Miðvikudagur, 5. maí 2010
Rokk Hugleix rokkar
Sú var tíðin að ég var virk með áhugaleikfélagi sem heitir Hugleikur. Það er ekkert svo langt síðan og auðvitað mæti ég áfram á sýningar. Í kvöld sá ég Rokk, þekkti bara tvö nöfn og andlit (af 11) og hló og hló. Leikritið á að kæta þannig að það virkaði. Svo er þetta fólk svo hæfileikaríkt, syngur og spilar á allrahanda hljóðfæri. Að minnsta kosti fullyrti leikstjórinn (sem ég guðsblessunarlega þekki enn) að það væri ekkert plat.
Mig furðar ekki að sýningin hafi verið valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins 2010 (sjálf hef ég að vísu ekki séð hinar sem voru tilnefndar en geri ráð fyrir að valnefndin hafi gert það). Leikgleðin skein líka af öllu og öllum.
Drífa sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. maí 2010
Þuluskortur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 3. maí 2010
Gamaldags karaókí
Opus söng Live is Life (og dýpri merking var ekki í textanum) fyrir svo löngu síðan að YouTube getur ekki birt raunverulegt myndband.
Tek það til baka ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. maí 2010
Reyktur makríll
Ég gleymdi að mæta í kröfugöngu og við ræðuhöld í gær. Ég fór hringinn um landið í Perlunni og smakkaði grafið hrossakjöt og hrossakjöt í wasabi - og ekki sístur var reyktur makríll. Íslenska eldhúsið lætur ekki að sér hæða og vonandi rápa hingað margir útlendingar í sumar og njóta góðs af snilld og hugmyndaauðgi íslenskra kokka.
Kaffið af Suðurnesjunum rann líka ljúflega niður - og byggottó er nýjung sem ég gæti vel hugsað mér út í AB-mjólkina mína á morgnana (með kanil) eða með steikinni á kvöldin (ósætt).
Og þar gat að líta ferðamálafulltrúa Hafnarfjarðar sem mændi hlæjandi á víking úr Fjörukránni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. apríl 2010
Ljótt að stela
Ef maður getur heimilda er hægt að réttlæta ritstuldinn, eða hvað?
Kjartan Hallur sér ekki betur en að prestskapurinn sé gjörsamlega kirkjustaður og prófastur í fortíðinni
Mér finnst að nú hljóti menn að fara að gera alvöru úr að aðskilja ríki og kirkju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 29. apríl 2010
Blómlegir akrar Víkur og nærsveita
Sjálfsagt eru allir löngu búnir að hugsa þetta og finnst þeir ekki þurfa að tjá sig opinberlega eins og ég en áður en við numum land á Thule/Garðarshólma/eyjunni bláu var hér eldvirkni. Samt voru blómlegir hagar víða um Suðurland sem, öhm, aska og annað eldfjallagull hafði dreifst yfir öldum saman.
Og ég er einmitt nýbúin að heyra talað um næringargildi öskunnar þannig að - bingó! - land mun rísa á ný. Um síðustu helgi fóru síðan 100 starfsamir einstaklingar og mokuðu og báru og ruddu og urðu að gagni - þannig að það er von.
Líklega eru þá tækifæri í hörmungunum.
Nema náttúrlega nú vantar ferðamennina til að njóta alls þessa með okkur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. apríl 2010
Upphitun fyrir stúdentsafmæli
Alicia Keys hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 27. apríl 2010
Hún lifir
Eins og menn spáðu ber rannsóknarskýrslu Alþingis stöðugt á góma. Í dag hitti ég fyrrum samkennara í sundi sem sagðist vera á leið í bústað um næstu helgi og ætlaði að taka 7. og 8. bindi með sér. Og a.m.k. eitt kvöldið sem upplesturinn góði stóð yfir í Borgarleikhúsinu festust þau hjón yfir tölvunni, gátu ekki hætt að hlusta.
Eintakið mitt bíður sumardaganna og garðstólsins. Að sumu leyti verður sagan kunnugleg en ég giska á að mér þyki það ekki skaða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. apríl 2010
Bálið brennur
Aftur er kviknað í jöklinum sem ég held að viti á gott. Þá rennur frekar hraun en að askan þyrlist um og leiti sér að þotuhreyflum. Undanfarna daga hef ég komist að raun um að ég þekki býsna marga á faraldsfæti - eða sem ætluðu að vera á faraldsfæti. Ef ég væri guðhrædd myndi ég nú í fúlustu einlægni (og guðhræðslu) biðja voða fallega um betri tíð með blóm í haga. Ég hef áhyggjur af ferðaþjónustunni, og ekki bara á Íslandi, gisti- og afþreyingarfyrirtæki um alla Evrópu eru í uppnámi.
Alveg eins og mér blöskraði þegar fiskihagfræðingur lagði til árið 2007 að þorskveiðar yrðu lagðar á hilluna í þrjú ár af því að atvinnulífið stæði svo vel. Gva? Maður slær ekki atvinnulífinu á frest og biður starfsfólk greinanna að hvíla á hillunni í þrjú ár, ekki einu sinni eitt, og taka svo til óspilltra málanna.
Og af því að ég er orðin alveg úthverf í tilfinningunum verð ég að bæta því við að ég dáðist að skóflurunum undir Eyjafjöllum sem ég sá í fréttunum í gær. Hraustmenni, innan dyra og utan. Þegar svona gerist erum við ein þjóð í einu landi, stétt með stétt ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 25. apríl 2010
Atvinnuleysi er ekki sama og iðjuleysi
Við höfum alltaf hreykt okkur af atvinnuástandinu á Íslandi (sjálf sek þegar ég hef sagt við ferðamenn að hér hafi gjarnan verið neikvætt atvinnuleysi, skortur á fólki). Nú eru margir atvinnulausir sem hafa engan áhuga á að vera án atvinnu en ef hugarfarið væri að í atvinnuleysinu fælust tækifæri myndu ábyggilega fleiri sjá þau í stað vonleysis.
Eins hefur lenskan verið að eiga sitt eigið húsnæði. Alveg væri ég til í að vera í leiguhúsnæði en finn að ég er enn undir þeirri átt að maður eigi að eiga sitt eigið húsnæði. Og á vorum dögum er náttúrlega svo þversagnakennt að tala um að eiga húsnæði sitt þegar stórir hópar skulda mun meira en fæst fyrir eignina á markaði.
Daginn sem rannsóknarskýrslan var kynnt, 12. apríl, stóð Seðlabankinn fyrir málstofu um skuldastöðu heimila á Íslandi. Samkvæmt glærunum eru margir í vanda og nú þætti mér gaman að vita hvenær fjölmiðlarnir ætla að taka við sér og fjalla um þær upplýsingar sem Seðlabankinn sannanlega sendir frá sér.
Fólk vill ekki vera eigna- og atvinnulaust en þegar botninn er fundinn er hægt að spyrna frá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 22. apríl 2010
Af hverju ævisögur skálda?
Eftir að hafa séð The Habit of Art í kvöld sem fjallar um Wystan Hugh Auden (1907-1973), breskt skáld og þýðanda sem m.a. lagði leið sína til Íslands, spyr ég mig hvers vegna skrifaðar eru ævisögur um fólk sem hægt er að kynnast í gegnum verk þess.
Ég vissi bara í kvöld að ég var að fara að sjá leikrit á bíóskjá og þekki ekkert til Audens en ef hann var svona mikilvirkur þýðandi og vinsælt skáld ætti kannski að láta sitja við að lesa verkin og sleppa því að draga upp mynd af honum akfeitum í mölétinni gollu sem allir hafa snúið við baki.
Þetta var samt ævintýraleg sýning send úr National Theatre í London.
W.H. Auden til hægri, árið er 1939.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. apríl 2010
Jökullinn logar sisona
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. apríl 2010
,,Svo fólkið í landinu geti talað saman"
Glöð skal ég kokgleypa alla tortryggni mína þegar tækifærið býðst en þegar Alterna sækist eftir markaðshlutdeild í símanotkun Íslendinga með orðalaginu að ,,fólkið í landinu" eigi að geta talað saman finnst mér talað niður til mín.
Viðhorf mitt felur náttúrlega í sér fordóma, glámskyggni og hugsanlega útlendingaótta en hvað veit ég um heilindi IMC WorldCells, Róberts Bragasonar og Þorsteins Baldurs Friðrikssonar? Svar: Ekkert. Heilindi þeirra geta verið ómæld en ég er engu að síður tortryggin.
Skömmu eftir bankahrunið 2008 flaug ég eitthvað ein míns liðs. Í flugstöðinni á leið heim rétti maður mér nafnspjald og vildi augljóslega nota tækifærið til að kynna mér einhverja vöru sem hann ætlaði að reyna að selja á Íslandi, kannski hollustuvöru, ég man það ekki. Ég fékk þá háværu tilfinningu að maðurinn væri hrægammur og ég illa lyktandi nár. Og nú líður mér aftur svona eða kannski eins og viðfangi sem hefur verið þrætt upp á lyklakippuhring með hinu ,,fólkinu í landinu".
Ekki eru allir útlendingar eða allt sem kemur frá útlöndum sjálfkrafa velmeinandi og mér að skapi.
En kannski vakir ekkert annað fyrir Alternu en að bjóða upp á eðlilega samkeppni og vonandi hef ég svo kolrangt fyrir mér að það drynur í Þingholtunum þegar hið sanna kemur á daginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. apríl 2010
Kötlugos 1755
Svo mæltu Eggert og Bjarni 1756:
Þegar við vorum á heimleiðinni hinn 6. október yfir Síðu og Álftaver, skall á okkur um kveldið niðaþoka með miklu öskufalli, en sólskin hafði verið um daginn og heiður himinn yfir þokumekkinum. Vindur var á og nokkurt frost. Askan kom frá Kötlugjá, og réðum við það af öskufallinu, að hún væri enn á ný tekin að gjósa. Loks rakst þó fylgdarmaður okkar í myrkrinu á Herjólfsstaði, stóran eyðibæ. Daginn eftir var eitt hið leiðinlegasta veður, sem við höfðum lent í. Enda þótt himinn væri kollheiður og sól skini, var þokan samt svo svört, að við sáum aðeins örfá skref frá okkur. Mistur þetta stafaði af rauðgrárri ösku, og þar, sem hún komst í koffort okkar, varð allt svart í þeim. Askan smaug einnig gegnum föt okkar og inn á okkur bera. Við urðum svartir í andliti, og til sönnunar því, að við urðum að anda henni að okkur, hvort sem það var okkur ljúft eða leitt, var það, að allt, sem við hræktum úr okkur, var kolsvart. Hestarnir gátu hvorki bitið né haldið augunum opnum. Tveir þeirra urðu blindir, af því að augnlokin greru saman. Við neyddumst að lokum til að fara inn í hinn auða bæ.
Það er bara svo undarlegt að sitja í Reykjavík, 150 kílómetra vestur af eldgosi sem gerir flugfarþegum um hálfa Evrópu lífið leitt, og hafa ekki náttúrufræðilega hugmynd um það, heldur allt sit vit úr fjölmiðlum. Fyrir tveimur öldum voru samgöngur lélegar og fjarskiptatæknin hálfu lélegri þannig að menn á Vestfjörðum þurftu ekki að vita af náttúruhamförum annars staðar á landinu fyrr en ári síðar ef því var að skipta.
Og vestur í Bandaríkjunum - sem ósköpin bitna ekki á - kennir hundtrúaður Limbó Bandaríkjaforseta um! Hefur sitt litla vit úr misvitrum fjölmiðlum og frá prítvatguði sínum.
Ég vorkenni mest hestum sem súrnar í augum og fuglum sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Og ég finn líka til með þeim sem eru búnir að vinna í sveita síns andlitis við að rækta upp tún og sjá þau núna verða undir drullu og íshröngli. Og fyrst ég er farin að opna mig svona verð ég að bæta við að ég er gallsúr fyrir hönd ferðaþjónustunnar á Íslandi sem og á meginlandi Evrópu sem situr uppi með pantanir og fólk sem kemst ekki til að standa við þær.
Svo eru nokkrar dagsetningar sem leiðsögumenn verða að leggja á minnið:
30. desember 2009
5. janúar 2010
6. mars 2010
20. mars 2010
12. apríl 2010
14. apríl 2010
Hangir þetta ekki allt saman við hana Ísbjörgu og aðrar syndir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. apríl 2010
,,Að morgni 29. september ..."
Þar er upplesturinn í Borgarleikhúsinu staddur. Og árið er 2008. Ég er ekki frá því að Halla Margrét sé komin með ögn af drama í röddina. Þetta er helgin sem gengur undir nafninu Glitnis-helgin.
*svitn*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. apríl 2010
Halldór Gylfa og Halldóra Geirharðs
Ég er eindregið að hugsa um að láta leikarana í Borgarleikhúsinu skemmta mér fram á nótt. Halldór og Halldóra eru nýbúin að lesa danskar tilvitnanir og skemmta mér, sjálfum sér og auðheyrilega gestum í sal mikið og vel.
Halldór er líklega á blaðsíðu 218 núna. Er skýrslan ekki 2.600 síður? Lestrinum gæti lokið um hádegisbilið á laugardag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. apríl 2010
Gott að ná að klára þessa bók áður en 2.000 blaðsíðna bókin kemur út á morgun
Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna stóðu nær undantekningarlaust með kvótahöfunum. Þeir vissu sem var, að snerust þeir gegn þeim, væri stjórnmálaferli þeirra lokið. Það er gömul saga og ný, að atvinnurekendur á landsbyggðinni hafa mikil áhrif á skoðanamyndun í sínu nánasta umhverfi. (bls. 206)
Við höfundur eigum ekki samleið í kommunum, fjöldi þeirra í bókinni gengur eiginlega fram af mér. Þegar höfundur vitnar í texta annarra bætir hann í en ég leyfi honum að hafa sinn texta óbreyttan.
Dulkóðun? Nei.
Hins vegar væri ég til viðræðu um upptöku zetunnar á nýjan leik. Ég held að hún myndi gleðja marga.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 9. apríl 2010
Ég spáði Heklugosi 12. apríl ... (í janúar)
Skyggnigáfu minni er viðbrugðið. Segi ég. Engu að síður er það ekki lengur Hekla sem ég reikna með að gjósi á mánudaginn. Eftir hádegi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. apríl 2010
Veggjöld
Í stóru og strjálbýlu landi hef ég enga trú á að menn geti rukkað veggjöld án þess að eyða megninu af tekjunum í innheimtukerfið. Þess vegna held ég að engum geti verið alvara með þetta (nema kannski Jóni Gnarr sem hefur ekki verið spurður) og eftir hæfilegan tíma verður eitthvert annað gjaldkerfi (eldsneytisskattur eða eitthvað slíkt) tekið upp án þess að nokkur æmti.
Svona gjaldtaka hefði sáralítil áhrif á heimakæru mig þannig að hagsmunir mínir valda ekki efasemdunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. apríl 2010
Dramalausir kjúklingar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)