Mánudagur, 5. apríl 2010
Bensínhreyfingar
Svo að hálfu árinu 2009 sé haldið til haga (af því að ég er að undirbúa skattframtalið):
Hjá ÓB Blönduósi kostaði bensínlítrinn þann 29. júní 175,30
ÓB Snorrabraut 26. júlí 183,30
Olís Sæbraut 27. júlí 187,80
ÓB Snorrabraut 30. ágúst 190,40
Olís Álfheimum 19. september 185,40
ÓB Egilsgötu (sama og Snorrabraut, bara nýtt nafn) 20. september 184,40
ÓB Egilsgötu 6. október 178,40
ÓB Fjarðarkaupum 24. október 185,20
ÓB Egilsgötu 3. nóvember 187,10
ÓB Fjarðarkaupum 25. nóvember 184,20
Lýkur hér að segja af bensínkaupum mínum sem ekki urðu frekari á því herrans ári 2009. Ég reyndi að kaupa bensín á gamlaársdag en vélin gleypti peninginn og lagði sig fram um að sýna mér bæði dónaskap og tómlæti þegar ég bar mig eftir endurgreiðslu. Eftir japl og jaml og fuður og tvær ferðir í höfuðstöðvarnar tókst að sækja 5.000-kallinn svo ég gæti eytt honum á bensínstöð með þjónustu.
Nú vil ég fá að kaupa rafmagnsbíl eða metanbíl - og hraðskreitt reiðhjól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 4. apríl 2010
Gott hjá Sunnlendingum
Fréttin er svo sem ekki ítarleg en svo virðist sem einkaframtakið, hugmyndaflugið og frumkvæðið (þrisvar sinnum sama hugtakið hjá mér kannski?) hafi blómstrað á Hótel Rangá og í nærsveitum.
Ég vildi alveg heyra að reikningurinn yrði ekki sendur til ríkisins þar sem tekjurnar renna guðsblessunarlega til ferðaþjónanna á svæðinu.
En ég hef tekið eftir því að svona frumkvæði er aldrei haft eftir SAF. Þau samtök ..., ég þori ekki að segja upphátt hvað ég er að hugsa. Kannski er við sjálfa mig að sakast, ég tek aldrei eftir neinu nema kvörtunartóninum en kannski er unnið blómlegt starf í Borgartúninu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. apríl 2010
Gin djöfulsins
Ég var orðin pollróleg yfir að láta enn eitt gosið framhjá mér fara. Svo skoðaði ég myndbönd Kristins Svans Jónssonar og fékk alveg fiðringinn:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. apríl 2010
Vel tímasett ráp á Þórólfsfell
Í dag eru 12 dagar síðan sprungan opnaðist á Fimmvörðuhálsi. Í gær fórum við frá Reykjavík kl. 18 til að rölta upp á Þórólfsfell vestan Markarfljóts til að sjá logana í fjarska í ljósaskiptunum. Strax á Hellisheiði undruðum við okkur á tveimur strókum sem mér skilst núna að hafi verið vegna þess að önnur sprunga hafði opnast.
Um hálfníu lögðum við í gönguna, slatta á jafnsléttu og svo aðeins á fótinn. Í miðjum hlíðum kom upphringing og við fréttum af frekari eldsumbrotum og þar með að rýming væri að hefjast í Þórsmörk og af hálsinum.
Ég er svo jarðbundin (og skynsöm) að ég var fyrst og fremst ánægð með að vera ekki byrði á björgunarsveitarmönnum. Við vorum aldrei í hættu, upplifunin var alvöru, félagsskapurinn var góður og við náðum að skála í kakói í skjóli.
Og ég hefði ekki skellt mér í útsýnisflug með E.C.A. þótt ekki hefði verið fyrsti dagur fjórða mánaðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 29. mars 2010
Skítt með söguþráðinn
Í tilefni dagsins ákvað ég að skella mér á Kóngaveg eftir Valdísi Óskarsdóttur. Fleiri fengu þessa góðu hugmynd og það var vel hálft í stóra salnum í Háskólabíói. Það finnst mér kostur, einkum ef mynd er fyndin, hlátrasköll njóta sín betur í fjölmenni.
Og mér fannst gaman. Mér sýnist hún eiga að fara á erlendan markað líka og velti fyrir mér hvort hún þjóni sem kynning á íslenskum veruleika. Ég þekki hann þá ekki, veruleika hjólhýsahverfis (í Munaðarnesi?) þar sem menn hafa lifibrauð sitt af rukkunum, vafasömum sektarinnheimtum og enn vafasamari viðskiptaháttum.
Kristbjörg Kjeld er óbrigðul og glansaði alveg sem amman með gæluselinn. Hins vegar komu mér skemmtilegast á óvart Björn Hlynur Haraldsson og Sigurður Sigurjónsson, svo gjörólíkir því sem ég hef áður séð til þeirra. Mér fannst bara ekki veikur hlekkur í leiknum, hreinskilnislega fannst mér handritið hins vegar dálítið slitrótt, eiginlega sketsar en samt drógust persónurnar skýrt upp. Við fylgjumst með nokkrum dögum í þessu dularfulla samfélagi þar sem átökin vantar ekki, togstreitu, sprenghlægileg tilsvör, skrautlega karaktera - og dramatískan hápunkt. Nú, hvað vantar þá? Hmm, [hér rýkur upp úr höfðinu á mér], bakgrunnurinn teiknast alveg í tilsvörunum, Senior sem hrynur með bönkunum og flýr úr borginni, grunnyggnin hjá Sally sem kemst þó á snoðir um að Senior geti hætt leitinni að sínum innri manni, Junior sem var listadansari, útlendingurinn (Rupert?) sem átti mjúkan innri mann þegar hrjúfa yfirborðið var skafið ofan af, Ray og Davis sem voru svo ólíkir en áttu sitthvað sameiginlegt o.s.frv. [man ekki nöfn á fleiri karakterum].
Jamm, þetta voru smágos og talsverðar hræringar út í gegn en ekki bara lokaroka.
Fjórir hlátrar af fimm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. mars 2010
28. í mottu
Tilefnið var tvöfalt afmæli með engu þema en svo urðu mottur, rottur og ljósaprelúdía þungamiðjan. Með meiru. Óskiljanlegt öðrum en viðstöddum.
Snorri fékk seríu:
Hinar motturnar rottuðu sig líka saman:
En eiginlega var þetta kvöld Marínar og Laufeyjar:
Steingrím langar að spreyta sig á kvikmyndaleik:
Svo komst meiri hreyfing á talfærin:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 24. mars 2010
BB í beinni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. mars 2010
Stóra skötuselsmálið
Þá dettur mér þetta í hug:
Uppskrift að skötusel
800 grömm skötuselur
80 grömm beikon
hvítlauksolía
hvítur pipar
Sósa:
6-10 hvítlauksgeirar, pressaðir
4 tómatar, niðurskornir
1/2-1 ferskur chilipipar, hakkaður
1/4 teskeið saffran
2 desilítrar hvítvín
1/2 desilítri olífuolía
1 desilítri fiskisoð
Aðferð:
Skötuselur skorinn í bita, beikoni vafið utan um, fest með tannstöngli. Pönnusteikt þar til skötuselurinn er tilbúinn.
Öllum hráefnunum í sósuna hellt í pott og hún látin malla þangað til hún er orðin að þykku jukki. Gott er að bera fram soðnar kartöflur og grænmeti með þessum rétti.
Og ekki er þessi uppskrift árennileg. Sjálfur er hann mun árennilegri:
Hver er þessi Óðinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. mars 2010
,,Eldglæringarnar sjást ekki greinilega enda mikið myrkur"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 20. mars 2010
Varasöm fyrirsögn
Þegar ég las fyrirsögnina Varasamt að fara í Bláa lónið hélt ég umsvifalaust að nú hefði bitvargur fundist í lóninu, hitastigið verið skaðlegt, þrengslin svo mikil að fólk hefði meitt sig, annað hvort ofan í eða í búningsklefanum, þörungarnir myndað of náið samband við sólskin marsmánaðar eða kísillinn skilið eftir sig grá för - en Daninn fékk þá bara bágt fyrir heima vegna þess að hann eyddi of mörgum krónum í að fara ofan í og rúnta svo um eldfjallaeyjuna að auki.
Vandasamt og varasamt að flytja manni fréttir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. mars 2010
Miður mottumars
Ég tapa mér alveg í margmenni þessa dagana. Mig langar svo að rjúka á hvern einasta mann með myndarlegt yfirvaraskegg og hrósa honum. Eini gallinn við átakið er hvað það er erfitt að eiga við kvikmynd Steinars á hinni forkunnarfögru síðu karlmennogkrabbamein.is. Hún stoppar alltaf í minni tölvu og þótt svo væri ekki vildi ég gjarnan hafa sleða undir til að sjá hversu löng hún er.
Svo vona ég að karlar verði ófeimnir við að leita af sér allan grun, út á það gengur þetta frábæra átak.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. mars 2010
Lissabon-sáttmálinn ... og önnur samkomulög!
Ég fékk það forvitnilega verkefni í Evrópuþýðingum í HÍ að segja stuttlega frá Lissabon-sáttmálanum. For helvede, ég vissi ekki neitt og þegar ég fór að lesa mér til gat ég varla fundið hlutlægar upplýsingar.
Staðreyndir eru þó að Lissabon-sáttmálinn er afsprengi stjórnarskrár Evrópusambandsins, þeirrar sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslum 2004. Margar aðrar þjóðir afgreiddu stjórnarskrána í gegnum þingin sín en Írar, hahha, héldu þjóðaratkvæðagreiðslu tvisvar, sögðu nei sumarið 2008 og svo já 2. október 2009.
Samkvæmt sáttmálanum munu nú aðildarríki með góðu móti geta sagt sig úr Evrópusambandinu ef hugur þeirra stendur til þess. Það var áður illmögulegt og aðeins Grænland hefur gert það (er það ekki örugglega staðreynd?).
Sáttmálinn er gríðarlegur hellingur af blaðsíðum en ég giska á að flestir lesi bara útdráttinn. Sáttmálinn er fyrst og fremst viðbætur við eldri sáttmála og vandlesinn (að mati þeirra sjálfra, sýnist mér) eins og aðrir sáttmálar.
En er treaty ábyggilega sáttmáli? Skv. ordabok.is er treaty bara milliríkjasamningur eða samkomulag. Snara gefur reyndar líka upp sáttmála. Alltaf að draga heimildir í efa og leita fanga víðar. Mér finnst reyndar skemmtilegt að sjá Amsterdamsáttmála og brusselyfirlýsingu í orðabókinni (ósamkvæmnin leynist víða). Svo tala menn um Rómarsáttmála og Maastricht-sáttmála þannig að kerfið í samsetningunni er vandséð - svona eins og Lissabon-sáttmálinn er vandlesinn.
Kannski rétt að halda því til haga að ég hef enga eigin skoðun á sáttmálunum og varla Evrópusambandinu. Umræðurnar hafa verið svo huglægar að staðreyndir liggja dálítið á milli hluta. Sjáið bara Heimssýn annars vegar og sendinefnd ESB á Íslandi hins vegar. Svo má glugga í Örlyg Hnefil (Jónsson?) sem veltir fyrir sér stöðu Íslands á hliðarlínunni og Hjörleif Guttormsson sem hefur áhyggjur af miðstýringunni. Ég tek þó fram að hvorugur þjáist af ofstæki, þeir standa bara hvor fyrir sína skoðunina.
En ég skráði mig ekki í þetta námskeið sem undirbúning fyrir starf í utanríkisráðuneytinu. Ég skráði mig vegna áhuga míns á þýðingum. Og get ekki kvartað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 13. mars 2010
Að koma fyrir kattarnef
Ég veit að ég er óttalegt kvikindi. Þess vegna hló ég upphátt þegar fréttamaðurinn sagði áðan að hér [á skjánum] mætti sjá X koma líkinu fyrir kattarnef [í sjónvarpsþætti].
Hann drap sem sagt líkið. Og það er ekkert gamanmál. En þetta var bara þáttur.
Auðvitað getur líka verið að málkennd mín sé broguð en ekki fréttamannsins. Skv. Snöru þýðir það að koma e-u fyrir kattarnef líka að útrýma e-u, ónýta e-ð.
Ég er samt frekar kokhraust í gagnrýni minni. Og ætla að hlæja að þessu annað slagið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. mars 2010
Hver eru laun flugumferðarstjóra?
Það er voða auðvelt að hrópa á torgum en vantar ekki fleiri upplýsingar inn í umræðuna um kjaramál, uppsagnir og verkföll flugumferðarstjóra? Hjá Flugstoðum fann ég ýmislegt gott um flugumferðarstjórn en auðvitað ekkert um laun.
Á að setja lög og banna þeim tímabundið að fara í verkfall eins og ég heyri fólk tala um?
Þriðjudagur, 9. mars 2010
Styrkbeiðni frá Reykjavíkurborg
Þegar ég kom út í (láns)bílinn minn áðan sá ég að styrkbeiðni frá Reykjavíkurborg hafði verið smokrað undir rúðuþurrkuna. Ég er bóngóð og ætla að styrkja borgina um 2.500 krónur en jafnframt ætla ég að kvarta yfir því að jafnræðis skuli ekki gætt. Að minnsta kosti hér.
Þegar ég kom til baka var annar bíll í stæðinu sem ég hafði lagt ólöglega í. Þar eru bílar næstum alla daga og öll kvöld. Bílum er lagt upp á gangstétt, þeim er lagt þvert á akstursstefnu, þeim er lagt á öllum mögulegum götuhornum. Og ég sá enga miða í plasti með blárri rönd. Samt veit ég þess dæmi að bíll hafi fengið stöðubrotssekt á föstudagskvöldi þannig að einhverjir starfa fram eftir.
Mér er ánægja að því að láta þetta lítilræði renna til Bílastæðasjóðs en fyrst hann er í fjáröflun ætti einhver að benda honum á að Þingholtin eru matarkista.
Svo mætti borgin bæta almenningssamgöngur því að ég þá hefði ég t.d. ekki þegið (láns)bílinn. Og þá væri ekki eins tilfinnanlegur skortur á bílastæðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 7. mars 2010
Landið eitt kjördæmi?
Ef mér skjöplast ekki var landið eitt kjördæmi í gær. Er þá ekki hér með komin hefð á svoleiðis kosningar líka? Jafngild atkvæði um land allt? Einn maður með eitt atkvæði?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 5. mars 2010
Á morgun er 6. mars
Og þá er einmitt síðari dagurinn á vænlegu Hugvísindaþingi 2010. Mér finnst þessi setning forvitnileg:
Ef skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður komin út, verður höfð hliðsjón af henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. mars 2010
Hannað og bannað í umhverfinu
Þegar sumir tala um list hugsa þeir augljóslega - sést á hugsanabólunni sem birtist fyrir ofan þá - um heysátur sem morkna, brauð sem myglar í útstillingu, abstrakt málverk sem segir þeim ekkert, niðurgreidda tónleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni eða annað sem þeim finnst auðvelt að gagnrýna. Ég vildi að nú hefðu fordómarnir tekið af mér völdin en því miður veit ég með vissu að þetta er tilfellið með suma. Ég gæti nafngreint nokkra einstaklinga en sé ekki tilganginn með því.
Mér finnst sum list líka hrikalega óspennandi, er ekki listlærð og hef smekk sem er sennilega bara andskotanum persónulegri. Og margir gætu sagt það sama og ég.
Ég renndi yfir lista þeirra sem fá listamannalaun 2010, vel að merkja kr. 266.737 á mánuði, og þekkti flesta rithöfundana, nokkuð margt sviðslistafólk og örfáa aðra. Ekki persónulega, heldur bara sem listamenn. En ætli háværustu gagnrýnendurnir hafi gefið sér tíma til að velta fyrir sér hvað þessar 200 manneskjur gera ár hvert?
Allt í umhverfi okkar er skapað og hannað á einhvern hátt. Bollinn sem við drekkum kaffið úr, sófinn sem við sitjum í, skórnir sem flytja okkur út úr húsi, já, og innanhúss líka, settið sem blasir við í sjónvarpinu, 500-kallinn, sundlaugin, búningsklefarnir, sundbolurinn, Benzinn, gleraugun, vefsíðurnar, bókakápurnar, vörumerki o.s.frv.
Við kveikjum á útvarpinu og hlustum á lag sem einhver hefur samið og útsett, komið í útgáfuhæft form og hannað umbúðirnar utan um. Rétti upp hönd sá sem vill tónlistarlausan heim.
Öll þessi færni á bak við alla þessa framleiðslu krefst þekkingar og vinnu. Menn þurfa að reka sig á, sumir verða aldrei frambærilegir, sumir verða aldrei mér að skapi en heilt yfir þokar þróun í listsköpun og hönnun okkur fram á veginn.
Jakob Frímann mætti í Ísland í bítið í morgun og sannfærði mig að auki um hagrænt gildi t.d. tónlistar sem endurspeglast í hinni árvissu Iceland Airwaves tónlistarhátíð sem laðar til landsins fjölda ferðamanna sem kaupa gistingu og ýmsa aðra þjónustu.
Mín vegna má alveg gagnrýna listamannalaunahafa. Á þeim hef ég enga sérstaka skoðun en ef valið ræðst af klíkuskap finnst mér hann jafn ömurlegur og annars staðar. En trúlega verður huglægi þátturinn alltaf með í svona vali. Í síðustu viku fékk göngubrú yfir Hringbraut verðlaun frá Steinsteypufélagi Íslands fyrir framúrskarandi steinsteypt mannvirki á síðustu fimm árum. Mér finnst þessi brú skemmdarverk og á því miður oft leið þarna yfir þetta forljóta ferlíki. Hef ég rangt fyrir mér? Hefur Steinsteypufélag Íslands rangt fyrir sér? Hafa menn spurt sig um kostnaðinn þar? Hafa menn áhyggjur af bruðlinu og hvort útkoman sé þeim að skapi?
Nei, sannarlega mega menn gagnrýna ef þeir rýna til gagns. Ég vildi bara óska þess að þeir myndu að allur andskotinn sem við höfum fyrir augunum og í eyrunum dagana langa er hannaður af kunnáttufólki.
Svo hef ég vitaskuld skoðun á Þráni og Þráni en eitthvað verður maður að hafa fyrir sig ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 2. mars 2010
Er sjósund málið?
Ef maður þarf að ögra sér held ég að rúntur út í Nauthólsvík gæti verið skynsamlegur. Bað í köldum sjó kvað víkka út æðar (hmm) og vera meinhollt, hreinlega á við íþrótt þótt sundtökin séu fá.
Kannski fullkalt samt í mars, ha?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 28. febrúar 2010
Viðbragðsstaða - biðtími - leiði - uppgjöf
Þetta truflar mig í frétt Eyjunnar:
... íslenska samninganefndin í Icesave málinu er nú í viðbragðsstöðu í Bretlandi ef til nýrra viðræðna kemur. Óformleg samskipti hafa átt sér stað en ekki hefur boðað til formlegs samningafundar í dag.
Íslenska samninganefndin fór aftur til Bretlands í gærmorgun eftir að Bretar sendu þau skilaboð að þeir væru reiðubúnir að ræða tilboð Íslendinga í Icesave málinu.
Auðvitað er fórnarkostnaður í þessu flakki og tímadrápi og það er nógu slæmt en væri ekki eðlilegra að koma sér saman um fundartíma - og velja svo hlutlausan fundarstað? Helst Þórshöfn í Færeyjum eða Svalbarða en annars kannski Gautaborg þar sem hvorugur aðili er á heimaslóðum?
Viðsemjendur okkar virðast hafa forskot þegar þeir ráða stað og tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)