Miðvikudagur, 24. febrúar 2010
Hver ,,fékk" auglýsingarnar?
Umræðan um auglýsingamagn í hinum ýmsu fjölmiðlum er mér óskiljanleg. Ég skil reyndar orðið að viðskiptalífið á Íslandi er ekki heilbrigt og stjórnast hvorki af heiðarlegri samkeppni né vilja til að vanda sig og ná meiri viðskiptum út á verðleika sína. Auðvitað eru margir heiðarlegir umsvifamenn en hinir óheiðarlegu sem eru of margir og alltof óheiðarlegir eru svo miklu meira áberandi. Hér er kannski við hæfi að nefna Melabúðina og Reykjavíkurapótek sem ég hef talsvert dálæti á.
Ef mæling sýnir hins vegar fram á það að lestur á einu blaði er útbreiddari en lestur á öðru blaði og markhópur auglýsandans næst í gegnum fyrra blaðið er mjög eðlilegt að auglýsendur noti það. Hvernig er þá hægt að tala um að Fréttablaðið hafi fengið auglýsingar frá Baugi? Er það kannski vegna þess að Baugur er ekki í heiðarlegum viðskiptum frekar en Arion, frekar en FL, frekar en Útilíf, frekar en Vodafone, frekar en Samherji, frekar en Lyf og heilsa, frekar en Sjóvá o.s.frv.?
Eiga allar stóru búðirnar monninga í ólöglegum handraða og þurfa þær ekki að auglýsa til þess að fólk viti hvar varan fæst og á hvaða verði? Er þetta bara montkeppni hananna?
Er ekki í öllu falli orðið tímabært að slíta á milli keðja sem eiga bæði búðir og fjölmiðla? Ég panta hér með gagnsæi, heiðarleika og sanngirni í hvívetna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. febrúar 2010
Sex grunaðir - sendir í langt frí
Á blaðsíðu 102 gafst ég upp á bókinni og mundi þá mjög skýrt að mér þótti Viltu vinna milljarð? a.m.k. tveimur sögum löng. Líklega kann ég bara ekki gott að meta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. febrúar 2010
Fjöldi í sveitarstjórnum
Ég fylgdist spennt með æsispennandi prófkjörum í gær en var ekki viss hvort bæjarfulltrúar í Kópavogi væru sjö eða níu. Gáði svo, enda er upplýsing besta leiðin til að eyða ... óvissu. Hey, þau eru 11! Og á síðasta ári bjuggu í Kópavogi 30.395 manns, stanslaus fjölgun frá 1997 (lengra aftur sé ég ekki á Hagstofuvefnum). Verður kannski fjölgað í 13 þegar 35.000 íbúa múrinn verður brotinn?
Ég er núna meira þeirrar skoðunar að sameining sveitarfélaga sé rétta skrefið. Hvers konar forystublæti er þetta í hverfum? Og það er ekki nokkur leið fyrir ókunnuga að sjá hvar Fossvogurinn endar og Kópavogurinn tekur við - ætti kannski að setja sérstakan Fossvogsstjóra?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 20. febrúar 2010
Hætta við lífið sjálft
Orð eru dýr og ég ætla að vanda mig svo að þau verði ekki send til læknis ...
Í nokkuð mörg ár hef ég farið sem leiðsögumaður í hvataferðir á jökla, einkum Langjökul. Aldrei hef ég óttast um öryggi mitt eða farþeganna. Aldrei hef ég lent í slíku veðri að ég teldi neinum standa ógn af. Aldrei hefur barn eða unglingur verið með í för.
Einu sinni man ég eftir farþega sem kom niður í lobbí á háhæluðum sandölum og var á leið á jökul. Samferðafólk hennar sneri henni við á punktinum. Þá kom hún niður í lokuðum háhæluðum skóm. Það var hennar besta boð. Annars er fólk yfirleitt þokkalega skynsamlega klætt.
Á jökli fær fólk húfu, vettlinga, samfesting og hjálm, og ef fólk er ekki í góðum vatnsþéttum skóm fær það utanyfirskó til að hlífa sínum eigin. Ég veit ekki hvort það er í hverri ferð, varla en ég veit það ekki, sem eitthvað tapast. Ég veit að á hverri vertíð snjóar úr safninu og það þarf þá að endurnýja.
Jökulferð felur gjarnan í sér ferð á jeppa úr bænum (ég hef aldrei farið öðruvísi) og þessum jeppum hefur oft verið breytt eitthvað til að komast víðar, eru á stærri dekkjum o.þ.h. Þeir kosta mikið og það kostar að breyta þeim, eldsneytið kostar, tryggingarnar, viðhald og önnur endurnýjun.
Sleðafyrirtækin eiga tugi sleða sem eru geymdir úti löngum stundum. Þeir kosta og það kostar að endurnýja þá. Ef hver einasti þeirra ætti að vera búinn öllum bestu hugsanlegu tækjum, s.s. staðsetningartækjum, erum við auðveldlega að tala um 50-60 stykki hjá hverju sleðafyrirtæki. Vasaljós og ábreiða koma þar til viðbótar.
Kostnaðurinn félli á kúnnann þegar upp yrði staðið.
Ég vil ekki gefa afslátt af öryggisatriðum en ef menn hafa reiknað rétt að yfir 90.000 manns hafi farið á jökul á síðasta ári held ég að við getum alveg slegið því föstu að öryggis sé vel gætt. Jöklar eru náttúrufyrirbrigði og hlýða ekki lögum mannanna sem fyrir vikið þurf að laga sig að lögmálum jöklanna. Og ég leyfi mér að halda því fram að þeir geri það, það sé reglan.
Spurningar sem hafa vaknað í mínum umgangshópi eftir óhappið um síðustu helgi þegar mæðginin urðu viðskila við hópinn varða fyrst og fremst síðasta spölinn eftir að bylurinn skall á. Gylfi hjá snjósleðafyrirtækinu sagði í Kastljósi í vikunni að hann hefði endurskipulagt ferðina í lokin þannig að þrír sleðar keyrðu saman. Ef mæðginin misstu af þeim tveimur sem keyrðu með þeim, er þá ekki sá öryggispunktur lítils virði? Hefði þyrla séð blikk frá vasaljósi þegar skaðinn var skeður? Var bylurinn ekki of svartur?
Vinkona mín í stétt leiðsögumanna sem fer í stöðugar göngur allt sumarið með vana göngumenn hefur lent í þvílíkri fyrirvaralausri blindaþoku að hún hefur bannað fólki að víkja af leið til að pissa, ella myndi það týnast. Það hefur mjög skyndilega kólnað svo mikið að hún sem er alltaf búin undir allt það versta hefur verið orðin mjög köld og fólkið hennar sömuleiðis. Þá er fyrir mestu að missa ekki móðinn og ganga eftir staðsetningartæki eða áttavita.
Sjálf ætla ég ekki að dæma um það sem gerðist í ferðinni um liðna helgi. Það er sjálfsagt að skoða, rýna til gagns, endurmeta og e.t.v. setja (nýjar) reglur af sanngirni og með tilliti til fenginnar reynslu. En ég er ekki sannfærð um að nein önnur mannleg mistök hafi verið gerð en þá þau að stunda ævintýraferðir yfirleitt.
Það getur líka verið hættulegt að fara yfir gangbraut á grænu ljósi.
En björgunarsveitirnar eiga lof skilið sem og þau fyrirtæki sem eru með björgunarsveitarmenn í vinnu og sleppa þeim burtu þegar nauðsyn krefur. Ég á ekki orð til að lýsa aðdáun minni þannig að nú segi ég amen eftir efninu og set punkt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 17. febrúar 2010
Kristbjörg Kjeld kom út á mér tárunum

Ein neikvæð gagnrýni kom næstum í veg fyrir að ég færi að sjá Mömmu Gógó eftir Friðrik Þór en mömmu langaði svo mikið (með mér) að ég lét slag standa. Kannski hjálpaði til hvað ég vænti lítils, en eiginlega skammast ég mín fyrir vantrú mína því að ég man ekki eftir Kristbjörgu Kjeld öðruvísi en fantafínni leikkonu. Núna fór hún langt fram úr öllum væntingum.
Mér skilst að sagan sé að einhverju leyti persónuleg, eins og á sjálfsagt við um mörg handrit. Börn náttúrunnar koma við sögu, 79 af stöðinni er skeytt saman við myndina, deCode-hlutabréf spila hlutverk, spilling, græðgi, misvitrir stjórnmála- og bankamenn. Engu er ofgert, hvergi farið fyrir strikið, oft ástæða til að hlæja sem og pakkaður salurinn gerði líka svikalaust. Svei mér ef fólk er ekki farið að láta alls konar upphrópanir eftir sér, gisp og styttri og lengri rokur.
Hilmir Snær sannfærði mig í hvívetna um að hann væri áhugasamur kvikmyndagerðarmaður, rati í fjármálum, sæmilegasti fjölskyldufaðir og einstaklega natinn sonur. Ég þekki mann sem er í þessa átt, svona út og suður, glópur að sumu leyti og snillingur að öðru. Allir geta þekkt svona einkenni í einni og sömu manneskjunni.
Kristbjörg, ó, með byrjandi heilabilun, glæsileg og gáfuð, ljúf við suma, hranaleg stundum við aðra, sjálfbjarga en samt upp á soninn komin, glöð á svipinn, jákvæð, bjartsýn og með glöggt auga fyrir fegurðinni en þegar heilabilunin færði sig upp á skaftið og hún missti valdið yfir tímanum fór gleðin úr augunum.
Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn heilabilaðan þannig að ég get ekki fullyrt að myndin hafi verið rétt en mikið er ég þakklát fyrir að mamma skyldi vera svona fylgin sér og draga mig í Háskólabíó.
Svo vona ég að RÚV virði ekki eigin hótun um að hætta að kaupa íslenskt efni því að þeir sem láta undir höfuð leggjast að sjá hana í bíó ættu a.m.k. að sjá hana í sjónvarpinu. En eigi maður 1.200 krónur sem maður er hættur að nota ætti maður að splæsa honum á myndina. Ef maður hefur sama smekk og ég.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. febrúar 2010
Almannaaðgengi að perlum landsins?
Mikið er ég sammála kollega mínum Friðriki Brekkan leiðsögumanni sem segir í Sunnudagsmogga frá ferð sinni með sjö manns í hjólastól. Viðtalið prýða margar myndir sem sýna skýrt fram á óaðgengileika fólks í hjólastól að Gullfossi, Dettifossi, Jökulsárlóni (eða var það bara svona myndrænt í texta?). Víða er möl þar sem hellur færu betur og eru kannski ekki einu sinni langt undan. Hótel sem hreykja sér af góðu aðgengi innanhúss eru kannski stútfull af möl utandyra. Og hvernig er að ýta hjólastól í gljúpum sandi?
Ef við þykjumst ætla að fjölga ferðamönnum um einhver býsn á næstu árum verðum við að gera einmitt það sem Friðrik stingur upp, hætta að tala og láta heldur hendur standa fram úr ermum. Hóllinn er ekki svo ógnarstór, það þarf bara að leggja á brattann. Eins gott bara að vera rétt búinn til fótanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. febrúar 2010
Má leita að fíkniefnum?
Í vikunni henti það að ég frétti af fíkniefnaleitinni í framhaldsskóla á bloggi en ekki í frétt. Og þar með fékk ég skoðun með fréttinni og ekki bara hreinar og beinar og jökulkaldar staðreyndir. Og mér fannst ekkert.
Fyrsta kastið fannst mér ekkert. Ég yppti öxlum. Hugsaði að mér hefði staðið slétt á sama í menntaskóla. Hef að vísu aldrei verið á svona vettvangi.
Ég kom þessu á tal við fólk. Sumum finnst alveg einboðið að gera svona nokkuð, ungt fólk þurfi aðhald, vandinn hafi hafist þegar mæður fóru út á vinnumarkaðinn og ungt fólk þurfti að sjá meira um sig sjálft, lyklabörnin urðu til og enginn var heima til að taka á móti og ala daglanga önn fyrir ungviðinu.
Öðrum fannst út í hött að brjóta á mannréttindum fólks með hundum sem hnusuðu á viðkvæmum stöðum, þetta væri niðurlægjandi. Ég hugsaði: Þeim sem hefur ekkert að fela má á sama standa þótt hundur þefi, en var samt ekkert sannfærð.
Nú er ég búin að lesa rökræður á öðru bloggi og er svoleiðis kolfallin fyrir þeim rökum sem þar birtast.
Forvarnagildið er ekkert. Rökstuddur grunur var enginn. Eftirtekjan var engin. Og hvar á næst að bera niður, í Kringlunni? Framkvæmdastjóranum gæti fundist óeðlilegt hversu margir versluðu ekki og hann gæti ályktað sem svo að fólk væri bara að leita sér að skjóli fyrir veðrinu og ætlaði ekkert að versla af því að allir peningarnir væru farnir í dóp.
Þetta er ekki orðalag frá Ævari Erni á bloggi Gísla málbeins en þótt ég geri rök hans að mínum verð ég samt að nota eigið orðalag.
-Svo mætti líka hafa nokkur orð um áhuga FB-liða á að hafa árshátíð á Selfossi, en á því máli hafði ég strax mjög skýra skoðun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. febrúar 2010
30.000 evrur
Ég er með 30.000 evrur á mánuði. Síðast þegar ég reiknaði voru það rúmlega 2 milljónir íslenskra króna. En gengið breytist mjög hratt.
Eitthvað á þessa leið sagði Finnbogi A. Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group Plc., í Kastljósinu áðan.
Seðlabankagengi evru er í dag 176 krónur þannig að mánaðarlaun forstjórans eru tæplega 5,3 milljónir íslenskra króna eins og Kastljósið benti á. Forstjórinn miðar útreikninga sína við það þegar evran samsvaraði um 70 íslenskum krónum. Og hvenær var það? Ekki 10. febrúar 2009 (146), ekki 10. febrúar 2008 (96), ekki 10. febrúar 2007 (88), ekki 10. febrúar 2006 (76) en kannski um það leyti.
Gott að hafa forstjóra sem er svona kvikur og lagar sig að umhverfinu. Og frábært að hafa forstjóra í fyrirtæki sem er bæði næmur á tölur og fyrirsjáanleg viðbrögð fólks. Allir sem horfðu á viðtalið hljóta að dásama hin óvefengjanlegu gæði forstjórans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 10. febrúar 2010
Safnakvöld vaðandi í menningu - valkvíði
Vetrarhátíð er með hóflegra sniði í ár en stundum áður. Kannski er ég þess vegna staðráðin í að láta mér ekki þennan góða feng allan úr greipum ganga. Ég man eftir að mér hafi fundist hátíðin yfirþyrmandi stór. Fullkomnunarárátta kannski, hahha, að vilja upplifa allt ...??
Hún byrjar með Kærleikum við Austurvöll á föstudag kl. 18. Svo er þetta meðal þess sem höfðar til mín:
20:30 21:15
Leiðsögn um sögu og byggingarlist Kjarvalsstaða
Leiðsögn um sögu og byggingarlist Kjarvalsstaða með Guju Dögg Hauksdóttur, deildarstjóra byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur.
---
Listasafn Einars Jónssonar
20:00 & 22:00
Leiðsögn
Leiðsögn um safnið.
---
22:15 - 24:00
Vasaljósaganga Göngum saman
Styrktarfélagið Göngum saman leiðir göngu frá Þjóðminjasafni að Vesturbæjarlaug sem verður af því tilefni opin til miðnættis. Eftir sundið er gestum boðið upp á heitt súkkulaði. Þátttakendur geta keypt skemmtileg vasaljós áður en lagt er andvirði þeirra rennur til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
---
Norræna húsið
19:00 24:00
Sýningin 52 húfur
Edda Lilja Guðmundsdóttir setti sér það markmið að hekla prjóna eina húfu á viku allt árið 2009. Skilyrði var að engar tvær húfur væru eins og að þær væru allar gerðar úr garni sem hún átti þegar til í fórum sínum.
---
Lyfjafræðisafnið
19:00 - 24:00
Lyfjafræðisafnið leiðsögn
Lyfjafræðingar verða með leiðsögn, en auk þess verður sýnt myndband kl. 20 og 22 um gamla framleiðsluhætti í apótekum. Sýning.
---
21:00 21:30Fyrsti íslenski raðmorðinginn?
Ólafur Ásgeirsson fjallar um hinn þekkta morðingja og samtíð hans. Lestrarsalur Þjóðskjalasafns Íslands, Laugarvegi 162. Gengið inn frá Laugavegi.
---
20:45 21:15Hofsstaðir - leiðsögn um minjagarðinn
Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur verður með leiðsögn um minjagarðinn að Hofsstöðum. (Fyrr um kvöldið verður fyrirlestur um landnámsmenn í Garðabæ á Bókasafni Garðabæjar). Reisulegur skáli stóð á Hofsstöðum frá landnámsöld fram á 12. öld. Minjagarðurinn gefur vísbendingu um hvernig var umhorfs á þessum stað á víkingaöld. Við minjarnar er hægt að skoða fróðlegt og skemmtilegt margmiðlunarefni sem sýnir líf og störf fyrstu íbúa Hofsstaða.
Hofsstaðir, Garðatorgi
---
Byggðasafn Hafnarfjarðar
20:00 - 20:30
Fornleifar í landi Óttarsstaða
Katrín Gunnarsdóttir, fornleifafræðingur, heldur fyrirlestur um fornleifar í landi Óttarsstaða sunnan Hafnarfjarðar.
---
19:30 - 20:30
Styttuganga um miðbæinn
Gengið verður um miðbæ Hafnarfjarðar og útilistaverkin á svæðinu skoðuð með leiðsögn. Safnast saman við Bókasafn Hafnarfjarðar, Strandgötu 1.
---
22:00 & 23:00
Rökkurleiðsögn um Árbæjarsafn. Gengið um safnsvæðið með fjósalukt.
Árbæjarsafn, Kistuhyl.
---
21:00 - 21:40
KK í stofunni á Gljúfrasteini
KK leikur á gítar og syngur eigin lög í stofunni á Gljúfrasteini. Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK hóf atvinnumennsku í tónlist árið 1985 þegar hann lagðist í götuspilamennsku víðsvegar um Evrópu eftir að hafa stundað 4 ára nám við Tónlistarháskólann í Malmö. Árið 1990 kom hann heim til Íslands og hefur síðan starfað við tónlist, hljóðritun á eigin lagasmíðum og annarra, leikhús, kvikmyndir og nú síðast sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV.
---
Úff, ég sé að ég þarf samt að velja grimmt. Og verð ekki ein um valið, mig grunar að ég mæti á alla tónleikana sem ég hef ekki hakað við.
Og allt á strætó.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 9. febrúar 2010
Kemur niðurskurður RÚV niður á ruv.is?
Í síðustu viku reyndi ég þrjú kvöld í röð að skoða dagskrá laugardags á ruv.is (nei, nei, ég er alls ekki fíkin í sjónvarp, vildi bara vita hvort ég myndi sleppa við að horfa á söngvakeppnina ...) og alltaf kom einhver villa. Svo sá ég á fjórða degi tilkynningu um að vefurinn væri í ólagi og unnið væri að ... lagi (eða hvernig sem það var orðað). Samtímis þessum tilraunum reyndi ég líka að lesa fréttir á ruv.is. Það gekk ekki þá og það gengur ekki núna.
Er skorið meira niður þarna en annars staðar? Á maður kannski aftur bara að hlusta á fyrirframgefnum tíma, kl. 7, 12:20 og 18?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 7. febrúar 2010
119.000 manna höfuðborg + sex nágrannasveitarfélög
Ef ég ætti eina ósk fyndist mér freistandi að spandera henni í að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust. Þá væri kannski hægt að skipuleggja heildrænt. Ég tel sjö sveitarfélög, í landfræðilegri röð (eins og hægt er) þessi og íbúafjöldi fyrir aftan:
Seltjarnarnes: 4.393
Reykjavík: 119.021 (273 ferkílómetrar)
Mosfellsbær: 8.463
Kópavogur: 30.395
Garðabær: 10.503
Hafnarfjörður: 26.109
Álftanes: 2.519
Samtals: 201.403
Í Árósum búa 240.000 (91 ferkílómetri) (reyndar segja sumar heimildir að fjöldinn sé kominn yfir 300.000) og í New York 8,3 milljónir (800 ferkílómetrar). Vísindavefur HÍ var beðinn um samanburð á Reykjavík og New York árið 2005 og ég spyr (mig): Hvað hindrar höfuðborgarbúa í að sameinast í stjórnsýslunni? Við losum 200.000 manns. Og ég veit svarið: Sjö smákóngar af báðum kynjum.
Ég veit ekki hvort ég myndi í alvörunni splæsa dýrmætri ósk í eitthvað sem á ekki að þurfa yfirnáttúrulega hjálp í að gera en ég óska þess í alvörunni heitt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinist. Svo mætti t.d. Grafarvogurinn vera með hverfisstjóra, sem og t.d. Hafnarfjarðarumdæmi og Mosfellsbær.
Það eru engin málefnaleg rök gegn þessu.
Það væri auðveldara að skipuleggja íbúðauppbyggingu, heilsugæslu, vatnsból, hesthúsabyggð, almenningssamgöngur, umferðaræðar, atvinnumál - og flugvöllinn burt.
Grrrr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 5. febrúar 2010
Áskrift að Al Jazeera?
Eftir að hafa horft á viðtal Riz Khans við Ólaf forseta vorn á Al Jazeera langar mig mest að gerast áskrifandi að stöðinni. Riz var einbeittur og spurði um það sem hann langaði að fá svör við, síbrosti hvorki né síhló til að lyfta andrúmsloftinu. Ólafur er léttleikandi og leið greinilega vel án þess að tönnunum væri flassað í tíma og ótíma.
Hins vegar held ég að ég yrði að fara aftur í viðskipti við Jón Jóhannesson og það fæ ég mig ekki til að gera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. febrúar 2010
Hálfum mánuði síðar - mynd Gunnars Sigurðssonar leikstjóra
Á morgun fer Maybe I should have í almennar sýningar í Kringlubíói.
Þegar ég hugsa til baka er mér eftirminnilegast hvað ég hló oft, það kom mér dálítið á óvart, og hversu margir fengu utan undir. Tímaspönnin endar ekki 6. október 2008 eða í febrúar 2009 heldur miklu nær okkur í tíma.
Heimsóknin til Transparency International var nokkuð sláandi. TI er fyrirtækið sem mælir spillingu ríkja og notar þá aðferð að spyrja embættismenn (nema það hafi verið stjórnmálamenn) hvort spilling þrífist í viðkomandi landi. Og hver borgar launin í fyrirtækinu? Ætli það séu ekki stofnanirnar sem eru spurðar!
Fer ekki að verða tímabært að horfast í augu við ófreskjuna, gangast við vandanum og leysa hann? Ég held að enginn sé alveg rólegur, ekki stóreigendur, ekki smáeigendur, ekki smáskuldarar og ekki stórskuldarar. Og menn læra norsku eins og - eins og hér verði ekki vært öllu lengur.
Er allt í lagi heima hjá okkur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. febrúar 2010
Frjáls og óháður í vinnunni
Ekki er ég þess umkomin að draga frásagnir Jónasar í efa, að hann hafi farið í félagsfræðinám til Þýskalands og m.a. lært að gera skoðanakannanir, orðið ritstjóri ungur, tekið þátt í að stofna Blaðaprent og svolítið leiðst hingað og þangað. Ég held reyndar að það megi kallast húmor þegar hann segist hafa orðið hálaunamaður án þess að ætla sér það.
Á stílnum get ég hins vegar haft skoðun og ég leyfi mér að vera ósammála Jónasi um framsetningu. Um miðja bók er ég orðin svo lúin á stakkatóinu, hver efnisgrein er áreiðanlega aldrei meira en 100 orð og stundum byrjar efnisgrein næstum á sama hugtaki eða sömu lýsingu og sú síðasta endar á. Það er eins og að hver klausa eigi líka að geta verið sjálfstæð og óháð og fyrir vikið finnst mér vanta flæði í frásögnina. Hann forðast líka frumlagið og byrjar margar setningar á sögnum eins og hann sé á ógurlegri hraðferð.
Annars er það helst að frétta að ég er búin að gera tvær tilraunir til að baka ólífubrauð (sem fæst ekki lengur í bakaríum). Fyrst notaði ég uppskrift frá Nönnu Rögnvaldardóttur og ætlaði aldrei að fá deigið til að tolla saman, endaði á því að bæta við meiri og meiri olíu og setti m.a.s. egg sem er ekki í uppskriftinni. Brauðið kláraðist leikandi þegar það var loks fullbakað.
Svo prófaði ég einfaldari uppskrift frá Tiger Foods og það var eins og við manninn mælt, það hefaðist og hegðaði sér eins og hugur minn. Það er enn að einhverju leyti óetið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 27. janúar 2010
Gagnlegur hverfisfundur
Í gær var haldinn hógvær hverfisfundur miðborgar Reykjavíkur með framsögu (eins) skipulagsstjóra, (eins) skrifstofustjóra á mannvirkjasviði og eins íbúa. Ólöf, Ámundi og Brynhildur fluttu öll fín erindi, Ólöf um almennar skipulagshugmyndir, Ámundi um fyrirhugaðar framkvæmdir og Brynhildur um framtíðarsýn. Allsnarlega rifjaðist upp fyrir mér það raunalega tímabil þegar ég átti heima í Ingólfsstræti og hraktist þaðan vegna desíbelaónæðis af Déja vu í Þingholtsstræti og eðlisbreytingar á Ara í Ögri gegnt húsinu mínu.
Ég var verulega pirruð það árið. Og það var smitandi. Arg. [Hrollur.]
Að sumu leyti heyrist mér þetta hafa versnað með lengri afgreiðslutíma, fólk fer út á götu með hrópum og brýtur glös í dögun og köllin dofna ekki fyrr en í hávaðanum af götusópnum þegar birtir ögn meira af degi.
Frekar mikið ónæði í miðbænum. En mér skildist líka að vertum hefði verið gert að draga niður í tónlistarhljóðunum til hagsbóta fyrir íbúa og einskis skaða fyrir notendur á stöðunum. Það versta sem gæti hent sölumanninn á barnum væri að fólk næði að tala saman og drykki hægar fyrir vikið þannig að það er augljóst í hverju hagsmunirnir felast. En mér heyrðist vilji borgaryfirvalda standa til þess að skrúfa frekar niður, horfast í augu við vandann og virkilega snúa hann niður.
Kannski er tortryggnin á undanhaldi hjá mér og ég of trúuð á að menn vilji vel (ég vil þá líka trúa um stund) en mér heyrðist margt forvitnilegt í farvatninu. Að vísu deildu menn um staðsetningu Listaháskólans (og starfsemi hans) og Landspítalans, og háhýsabyggingin í Skuggahverfinu var að vonum gagnrýnd en fulltrúar borgarinnar sýndust mér hlusta af skilningi og góðkynja athafnavilja.
Fundurinn hefði auðvitað aldrei orðið svona þéttur og góður ef ekki hefði allt þetta góða miðbæjarfólk mætt á fundinn og spurt gagnlegra spurninga. Skemmtileg finnst mér hugmyndin um að gera torgið á mörkum Óðinsgötu og Nönnugötu vænt fólki frekar en bílum og að koma upp nestisaðstöðu í Hljómskálagarðinum (eða var það Hallargarðurinn?) því að litlu atriðin í nærþjónustunni skipta miklu máli.
Ef ég fengi að ráða yrði síðan aðalspítalinn byggður upp í Garðabæ en ekki við Hringbraut og mín vegna mega Garðbæingar líka fá innanlandsflugvöllinn (er ekki aðalmálið að geta lent þyrlu á sjúkrahússþakinu?). Listaháskólinn færi vel við höfnina og hana Hörpu ef hún verður einhvern tímann barn í brók. Og Kristín nágranni kom með gagnlega ábendingu um að ruslaföturnar laði að sér vespur (og geitunga) í skásta sumarveðrinu og þess vegna eiga þær að vera á að giska 2 metra frá bekkjunum en ekki fastar á þeim. Ráðamönnum er nefnilega hollt að hlusta á notendur þjónustunnar, þeir vita hvað þeir syngja.
Og bók Hjörleifs Stefánssonar barst enn í tal. Það er búið að bjóða mér hana til láns og nú verð ég að ganga eftir því.
En ég vandaði mig við að þegja á fundinum enda voru nægir um hituna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. janúar 2010
Hekla er enn ógosin
Fyrir vikið þarf ég að spá upp á nýtt. Seint á síðasta ári spáði ég að Heklugos yrði í gær - en þá vissi ég ekki að Danir myndu tapa STÓRT fyrir Íslendingum í handbolta og að prófkjör skækju fréttatímana. Reyndar er Hekla vön samkeppni. Á föstudaginn heyrði ég þessa sögu að vestan:
Maður kom á bæ 18. janúar 1991 og sagði: Það voru aldeilis tíðindin í gær, Hekla gaus, menn fóru í hár saman þarna suður frá og Ólafur Noregskonunugur lést, en steininn tók þó úr þegar hundarnir á Bjólfsstöðum* ruku saman.
Hundunum hafði alltaf lynt.
Ég er enn þeirrar trúar að Hekla gjósi á árinu og nú ætla ég að færa mig nær ferðamannatímanum og ég spái af miklu öryggi gosi í Heklu mánudaginn 12. apríl, síðdegis.
Það er vætusamt fyrir austan á ritunartíma.
*Tilbúið nafn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. janúar 2010
Fasteignaverð vs. fasteignamat
Þar sem ég er að leita mér að íbúð er ég mjög áhugasöm um fasteignaverð og fasteignaverðmyndun. Þar sem fasteignamarkaður er blákaldur þessa mánuðina er varla til neitt sem heitir markaðsverð. Ég er í hópi þeirra sem trúðu ekki að verðið gæti aldrei annað en hækkað. En nú er hann risastórt spurningarmerki.
Ég er alls ekki sæl með meintan kaupendamarkað. Í fyrsta lagi langar mig ekki að kaupa íbúð af fólki sem selur út úr neyð. Og af enn meiri eigingirni verð ég að segja að auglýstar eignir eru fæstar mér að skapi. Ég er með þrjú einföld skilyrði: svæði, svalir og stofur. Og svo nokkur aukaatriði sem saman geta orðið að aðalatriði.
Ég veit um a.m.k. eina manneskju sem hringdi nýlega í Landsbankann og spurði hvort hann hefði íbúðir til sölu. Svarið var nei.
Eignir eru engu að síður settar í söluferli. Hvernig á að ákveða verðið? Mér þætti ekki óeðlilegt að líta til fasteignamats. Margar íbúðir í mörgum hverfum hafa verið fasteignaverðmetnar undanfarin ár. Við það yrði spurningarmerkið sýnu minna.
Að vísu hef ég sannreynt að jafnvel á kaupendamarkaði er fasteignamat Fasteignaskrár Íslands varhugaverð vísindi. En hvað er skárra? Og ég er mjög hugsi yfir síðustu meintu bommertu í fréttum. Hús í Skerjafirði á 75 milljónir og annað í Garðabæ á 42 milljónir. Ég fletti götunum upp í fasteignamatinu og gat ekki betur séð en að söluverð íbúðareignanna væri nálægt fasteignamatinu. Og þótt e.t.v. sé lítið að marka uppgefið fasteignamat gef ég sjálf minna fyrir mat fasteignasala sem hafa komið mér fyrir sjónir sem hagsmunaaðilar háa verðsins. Það gæti verið vegna þess að þeir fá hlutfall af söluverðinu í þóknun. Ég bið alla heiðarlega fasteignasala afsökunar á tortryggninni.
Ef einhver getur rekið þessar beisku skoðanir ofan í mig og sannfært mig um alheilindi fasteignasala lofa ég að kyngja þeim með góðum ávaxtadrykk. Kannski rúgbrauði líka. Og láta vita.
Ég get hins vegar ekki myndað mér sjálfstæða skoðun á atvinnuhúsnæði og eðlilegu söluverði þess. Áhugaleysið er bara ögn of mikið. Munurinn á 175 og 75 milljónum bendir þó til þess að einhver sé á rangferð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. janúar 2010
Maybe I should have - frumsýnd í kvöld
Að sönnu bjóst ég við að falla í einhverja stafi en sannarlega ekki yfir karlakór á Þingvöllum. Ég bjóst ekki við að myndin væri línuleg frásögn að mestu leyti, meira svona klipp hér og þar. Og ég bjóst ekki við að hún ræki svona mörgum sinn löðrunginn undir hvora kinn.
Myndin er nærri klukkutími og þrjú korter og hefði alveg mín vegna mátt halda lengur áfram.
Næsta sýning er ekki fyrr en eftir 16 daga, 5. febrúar í Kringlubíói.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. janúar 2010
Lysi?
Baggalútur tók af mér ómakið í gær og andskotaðist út í það sem ég held að sé útlensk markaðssetning, Lysi kvað seljast vel í Kína, og nú verð ég að taka Bíti Bylgjunnar út af sakramentinu af því að þau birta mínútulangar auglýsingar OG reynslusögur af inntöku þessa drykkjar.
Og fáðu þér svo rúgbrauð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. janúar 2010
Íþróttaáhugaleysi íþróttafréttamanna
Sjálf er ég mjög þjökuð af áhugaleysi um íþróttir og get aðeins fylgst með af hálfum áhuga ef félagsskapurinn er réttur. Það kemur þó ekki að sök, enginn gerir sig líklegan til að borga mér fyrir að flytja fréttir af íþróttum, hvorki einum saman né í smærri hópum ... Einu íþróttirnar sem ég stunda af sæmilegu kappi eru bringusund, skriðsund og malbiksgöngur.
Gísli málbein er hins vegar mikill hlaupagarpur og mér sýnist hann hafa áhuga á að fylgjast með fréttum af þeim íþróttum, en meintir og launaðir íþróttafréttamenn hvorki segja frá hlaupaíþróttum og öðrum vinsælum íþróttagreinum né virðast þeir líta svo til að afburðamenn í ýmsum íþróttagreinum komi til greina sem íþróttamaður ársins.
Venjulega hefði ég bara lesið þetta og kinkað kolli en yfir kvöldfréttunum gerði ég meira - ég vaktaði í báðum fréttatímunum hvort eitthvað kæmi um Reykjavíkurleikana sem m.a. torvelduðu umferð mína í Laugardalslauginni (allt fyrirgefið) - og heyrði hvorki hósta né stunu.
Er það spurning um iðkendafjölda?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)