Tryggð og trúfesta við síma- og tryggingafyrirtæki

Ég las um helgina forvitnilega úttekt á farsímanotkun unglinga. Stór hópur er óánægður með þjónustuna hjá Símanum en er samt áfram í viðskiptum við Símann.

Af hverju?

Af því að mamma og pabbi eru þar? Af því að þau nenna ekki að flytja sig? Vegna neikvæðni, yrðu ekki ánægðari annars staðar?

Reyndar er farsímaþjónusta orðin soddan frumskógur að það er ekki fyrir borgarbarn að hætta sér þar inn. Ég hélt t.d. eitt augnablik um daginn að ég gæti fengið að hringja „fríkeypis“ í fimm vini óháð því hvar þeir væru í viðskiptum. En nei, það tilboð reyndist bara eiga við um þá sem eru í fyrirframgreiddri áskrift. Og nú les ég að þjónustan símavinir Símans kosti 1.000 krónur og að það kosti mig að hringja í númer hjá Nova þótt sá sem ég hringi í svari ekki, bara um leið og tónlistin byrjar að spilast!

Er þetta samkeppni, að bjóða alls konar gervitilboð og leika á notandann?

Ég þori ekki að segja annað um tryggingafyrirtæki en það að ef maður ætlar að skipta og segir upp tryggingunum geta þau allt í einu boðið manni ótrúlega miklu betri kjör. Núna eftir helgina ætlar pabbi í sitt fyrirtæki og spyrja í þaula þangað til hann fær svar við því hvernig tryggingar sem hann fékk tilboð í fyrra upp á 94.000 krónur hafa getað hækkað upp í 155.000 á milli ára. Ég treysti honum til að sitja hjá þjónustufulltrúa þangað til hann fær skýr svör - og segja svo helst viðskiptunum upp.


Sjálfvirkni er eitur

Það er óheilbrigt að þykjast geta gengið að heilsunni vísri á morgun, fjölskyldunni, vinunum og veðrinu. Allt sem kemur manninum við er sveiflukennt og óvíst. Samt gefum við okkur hluti, gefum okkur að ýmislegt gott geti verið sjálfvirkt, maturinn komi á borðið, verkefnin verði óþrjótandi í vinnunni, fólki þyki vænt hvert um annað eða að íslenska handboltalandsliðið vinni fjórða leikinn í röð.

Sjálfvirkni er eitur.

Ég held m.a.s. að það sé óráðlegt að velja alltaf sama skápinn í sundlaugunum og bjánalegt að kaupa alltaf pulsuna á sama horninu, sofa alltaf í sama rúminu og tala við sama fólkið. Maður á að brjóta upp mynstrið og skipta um símafyrirtæki ef annað býður betur og segja upp tryggingunum ef fyrirtækið svínar á manni - í skjóli tryggðar.

Nýlega lærðist mér að ég ætti ekki alltaf að þýða however með samt eða engu að síður - however getur þýtt hins vegar - og að integration er ekki endilega samþætting, heldur allt eins aðlögun. Það er í sjálfu sér hégómlegt en maður getur litið á það sem hluta fyrir heild.

Og stendur ekki víða að maður ætti ekki að vera lengur en sjö ár í sama starfi? Þá þarf ég nefnilega virkilega að fara að skoða hug minn og framtíðargjörðir.

Mér finnst sjálfvirkni jafn mikið eitur og sykur. Ég er samt búin að reyna til þrautar að láta mér líka við lífrænt fæði ... 


Malarhjallar í Borgarfirðinum

Á ferð um Melasveitina í gær sáum við blóm sem virtist við fyrstu sýn svart en reyndist svo dumbrautt við nánari kynni. Þegar við fórum svo alla leið ofan í fjöru sáum við sannarlega tignarlega malarhjalla sem eru 30 metra háir og marglaga. Því segi ég það, Vesturlandið er gríðarlega vanmetið þegar farið er um með ferðamenn. Vesturlandið er áhrifamikið.

Svartir knúppar að því er virðistEn svo eru þeir dumbrauðir

Malarhjallarnir

Spenningurinn leynir sér heldur ekki


Að hugsa í þýðingum

Ég heyrði á Bylgjunni í morgun tillögu um að spænsk-íslenskur maður (íslensk-spænskur?) ætti að halda með Íslandi gegn Spáni í handboltaleiknum sem verður í hádeginu á Ólympíuleikunum ... vegna þess að Ísland er á undan Spáni í stafrófinu. Sem Íslendingur er ég auðvitað sammála þessari uppástungu, nema hvað. En sem Spánverji gæti ég notað sömu gegnheilu rök - því að heiti landsins byrjar á E í spænsku, hEhE.

Áfram Espana!


Hvað er galið við þessi blöndunartæki?

Skoðaðu hönnunina, ég skora á þig!

Margt um manninn í höfuðstað Suðurlands

Á gangi mínum rakst ég á mann sem vinnur hér og vill búa hér. Hann á hins vegar hús í Reykjavík sem selst ekki. Og það er ekki vegna þess að það sé of hátt verðlagt, ónei, hann er kominn með kaupanda að eigninni á uppsettu verði en sá getur ekki selt sína þótt hann sé líka kominn með kaupanda - vegna þess að sá kaupandi fær ekki lán frá bönkunum sem ákváðu sisona að skrúfa fyrir lán, muniði?

Hér er sólríkt sem fyrr og ísinn er bragðgóður. En ég er því miður ekki búin að prófa sundlaugina. Og heldur ekki Ölfusá.


Selfoss city sightseeing

Og ég hef það fyrir satt að veðrið sé miiiiiiiiklu betra hér fyrir austan en í höfuðborginni.

Ingólfsfjall

Ölfusárbrúin sem fleygt hefur verið að einhverjir vilji flytja lengra til austursOg menn skúra bílana sína á góðviðrisdögum

Svona bera túlkar sig að


Maraþonskokkið um næstu helgi

Fyrir helgi barst mér vandað tímarit um Reykjavíkurmaraþonið sem verður 25 ára núna. Nokkurn veginn fyrst verður fyrir ávarp frá borgarstjóra. Gaman að því.

Auðvitað skokkum við öll um næstu helgi - líka þau okkar sem ekki eru í viðskiptum við Glitni. Veðurspáin er viðunandi (ég er skyggn) og skráning fer fram á marathon.is.

Koma svo!


Hrós hróssins vegna

Lítil frænka mín vinnur í bakaríi. Hún er ósköp iðin og vandvirk en hún er bara 15 ára og ekki vön að vinna. Það þarf aðeins að segja henni til. Svo er hún viðkvæmt blóm og henni sárnar ógurlega þegar hreytt er í hana eða hún upplifir ónot.

Ég reyni að stæla hana smávegis og segi að það sem ekki drepi hana herði hana bara og ef þessi vinnuveitandi er óalmennilegur muni henni finnast aðrir vinnuveitendur liprir síðar meir. Það breytir því samt ekki að hann er lélegur yfirmaður, segir illa til og skammar án þess að vita hver gerði eða gerði ekki það sem til var ætlast.

Og ég fór að hugsa um yfirmenn sem kunna ekki að stjórna. Þeir eru ótrúlega margir og kannski er eins gott að maður læri snemma að díla við slaka stjórn.

Skyldi vera tilviljun að ég hugsa á slíkum nótum þessa miðjudaga ágústmánaðar?? Grrrr. Reykjavík, ó, Reykjavík.

Hins vegar leiðist mér líka hrós sem er eins og sjálfvirkt, hrós hróssins vegna. Ef einhver hlær að því sem ég ætla að hafa fyndið upplifi ég það sem hrós þótt enginn segi að það hafi verið fyndið. Ef hins vegar einhver segir mér að peysan mín sé fín, sú sem ég er í og hef verið í 70 sinnum í kringum viðkomandi, finnst mér eins og einhver sé að hrósa mér fyrir að geta sagt nafnið mitt rétt eða reimað á mig skóna.

Kannski er ég svolítið erfið núna - ég kýs að kenna beinverknum í hausnum um ... og hann stafar áreiðanlega af róti síðustu daga í höfuðstöðvum mínum, 101 Reykjavík.

Grrr ...

Góð, þessi fiskisúpa hjá þér, mmm. Er kóríander í henni?


Biddu þjóinn um aðstoð

Við fórum á Café Oliver í hádeginu. Þar voru tvær servítrísuruppvarta, þjónustulundaðar með afbrigðum. Réttir dagsins litu girnilega út en samt leit ég á matseðilinn til að sannfærast um að ég gerði rétt í að velja mér karfa.

Á seðlinum sá ég hvatningu til gesta um að hafa samband við þjóinn ef aðstoðar væri þörf. Stemningin var svo góð á staðnum að ég fór að skellihlæja, og við allar þrjár sem vinnum við að reka augun í villur. Þjóustustúlkurnar útskýrðu fyrir okkur að þarna væri enginn sleipur í íslensku (samt hnutum við ekki um aðrar villur í prentuðum seðlinum).

Svo pöntuðum við okkur í feiknarlega góðu skapi, fengum góðan mat og fyrirtaksþjónustu. Það eru hreinar línur að ég fer aftur á Oliver við tækifæri - þrátt fyrir þjóhnappana.

Karfinn minn með engifersósu og spínati

Ásgerður og Laufey völdu sér eitthvað í brauði:

Ásgerður og borgarinn Laufey og borgarinn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er atvinnusjúkdómur minn að hnjóta um villur hvar sem mig ber niður. Einhverju sinni var ég í sængurbúð og sá að á pakkningunum stóð heislukoddi í stað heilsukoddi. Ég hugsaði það óvart upphátt að þarna væri villa og afgreiðslukonan fyrtist við mig. Síðan hef ég keypt sængurnar mínar annars staðar ... iiiiii.

Oliverurnar fá hins vegar fullt hús fyrir lipurð og matinn minn. Ég get ekki svarið að kjúklingaborgarinn hafi verið ætur.


Getraun

Á hverju er flugan?

Fluga í sólbaði


Þegar bíl og hjóli lýstur saman - reynslusaga

Það gerðist einmitt í dag. Ég hjólaði á litlum hraða eftir Borgartúninu og út af bílastæðinu kom bíll á litlum hraða. Hvorki ég né bílstjórinn vorum á varðbergi og úr varð samstuð tveggja farartækja. Hann má eiga það að hann varð skelfingu lostinn við að sjá mig taka flugið - en ég, ég spurði hvort sæi á bílnum.

Ég hlýt að hafa fengið dulitla flugferð, a.m.k. lenti ég með báða fætur sömu megin, hruflaði mig aggalítið ofan við hægri bera ristina en annað og verra gerðist ekki. Sjónarvottur margsagði mér að taka nafn og símanúmer mannsins en ég svaraði jafnoft að ég væri heil og óbrotin. Hann sagði að ég skylfi. Döö, eitthvað er ég þá tilfinningalaus því að ég fann það ekki einu sinni.

Ef ég væri Bandaríkjamaður hefði ég farið í mál, ekki satt?


Af genginu

Í fyrrahaust kostaði ein dönsk króna 12 íslenskar krónur. Í síðustu viku kostaði hún upp undir 17 krónur. Það er 30% hækkun. Eins og menn vita hefur evran líka tekið miklum breytingum.

Ég eyddi í fimm daga ferð í Danmörku og Svíþjóð 6.600 dönskum krónum. Fyrir ári hefði fríið kostað mig tæpar 80.000 en í síðustu viku kostaði það 112.000. Þetta er veruleikinn. En er þetta lögmál? Óhjákvæmilegt? Og ef ekki, hvernig má breyta þessu?

Í Íslandi í dag var verið að spjalla við útlenska ferðamenn á Íslandi sem eru kátir með hagstætt verðlag. Ég samgleðst þeim - en er þetta komið til að vera? Má ég biðja um stöðugleika?

Úff.


Í sumarhöll drottningar og annars staðar í Danaveldi

Frú Margrét Þórhildur mun halda til í sumarhöll sinni í Árósum frá 23. ágúst til 10. september en þangað til má maður rápa um garðinn hennar. Og það gerði ég ... í gær (virðist svo langt síðan). Og mig langaði að stinga mér í sundlaug hennar hátignar.

Hvenær ekki má koma í garðinn hennar hátignarLítil laug eins og þeim dönsku hættir til

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég var í þessum góða félagsskap:

Unnur, mamma, Arnar Björn

Í Kaupmannahöfn var ég hins vegar bara upptekin af þessu venjulega ferðamannadóti, t.d. rigningu:

Rigning á frídegi verslunarmanna

Ráðhúsinu og pulsuvagni:Ráðhúsið og Ráðhústorgið

Svarta demantinum:

Konunglega bókasafnið

Íslenskum litteratúr:

Arnaldur í danskri þýðingu

Hundaklósetti:

Sviðin jörð eftir hundaskítinn, ik'?

Og Tívolí:

Rússibani - hraðbrautin

Kom heim í gærkvöldi með þeirri flugvél IcelandExpress sem ekki bilaði. Hins vegar varð tuðran mín eftir í Kaupmannahöfn og í þessum rituðu orðum er verið að keyra hana heim til mín með gömlu úlpunni og nýju pilsinu. Jájá, það er áhætta að leggja land undir fót, jájá.


Hagvøxtur Danmerkur

Eg er a fullu ad stydja hann. Get vottad ad vedrid hefur verid betra en mun areidanlega leggja leid mina aftur i frabaeran gard i Elev.

Raeraerae.

Snakker umiddelbart god dansk nu for tiden .. ik'?


Tekjur annarra

Á  útgáfudegi var ég komin á fremsta hlunn með að kaupa blað Frjálsrar verslunar en þegar ég var búin að fletta nokkrum opnum áttaði ég mig á að ég væri ekki nógu forvitin um tekjur annarra til að bera þær upplýsingar heim.

Einhverjar rangfærslur hafa sannast á útgáfuna þannig að ekki veit ég hversu áreiðanlegar upplýsingarnar eru yfirleitt en aðallega fýsir mig ekki sérstaklega að vita um allar milljónatekjur fólks. Ef eitthvað væri vildi ég heldur skoða lægri endann og helst hjá raunverulegu lágtekjufólki. Er það ekki nokkuð sem við ættum frekar að líta til og þá þess hvernig fólk með lágmarkslaun kemst af í verðbólgunni?

Skattaeftirlitið ætti að skoða hvernig fólk með vinnukonuútsvar hefur efni á dýrum heimilum og ýmsum munaði. En svo mikið vald hef ég ekki.


Kría - dúfa - mávur - hæna - lundi

Stelpa fór á þjóðhátíð, tjaldaði og ætlaði að fá sér blund. Fyrst sendi hún systur sinni línu um að allt hefði gengið vel, þau væru búin að tjalda og ætluðu nú að fá sér kríu.

Systirin var ekki betur verseruð í móðurmálinu en svo að hún sendi systur sinni sms á móti með þeim góðviljuðu leiðbeiningum að í Vestmannaeyjum ætu menn lunda en ekki kríu.

Heyrði þessa skemmtilegu þjóðhátíðarsögu á Bylgjunni.


Allt í fína í Kína?

Vinkona mín skrapp til Kína í byrjun sumars og kom stútfull af sögum til baka. Meðal annars sagði hún okkur að Kínverjar sem eru þarna í skrilljónavís pissuðu ekki, umframvökvi gufaði bara upp. Þegar menn þyrftu hins vegar að losa sig við eitthvað í föstu formi færu þeir á hálfafvikinn stað og gerðu stykkin sín í sturtanlega holu, hins vegar færi sá pappír sem nauðsynlegur væri til verksins í aðra holu, fötu við hliðina sem ekkert lok væri á.

Svona verða menn að bera sig að í fjölmennum samfélögum.

Þegar hún rataði ekki - sem var alltaf nema þegar leiðin lá á námskeiðið sem var kynnt fyrir þeim hvar væri - reyndi hún að spyrja til vegar. Öll skilti voru á kínversku bara og Kínverjar tala litla útlensku. Vegna Ólympíuleikanna sem byrja í næstu viku var öllum hins vegar uppálagt að sýna einstaka kurteisi (a.m.k. út á við) og þess vegna þóttust viðmælendur skilja, kinkuðu kolli og sögu yes yes, bentu síðan bara eitthvað því að það er kurteisi að segja fólki til, alveg sama þótt rangt sé sagt til.

En hún kom aftur heil á húfi og varð ekki meint af volkinu.


bilstjorar.is

Maggi Möller hélt að þeir Siggi Sigurðar færu þar inn ...

Maggi og Siggi atvinnubílstjórar sem héldu til á Austurvelli 1. ágúst 2008

... en ég lofaði að hampa þeim einhvers staðar. Svo mega þeir mæta í sund hvenær sem er!


Einkarekstur strætós - væru það einstakar akstursleiðir, innheimta, ákvarðanir, útgáfa leiðabókar?

Mér finnst að notendur strætisvagnanna eigi ekki að borga beint fyrir einstök för frekar en bílnotendur borga fyrir einstakt slit, einstaka mengun, einstök slys á fólki. Skrefið sem hefur verið stigið með því að rukka strætónotendur á framhalds- og háskólastigi ekki við hverja inngöngu er frábært og til eftirbreytni. Tölfræðin sýnir að tilraunin gengur upp því að fólki hefur fjölgað í vögnunum. Að sama skapi er þá minna um að fólk keyri sjálft sig bæinn á enda með tilheyrandi sliti, mengun og slysahættu. Vonandi sér maður meira af þessu í náinni framtíð.

Einkarekstur getur vel átt við víða. Ríkið þarf ekki að selja þvottavélar, ferðatöskur, skáldsögur eða spjallþætti. En almannaþjónusta getur illa farið á markað. Ég hef svolítið velt fyrir mér hvaða hluti strætós gæti farið í einkarekstur. Ekki gengi að bjóða út leið 2 og leið 15. Einn aðili yrði að taka allar leiðirnar. Gengi að bjóða út gerð leiðabókar? Er peningalegur ávinningur í því að halda við strætóskýlum, gefa þeim nöfn og endurnýja skiltin? Hvernig ætlar einkaaðili að fjölga í vögnunum og fá inn á móti kostnaði - að því gefnu að aksturinn verði að fjármagna (að einhverju leyti) með fargjöldum? Mun gjaldið sveiflast með heimsmarkaðsverði á eldsneyti?

Mér finnst mjög erfitt að ramma inn þessa hugsun mína. Mér finnst mjög erfitt að sjá fyrir mér almannaþjónustu í einkarekstri. Getur það einhver?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband