silfri Egils um hina helgina.
Hahha, þúst! Ég er ekki ein ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. desember 2009
Við vöðum skuldir í háls
Ég sá glæru í vikunni sem færði mér heim sanninn um að skuldabanaáætlunin er óskhyggja ein saman.
Glæran nær frá 1995, frá vinstri. Súlurnar niður á við sýna neikvæðan vöruskiptajöfnuð, árin sem við söfnuðum skuldum. Árin 2001 og 2002 komum við út í dálitlum plús en árin þar á eftir söfnuðum við feitum og pattaralegum skuldum, vorum svona eins og púkinn á fjósbitanum sem dafnaði þegar hann heyrði bölv og ragn. Þetta var góðærið sem Ármann Þorvaldsson þakkaði sér og öðrum spekilekum. Tekið að láni eins og allir vita núna - líka hann.
Gula súlan miðsvæðis upp á við er 2009, jákvæður vöruskiptajöfnuður af illri nauðsyn, enginn peningur afgangs til að bruðla með. Appelsínugulu byltingarsúlurnar áfram til hægri eru spá AGS og SÍ næstu 10 árin. Þær stofnanir ,,spá" því að við munum stórleggja til hliðar, framleiða bara, selja grimmt og eyða engu. Til að gera út skipaflotann þarf hins vegar að kaupa eldsneyti, úps, og til að geta keyrt ferðamennina um landið þarf óvart líka keyrikraft.
Sem leikmaður með stór eyru fullyrði ég að áætlunin gæti verið runnin undan rifjum Gosa. En á hvers ábyrgð?
Við stöndum í fúlu skuldafeni og eigum engar vöðlur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. desember 2009
Eiginlega ætti ég að borga Símanum og Vodafone skemmtanaskatt
Þegar Björn Thors og hinir leikararnir byrja á ávaxtagolfinu sínu hækka ég í sjónvarpinu. Þetta er einfaldlega svo skemmtilegur leikþáttur að ég er til í að horfa á hann aftur og aftur. Að tómatur sé í raun ávöxtur, bara menningarlega grænmeti ...
Eins er með froskana, þeir skemmta mér alveg takmarkalaust. Vandað skemmtiatriði og nýir þættir með reglulegu millibili.
En mér dettur ekki í hug, ekki eitt augnablik, að skipta við þessi fyrirtæki. Þau eyða svo miklum peningum í að skemmta mér í auglýsingatímunum að þau verða að rukka hærri símagjöld. Þess vegna er Tal - a.m.k. að svo komnu máli - skásti kosturinn enda lækkaði reikningurinn um ein 20% við yfirfærsluna.
Hinn harði heimur viðskiptanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 2. desember 2009
Nýtt hvalaskoðunarskip komið
Ferðaþjónustan er á hraðri siglingu inn í árið 2010 enda er nú lag. Og þar er ég svo múruð inn í klíkuna að ég fæ upphringingu ...

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. nóvember 2009
Með siðferðisbrest (lag: Simply the Best)
Ég er alltaf með nettan móral yfir að horfa á Spaugstofuna, svo margir hallmæla henni í mín eyru, fólk sem ég tek mark á. En þótt ég hlæi ekki alltaf og þótt mér finnist hún ekki alltaf skemmtileg finnst mér næstum alltaf eitthvað gott og/eða beitt.
Grátkór LÍÚ var t.d. nokkuð sannfærandi skemmtiatriði í síðasta þætti. Að ógleymdri Tinu Turner sem söng um siðferðisbrest af mikilli þekkingu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. nóvember 2009
Síðan hvenær eru 59,9 fermetrar 93 fermetrar?
Ég fylgist nokkuð nákvæmlega með fasteignaauglýsingum. Í langan tíma hefur lítið verið auglýst af íbúðum sem gætu hentað mér þannig að ég hef víkkað út leitarskilyrðin. Og í einhverju fikti rakst ég á þessa á Teigunum. Í lýsingunni er hún 60 fm en í yfirlitinu 93.
Áhugasamir smella hugsanlega á eignina þegar fermetrinn virðist eiga að kosta 200.000 krónur - sem er svolítið annað en 302.000 þegar nánar er að gáð.
,,Stærð" hefur tekið miklum breytingum þau ár sem ég hef fylgst með fasteignaverði. Geymslur voru komnar inn í stærð íbúðar þegar ég man fyrst eftir mér en síðustu tvo áratugina hefur bílskúrinn greinilega orðið að stofu eða aukaherbergi, í einhverjum tilfellum hafa svalir verið taldar með og svo var risíbúð í Hlíðunum (horfin af vefnum) skráð 71 fm hjá Fasteignamati en fasteignasalan ákvað að slumpa á 100 fm af því að hún var undir súð og svo væri stórt ómanngengt greymslurými fyrir ofan íbúðina.
Mér finnst eðlilegt að borga fyrir útsýni, garð, bílskúr og geymslu og að verðlagning taki mið af ástandi íbúðar, hvort eldhús hafi verið endurnýjað o.s.frv. en það er út í himinbláinn að telja óíbúanlegt rými sem beinan hluta íbúðar.
Og á svona tímum skil ég enn síður þegar menn gala hátt um að markaðurinn hljóti að ráða. Markaðurinn er löngu búinn að segja nei takk en samt lækkar ásett verð sáralítið. Og ég veit um hjón sem gerðu tilboð eftir tilboð í eignir út frá fasteignamati og var alltaf hafnað.
Markaður sparkaður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)