Fimmtudagur, 6. nóvember 2008
Baggalútur - Nýjasta nýtt
Nú virka ég dálítið nísk á mig. Mér finnst Baggalútur æði og sá getið um nýjasta diskinn á síðu Baggalúts sjálfs. Á tónlistarvefnum er hann kynntur á 1.600 en í bókabúð kostar hann 2.800 (Skífan var lokuð í dag). Er ekki fullmikið að borga 1.200 (næstum helminginn af kaupverðinu í búð) fyrir diskefnið og umbúðir?
Æ, ég sef á þessu í nótt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
80 milljarða lánið frá Norðmönnunum
Einhvern tímann í morgun gat ég ekki munað hvort Norðmenn ætluðu að lána Íslendingum (íslenskum stjórnvöldum?) 80 milljarða íslenskra eða norskra króna. Tölurnar eru orðnar svo háar að ég missi stundum vitið. Þegar ég var svo búin að ganga úr skugga um að norsku krónurnar eru 4 milljarðar og þær íslensku þá 80 milljarðarnir sá ég glögglega að lánið mun nokkurn veginn dekka meintar skuldir stjórnenda Kaupþings og Glitnis.
Eru þær ekki 39 + 37, eða svo?
Og aftur rifjaðist upp rosasalan á Símanum 2004, 66,5 milljarðar! Lægra verð en lánin til lykilstarfsmanna bankanna hljóða upp á.
Það er skipulega unnið að því að skemma í mér verðskynið. Mér finnst t.d. orðið í lagi að borga 110 krónur fyrir mjólkurlítrann hjá kaupmanninum á horninu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
,,[bíp] skilaði tapi"
Allt í einu tók ég eftir þessum tveimur orðum í fyrirsögn, man ekki um hvaða fyrirtæki var rætt og man ekki í hvaða prentmiðli ég las það í gær. En hver vill ekki skila tapinu sínu ...? Þegar ég gúglaði sá ég að margir hafa skilað tapi á liðnum árum. Margir.
Hvað varð um orðið að tapa?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Óháðir fjölmiðlar
Hvernig fjármagnar vefmiðillinn t24.is sig? Undanfarin ár er búið að ala upp í mér efasemdir um fjölmiðla en hann lofar góðu, þessi lágstemmdi fjölmiðill sem virðist gera ýmsum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði.
Hver á m5.is, leiðandi verðbréfavef eins og hann kallar sig, síðu sem ég er farin að opna daglega?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 3. nóvember 2008
Frumkvæði og nýsköpun
Í síðdegisútvarpi Bylgjunnar í dag báðu stjórnendur þáttarins fólk að hringja inn með skapandi hugmyndir um uppbyggingu samfélagsins. Nokkrir sem ég heyrði í lögðu til að þorskveiðar yrðu auknar, fiskurinn unninn meira hér áður en hann er fluttur út og aflaheimildir innkallaðar og þær leigðar þeim sem raunverulega nýttu sér þær. Ég man ekki hvort einhver talaði í þessum þætti um að binda þær við byggðarlög en ég er nýbúin að heyra einhvern tala um það.
Sjávarútvegur er náttúrlega gamli undirstöðuatvinnuvegurinn, sá sem blívur þrátt fyrir allt.
Svo stakk einn upp á því að garðyrkjubændur fengju verulegan afslátt á raforkuverði og gætu þannig framleitt til útflutnings.
Landbúnaður var líka mikil atvinnustoð áður fyrr og nú virðumst við farin að horfa til gömlu stoðanna á ný. Er það ekki líka gott?
Einn minntist líka á Nokia í Finnlandi og lagði til að við fyndum okkur eitthvað einstakt til að framleiða og flytja út. Þótt hugmyndin að þessu einstaka liggi ekki fyrir í augnablikinu má kannski koma auga á réttu skímuna ef menn bera sig eftir því. Hvað eru Össur, Marel, Marorka og CCP að gera? Hversu langt er síðan þau sprotafyrirtæki uxu úr grasi og fullorðnuðust? Ég spjallaði við konu í sumar sem var á fullu að ráða fólk til CCP og ég held að fyrirtækið hafi þá vantað á annað hundrað manns í vinnu.
Tækifærin eru um allt ef við erum nógu kjörkuð til að setja ekki öll eggin í sömu körfuna.
Og ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um ferðaþjónustuna ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. nóvember 2008
Óuppfylltir draumar
Í síðustu viku sat ég til borðs með slatta af fólki sem ég umgengst ekki að staðaldri. Í stað þess að ræða efnahagsmál sem flestum eru hugleiknust ákvað ég að spyrja við tækifæri spurningar sem hefur brunnið á mér:
-Ef þú skyldir verða fyrir því láni að missa vinnuna hvaða gamla drauma gætirðu þá reynt að uppfylla?
Maður heyrir að þegar einar dyr lokist opnist þrennar aðrar og að tækifæri felist í kreppunni (sem getur vel verið rétt ef þannig spilast úr).
Sjálf hef ég aldrei búið almennilega í útlöndum, ekki keyrt Hafnarfjarðarstrætó, ekki rekið hótel, ekki farið á sjóinn, ekki kennt í leikskóla, ekki verið skólastjóri, ekki kennt í háskóla, ekki stýrt þætti í sjónvarpi (horfi með öfund til Silfursins) og ekki verið handlangari. Auðvitað stæði mér ekki allt til boða, kannski ekki heldur í hagstæðu árferði, en ég á svo margt ógert.
Einhver vildi verða djassisti, ein verða fylgdarkona útlenskrar hefðarkonu í heimsreisu og einn dreymdi um að fara á skektu fyrir norðan. Ein átti sér líka leyndan draum að gerast bóndi.
Ef við ættum það lán fyrir höndum ... þyrfti að vera hægt að uppfylla einhverja drauma.
Það síðasta sem ég vildi gera væri að vinna í blómabúð. Mér finnst m.a.s. leiðinlegt að pakka inn gjöfum. Tilgangslítið. Nóg að setja þær í poka og rétta með velvilja ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 1. nóvember 2008
Einhver starfsmaður mbl.is kann illa að telja
Og ég hallast að því að viðkomandi kunni ekki vel á klukku heldur.
Mótmælin hófust á Hlemmi fyrir rúmri klukkustund síðan, þaðan sem nokkrir tugir manna gengu.
Nokkrir tugir eru kannski þrjár skólastofur. Ég gekk upp Laugaveginn á móti göngunni og þarf ekki að telja til að vita að nokkur hundruð gengu á eftir vörubílunum fjórum.
Og svo þyngdist mannflóðið:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 31. október 2008
Złotíj
Kortið virkaði í Krakúff* og nú er reikningurinn kominn. Einn daginn var eitt zlotíj kr. 42,64, svo 43,30, síðar sama dag kr. 41,15, svo 43,31, þá 45,13 og loks 45,29. Allt út á sama kortið, megnið í hraðbönkum en sumt í búðum. Ég hefði sem sagt betur tekið út 1.000 stykki á mánudaginn og til vara á sunnudaginn.
Meðaltalið var 43 en þá vantar kostnaðinn sem kortafyrirtækið rukkar.
Fararstjórinn sagði að zlotíj hefði lagt sig á rétt rúmar 20 í fyrra. Í fyrra hefði ég sem sagt eytt 20.000 kalli í gamanið en núna 40.000. Mikið er ég fegin að hafa látið Pólverjana njóta þessa ...
*Framburðurinn er svona og ég heyrði sögu af æðstastrumpi, Krak, sem vildi eftirláta dóttur sína þeim sem ynni bug á ógurlegum dreka borgarinnar. Þegar pasturslitli bóndinn (nei, ég man ekki hvaða starfa hann hafði, hann var bara ekki riddari) hafði platað drekann til að éta brennistein og sent hann emjandi í ána Wislu þar sem hann tærðist upp var honum færð dóttir Kraks í verðlaunaskyni. Honum þótti hún víst svo ljót að þegar hann var byrjaður að þakka æðstastrumpi fyrir snerist honum hugur og sagði: Krak úff. Krakúff. Sel það ekki dýrt en vil fá greiðsluna í gjaldeyri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 31. október 2008
Síðunni barst ljót saga
Bílstjóri vel af barnsaldri á bíl með númerinu NM 768 sást fleygja haug af drasli út um bílglugga við fjölfarna götu í Reykjavík í morgun.
Skamm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 29. október 2008
Auschwitz
Í tilefni dagsins ...
Í gær hjóluðum við hins vegar um Kraká og létum segja okkur allt. Meðal annars sagði Mike okkur frá leikhúsinu sem var með sína eigin rafstöð, síðan fékk leikhúsið rafmagn og breytti rafstöðinni sinni í nýtt míní-leikhús. Hann leit út fyrir að finnast hugmyndin ómöguleg (og ég hugsað um Smíðaverkstæðið o.fl.) að ég spurði hvað væri að því. Og hann sagði okkur það.
Svo ræddum við kommúnisma, kapítalisma, stúlkuna sem varð kóngur, hundinn sem yfirgaf ekki dánarbeð eigandans, Gorbatsjoff og Reagan, Schindler - og nú hef ég ekki tíma til að muna meira.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. október 2008
2.000 evrur til að vera leiðsögumaður í Póllandi
Við erum svolítill hópur sem röltum um Kraká á sunnudaginn. Þegar við komum að háskólanum fórum við inn í portið og Egill sagði okkur undan og ofan af honum. Þá dreif að einn Pólverja sem vandaði heldur betur um við hann og sagði að það kostaði 2.000 evrur að verða leiðsögumaður.
Og við sneyptumst út.
Við ályktum að hann hafi vísað í leiðsögunám og löggildingu. Það má ekki hvaða kújón sem er, ekki einu sinni þótt hann sé á ferð með 20 nánustu vinum eða samstarfsmönnum, leiðsegja um borgina.
Hvenær fáum við, íslenskir leiðsögumenn, löggildingu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. október 2008
Reykjavíkurmaraþon ... Nýja-Glitnis 22. ágúst 2009?
Ég hef skokkað mína reglulegu 3, 7 eða 10 kílómetra í hlaupi sem upphaflega var aðeins kennt við Reykjavík. Fyrir nokkrum árum var nafninu breytt í Reykjavíkurmaraþon Glitnis vegna þátttöku Glitnis í kostnaðinum og þáverandi bankastjóri æfði og hljóp stoltur með pöpulnum.
Kannski er ég komin svolítið fram úr mér, en ég er farin að velta fyrir mér hvað hlaupið muni heita næst. Mun Birna skokka stolt með okkur hinum? Koma jafn margir útlendingar og venjulega?
Nei, aðallega er ég að velta fyrir mér hvernig Reykjavíkurmaraþon Nýja-Glitnis muni hljóma og taka sig út á rauðu bolunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. október 2008
Finna í stað Finns
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 24. október 2008
Túnfiskur - ránfiskur
Fyrr má nú rota en dauðrota. Ég man ekki nákvæmlega hvað ORA-túnfiskur kostar í öllum búðum en man eftir honum á vel innan við 100 krónur í ónefnanlegu búðinni. Nú bráðvantaði mig túnfisk í morgun og fór í 10-11. Þar kostaði dósin 269 krónur.
Ég hafði því miður ekki geð í mér til að kaupa eitthvað úr alheimshafinu sem var pakkað í íslenskri pökkunarvél og keypti sama magn í útlenskri dós í á 59 krónur - og blöskraði samt.
Þjóðerniskenndin ristir ekki dýpra enda finnst mér hún ekki afsaka ránverð.
Það undarlega er að fólk verslar þarna, sumt daglega, þótt verð sé tugum og sennilega hundruðum prósenta hærra en í öðrum nærliggjandi búðum. Lengri afgreiðslutími útskýrir auðvitað hærra verð að einhverju leyti, en þarna dró ég mörk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 24. október 2008
Lagalegar forsendur
Eru lagalegar forsendur til að svipta smásparendur og/eða nytsama fasteignakaupendur ævitekjunum?
Eru lagalegar forsendur til að rýra eignir auðmanna um e.t.v. 95%, niður í segjum 50 milljónir?
Eru lagalegar forsendur til að taka launahækkun ljósmæðra til baka jafnskjótt og hún varð að veruleika?
Eru lagalegar forsendur til að skerða grunnskólagöngu barna á aldrinum 6-16 ára?
Eru lagalegar forsendur til að svara út í hött skynsamlegum spurningum fólks sem óttast um framtíð sína?
Um hvað erum við að tala?
Ég skil engisprettufaraldur, hitasóttir, sýkingar, e-bólu, skaðleg flóð, snjóflóð og fárviðri, hæggengar tölvutengingar, jafnvel leti og heimóttarskap - en ég skil ekki hvað varð um þessa peninga ef þeir voru einhvern tímann til.
Og ég þori að hengja mig í hæsta gálga upp á að margur er í mínum sporum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Auðvitað streyma hingað ferðamenn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Frjálst útvarp
Minn munaður er útvarp. Morgunútvörpin eru best, finnst mér, og ég vel oftast Bylgjuna af því að hinar stöðvarnar get ég frekar heyrt í endurflutningi. Og auðvitað sætti ég mig við að ég heyri ekki allt.
Herrarnir þrír í síðdegisútvarpi Bylgjunnar kæta mig líka oft með spaklegum ummælum og skapgæðum. Svo spyrja þeir skynsamlegra spurninga sem hægt er að svara á vefnum. Skyldi ekki svolítið vera að marka þessa svörun?
Annars er ég orðin dálítið uggandi um útvarpið, það gengur almennt fyrir auglýsingum og maður hlýtur að spyrja sig hversu lengi fyrirtæki geti auglýst ef þau eru að leggja upp laupana. Og fái útvarpið ekki tekjur er ekki að spyrja að leikslokum. Getur sjálfstætt og óháð útvarp haldið dampi?
Allt í einu rifjast upp fyrir mér skiptið sem ég fór í fréttaviðtal á Stöð 2 sem formaður Félags leiðsögumanna. Við fengum ekki, og fáum líklega ekki, löggildingu og fréttaefnið var námskrá sem leit út fyrir að myndi höggva að undirstöðu námsins. Ég spurði fréttamanninn sem ég man vel hver var hvort hann stæði ekki með okkur í málinu. Hann brosti bara og sagði miðilinn bara alltaf vera í stjórnarandstöðu.
Þetta kemur málinu náttúrlega ekkert við ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. október 2008
Áfallahjálpin
Fyrir hönd þolenda fjármálaóreiðunnar er ég öskureið (öskurreið er réttara). Ég tapa en ég er smáseiði í menginu og skipti litlu máli. Það er nokkur huggun harmi gegn að öllum sem ég heyri í virðist misboðið þótt einstaka reyni að snúa baki saman og taka undir áskorun um að kjassa fjölskylduna og horfa út um framrúðuna.
Ég vil ekki sjá blóð renna, fjarri því, enda er engum greiði gerður með því. Ég vil hins vegar réttlæti, ég þoli ekki tilhugsunina um að þeir sem eiga sök á óreiðunni og vanlíðan fjölda fólks dilli sér við óminn af hrunadansinum, sendi okkur langt nef og noti ævisparnað gamals fólks til að bóna á sér stélið.
Þá verður mér hugarhægara við að blaða í blogginu hans Egils þrátt fyrir að á þeim ritvelli sé misviturt fólk og því miður of margt nafnlaust, hennar Öldu köldu sem skrifar á svo fallegri ensku þótt hún tali líka góða íslensku, auðvitað Láru Hönnu sem hefur heldur betur sett hlutina á hreyfingu og nokkrar fleiri síður.
Og bráðum hljótum við - líka við sem erum værðarleg - að rumska eins og hver annar þurs. Í hverju skúmaskoti er fólk að tuldra og tuldrið verður æ háværara. Fyrir suma er ástandið lífshættulegt, eins og hvert annað banvænt krabbamein, átröskun eða þunglyndi.
Og AF HVERJU er viðskiptaráðherra ekki lengur með virka síðu? Sér hann eftir einhverju sem hann sagði?
Ég ætla ekki að varpa fram spurningum núna, þær eru þekktar og ég hef ekki svörin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. október 2008
Jón Páll til sölu á Prikinu
Dr. Gunni þyrfti að frétta af Prikinu. Þar fékk ég mér dýrindishvítlaukshamborgara í dag á rúmar þúsund krónur í vönduðum félagsskap. Þjónninn var líka stútfullur af húmor. Eini gallinn er að þegar ég lít inn á heimasíðuna sé ég að verðlistinn er lítillega vitlaus, t.d. er hamborgarinn minn ranglega skráður á 900 krónur, er hins vegar u.þ.b. 15% dýrari. Gott verð samt, gamlar og krúttlega lúnar innréttingar og skemmtilegt útsýni (Ásgeir Friðgeirsson gekk tvisvar fyrir gluggann).
Fyndið að hugsa til þess að ég átti heima í næsta nágrenni við Prikið í ein sjö ár og fór þá aldrei þar inn.
Og Jón Páll er víst bragðsterkur matur á Prikinu, en ekki maður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. október 2008
spron.is - vonandi er fjármálastarfið ekki jafn óskýrt og textinn á heimasíðunni
Endurhverf viðskipti SPRON við Seðlabanka Íslands
Í ljósi umfjöllunar um beiðni Seðlabanka Íslands um auknar tryggingar frá SPRON vegna endurhverfra viðskipta vill SPRON koma því á framfæri að félagið hefur átt takmörkuð viðskipti með skuldabréf annarra fjármálastofnana og hefur gert ráð fyrir því að aukinna trygginga yrði óskað.
SPRON vill jafnframt koma því á framfæri að öll innlend greiðslumiðlun hefur um árabil farið í gegnum Seðlabanka íslands án milligöngu Sparisjóðabanka Íslands.
En auðvitað ætti ég að tala varlega, þetta er þrátt fyrir allt viðskiptabanki minn og dafnar vonandi á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum. Þori ekki að hugsa lengra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)