Rétt eða rangt svar

Ein lífseig minning úr menntaskóla er þegar enskukennarinn lét okkur lesa sögu þar sem bóndasonur átti sér draum um að flytja úr sveitinni og til London og læra eitthvað sem hugur hans stóð til. Kennarinn spurði hvort sonurinn ætti frekar að fara eða vera um kyrrt í sveitinni og hjálpa foreldrum sínum sem voru hjálpar þurfi. Ég sagði að mér fyndist að strákurinn ætti að fara eins og hann langaði til og bjó mig undir rökræðu um málin.

Kennarinn sagði að svarið væri rangt og vék svo að öðru.

Ótrúlega lífseig minning. Óskaplega sem þetta rifjast upp núna. Skil ekkert hvers vegna ...


Vikulokin vekja ævinlega til umhugsunar

Rétt í þessu var Þorbjörg Helga að tala um öll menntalögin sem voru samþykkt í fyrra. Þar var m.a. samþykkt að kennarar á öllum skólastigum þyrftu að vera með meistarapróf. Það þýðir tveggja ára meiri menntun. Og það var umræða um það í fyrravetur hvernig ætti að bæta kennurum það í launum. Ég man ekki hver niðurstaðan varð en hvaða heilvita manneskja sættir sig til lengdar við það að axla meiri ábyrgð, tileinka sér meiri þekkingu og auka færni sína - ÁN ÞESS AÐ ÞVÍ SÉ MÆTT Í LAUNUM?

Og af hverju er þá ekki fyrir löngu búið að semja við ljósmæður?


Heimsendirinn fór framhjá mér

Ætli umræðan um hann hafi verið á auglýsingasíðum blaðanna? Ég hef nefnilega tilhneigingu til að horfa framhjá jöðrunum.

Leifur útgerðarmaður hinn nýi Jóhann Bogesen?

Ég þrælaði mér í gegnum Ösku eftir Yrsu Sigurðardóttur. Ég hef þann veikleika að langa alltaf til að lesa nýjar íslenskar skáldsögur en greinilega þarf ég að fara að velja betur úr. Velja og einkum hafna.

Þóra er ráðin til lögmannsverka í ljósi hæfni sinnar, segir sagan, en þegar til á að taka er hún bæði óörugg, tafsandi og frekar vitlaus. Hún sér ekki augljósustu hluti og höfundur lætur hana í sakamáli velta fyrir sér hégómlegu hlutunum bara. Ég merkti ekki við þegar ég las og nenni ekki að leita að dæmum.

Verra, og langtum verra, er þó að höfundur segir í stað þess að sýna. Njörður minn ágæti Njarðvík lagði mikla áherslu á það í tímum að maður ætti að sýna en ekki segja í skáldskap. Þóra verður þreytt, leið, uppgefin ... í stað þess að maður lesi það á milli línanna. Einhver sagði við mig í dag að sagan væri eins og verkfræðiskýrsla. Mér finnst eins og höfundur hafi bara vantreyst mér til að lesa skáldskap. Hún vildi frekar draga upp línurit.

Skynsamlegasti punkturinn í bókinni var þegar Leifur Magnússon, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, var teiknaður upp sem hinn nýi Jóhann Bogesen. Leifur á útgerðina, Leifur heldur byggðinni í spennitreyju, enginn segir sannleikann af því að ekki má styggja Leif, Leifur snýr útibússtjóranum ... er ég ekki búin að segja nóg? Það var gott að hafa eitthvert kjöt á einhverju beini því að plottið var bara brjósk.

Mikið djö hlýtur hún að vera með góða þýðendur.


Skotar komu, Skotar fara, gaman á milli

Frasinn í fyrirsögninni er í grundvallaratriðum stolinn en sá sem ég stel honum frá man sjálfsagt ekki þessa ágætu gestabókarfærslu þannig að ég eigna mér hann bara, a.m.k. það að muna hann. Og hvað Skotana varðar er vissulega búið að vera mikið stuð í kringum þá. Ég gekk upp og niður Laugaveginn fyrir tilviljun á sama tíma og þeir áttu leið um hann. Eitthvað var fátt um fína drætti og athyglin var ómæld, hehe. Gaman að því. Svo auka þeir hagvöxtinn þannig að megi þeir koma sem oftast. 

Og hverjum er ekki sama um 2-0?

VARÐ að leika papparass


Þúsund árum fyrr

Á svona regnblautum og hráslagalegum haustkvöldum er hollt að líta um öxl og rifja upp það sem maður hefur lesið um lífshætti manna árið 1008 eða svo. Þá voru engir jeppar, engir litlir bílar, ekkert sjónvarp, engin Alþingisrás, engar tölvur, ekki rafmagn, engar eldavélar, engar þvottavélar, ekkert sjampó, engar sturtur, ekkert útvarp, ekki bækur, bara munnmæli borin fram af mælsku fólki rorrandi á rúmbríkinni og handavinna til dægrastyttingar.

Húsakynnin voru ekki beysin, fólki hlýtur af hafa verið kalt - alltaf - og haft fátt annað til að hlýja sér við en annað fólk.

Og þrátt fyrir að mæra hjólhestinn sem almenningssamgöngur, enn frekar nú eftir að hafa séð Magnús Bergsson í Út og suður á sunnudagskvöldið, langar mig ekki að hjóla upp í Bæjarháls. Nei, þá fæ ég mér frekar lúxusfar með strætó. 


Sveitabrúðkaup rokkar

Hafi ég lesið rétt einhvers staðar um daginn er Sveitabrúðkaup gerð með dogma-stíl, þ.e. nokkrar myndavélar í gangi og leikararnir vita ekki hvaða skot verða notuð, og handritið bara skrifað til hálfs þannig að leikarar lögðu sjálfir til replikkur í stað þess að þær væru allar skrifaðar af handritshöfundi.

Hún var alveg gargandi fyndin. Söguþráðurinn er yfirborðseinfaldur en handritsramminn allur á dýptina, fjölskylduleyndarmál sem koma eins og þrumur úr heiðskíru lofti. Ég trúi alveg á svona fjölskyldur sem missa allt niður um sig þegar einhvers staðar verður brestur. Og ég hló og hló. Og var ekki ein um það, allur salurinn iðaði af gleði.

Stjarnan er Herdís Þorvaldsdóttir. Ef myndavélin gekk bara nógu lengi á henni komu gullkornin í bunum. Svipur ömmunnar yfir fávitahætti yngri kynslóðanna var óborganlegur. Karl Guðmundsson sem líktist Sigfinni í Spaugstofunni en hafði svo miklu meiri orðaforða, Ólafur Darri líka ótýpískur þjónustufulltrúi í fríi með þeirri sem hann vildi að væri kærastan sín. Víkingur Kristjánsson tók miklum breytingum í myndinni. Kristbjörg Kjeld á aldrei vondan dag, Theodór Júlíusson var líka góður ... ahh, ég þyrfti að skrifa alla leikarana upp.

Það var enginn veikur hlekkur í leikaraliðinu, þau voru bara með misstór hlutverk.

Sjálfur myndflöturinn þótt mér fullgrófkornóttur en ég geri ráð fyrir að það sé hluti af pakkanum.


Gott skref

Og þá vantar fátt annað en sundlaug í Hljómskálagarðinn. En átti ekki líka að koma upp grillaðstöðu á Klambratúni, og jafnvel busllaug? Kannski það sé misminni.

Mogens Glistrup vs. Gert Jacobsen

Konungsmorð Hanne-Vibeke Holst liggur í valnum! Lykilsaga úr danskri pólitík. Dani sem ég hleraði um daginn sagði að lykillinn að Gert sem er stór persóna í bókinni og heldur til í Christiansborg væri víst Mogens Glistrup. Gert hafði hins vegar aðlaðandi framkomu út á við ólíkt Mogens sem fólki virðist bera saman um að hafi verið ... í besta falli litríkur persónuleiki en miklu fremur óaðlaðandi í útliti og framkomu.

Krónprinsessan sem er sjálfstæður undanfari Konungsmorðsins var gefin út á íslensku 2005 en þá var ég búin að lesa hana á dönsku. Ég hef enga innsýn í danska pólitík, rétt svo veit að Venstre er lengst til hægri og að Anders Fogh Rasmussen er forsætisráðherrann, en Danmörk er nágrannaland þannig að maður náði nokkuð að glöggva sig. Dásamleg samtímalesning.

Ég hef engan áhuga á að rekja söguþráðinn í tæplega 500 blaðsíðna bók, andvarpa bara djúpt af ánægju yfir dönsku og hugsa með hrolli til þess hvað bærist undir kyrrlátu og friðsælu yfirborði, hvað einstakar konur láta berja sig til hlýðni, hvað einstakar konur láta skjalla sig til eftirlátssemi, hvað einstakir karlar ganga á lagið og hvað einlægni virðist fjarri í pólitík.

Charlotte Damgaard er þó teiknuð upp sem nokkuð heilsteypt og fær þá bágt fyrir hjá sumum flokkssystkinum sínum. Per Vittrup þekkir ekki sinn vitjunartíma og fær kaldar kveðjur sem segir manni að enginn er annars bróðir í leik.

Skyldi þetta vera eins alls staðar? Langar áhrifamenn almennt ekki til að verða til góðs, horfa á heildarmyndina og taka ákvarðanir út frá hagsmunum fjöldans?


Reynsluboltinn atarna

Geysir í Haukadal hefur verið á milli tannanna á fólki og er það vel. Ari Arnórsson og fleiri voru þar á ferðinni í gær til að sinna lágmarksgirðingu sem enginn hefur viljað taka að sér. Ég er svo reynslulaus að ég hef bara varað fólk við og síðan gengið um, spjallað við fólk, bandað því frá þegar það hefur ætlað að gera sér um of dælt við Geysi sjálfan og vissulega fengið mér svo kjötbollur og kaffi. Enda stríðir í gegnum svæðið stærri straumur en mér getur auðnast að stjórna í réttan farveg. [Ofstuðlun?]

Ari sendir Ferðamálastofu langt nef og hún á það allt skilið og ríflega það.

Svo vitnar Stefán Helgi, ritstjóri vefsins, í reynslubolta sem vandar um við okkur leiðsögumenn og segir

of algengt að leiðsögumenn hugsi meira um að fá sér kaffi eða aðra hressingu í stað þess að passa hópinn sinn.

*andvarp*

Á nú að leggja okkur á gapastokkinn fyrir að geta ekki haft vit fyrir öllum? Þótt ég sé sjálfsagt reynslulaus miðað við reynsluboltann sem vill ekki segja til sín er ég þó svo reynd að ég ætla mér ekki þá dul að forða öllum frá einhverri glötun. Þó er ég á þeirri skoðun að leiðsögumenn eigi skilyrðislaust að leiðbeina gestum sínum um svæðið, benda á hætturnar og vitaskuld að reka þá - þess vegna með harðri hendi ef þeir skilja ekki annað - frá hættulegum stöðum. Það hef ég líka séð rútubílstjóra gera. En ekki ætlast til þess að við getum alltaf verið til staðar.

Og svo er gaman að sjá að Stefán hefur fengið lánaða mynd hjá mér, hehe, mynd sem ég stal frá öðrum því að ég var ekki á staðnum OG HORFÐI EKKI UPP Á FÓLK GAPA OFAN Í KRAUMANDI HVERINN.


Er Sveitabrúðkaup virkilega á ensku?

Maður spyr sig þegar maður flettir miðasölunni upp á vefnum. Og heitir myndin Sveita Brúðkaup? Er verið að fæla mig frá því að fara í bíó?


Gleðilegt nýtt ár, gleðilegt nýtt fiskveiðiár

Ég heyrði í útvarpinu í morgun talað af talsverðri gleði um að nú hæfist nýtt fiskveiðiár vegna þess að svo margir hefðu á því liðna ekki getað nýtt allan kvóta í öðrum tegundum en þorski vegna þess að þorskkvótinn hefði tæmst.

Því er víst ástæða til að segja: Gleðilegt nýtt ár - eða hvað?


Meira af klósettum

Maslow greindi einhverju sinni lífsgæði þannig að fólki yrði að vera hlýtt, það mett og vel úthvílt til að geta notið frekari gæða lífsins. Reyndar man ég alls ekki hvernig hann orðaði það en frá því að ég kynntist þarfapíramídanum hans hef ég verið óskaplega meðvituð um þetta. Og þar sem ég er leiðsögumaður og hef ferðast um með hópa fólks sem stundum þarf að hægja sér veit ég að þetta er satt.

Sólmundur vinur minn í stéttinni var í viðtali á Rás 1 og fjallaði um starf leiðsögumannsins. Honum finnst - meðal annars - að klósett ættu að vera með jöfnu (eða ójöfnu) millibili þar sem fólk kæmist á prívatið og borgaði þá allt eins fyrir þá þjónustu frekar en að finnast það þurfa að versla við sjoppuhaldarann.

Bróðir minn er nýtekinn við rekstrinum í Víðigerði. Við vorum að spjalla um þessa þjónustu almennt um daginn og daginn eftir hringdi hann svo hlæjandi í mig og sagði: Hér kom 20 manna rúta til að fara á klósettið, og veistu hvað þau versluðu fyrir mikið? 40 krónur!

Sumir fóru hálflúpulegir á klósettið, sumir settu upp þóttasvip og einn kom með klinkið sitt og vildi fá fjölbreytilegt bland í poka - fyrir fjóra tíkalla.

Mér finnst engin einföld lausn í svona málum en mér hefur aldrei fundist sjálfsagt að sjoppueigendur þrifu eftir rútufarma. Hver er lausnin? Ætti Vegagerðin að blanda sér í málið, svona í ljósi þess að það myndi bitna á henni ef fólk kúkaði í vegkantinn?


Strætókort nema eiga að vera fyrir alla nema

Ég er sem sagt sammála þessari frétt Vísis um að fólki með lögheimili víðs vegar er mismunað. Af hverju er ekki nóg að fólk sé í námi?

Reyndar vil ég auðvitað ganga lengra og hafa ókeypis í strætó. Hvað þýðir annars ókeypis? Einhver borgar, já, alveg eins og einhver borgar fyrir slitið á götunum og heilbrigðisstarfsfólki fyrir vinnu þess þegar fólk hefur slasast í umferðinni. Ég er 100% sannfærð um þjóðhagslegt gildi þess að efla almenningssamgöngur og hef ákveðið að fresta bílakaupum um langan tíma.


Eindreginn brotavilji blaðamanns

Sem blaða- og bókalesandi til margra ára er ég sossum orðin ýmsu vön. Mér finnst stóra Kríuness-málið sneiða hjá stóru máli sem er hvort eitthvað gagnlegt hafi gerst á fundi nefndarinnar. En við lesendur nærumst á þessu smáa og blaðamenn leggja sig í líma við að hlúa að hnýsninni í okkur.

Ég leit inn á dv.is áðan og las þar ómerkilega frétt um kú. Kýrin hafði fest hausinn í tromlu og gat ekki losað hann. Móðurmálshjartanu í mér blæddi hins vegar yfir beygingunni á nafnorðinu kýr. Mér finnst þetta eins og að segja: Hana festi hausinn á sér. Já, þess vegna: Svein klæddi sig. Guðrúnu borgaði á kassanum.

Menn misstíga sig í sífellu, ég líka, en í þessari grein meira en vottar fyrir brotavilja.

Hvaða kúnni er t.d. í umræðunni ...?

Gangandi vegfarandi kom auga á kúnna þar sem hún var orðin mjög pirruð og reyndi að losa sig við járnhlunkinn sem var fastur á höfði hennar.


Allar sagnir í nafnhætti

Við erum nokkuð áhyggjufull, sum, yfir breyttri notkun sagna. Það virðist færast í aukana að málnotendur beygi bara sögnina að vera:

Ég er ekki að skilja þetta. Þetta er ekkert að ganga. Hún var ekki að kaupa þjónustuna.

Nú er þágufallssýkin [sem lagði marga að velli] ekki lengur svo áberandi en í staðinn er komin nafnháttarsýkin. Okkur finnst fallegra, eðlilegra og fjölbreytilegra mál að beygja fleiri sagnir, s.s.:

Ég skil þetta ekki. Þetta gengur ekkert. Hún keypti ekki þjónustuna.

Enskan gerir harða hríð að móðurmáli okkar og að því er virðist engu síður þótt fólk sé ekki sérlega sleipt í ensku. Þetta þýðir málfátækt og ég held að við verðum að reyna að spyrna við fæti.

Bíp.


Sumarið á dagatalinu

Ég man þegar ég gekk á Vífil(s)fell um árið. Það var eini vondi veðurdagurinn í langan tíma enda komumst við Daði hvergi nálægt toppnum. Er hann þó skáti - en mér var líklega ekki viðbjargandi. Í fjallinu eru margar leiðinlegar skriður.

Í sumar gengum við fjögur saman á Esjuna á þriðjudagskvöldi. Það var rigningarkvöld sumarsins 2008 og við tókum Lafleur á þetta, komumst hálfa leið og vorum bara roggin.

Nú stendur fyrir dyrum ganga um Laugardalinn með útkikki á þvottalaugarnar og skv. veðurvefnum á að rigna eldi og brennisteini, blautum. Það verður mikið stuð í úlpunni en ég hef ekki komist upp á lag með að nota regnhlíf. Félagsskapurinn bjargar í horn.

Bíp.


Óbjóður á msn

Nú hef ég tvívegis lent í því að gargandi ókunnugt fólk hefur viljað komast í vinfengi við mig á msn, útlenskt fólk og í öðru tilfellinu kviknakið á myndinni sem fylgdi. Kannast msn-notendur við svona óvelkomna gesti?

Ingó vörtubani tekur til máls og grípur til aðgerða

Ingó Werschofen tjáir sig um vörður á heimasíðu Félags leiðsögumanna og ég verð víst að viðurkenna að þær hafa ekki pirrað mig eins og hann, og allra síst - verð ég að viðurkenna - vissi ég að þær væru óheimilar skv. bæklingi Umhverfisstofnunar. Mér hafa þótt þær lýti og ég segi ferðamönnum frá þessum plagsið þegar tækifæri gefast en héðan í frá mun ég vera enn meira á varðbergi.

Veiðibjóðurinn á tjörninni

Kannski á ég ekki að gera það en ég hef mjög ríka tilhneigingu til að fara með afgangsbrauð niður á tjörn. Þar eru endur og gæsir mjög hændar að mér og nýtingartilhneiging mín er svo sterk að ég get helst ekki hent nýtilegu beint í ruslið. En nú er mér svei mér þá farinn að ofbjóða atgangur mávanna. Núna síðast lenti ég þrívegis í því að mávur greip brauðhnullung úr greipum mér - og var ég þó á varðbergi.

Þessi gerði sig mjög heimakominn

Dúfurnar - sem mér þóttu svo krúttlegar þangað til Ylfa kallaði þær fljúgandi ruslafötur - flýðu undan mávunum upp í fangið á mér þar sem þær voru ekki meira en svo velkomnar.

Og þessi hélt að hún væri komin heim


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband