Þriðjudagur, 27. maí 2008
,,Moby Dick on the stick"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. maí 2008
Hafnarfjörður 100 ára
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. maí 2008
Við unnum þó Svía!
Sextánda sætið tapaðist til Spánar sem voru viss vonbrigði en þegar leið á stigagjöfina þótti mínu partíi brýnast að hafa sigur á hinni sænsku Carolu.
Ásgerður fagnaði óskaplega:
Og Ármann rifjaði upp gömlu og góðu taktana:
Ásgerður settist stundum:
En það stóð ekki lengi:
Snorri hélt sig til hlés:
En það var ekki í kot vísað hjá Laufeyju:
Og við fengum kvartett:
Sólveig mundar loftgítarinn:
Myndasafnið er ekki tæmt. Það er hins vegar innsetningarúthald mitt, enda ætla ég ekki að missa af lokaþætti Silfursins.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 23. maí 2008
Eiga próf að vera skemmtileg?
Það stappaði nærri sennu milli mín og ókunnugrar í dag - um próf. Henni fannst að próf ættu að vera skemmtileg. Ég sagðist ekki sammála því, sagði að próf ættu að vera mælitæki. Ef við hefðum þekkst hefðum við sennilega farið í hár saman.
Í prófi eiga að vera léttar spurningar og í prófi eiga að vera erfiðar spurningar. Það má deila um hlutfallið. Þau sem lítið vita þurfa samt að geta svarað einhverju, þau sem mjög mikið vita þurfa að fá að láta ljós sitt skína.
Ef verið er að prófa í gamanleik eru aðrar kröfur en þegar verið er að prófa í ökuleikni.
Það er ekki til vansa að finnast gaman í prófi, rétt eins og það er kostur að finnast gaman að mæta í vinnuna. Mér þætti samt gagnrýni á t.d. mig um að próf hefði verið leiðinlegt hégómleg gagnrýni. En umræðan snerist ekki einu sinni um mig.
Ég myndi heldur ekki biðja um að próf væri leiðinlegt, ég myndi vilja hafa próf sanngjarnt.
Ætli hún hafi gert þá kröfu til sjálfrar sín að svörin væru skemmtileg?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Þeir sem láta sér júróvisjón í léttu rúmi liggja
Sú var tíðin að ég missti ógjarnan af júróvisjón. Þegar ég var au pair í Þýskalandi 1987 horfði ég á Hægt og hljótt í engum félagsskap. Öllum í Bayern virtist a.m.k. standa slétt á sama um keppnina. Ég man þegar Sandra Kim söng J'aime j'aime la vie 1986. Hún vann víst.
Síðan hlýt ég að hafa elst illa. Ég tolli engan veginn við þetta nú orðið þrátt fyrir gríðarlegan áhuga víða í kringum mig. Svo sá ég þegar ég hjólaði milli hverfa upp úr kl. sjö í kvöld að svipuðum er innanbrjósts og mér, alltént var röðin út á götu við pítsustaðinn í Skúlagötunni. Nema tilboðið hafi bara haft vinninginn.
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Vegna komu Bobs Dylans
Síðunni barst þessi orðaleikur:
einu sinni hitti maría markan bob dylan, og bob dylan beit maríu markan í barkann!! en maría markan var ekkert nema harkan og beit bob dylan í tillann!!!
Og með fylgdi hvatning um að mæta á tónleikana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. maí 2008
,,Í dýflissuna með hann"
Þetta er ekki innlegg í heitustu umræður vikunnar, um útlendinga. Sjálf hef ég engan áhuga á að varpa neinum í dýflissu og enn síður langan mig oní hana sjálfa. Hugleiðing mín varðar eingöngu framburð orðsins.
Þetta orð er afskaplega sjaldgæft og mig grunar að þess vegna beri fólk það fram með f-hljóði, eins og heyra má í nýjustu símaauglýsingu Jóns Gnarrs. Þorsteinn Bachmann hrópar orðin í fyrirsögninni, og með skýru effi.
F-ið hljómar hins vegar eins og b í þessari stafarunu, sbr. mörg dæmi: trufla, tefla, tafl, afla, efla, vöflur, tafla, geifla, gafl ... Ég þekki eina manneskju sem ber þessi orð fram með f-hljóði, hinar íslensku þúsundirnar með b.
Í dý-flissuna með hann er því villa - eða hvað segir Ásgerður?
Þriðjudagur, 20. maí 2008
Kjötvísitala Andra Snæs
Fyrir rúmum fjórum árum lagði Andri Snær Magnason fram tillögu um að gera miðbæ Reykjavíkur mannvinsamlegri. Góður rómur var gerður að henni, hún fékk verðlaun - og síðan hefur ekkert gerst í hans ágætu tillögum.
Ekki er ég skipulagsfræðingur eða arkitekt frekar en Andri, en bæði virðumst við gera okkur grein fyrir að mannlíf gæðir miðborg lífi. Mannskapur fylgir mannfrekri starfsemi eins og verslun, banka og skóla. Kjötvísitalan hækkar. Sólin kemur að sunnan og þess vegna þarf að hafa lægri byggð til suðurs en hærri byggð má verða norðan megin.
Ég vil halda Hallargarðinum lítt breyttum, en ég sé varla nokkurn tímann kjaft í Hljómskálagarðinum. Þar vantar skjól og þess vegna vantar þar meira líf, m.a.s. á góðviðrisdögum.
Auðvitað er gamli fámenni tíminn horfinn inn í fortíðina og við endurheimtum ekki heimavinnandi foreldra sem sjóða ýsu í öllum hádegjum og lygna augunum meðan þau hlusta á hádegisfréttir. Krakkar hlaupa ekki um á bryggjunni og reyna að öngla til sín marhnút. En það er hægt að tengja hverfin betur (helv. Hringbrautarskrímslið) og það er hægt að hlúa að líflegri starfsemi.
Það sem ég hlakka til þegar a.m.k. stoppistöðin fer. Er það ekki Landsbankanum að þakka?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 19. maí 2008
Skemmtiferðaskipin taka á rás
Ég fæ nettan fiðring þegar ég sé að skemmtiferðaskipastraumurinn er að hefjast. Við leiðsögumenn erum nefnilega svo misjöfn og ég hafði gaman af dagsferðunum. Það var bara svo lýjandi að mæta einn daginn á Skarfabakka kl. 6, annan á Miðbakka kl. 7, þann þriðja á Miðbakka kl. 6:30 o.s.frv. Heilt sumar hrökk ég upp morgun eftir morgun og þurfti að rifja upp hvort ég ætti að mæta, hvar þá og hvenær.

Allt hefur sinn tíma.
Sumir leiðsögumenn vilja ekkert nema hringferðir, eru hrifnir af svona langtímakynnum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 18. maí 2008
Matreiðsluþættir í sjónvarpinu
Alveg er það magnað hvað margir matreiðsluþættir, og rómaðir þess vegna eins og þættir Nigellu og Jamies, byggja mikið á alls konar óhollustu. Ég man enn gjörla þegar ég sá í fyrsta skipti Nigellu-þátt; hún smurði hvítt brauð með einhverju feitu og djúpsteikti meðan hún talaði um hvað það væri gott að gera eitthvað svona fljótlegt handa börnunum þegar þau kæmu heim úr skólanum. Og upp rifjast brauðið sem mamma smurði með tómatsósu og osti og setti í ofninn, skömminni skárra en það sem Nigella gerði þarna í snatri.
Mér finnst að í þessum þáttum ætti að kynna fyrir okkur fljótlegar, hollar og hagkvæmar lausnir. Það er kannski vegna þess að þættirnir eru ekki svoleiðis sem ég nenni hvorki mikið að horfa né elda.
Að auki er maturinn oft ekki einu sinni girnilegur að sjá.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 18. maí 2008
Fullkomnunarárátta er bögg
Stundum er hægt að skipuleggja hlutina út í hörgul og hafa fullkomna stjórn á öllu og öllum. Stundum er stjórnin ekki öll í manns eigin höndum og það eina sem maður getur gert er að láta vel að stjórn annarra (og svo stýra laumulega ef maður er svoleiðis innstilltur).
Ég er t.d. að tala um leiðsögn. Þegar hópstjórar halda eftir tveggja tíma dvöl á landinu að þeir viti betur hversu langan tíma tekur að komast á milli staða, gleyma að reikna með tímanum sem tekur fólk að klifra út úr bílunum, og inn aftur eftir stoppin, vita ekki um færðina á drullulegum malarvegum o.s.frv. á ég ekki í sérlega miklum erfiðleikum með að leyfa þeim að ráða (eða leyfa þeim að halda að þau hafi ráðið). Ég leyfi þeim að skammast, horfi bara nikkandi á og svo seinkar okkur kannski um klukkutíma.
Samt er erfitt að þjóna mörgum herrum. Hver borgar t.d. aukatíma 30 jeppa? Kvöldmatur er bókaður á einhverjum ákveðnum tíma. Er það hópstjórinn afskiptasami sem borgar muninn, eða hvar kemur hann niður?
Kannski þarf ég að breyta um taktík og vera frekari við afskiptasama hópstjóra - en hingað til hefur enginn dáið, enginn slasast og ég veit ekki til þess að neinn hafi farið fram á endurgreiðslu ferðar.
Það er svo mikið bögg að trúa því að allt geti alltaf verið 100%. Einn farþegi dásamar kannski sögurnar sem maður segir en sessunauturinn fussar yfir lyginni. Einum getur þótt krúttlegt að heyra mismæli og hvernig maður bögglar stundum út úr sér setningunum en öðrum misboðið að tungumál manns sé ekki óaðfinnanlegt. Einn vill meiri jarðfræði, annar meiri sagnfræði, sá þriðji minna af öllu. Ég held að maður verði bara að standa með sjálfum sér og sætta sig við að maður er gallaður.Fullkomnunarárátta er nefnilega svo mikið bögg, þá er maður aldrei ánægður og lífið allt tóm óhamingja. Ég átti það skeið. Og þegar maður er leiðsögumaður á maður mikið undir öðrum líka og ef maður er hæfilega afslappaður má maður eiga von á góðu.
Það finnst mér - að svo komnu máli. Ætla að spekúlera í þessu (og vona að Habbý heimti ekki frekari útfærslu ...).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 16. maí 2008
Egg soðin og brauð bökuð í hver
Leiðin lá út úr bænum í dag, m.a. á hinn rómaða Geysi. Þar tók kokkurinn sér það fyrir hendur að baka brauð í hver og sjóða egg í sama. Það þótti mér gaman. Ég hef tvisvar soðið egg fyrir túrista, bæði skiptin í Deildartunguhver. Í bæði skiptin mæltist það vel fyrir. Þetta er einstök upplifun.
Kokkurinn gerir að rúgbrauðinu. Hvort ætti maður að kalla það Roggenbrot eða Pumpernickel á þýsku?
Í þessari holu eru m.a.s. nægar birgðir handa spænska kónginum (tilvísun í heimsókn hans til Vestmannaeyja eitt árið ...).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. maí 2008
Greiðvikni yljar
Ég átt leið milli borgarhluta á hjóli í dag (Ísland á iði, allir í hjólaátaki), sá að ég þurfti að pumpa í dekkin og renndi upp að pumpu á bensínstöð. Þar var bíll fyrir og bílstjóri. Ég hélt að hann væri að klára en þvert á móti var verkið óhafið þannig að hann gerði sér lítið fyrir og pumpaði í dekkin hjá mér meðan ég virti bara fyrir mér útsýnið.
Það fannst mér krúttlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. maí 2008
Valdarán?
Tilfinning mín er að það hafi aukist verulega að undanförnu að menn skipti um flokk á miðju kjörtímabili. Ég held líka að oft hrópi einhverjir valdarán, svik við kjósendur og/eða lýðræðishalli og skíti stórkarlalega út viðtökuflokkinn.
Ég man að Kjartan sagði æstur um árið að menn skiptu ekki einu sinni um fótboltalið á miðju tímabili.
Fólki blöskar hvernig atkvæðin þess taka til fótanna.
Ég held að það vanti einhverjar reglur um þetta. Má fólk eða má það ekki skipta um flokk og flytja atkvæði kjósenda sinna til jafnvel höfuðandstæðingsins? Ef það má getur fólk hætt að hafa hátt um óréttlætið sem er þá ekkert. Ef það má ekki en er ekki bannað í reglum er ástæða til að setja reglu um það. Ef menn eru þá sammála um að það sé málið.
Ég er hlynnt því að fólk tali um hlutina. Mér finnst orðið tímabært að fólk tali æsingalaust um þetta og finni lausn.
-Að auki hef ég mikla skoðun á Akranesmálinu en ætla að hafa hana fyrir mig, m.a. vegna þess að þrátt fyrir mikil skrif eru þau fyrst og fremst skoðanir fólks, ekki staðreyndir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 13. maí 2008
Nú þykja mér nautin rekin (á Viðskiptablaðinu)
Ég hef verið nokkuð dyggur lesandi Viðskiptablaðsins, einkum á föstudögum, og talsverður aðdáandi fjölmiðlapistlanna og ýmissa pólitískra skrifa sem ég er stundum sammála og stundum ósammála.
Á föstudaginn var barst blaðið inn um lúguna hjá mér til kynningar. Greinilega eru blaðshaldarar á höttunum eftir fleiri lesendum, þannig fleiri áskrifendum geri ég ráð fyrir og auknum aurum í kassann. Og þá bregður svo við að blaðið er illa yfirlesið.
Þrjú dæmi:
Hitt er svo annað mál að það er ávallt afnaumkunarvert þegar stjórnmálamenn barma sér undan fjölmiðlum ...
Rétt fyrir aldamót tók Boris við ritstjórn hins fornfræga tímarits The Spectator - eitt helsta málgagn hægri manna á Bretlandi.
... hefur Boris vaxið ásmegin sem einn helsti andskoti þeirrar leiðinlegu tilhneigingu ...
Eins og þetta er gott blað. Kannski ætti ég að gleðjast yfir að sjá að prófarkalestur skiptir greinilega máli, hann hlýtur að hafa farið forgörðum þarna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. maí 2008
Hvenær er maður spilltur og hvenær er maður ekki spilltur?
Nú væri ekki ónýtt að hafa Jón Hreggviðsson á línunni. En það er ekki í kot vísað hjá Láru Hönnu sem spjallar um mögulega og raunverulega spillingu og innanmein í stjórnsýslunni. Ég reyndi að setja athugasemd hjá henni í tvígang en einhver máttarvöld tóku í taumana og þurrkuðu hana út. Og þótt hvítasunnan sé í dag dettur mér ekki í hug að það sé þetta guð, frekar að það væri mamma þar sem mæðradagurinn er líka í dag. Vald hennar yfir tækninni er þó ekki nægt og svo er hún ekki svona afskiptasöm.
Þegar menn tala um spillingu, óvandvirkni, embættisglöp, ótrúverðugleika og þess háttar verður mér alltaf fyrst fyrir að skoða sjálfa mig. Mér þykja það heilbrigðar efasemdir. Ég hef fjórum sinnum fengið dagpeninga vegna vinnu minnar. Í öllum tilfellum gerðu þeir meira en að dekka útlagðan kostnað. Ef ég hefði hins vegar ákveðið að taka leigubíl fyrir hvert skref, sofa í forsetasvítunni og éta önd í morgunmat, humar í hádeginu og sérpantaða engisprettu í kvöldmat hefði ég þurft að borga með mér. Ég hef svo sem ekkert gáð að skilgreiningu dagpeninga en ég hef haldið að þeir ættu að dekka útlagðan kostnað og bæta manni í einhverju tilliti fjarveru frá heimili, bæta manni að maður getur ekki notað lausa tímann á kvöldin til að setja í þvottavél, fara í sund, horfa á uppáhaldsþáttinn í sjónvarpinu, faðma börnin og svo sofa í eigin rúmi. Og auðvitað er erfitt að setja verðmiða á þetta.
Ég skammast mín sem sagt ekki fyrir dagpeninga sem ég hef þegið.
Ég hringi prívatsímtöl úr vinnusímanum. Ég á það til að hringja vinnusímtöl úr heimasímanum, miklu sjaldnar auðvitað enda er ég ekki það mikið heima á vinnutíma - eins og gefur að skilja.
Ég hef slórað í vinnunni en ég hef líka sleppt matartímum og hamast fram á kvöld án þess að fá aukalega greitt.
Mér finnst mikilvægt að það sé sveigjanleiki í vinnu, að vinnuþegi treysti manni og að maður sé traustsins verður. Sveigjanleikinn og gagnvirknin verða auðvitað að virka í báðar áttir.
Ég held að ég sé ekki spillt, misnoti ekki hugsanlega aðstöðu mína og gangi ekki á lagið en ég er ekki hvítskúruð.
Nú þegar borgarstjóri hefur boðað að hann muni láta fara ofan í saumana á ferðalögum og dagpeningum borgarfulltrúa fæ ég strax þessar (heilbrigðu) efasemdir. Alla hluti þarf að skoða í samhengi og það er ferlega auðvelt að benda á einn hlut og hneykslast yfir honum, að einhver hafi farið eitthvað og árangurinn hafi enginn orðið en borgarfulltrúinn kostað heilmikið. Ég þekki ekkert til og get engin dæmi nefnt, en ég er þeirrar trúar að tengsl sem komast á í svona ferðum þar sem menn hitta sína líka geti orðið gagnleg.
Kennarar og leikskólakennarar sem eru því miður ekki ofhaldnir í launum hafa sumir hverjir, sem betur fer, farið í skoðunarferðir til að kynnast sambærilegri starfsemi í öðrum löndum og þótt stundum sé erfitt að benda á áþreifanlegan ávinning, síst af öllu kannski fljótlega eftir heimkomu, heldur þetta hugsuninni á hreyfingu. Og það er helvíti brýnt.
Mér blöskrar ekki að borgarfulltrúar sem taka vinnuna sína alvarlega og vinna að hagsmunum borgarbúa, hagsmunum við skipulagningu, umhverfismál, leikskóla, félagsþjónustu, íþróttir, tómstundir, gatnagerð o.s.frv., fái 660 þúsund á mánuði ef það er talan. Mér blöskrar hins vegar ef borgarfulltrúar tala mikinn um hvað þeir séu vammlausir og fara síðan út að ystu mörkum - ef einhver skyldi gera sig sekan um það.
Og mér blöskrar að einhver sé með undir 200 þúsund krónum á mánuði í brúttólaun fyrir fulla vinnu þegar verðlag er orðið eins og dæmin sanna.
Hver vill og getur breytt því?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Ósveigjanleiki Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar
Ég hef ekki geð í mér til að gera útdrátt úr þessari frétt af vef Félags leiðsögumanna. Á trúnaðarráðsfundi í síðustu viku urðum við sammála um að við værum að slaka heilmikið til með því að gefa eftir almennilega launahækkun en semja bara til eins árs - allt atvinnulíf er í uppnámi hvort eð er - en SAF og SA eru ekki til viðræðu um það.
Ég kemst í vont skap. Hver er glæpur okkar leiðsögumanna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Stemning fyrir verkfalli?
Samningar við leiðsögumenn runnu út fyrir rúmum fjórum mánuðum. Þegar á endanum verður samið er það eitt af samningsatriðunum hvort samningurinn verður afturvirkur. Ef hann verður ekki afturvirkur þarf ekki að gera upp launin aftur í tímann. Viðsemjendur leiðsögumanna græða því á að samningar dragist ... og dragist og dragist og dragist.
Kannski liggur vandinn hjá okkur sjálfum. Meðan hobbíleiðsögumenn tala virkilega um að það sé fínt að fá aur og fjölskylduskammt af köku í Eden fyrir dagsferð verður engin virðing borin fyrir starfinu sem starfi vinnandi manna.
En getur ferðaþjónustan haldið sér úti á hobbíinu til lengdar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Eðlilega er baráttan jöfn ef frambjóðandinn er aðeins einn
Eignarfall fleirtölu er forsetaframbjóðenda.
Að öðru leyti er hrikalegt til þess að hugsa hvað þau hafa eytt miklu púðri, orku og fé í að berjast um hylli fólks. Verður eitthvað afgangs til að beita sér fyrir þörfum málum?
![]() |
Jöfn barátta forsetaframbjóðanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. maí 2008
En í samanburði við NOVA?
Það eru auðvitað gleðitíðindi þegar fyrirtæki ætla að hagræða í rekstri sínum og bjóða viðskiptavinum lægra verð. En mér finnst grunsamlegt að Tal ber sig hér saman við tvö ráðandi fyrirtæki á markaði en gerir ekki tilraun til að skoða verðlagninguna hjá fyrirtæki sem er að reyna að ná markaðshlutdeild. Ég er fylgjandi samkeppni, alltaf, en orðin svolítið uppgefin á að reyna að styðja við hana og svo rennur fyrirtækið sem ég hef nýlega skipt yfir til saman við fyrirtækið sem ég var að hætta í viðskiptum við.
Í þetta sinn ætla ég ekki að róta mér alveg strax en fylgjast vel með. Fyrirtækið sem endist fær á endanum viðskiptin. Þá undanskil ég samt Símann sem fékk að kaupa grunnnetið fyrir slikk og hefur yfirburði í krafti einokunaraðstöðu.
![]() |
Boða 20-30% lækkun fjarskipta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)