Heilbrigðar efasemdir um sjálfan sig

Ég hef einu sinni kviðið fyrir hvataferð. Það var sumarið 2003 og ég reyndist hafa góða ástæðu til þess. Þá vildi einn af hópstjórunum fá að tala við mig fyrirfram og hringdi frá Þýskalandi með fyrirmæli um að segja frá hinu og þessu, segja skemmtilegar sögur af víkingum, fara nákvæmlega yfir plötuskilin, hvaða kvikmyndir hefðu verið teknar upp hér á landi og ýmislegt annað sem ég man ekki lengur. Hann bað mig að lesa vel spurningalista sem hópurinn átti að fá - og svara síðustu 10 spurningunum eða svo. Samtals voru þær um 60. Að auki var ég beðin um að þýða matseðilinn yfir á íslensku! Þá sagði ég hingað og ekki lengra, matseðillinn er þýddur úr íslensku yfir á þýsku þannig að ferðaskrifstofan hlýtur að eiga hann á íslensku, sagði ég.

Ég tala alveg bærilega þýsku, takk, á misgóða daga svo sem og stundum finnst mér ég alveg einstaklega vitlaus í þýsku. Það er aðallega þegar búið er að pönkast á vitsmunum mínum alveg botnlaust.

Þessi hvataferð fyrir fimm árum hefði getað heppnast alveg einstaklega vel. Veðrið var frábært, ekkert minna þá daga. Við gistum í Hveragerði þannig að við spöruðum akstur fram og til baka aftur og aftur. Ég byrjaði í morgunmatnum á að svara spurningum eins og í venjulegri hringferð og þurfti að dansa með fram yfir miðnætti.

Það þóttu mér nokkuð langir dagar.

Hópstjórinn var ein fimm kvenna í hópnum og fann að öllu. Hún skammaðist yfir einu skýi. Hún skammaðist yfir að fleira fólk væri á Markarfljóti í flúðasiglingum þótt við værum tveimur tímum of sein af því að fólkið hennar virti ekki tímasetningar. Hún skammaðist yfir þurrki. Hún skammaðist yfir því að ekki mætti reykja í Fjöruborðinu þótt gestunum væri slétt sama og færu gjarnan út í góða veðrið og birtuna til að anda að sér nikótíninu. Og hún kvartaði yfir að ég væri ekki nógu skemmtileg.

Þar með var spilið tapað. Þessi ferð verður ekki botnuð. Og starfsmaður ferðaskrifstofunnar sem ég vann fyrir þá helgina stóð ekki með mér, studdi mig í engu og svei mér ef hún naut þess ekki að sjá mér líða illa. Og ekki fannst þeirri ferðaskrifstofu ástæða til að borga allar unnar stundir, ekki heldur símakostnað minn.

Nú ligg ég hér í sófanum mínum á sjötta tímanum á sunnudegi og get mig varla hrært af þreytu eftir viðburðaríka hvatahelgi. En mér líður samt vel, veit að við skiluðum góðri vinnu saman, vorum samhent og þrátt fyrir einstaka skavanka fara farþegarnir heim með fallegar myndir, góðar minningar og eiga eftir að senda hingað fleiri gesti á næstu árum.

Örvar víkingur hótar farþegunum öllu illu ef þau mæta ekki í hópmyndatöku kl. 11:15!


Sviðsetning Ara og Örvars

Já, ég lýg því ekki, þeir gera allt fyrir Kodak-augnablikið:Ari aðeins of seinn að draga í land ...


Ein lítil staðreynd um hvali

Ég fór í gær með erlenda gesti í hvalaskoðun. Við sáum enga hvali, einhver uppástóð að tveir höfrungar hefðu sést. Við sáum mökk af lundum og einn fýl.

Svo var hlaðborð á einum veitingastaðnum, þar var hangikjöt, annars konar kjöt, alls konar - og ræmur af hval. Gestunum mínum þótti það fyndið.

Ég veit ekki hver pantaði eða hanteraði hlaðborðið svona.


Bókaköff

Nú er komið nýtt bókakaffi sem ég prófaði í hádeginu, alltaf gaman að fara hringinn i miðbænum. Það olli mér vonbrigðum, lítið úrval, vont úrval fyrir minn smekk, rétt ætur gulrótarkökubiti á 390 krónur. Þrátt fyrir útisetumöguleikana þarf mikið að koma til svo að ég leggi leið mína þangað aftur.

Eins varð mér innanbrjósts um árið þegar ég kannaði úrvalið í bókakaffi Eymundssonar. Maður nær ekki fyrstu kynningu nema einu sinni - bókaköffin verða að vanda sig betur ef ég á festast í önglinum.


Húsdýragarðurinn að loknu hjólaátaki ÍSÍ

Ið-hópurinn í maí 2008Góða fyrirtækið Rafteikning setti myndina inn á síðuna sína. Ekki veit ég til að ÍSÍ hafi komið því í verk. En myndin er góð og þar má þekkja mig, Kristínu Höllu, Laufeyju og Ingva. Og svo fræga fólkið.

Greiðvikni kaupandinn í Krónunni

Vinkona mín lenti í því í búð nýlega að uppgötva við kassann að hún hafði gleymt seðlunum heima. Hún bað geislagaurinn að geyma vörurnar meðan hún skytist stutta leið. Hann tók því fjarri þannig að hún hélt að hún yrði að byrja upp á nýtt - þangað til maðurinn sem stóð fyrir aftan hana í röðinni bauðst til að borga fyrir hana, hún myndi svo bara leggja inn hjá sér við tækifæri.

Og það varð ofan á.

Ég sagði þessa sögu nokkrum í gær - og viti menn, þetta er algengara en ég hugði.


Keyrða kynslóðin = krakkarnir með bílafæturna

Fyrra hugtakið flaug fyrir á Bylgjunni í morgun, hið seinna hef ég heyrt annars staðar. Dapurlegt að stórir hópar fólks komist ekki gangandi lengra en út í bíl.

Þessir láta þó lóðsa sig um á allt annan hátt:

Ungarnir lögðu á flótta - undan myndavélinni


Marineraður lax

Fyrir mig var borinn lax sem hafði marinerast í hálfan sólarhring. Í marineringunni var uppistaðan teriyaki-sósa, svo alltént eitthvert hunang og kannski sinnep. Þessi hér væri tilraunarinnar virði.

Ég sem hef hingað til aldrei getað etið lax mér til gleði.


Ljótu hálfvitarnir bráðum með plötu

Ég hélt að hún hlyti að vera komin út og mætti í Skífuna eða Japis eða 12 tóna eða Plötugerðina eða hvað búðin nú heitir á Laugaveginum og spurði um plötu Ljótu hálfvitanna. Ókomin - en væntanleg.

Svo eru tónleikar með þeim eftir rúma viku í Borgarfirði. Ég kæmist, ég kemst og kannski kem ég bara.

Maður syngur Son hafsins með þessari frétt, ég er hlynnt hvoru tveggja ...


Stígvél

<p>
<strong>Camilla Boots</strong> 
</p>
<p>
Red
</p>
<p>
Salmon / Goat<br>
Rubber outsole<br>
Leather lining<br>
6,5cm heel 
</p>

Er eitthvert tískutröll sem getur sagt mér hversu mörgum kúlum má eyða í svona stígvél? Eitt á hvorn fót. Hvað getur maður notað þau mikið? Eru þau ekki orðin of áberandi eftir fimm skipti?

Minni svo leiðsögumenn á fund um kjarasamninginn í kvöld.


Er ekki allt í lagi að Rússar hafi unnið söngvakeppnina?

Þessi naut sín bara ekki sem skyldi á litla skautasvellinu:

 


Ferðamálfræði [svo í kynningu frá Endurmenntun Háskóla Íslands]

Nú skil ég af hverju ég tel mig eiga svo mikið erindi í fagið - það er FERÐAMÁLFRÆÐI, hahha. Málfræði ferða, hmmm. En þegar ég ýti andstyggilegheitum mínum til hliðar og hætti að pota í ásláttarvillu fagna ég því að leiðsögunám sé nú í boði víðar en í MK. Ég átti sæti í stjórn Félags leiðsögumanna þegar námskráin var til umfjöllunar hjá menntamálaráðuneytinu (kannski: menntamálráðuneytinu? - andstyggðin uppmáluð aftur) 2003-2004 og við lögðum mikla áherslu á að fólk vissi sínu viti áður en það færi í skólann. Ég held að menntamálaráðuneytið hafi helst viljað færa leiðsögunám niður í aldri, hafa það hluta af stúdentsprófi, en stjórnin vildi gæta þess að leiðsögunemar hefðu þó þann grunn - og væru ekki yngri en 21 árs. Leiðsögumenn eru helstu tengiliðir ferðamanna í skipulögðum ferðum um landið, þurfa að kunna á því skil og geta brugðist við óvæntum og erfiðum kringumstæðum.

Mikið hlakka ég líka til að frétta af aðsókn, náminu, frammistöðu - og hvaða launakröfur leiðsögumenn gera sem borga kr. 495.000 fyrir námið. Ég borgaði þó ekki nema 150.000 fyrir tvær annir. Það var veturinn 2001-2002, kannski er þetta bara verðbólgan, ha?

Til að taka af allan vafa segi ég skýrt og skilmerkilega að ég er mjög ánægð með að EHÍ bjóði upp á leiðsögunám. Fínt að fá breiddina, fjölbreytnina og fá einn anga út úr Menntaskólanum í Kópavogi. Ég hefði næstum örugglega valið þessa leið - geng nú út frá því að kennarar verði góð [svo] þótt þau [svo] séu ekki tilgreind [svo] á síðunni.


Leiðsögumenn funda

Skúli og félagar eru búnir að skrifa undir samning fyrir hönd okkar leiðsögumanna. Hann verður kynntur á félagsfundi á fimmtudaginn og í kjölfarið verður póstkosning.

Kannski skipti ég um skoðun á fundinum - en Pétur Gauti er búinn að tryggja að ég tali sem minnst, hahha (ég verð ritari).


,,Þótt ég hjyggi"

Alltaf gaman að viðtengingarhættinum, sbr. þótt hún æli barnið þremur vikum fyrir tímann, téhé.

Handbolti með hristivörn

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að við ynnum Svíana - er Staffan Olsson hættur?

Það þurfti jarðskjálfta til að ég sæi ÍNN!


Hvatahópur hættir við!

Ég frétti af hvatahópi sem var væntanlegur til landsins í dag - en hætti við vegna jarðskjálftanna! Sá hópur (eða hópstjóri eða eigandi því að einhver einn eða einhverjir fáir taka af skarið) er greinilega ekki einu sinni pínulítið áhættufíkinn, varla forvitinn - eða hvað? Hvernig er jarðskjálftunum okkar lýst í heimspressunni?

Sjálf sat ég við skrifborð á 1. hæð í Reykjavík og fann fyrir honum. Ég veit um fólk sem var á ferð nálægt upptökunum og fann ekki neitt.

Ekkert manntjón varð og það er fyrir mestu. Ég held að ég geti ekki sett mig í spor þeirra sem ekki þora til Íslands. Og ég grínast sem leiðsögumaður oft við fólk á leið frá Keflavík og segi: Því miður get ég ekki orðið ykkur úti um jarðhræringar eða eldgos ...


Þar kom að fasteignaverðslækkuninni

Samkvæmt auglýsingu um íbúð í 101 sem ég hef fylgst með um alllanga hríð er nú verð farið að lækka í alvöru. Um jólin var hún verðlögð á tæpar 35 milljónir, nú er hún komin ofan í rúmlega 30. 

Fyrir nokkrum dögum sá ég haft eftir einhverjum greiningardeildarmanni að verð færi bráðum að lækka að raunvirði. Jafnframt hvatti hann seljendur til að gera það hið fyrsta! Halda þessir peningaspekúlantar að fólk lesi bara helminginn af fréttinni eða greiningunni, að seljendur lesi bara hvatninguna um að selja og kaupendur hvatninguna um að bíða? Ef fólk tekur yfirleitt mark á spádómum um hegðun fólks höfðar það strax til verðlækkunarinnar sem spáð er síðar á árinu.

Þetta er alveg magnað.

En verðið er farið að lækka. Allir mega vitna í mig með það.


Eldsneytisgjald ferðaskrifstofunnar

Ég er að fara í stórum hópi til Krakár í haust, eftir slétta fimm mánuði. Þegar er búið að rukka staðfestingargjald, kr. 10.000 á mann. Í dag barst þessi póstur: 

 

Kæri hópstjóri

 

Mér voru að berast þær upplýsingar að vegna mikillar hækkunar á verði eldsneytis á undanförnum mánuðum þá mun leggjast til eldsneytisgjald á allar brottfarir sumarsins og haustsins á allar bókanir [XXX]. Þetta er óhjákvæmilegt þar sem fyrir liggur að eldsneytiskostnaður hefur hækkað um 60% frá áramótum. Mun því leggjast til aukagjald á hvern farþega að upphæð 1.200 kr. hvora leið í flugi.

 

Vil ég biðja þig að koma þeim upplýsingum áleiðis til réttra aðila.

 

Með kærri þökk

 

Og hvað gerum vér eymingjarnir? Örgum á blogginu og borgum kr. 2.400 á mann til viðbótar. Bíðum svo spennt eftir að vita hvað gerist þegar eldsneytið lækkar á næstu fimm mánuðunum, ekki satt?

 

Og að hækkunin skuli „leggjast til“ jaðrar við að vera svartur húmor.


Brandari um innlit hjá augnlækni

Pólverji fór til augnlæknis sem spurði hann hvort hann gæti lesið næstneðstu línuna. Pólverjinn las hana án vandræða, cz&#x142;owiek, leit síðan á lækninn og sagði: Ég þekki hann!

Ef einhver ber mér rasisma á brýn brjálast ég fyrir mína hönd og okkar allra sem hlógum dátt á laugardaginn. Það væri samt eftir öðru.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband