Sunnudagur, 9. ágúst 2009
Geitungur gerir stutt stopp
Þegar ég fór á fætur í morgun sá ég strax að geitungur hafði fundið rifu á glugga og smeygt sér inn. Ég opnaði gluggann betur, og alla glugga íbúðarinnar reyndar, og fór svo að sinna öðru. Næst þegar ég mundi eftir honum var hann horfinn á braut.
Er það ekki svona sem maður tekur á aðkomu...fyrirbærum, kvikindum, annarra manna skuldum og öðru sem heillar mann ekki? Býr til undankomuleið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. ágúst 2009
Bókabúð & bókabúð, bókabúð eða bókabúð
Mér varð áðan gengið framhjá nýrri bókabúð í fyrrverandi húsnæði SPRON. Röðin sást langt niður Skólavörðustíginn og ég fagnaði hinum nýtilkomna raunáhuga bókaþjóðarinnar. Þegar nær dró sá ég þó hvað hékk á spýtunni.
Grillið var í gangi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. ágúst 2009
Enginn álagningarseðill
Fyrst leitar maður að sök hjá sjálfum sér. Ég hef ekki fengið álagningarseðil sendan heim og því spyr ég mig: Hakaði ég (les: endurskoðandi minn) við einhverja beiðni við framtalið um að ég (les: ég) vildi ekki seðil með upplýsingum? Ef til vill.
En, fnæs, þótt ég sé umhverfisverndarsinni svo að jaðrar við væmni vil ég ekki að skattaskuldir mínar hverfi í óminni netsins. Og hvert ætti ég sossum að hringja?
Nei, ég fór bara til skattmanns og bað um að fá að gera upp. Ég þarf þá ekki að treysta bönkunum fyrir umframfénu á meðan. Vona bara að ríkiskassinn fari vel með peninginn sem ég aflaði á síðasta ári.
Meðan ég beið eftir afgreiðslu fletti ég álagningarskrám, A-E. Það er hægt að gleyma sér yfir náunganum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. ágúst 2009
Brjálað að gera hjá bílaleigunum?
Detti mér allar dauðar lýs úr höfði. Í fréttum Stöðvar 2 var stór frétt um að ef menn ætluðu að ná sér í bílaleigubíl fyrir næstu helgi - sem er áreiðanlega stór ferðahelgi með fiskideginum mikla og fleiru - yrðu menn að hafa hraðar hendur.
Hmm, síðast og þarsíðast þegar ég heyrði talað um bílaleigurnar svitnaði fólk yfir háu verði. Og ég er svo tortryggin að ég held helst að þetta hafi verið feit ókeypis auglýsing fyrir bílaleigurnar.
Svo náði ég alls ekki að hverjum gagnrýnin beindist. Bílaleiguviðmælandinn talaði um að 3 milljarðar hefðu tapast í gjaldeyristekjum af því að bíla vantaði. Hmm, hver átti að leggja þá til? Hlunnfór einhver hann um 500 bíla?
Ég er enn ekki vaxin upp úr því að finnast 3 milljarðar talsvert margir peningar - líka í krónum. Og ég trúi ekki á þessa frétt. Á Jón Jóhannesson kannski bílaleigu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. ágúst 2009
Ys og þys í bankanum
Ég hafði ekki tækifæri til að setja endapunkt á viðskipti mín við Skaupþing í dag. Röðin var of löng. Skyldu það vera mánaðamótin, allir að borga reikninga í holdinu ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. ágúst 2009
Áhlaup hafið
Lengi hefur mér boðið við framkomu fyrrum yfirmanna Kaupþings, og Sigurður og Hreiðar ýttu mér persónulega yfir til sparisjóðs. Um daginn var ég svo flutt hreppaflutningum yfir í Kaupþing aftur og nytsami sakleysinginn ég ákvað að gefa núverandi yfirmönnum tækifæri til að sanna sig.
Ó svei.
S24 hefur ekki klikkað hingað til og nú set ég allt mitt traust á þann netbanka, endurnýja greiðslukortið og legg platínukortinu sem Kaupþing prangaði inn á mig. Ítreka þó það sem ég hef áður sagt að afgreiðslufólkið hefur verið lipurt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 31. júlí 2009
Dybt at falde
Hvað gæti verið betra um verslunarmannahelgi en að sitja á svölunum og lesa danska sakamálasögu?
Það væri sossum hægt að fá sér kríu í Vestmannaeyjum - er ekki orðið svo lítið um lunda ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. júlí 2009
Hverjir eru tengdir aðilar?
Ég spurði hr. Google og hann gaf nokkur svör, m.a.:
Tengdir aðilar: Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
Þarf að fara á milli mála hverjir eru tengdir aðilar? Getur sonur verið 20% tengdur af því að hann á 20% eignarhlut í fyrirtæki pabbans? Eða eru blóðtengsl sjálfkrafa 100%?
Mikið er ég orðin langeygð eftir að menn breyti rétt af því að það er rétt, óháð því hvað klásúlur segja, lagaromsur eða doktorar í hagvísindum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. júlí 2009
Innherjaupplýsingar prófarkalesara
Fyrir nokkrum árum prófarkalas ég ársskýrslu símafyrirtækis. Nokkrum vikum síðar var ég beðin um að prófarkalesa ársskýrslu annars símafyrirtækis en þegar almannatenglinum varð ljóst að ég hefði lesið skýrslu hins fyrirtækisins var ég orðin að innherja og mátti ekki lesa síðari skýrsluna. Tek ég þó fram að báðar skýrslurnar voru á endanum til birtingar.
Einu sinni las ég líka ársreikning Búnaðarbankans. Þá var ég kyrrsett á auglýsingastofunni alla nóttina því að ekkert mátti mögulega leka út áður en hann yrði birtur.
Ég gæti ekki unnið mér til lífs að muna eitt einasta viðkvæmt atriði úr þessum lestri öllum.
Hvernig stendur á því að séð er til þess að smæstu peðin í taflinu steinhaldi kjafti en kóngarnir sjálfir leka öllum hagnýtu upplýsingum til sjálfra sín? Ef eitthvað er að marka fréttir vikunnar gerðu bankastjórar Glitnis áhlaup á bankann sinn á undan öðrum og létu sér þá í léttu rúmi liggja hversu sárir aðrir gengju frá (tafl)borði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. júlí 2009
Er bensínverðsamkeppni horfin yfir móðuna miklu?
Eru Atlantsolía, ÓB og Orkan hætt að veita N1, Olís og Skeljungi heilbrigða samkeppni? Og umræðan dáin drottni sínum líka?
Mig vantar helling af bensíni í dag og fletti því upp á heimsíðum félaganna til að glöggva mig á verðinu. Vissulega munar allt að fjórum krónum á lítranum. En setjum sem svo að tankurinn taki 50 lítra, þá er munurinn á 183 (50x183=9.150) og 187 (50x187=9.350) 200 krónur. Og ég myndi ekki taka á mig krók fyrir 200 krónur, enda mega menn ekki gleyma að krókurinn kostar líka. Svo vilja félögin átthagabinda menn með sérmerktum kortum og lyklum sem veita einhverra króna afslátt. Ég kann þeirri tilhugsun illa.
Ég gruna olíufélögin um að vera í innbyrðis krosseign.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 26. júlí 2009
Kannski væri hægt að rukka í Dimmuborgum
Egill Helgason mælir því bót að rukka inn á vinsæla ferðamannastaði og Landgræðslan íhugar að byrja að rukka aðgangseyri að Dimmuborgum í Mývatnssveit til að bregðast við mikilli aðsókn ferðamanna. Ég er ekki á móti því að menn borgi fyrir afnotin en mér finnst óeðlilegt að rukka fyrir aðgang að hverjum stað - og aðallega held ég að það sé tæknilega illframkvæmanlegt. Það er dýrt í sjálfu sér. Það er klassískt umhugsunarefni hvernig eigi að rukka inn á Geysi, Dettifoss og Ásbyrgi. Hvað með Hvítserk? Hann verður kannski ekki fyrir ágangi en fólk keyrir veginn til að komast nær honum og við það slitnar hann.
Í öllu fallli yrði leikurinn ójafn en látum það liggja á milli hluta.
Gætum við læst Geysi kl. 9 á kvöldin? Er meiningin að vera með vakt? Hvað með öryggi?
En kannski er bara með þetta mál eins og Evrópusambandið, erfitt að fá heilbrigða umræðu um kosti og galla og á endanum kalt mat.
Ég var í Dimmuborgum í gær og allir mínir farþegar gengu litla hringinn. Einn skokkaði hann á fjórum mínútum og þeir seinfærustu voru 20 mínútur. 100 kall? Og miða, gjörðu svo vel? Veitingastaðurinn til hliðar tók sig vel út og ég fagna tilkomu hans, en ætti að setja upp sölubás við hliðið? Tæknilega framkvæmanlegt í Dimmuborgum.
Ég finn samt að mér líður illa með tilhugsunina um að rukka inn á einstaka staði.
Bróðir minn rekur vegasjoppu og þar stoppaði fólk um daginn með bíl á síðasta snúningi, þrjú systkini hafi ég tekið rétt eftir. Að beiðni þeirra reyndi hann að finna fyrir þau bílaleigubíl. Þar sem það gekk ekki lánaði hann þeim sinn bíl í 2-3 daga (stóð vel á hjá Gumma) og fékk bifvélavirkja frá Hvammstanga til að gera við bilaða bílinn. Systikinin komu að 2-3 dögum liðnum með bílinn fullan af bensíni og færðu honum bæði pening og gjafir.
Ég sakna þess að fólk geri hlutina rétt bara af því að það er rétt, eins og þau gerðu öll í þessu tilviki. Þau smullu kannski bara saman upp á gamla móðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. júlí 2009
Frumsýning á Körlum sem hata konur
Ég öfunda þá sem eiga eftir að sjá myndina. Ég dreif mig á hana í Brussel í júníbyrjun og fannst ég verja peningunum vel (eða, hmm, borgaði kannski Hreinn?) - verð samt alltaf fúl við tilhugsunina um að pabbi Stiegs og bróðir fái sinn feita skerf af öllu gillemojinu.
Ég veit að ég er ekki ein um þessa hugsun, ég veit um fólk sem hefur sleppt því að kaupa einhverja þessara þriggja bóka til þess að gaukarnir raki saman aðeins færri krónum. Samt hafa víst 13 milljónir splæst í Millenium-seríuna ...
Ég er byrjuð á þriðju og síðustu útgefnu bókinni og verð að segja að miðbókin vann ferlega mikið á eftir fyrstu 200 síðurnar eða svo.
Sannur sumarauki. *dæs*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. júlí 2009
Kaskó með útvarpi?
Í gær keypti ég mér útvarp/geislaspilara/SEGULBAND í ferðatæki - og var snögg að því. Þegar ég var búin að rétta fram greiðslukortið andaði sölumaðurinn út úr sér hvort ég vildi kaupa kaskótryggingu. Vissulega er tækið skráð sem ferðatæki en ég hef bara hugsað mér að flytja það milli gluggakistna - og svo auðvitað ef ég skyldi flytja í aðra íbúð.
Andlitið á mér lengdist verulega þegar hann bauð mér kaskótrygginguna - sem á að bæta tjónið ef ég skyldi valda því sjálf - og ég spurði hvort fólk keypti svoleiðis. Þá sagði hann mér af manni sem hefði keypt kaskótryggingu út af einni fjarstýringu sem kostaði 7.000 kr.
Ef ég hefði lagt 4.000 í trygginguna og svo gloprað tækinu á gólfið, ee, hef ég algjörlega efasemdir um að ég fengi samt nýtt.
Það held ég. Og sparaði mér peninginn. Það er líka tveggja ára ábyrgð á framleiðslugöllum sem ég hef miklu meiri áhyggjur af en einhverjum böðulshætti á heimili.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. júlí 2009
Sjávarbarinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. júlí 2009
Flugeldahagfræði fyrir mig
Um leið og Lisbeth Salander (áður Sjölander) í Stúlkunni sem lék sér að eldinum sleppti rak á fjörur mínar bók Jóns Fjörnis Thorarensens, Íslenska efnahagsundrið. Hún er 140 síður í stóru broti og vonlausri uppsetningu (ég þarf að spenna upp bókina til að geta lesið línurnar til enda) en hún greip mig föstum tökum. Ég er einmitt byrjandinn sem bókin beinist að, ég man sumt af því sem fjallað er um, t.d. um aðkomu Samson-hópsins, rámar í Hafskipsmálið og snarlega rifjast upp ýmislegt af þessu nýskeða sem kom á daginn í vetur. Sumt er alveg glænýr flugeldur, t.d. að Sigurður Einarsson sé ljóngáfaður og hafi notað sparisjóðina og lífeyrissjóðina til að Kaupþing gæti gleypt allt fast og laust (bls. 37). Sjálfsagt hefði ég átt að hafa haft hugmynd um þetta, en mér finnst reyndar þversögn í þessu ... Ég vissi heldur ekki að Hannes S. hefði unnið hjá sama fyrirtæki og fyrrum (núna) forstjóri Enrons, Jeffrey Skilling (bls. 47). Þarf nokkuð að efast um að höfundur viti um hvað hann er að tala í þessum efnum?
Ég hef séð einhvern gagnrýna höfund fyrir að vísa í margan, ýmsa og óljósar fregnir, en sannast sagna plagar þessi skortur á beinum heimildum mig ekki. Ég trúi því að höfundur þekki einmitt marga og ýmsa úr verðbréfaheiminum og þeir hafi einmitt þessa vitneskju og þessi hugboð. Og hvers vegna skyldi ekki vera rétt að benda á þá sem fóru offari og ófu skýjaborgir langt umfram eigin getu og langt umfram hagkerfi byrjenda og lengra kominna meðan sýnilegar afleiðingar gróðærisins eiga að kristallast í skuldum handa mér langt inn í framtíðina?
Hagnaðarvon getur vissulega verið drifkraftur nýsköpunar og framfara en flugeldurinn er einnota og þegar hann er sprunginn í eitt skipti fyrir öll er hann öllum einskis virði. Þegar púðurkerlingarnar skilja að ég er ekki sátt við að borga skuldir sem ég stofnaði ekki til hætti ég að steyta hnefann framan í greppitrýnin í bókinni. Lengra geng ég ekki í aktívismanum en ég er bara eins og hurðarsprengja. Þarna úti eru stórar bommertur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 18. júlí 2009
Tilhugsun um flutninga
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 16. júlí 2009
16. júlí
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. júlí 2009
Grænt er gests augað
Óskaplega fannst mér útlenski atvinnuferðamaðurinn sem vinnur fyrir Lonely Planet hljóma gáfulega í fréttunum áðan þegar hann hvatti Íslendinga til að bæta almenningssamgöngur svo að bæði við sjálf og ferðamenn færum um landið fyrir sameiginlegu vélarafli. Ég hef áður heyrt að bílaleigubílar séu svívirðilega dýrir, bæði frá ferðamönnum og heimamönnum, og hann nefndi það líka í viðtalinu.
Íhugum grænan ferðamáta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. júlí 2009
Áhættusamt að lifa
Fyrir hálfum mánuði fór ég út á ólgusjó á lítilli duggu. Að vísu var veður stillt og duggan ekki svo lítil en allt er svo huglægt að mér finnst þessi byrjun passa. Og nú heyri ég í fréttum að duggan mín hafi fundið sandbotn og fest sig, að vísu tímabundið.
Þetta hefði getað verið ég! Að vísu á ég bágt með að trúa að leiðsögumaður sé hafður með 10 manna hóp en með 20 manns til viðbótar hefði verið komin forsenda fyrir ... mér.
Hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. júlí 2009
Stúlkan sem leikur sér að eldinum
Ég er nógu áhrifagjörn til að lesa bækur sem mér finnst allir vera að tala um. Auðvitað getur ekki bók sem mjög breiður hópur hefur gaman af verið algjörlega frábær. Og ég verð að segja að ég skil ekki alveg þennan æsing yfir bókum Stiegs Larssons. Ég hef alveg gaman af því hvernig hann lætur eftir sér að lýsa því hvernig Lisbeth tekur til í íbúðinni, svitnar af ákefðinni, fær sér brauðsneiðar með lifrarkæfu og grænum baunum (eða hvað það nú var, kannski rauðbeður), fer í bað, sofnar, vaknar um miðnætti í hráköldu vatninu, bölvar, fer upp úr og sofnar svo um leið og hún leggst á koddann. Eða að Mikael reyki sígarettuna og snúi bollanum á undirskálinni meðan boxarinn segir frá með alls kyns krúsindúllum. Stieg dvelur lengi við litla hluti og hægir þannig á frásögninni. Fínt.
Það væri bara meira gaman að súpa stundum hveljur yfir orðalaginu. Fléttan virðist ganga vel upp og það verður að duga. Og ég er svo sannfærð um að Lisbeth geti ekki hafa drepið Dag, Miu og Nils að hún gæti vel hafa gert það. Samt sjáum við stundum í hug hennar sjálfrar.
Flickan sem lekte med elden fer vel í sólinni, fór líka vel í lestinni og flugvélinni. Og ég er þegar búin að kaupa Loftkastalann sem var sprengdur, áhrifagirninni eru engin takmörk sett ... Nú er bara fyrir öllu að sólin skíni glatt alla vikuna eins og veðurfræðingar boða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)