Víst er fiskbúð á Akureyri

Í gær bráðvantaði mig skötusel, hörpudisk, humar, þorsk, steinbít og/eða rækjur og fór í tvær fiskbúðir í Reykjavík. Sú sem er í næsta nágrenni við mig er með lokað til 10. ágúst - sem hentaði aldeilis ekki - þannig að ég fór í búð sem Ásgerður hafði mælt ógurlega með í Gnoðarvoginum. Hún reyndist bara opin virka daga þannig að ég hrökklaðist inn til óvinarins, stórmarkaðanna. Í Bónus var tiltölulega fátæklegt úrval, í Hagkaupum ekkert sem ég fann og í Krónunni skást.

Svo var ég að lesa þriggja daga gamalt Fréttablað áðan, bakþanka dr. Gunna á fimmtudaginn þar sem hann segir í einni línu að engin fiskbúð sé á Akureyri. Döö, minn kæri, það þarf ekki einu sinni að gúgla til að finna fiskbúð á Akureyri, það er nóg að fletta í símaskrá.

Súpan bragðaðist vel.

Jóhanna eys, Ásgerður og Laufey fylgjast spenntar með 

Tek fram að myndin segir ekkert um kætina ...


Þegar nördinn hitti systur sína

Þrátt fyrir mjög gott frí í Danmörku hef ég saknað þess að fylgjast með öllu atinu heima. Ég náði dálítilli tengingu þegar ég stillti á beina útsendingu frá Alþingi og lét Snorra giska á hver talaði. Það þótti mér gaman en bæði eiginkonu hans og systur þótti sem þar hefði nördinn hitt systur sína, eða ömmu eftir atvikum. Verst var að sumar ræður voru of langar til að veruleg spenna skapaðist í getraunaleiknum.

Svo finnst mér rétt að geta þess að veðrið á Íslandi er til mun betra en í Árósum.


Loftpeningar

Ef peningarnir voru til eru þeir einhvers staðar til. Ef þeir eru ekki til eru skuldirnar ekki til.

Hvenær á að fara til Tortólu að sækja peningana sem ég trúi að séu til? Er enginn endir á þessum brottflognu sjóðum?

Við þurfum að framleiða meira, selja meira og kaupa minna - byrjum núna.


Jákvæðar afleiðingar kreppunnar

Nú thegar gjaldeyrir er orðinn svo gargandi dýr fer maður a leggja meira upp úr øðrum hlutum, rølti um gøturnar og spjalli við næstu nágranna. Thá er nú aldeilis thénugt að finnast gaman að tala. Ég get ekki með neinni sanngirni kvartað ... lallallala.

Vek athygli á að thað kostar 200 íslenskar krónur undir póstkort til Íslands.

Svo fylgjumst við með øllum fréttum í stað thess að fara á tónleika. Einhver er hvort eð er búinn að borga fyrir nettenginguna. Lallalalla.


Tvítyngi

Ég hef verið mjøg gagnrýnislaus thegar fólk talar um að børn verði tvítyngd við að alast upp við tvø tungumál. Undanfarna daga er ég búin að hitta urmul barna í Danmørku sem eiga íslenska foreldra og ég get ekki heyrt að børnin hafi fullkomið vald á tveimur tungumálum. Gildir thá einu hvort thau eru a máltøkualdri eða eldri. Tungumál landsins er mjøg ráðandi thótt thau geti vissulega brúkað bæði málin. Thau leggja sig fram og foreldrarnir eru hvetjandi en thau thurfa að hugsa sig vel og vendilega um.

Eða hvað meina menn með tvítyngi?


Krónan að styrkjast?

Ég get ekki betur séð en að íslenska krónan sé aðeins ad sækja í sig veðrið. Enda ef ekki er ég sannfærð um að okkur sé viljandi haldið heima. Kaffibollinn í Danaveldi kostar virkilega heilan helling og líka ferð í stórmarkaðinn.

Ferðaløg innanlands eru kannski framtíðin? Ég held að thau séu a.m.k. ekki enn alveg orðin thað, ekki tróðu Íslendingarnir mér um tær thegar ég sat svo gott sem á miðjum thjóðveginum í síðustu viku með laskaðan bíl - útlendingar stoppuðu hins vegar í stríðum straumum og buðu mér aðstoð.

En mikið verður gaman að mæta í brúðkaup Unnar og Allans í dag.


Bólgnir seðlar

Launin mín sexfölduðust á árabilinu 1995 til 2007 enda jók ég við mig menntun og starfsreynslu á sama tímabili. Mér finnst það mikið, enda er ég ósköp nægjusöm. En hvernig má það vera að ein þyrla, ein húsbygging þótt hún sé stór, ein bankastjóralaun eða eitt kúlulán mörghundruðfaldist? Er það efniskostnaður? Óráðsía? Græðgi? Eða er þörfin svona gegndarlaus?

Á þessum tíma lækkaði nefnilega ýmis kostnaður, örbylgjuofnar urðu ódýrari, farsímar, tölvur o.fl. raftæki, í ljósi þess að framleiðslugetan varð meiri og fleiri tæki seldust sem gerði seljendum kleift að lækka verð á hverju stykki.

Ég held að við höfum verið of gagnrýnislaus á tölur - og það þótt við höfum verið gagnrýnin í bland. Tónlistarhúsið á að kosta 13 milljarða, fer upp í 20 milljarða, kostnaðaráætlanir standast aldrei þegar við erum komin upp í milljarðatölur, eins og það sé enginn marktækur munur á einum milljarði eða tveimur, 100 eða 200.

Heilbrigð gagnrýni er þörf og við lögðum hana til hliðar. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson fengu bágt fyrir hjá almenningi þegar þeir ætluðu að skammta sér ríflega kaupréttarsamninga um árið, en strax árið á eftir var úthald gagnrýninnar þrotið. Þeir hröktu mig þó frá Búnaðarbankanum og ég sé ekki að ég geti fyrirgefið þeim framkomuna. Ég get ekki skilið að þeim líði vel í skinninu á sér, en mér finnst ekki nóg að þeir finni vanþóknunarglampann þegar þeir hætta sér út á götu. Mér finnst að þeir eigi að skila sjálftökunni. Löglegt eður ei, þeir eru sjálftökumenn og sölsuðu undir sig peninga nytsamra sakleysingja.

Þetta lá mér á hjarta þótt ég viti að allir séu búnir að átta sig á þessu. Helv. þjóðarskuldir.


Bílferðin

Það var gaman að taka rútu út úr bænum. Og nú er ég búin að komast að því að það var líka ódýrt.

Í dag keyrði ég suður á lánsbíl. Eftir 40 kílómetra kom slinkur á bílinn, ég lagði í kantinum og sá að annað framdekkið var algjörlega á förum. Verkstæðinu hafði láðst að herða rærnar.

Þetta þýddi símtöl, viðsnúning, töf - og kostnað. Að ógleymdu stressinu (sem þjakaði reyndar aðra meira en mig).

Svo keypti ég bensín. Ég ætlaði að kaupa bensín í Víðigerði af því að bróðir minn heldur þar til og heilsa upp á hann í leiðinni. Þegar ég lét mig renna - segi og skrifa á sjálfskiptum bíl - niður Bólstaðarhlíðarbrekkuna kviknaði bensínljósið. Ég þorði ekki annað en að setja sopa á bílinn á Blönduósi. Hann var fljótur að klárast. N1 leyfði mér ekki að prenta kvittun og ég man ekki lítraverðið, hjá ÓB kostar hins vegar lítrinn 175,30 krónur.

-Það er gott að ferðast á fæti þótt helgin hafi auðvitað verið skemmtileg.


Skoða fyrst og borða svo

Í hvalaskoðunarferð með þýska ferðamenn sannreyndi ég að sumum ferðamönnum finnst fara vel saman að skoða fyrst og borða svo. Þegar við sáum inn í Hvalfjörðinn benti ég þangað og sagði hvað hann héti og bætti við að þangað inn væru dregnir þeir hvalir sem veiddust. Og á augabragði var ég spurð hvort þau fengju að sjá. Á daginn kom að ein hjónin höfðu borðað hrefnu kvöldinu áður og önnur áttu pantað sama kvöld.

En auðvitað þýðir ekkert að veiða hvali nema það sé markaður ...


Stígagerð og gígagerð

Mér hefur löngum þótt lítt eftirsóknarvert að fá hingað milljón ferðamenn á einu ári en ef það blasir samt við sem veruleiki framtíðar þarf að leggja stíga og bæta aðstöðu, t.d. með fleiri klósettum. Salernisferðir eru ekki skemmtilegt umræðuefni en fólki finnst heldur ekki gaman þegar einhver gengur örna sinna bak við tré. Þess vegna þarf að fá gott fólk til að búa í haginn og taka svo opnum örmum á móti gjaldeyrinum.

Þegar ég kom heim frá Brussel um daginn var ósköp vesöl útlensk kona að leita að bílaleigubílnum sínum í Leifsstöð og spurði Laufeyju hvar H væri. Laufey hljóp um allt bílastæði til að liðka til fyrir konunni þannig að henni fyndist hún velkomin í landinu. Og við vorum öll sammála um að það væri lágmark að sýna aðkomufólki alúð þannig að orðspor okkar yrði okkur í hag.

Og í dag heyrði ég frá hópi Evrópubúa að Icespor Íslendinga væri að öðru leyti nokkuð vafasamt.

Bætum stíga og gíga!


Laugavegurinn í sólskini

Allt horfir til betri vegar í fallegu veðri. Ég hitti gamlan skólafélaga á Laugaveginum sem ég gekk niður hann og þrátt fyrir að sólin færðist yfir götuna á þessum 20 mínútum sem krufning Íslands tók vorum við sammála um að við værum ágæt og að íslensk fold risi úr sæ á ný.

Eins gott að Siggi stormur hafi ekki farið með fleipur í útvarpinu í morgun þegar hann sagði að öllum spákortum bæri saman um að sólarhelgi færi í hönd um allt land. Líka á golfvöllunum og í skógarrjóðrunum. Væntanlega líka þá á austursvölum Ármanns og norðursvölum Matta.

Mætti ég biðja um þægilega útivinnu í góðviðrinu, t.d. leiðsögn um hvalalendur?


Biðlaun og annar launakostnaður

Eru biðlaun rétthærri en önnur laun? Er ekki hægt að svipta vafasama einstaklinga biðlaunum af sanngirnisástæðum?

Bara fræðileg spurning ...


Noget for noget eftir Önnu Grue - Samviskulaus glæpur

Hún fór hægt af stað eins og hendir bækur sem verða æ meira spennandi, alls konar fjölskyldu-, vina- og nágrannatengsl kynnt til sögu. Ég skildi það síst fyrir þær sakir að sagan var kynnt sem þriller. Á síðari stigum var svo óforvarandis framið samviskulaust morð sem minnti mig á Glæp og refsingu og eftir það var erfitt að einbeita sér að öðru.

Eins gott að gleypa í sig einn danskan reyfara áður en maður fer að brúka dönsku í brúðkaupi.


Sendum Hafdísi Huld í Júróvisjón

Lagið um kóngulóna kemur mér alltaf í gott skap, það hlýtur að vita á eitthvað. (Og ég meina ekkert með boðhættinum - hann hljómar bara betur í fyrirsögn.)

Að auki legg ég til að Ármann verði sendur sem kynnir - þá lofa ég að horfa OG HLUSTA.


Prjónaklúbburinn

Að prjóna er góð skemmtun - í höndum sumra. Ég var að klára Prjónaklúbbinn eftir Kate Jacobs sem fjallar vissulega um prjónaskap en bara sem umgjörð utan um vináttu, tengslanet í New York, einstæða hvíta móður svartrar stúlku og vinskap þvert á stéttir, aldur og kyn. Og ef það er eitthvað að marka þessa bók er mjög erfitt að vingast við fólk í New York. Þá kemur prjónaklúbbur á föstudagskvöldum sterkur inn ...


Gagnsæi sykraðra mjólkurvara

Nú sit ég hér og borða Frútínu sem Mjólkursamsalan framleiðir. Hún er með viðbættum 2% ávaxtasykri og 3% hvítum sykri. Hún kostaði 75 kr. í vikunni. Hvað mun hún kosta eftir 1. september?

Mér finnst að ég ætti að geta reiknað þetta út. Get það ekki. Og ég þori að hengja mig í hæsta gálga að einhverjir munu nota tækifærið í september til að hækka vöruna sína óeðlilega mikið með tilvísun í hækkaðan virðisaukaskatt. Og þá - þá reynir á hvort neytendur greiða atkvæði með buddunni. Þá reynir á hvort neytendur veita aðhald. Þá sést kannski úr hverju við erum.

Vonandi erum við rúgbrauð en ekki franskbrauð.


Nammi vs. ávextir

Verður hollusta ekki örugglega gerð ódýrari? Mér fyndist t.d. að mangó, ananas, melóna og kíví mætti lækka í verði.

Hlaupist undan ábyrgð

Nýlega frétti ég af hlaupara í Laugardalnum sem hljóp í flasið á uppgjafaauðkýfingi sem sló á létta strengi og sagði: Það er bara verið að hlaupa. Skokkarinn svaraði að bragði: Maður þarf að hlaupa undan skuldunum.

Er bara orðin spurning um hver er fráastur á fæti á þessum síðustu og verstu?

 


Afeitrun

Um helgina hitti ég á förnum sveitavegi kunningjakonu sem sagði mér að hún hefði farið í afeitrun til Póllands í janúar. Hún lét vel af dvöl sinni en það merkilegasta þótti mér að hreinsunin er svo algjör og aukaefni svo bönnuð að gestir Jónínu fengu ekki að mála sig - látum það nú vera - en heldur ekki að þvo sér með sápu OG EKKI BURSTA TENNUR.

Og nú vildi ég mega senda a.m.k. einn fyrrverandi bankastjóra í afeitrun. Ætli hann kynni ekki m.a.s. að meta það.

Í þorpinu var síðan ein matvöruverslun, ein snyrtistofa (ekki fyrir skjólstæðinga Jónínu), hvort það var ein fataverslun OG SVO ÁTTA SKÓBÚÐIR. Og í kring risastór skógur sem gæti kynt undir innilokunarkennd hvaða meðal-Íslendings sem þarf heima fyrir bara að standa upp til að villast ekki í víðlendum skógunum.


Hr(a)unið

Mér fannst Sigurjón M. Egilsson nokkuð smellinn þegar hann spurði Guðna Th. Jóhannesson í þætti sínum í morgun hvort Hrunið væri fyrsta bók í seríu, og þá myndi sú næsta heita Hraunið. Fólk sem í sakleysi sínu fékk skell vegna þess að fjárglæframenn nýttu sér ímynd Íslands og sakleysi Íslendinga vill, a.m.k. sumt, að réttlætinu verði fullnægt með því að landráðamenn verði leiddir í járnum á viðeigandi stað.

En auðvitað eru menn saklausir þar til sekt þeirra sannast ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband