Sunnudagur, 4. maí 2008
Upphafið að betri tíð?
(Guð?) láti gott á vita. Svo sem er alveg ástæða til að flikka upp á grjótið en meiri áhyggjur hef ég af snúrunum sem sumir kalla reipi og vönustu menn vita varla hvort þeir eiga að vera fyrir framan eða aftan. Það er tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður þarna. Ég hef séð fólk hlaupa upp á Geysi sjálfan til að gægjast ofan í. Og ég fölna.
En nú er búið að skrifa ofan í nöfn konunganna þannig að hitt hlýtur að fylgja.
![]() |
Konungssteinar fá nýja ásýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. maí 2008
Í Fréttablaðinu er vegið að leiðsögumönnum
Ég er ekki sérlega hörundsár og veit að oft eru menn bara ónákvæmir. Engu að síður finnst mér ekki í lagi að kalla starfsmenn ferðaskrifstofu sem keyra um drukknir á hálendinu leiðsögumenn. Ölvunarakstur er alltaf vítaverður, en drukkinn leiðsögumaður undir stýri væri skuggi á stéttinni. Ég frábið mér hann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 3. maí 2008
Ég bý í 101 Ásgarði/Goðagarði
Að því komst ég á miðborgarfundinum 1, 2 og Reykjavík í dag. Ég hélt hins vegar að ég byggi í Þingholtunum.
Á fundinum var margt gott fólk samankomið með góðar og gagnlegar fyrirspurnir. Og húmor. Alltaf gott að finna að fólki er ekki sama.
Sjálf hefði ég viljað tala um flugvöllinn, Hringbrautina og bílamergð - en allt komst það á dagskrá án íhlutunar minnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. maí 2008
Grafið hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. maí 2008
Og kostar kr. 58.820 til 72.660 fram og til baka þennan mánuðinn
Ef það er frétt að flugleið sé bætt á lista Flugleiða ætti líka að koma fram hvað hún kostar. Ég skoðaði fyrst og fremst dagsetningar í maí en sá hærri tölur í júní.
Mig langar til Vancouvers, er mbl.is til í að finna fyrir mig hagstæðar dagsetningar og kannski þá tengiflug?
![]() |
Fyrsta flugið til Toronto á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Diskóið er ekki dautt
Ég man Hollywood (í iðnaðarhúsnæði í Ármúlanum), ég man legghlífar, glansgalla, hliðartagl og grifflur. Ég hélt að þetta væri hluti af gengnum tíma, en í kvöld sá ég í Þjóðleikhúsinu að Hallgrímur Helgason er hvorki á því að láta diskóið né pönkið verða fortíðinni að bráð.
Hann hefur samið söngleik þar sem þessum tveimur heimum er teflt saman. Sannast sagna er ég ekki alveg viss um hvað mér fannst. Ég hló og klappaði, dillaði mér og stappaði - en ég held að stemningin í salnum hafi að hluta til hrifið mig. En þetta er flott fagfólk og þótt ég sé ekki sérlega ginnkeypt fyrir söng og þaðan af síður söngleikjum hríslaðist stundum um mig í söngvunum. Pönkið kom sterkt inn.
Sagan fannst mér ekki sérlega sterk, en sum tilsvörin voru æði. Kvöldinu vel varið, ekki síst við að læra nöfnin á Þóri Sæmundssyni og Söru Marti Guðmundsdóttur. Ég ætla að fylgjast með þeim næstu misserin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Hafnarfjarðarbær að verða 100 ára
Undanfarið hef ég verið að lesa próförk að stiklum um sögu Hafnarfjarðar. Það hefur verið stórskemmtileg lesning. Eins og með öll skrif litast þau af þeim sem þau skrifa, það er ekkert sem heitir rétt sjónarhorn. Og það sama á við um fréttaskrif auðvitað en það er önnur saga.
Fyrir utan að fá staðfestingu á því að Hafnarfjörður er ógurlegur íþróttabær og vinur vinabæja sinna (og í eilífu kappi við Vestmannaeyjar) sá ég athyglisverða skýringu á tilurð hringtorganna, að lögreglan þakkaði þeim fækkun umferðarslysa og gott ef ekki fækkun afbrota. Hugsanlega er þetta lítils háttar hártog ...
Bókin verður í öllu falli glæsileg með myndum þá og nú. Og mér verður ábyggilega boðið í útgáfupartíið einhvers staðar í kringum 1. júní sem er sjálfur afmælisdagurinn. Tilhlökkunarefni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Óvænt útspil
Ég er a.m.k. pínulítið hissa á staðfestu hjúkrunarfræðinganna. Að vísu finnst mér eðlilegt að þegar fólk segir starfi sínu lausu hugi það að öðru starfi samhliða, sé búið að ráða sig eða sé með eitthvað í sigtinu. Kannski eru hjúkrunarfræðingarnir á leið í aðra vinnu á föstudaginn, hérlendis eða erlendis.
Þó að eftirspurn sé eftir kröftum hjúkrunarfræðinga víða um lönd er ekki sjálfgefið að rúmlega 100 slíkum henti að pakka öllu sínu saman þannig að ég hefði kannski haldið að sumum kæmi vel að þurfa ekki að slíta sig frá öllu sem jarðbindur þá.
Ég tek ofan fyrir þeim. Þetta hlýtur að þýða ógnarsannfæringu, ekki satt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. apríl 2008
Samið til eins árs
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Vinnutímatilskipanir og hvíldartímar
Ég hef miklar og háværar skoðanir á vörubílstjórauppreisninni en læt mér nægja að varpa fram spurningunum:
Er ekki ástæða til að endurskoða vinnutíma lækna og hjúkrunarfræðinga? Er það ekki enn svo að læknar (eða aðstoðarlæknar) standa stundum eins og hálfs sólarhrings vaktir? Hvaða skynsemi er í því? Er það fólk ekki hættulegt umhverfi sínu, sjúklingum og öðrum nærstöddum?
Ég hitti jeppabílstjóra í gær sem minntu mig á þessa hugsun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Ég á bara ekki til orð yfir hvað hann er málefnalegur, fróður og vandaður fræðimaður, góður gestur hjá Agli. Ég hef heyrt í honum oft áður og hann slær hvergi af, aldrei, í fagmennskunni. Megi borgaryfirvöld taka mark á því sem hann segir um Reykjavíkurborg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 25. apríl 2008
Sálarástand þjóðarinnar
Ég skil ekki að þjóðin haldi léttlyndi sínu öllu lengur. Kannski er það nú þegar tapað, ég hef ekki séð hamingjukönnun nýlega. Reyndar hafa margir haldið þessar kannanir óttalegt plat, enda höfum við tilhneigingu til að bera okkur vel, státum okkur af fegurstu konunum, sterkustu körlunum, besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, hreinasta vatninu, ferskasta loftinu - og ekki á allt við rök að styðjast.
Þótt ekki væsi um sjálfa mig hafa holskeflur efnahagslífsins komið niður á fólki í mínu nánasta umhverfi. Það sýpur og svelgist á. Spár um niðursveiflur hafa nefnilega ekki forspárgildi, heldur áhrif. Það er hægt að spá fyrir um hegðun náttúrunnar sem hlustar ekki á okkur, en fólk bregst við spádómum.
Verð hækkar milli heimsókna í verslanir. Einhver Bónusbúðin auglýsti enduropnun eftir breytingar og aldeilis stórkostleg tilboð. Þegar glöggir neytendur mættu á staðinn var verð í mörgum tilfellum hærra en það hafði verið áður en búðinni var lokað vegna uppfærslu. Ef það voru tilboð - hvað hefði varan þá kostað án tilboðsins? Og mun kosta þegar kostaboðinu lýkur?
Kunningi minn fór í útivistarbúð og var að hugsa um að kaupa sér bakpoka. Hann kostaði 20.000 krónur. Hann ákvað að fara heim og hugsa málið fram yfir helgi. Svo ákvað hann að slá til, fór aftur og pokinn var kominn upp í 25.000. Ég lýg þessu ekki og ég held að hann geri það ekki heldur.
Ódýru fargjöldin til Kaupmannahafnar eru komin í tæpar 30.000 kr. þótt maður skoði dagsetningar allt að marga mánuði fram í tímann. Það gerir heimsmarkaðsverð á eldsneyti - og kannski hækkandi álverð á heimsvísu.
Ef laun hins almenna launþega myndu hækka í einhverju samræmi við þetta færi sú hækkun út í verðlagið. Svo er sagt. Við erum því í úlfakreppu og ef mér skjöplast ekki eru nokkrir sem tróna ofar öðrum og maka krókinn.
Ég skil ekki hvernig Evrópusambandsaðild á að leysa hvers vesæls manns vanda. Ef verð á að lækka um 30% við það hvaðan eru þá þau 30% tekin? Og ef það lækkar við það eitt af hverju er þá ekki hægt að lækka það strax? Ég tek ekki mark á svari um styrki því að peningar í sjóðum koma einhvers staðar að líka. Hvaðan?
Þetta eru erfiðir dagar. Getur verið að meint ríkidæmi þjóðarinnar eigi sök á ástandinu, þá þannig að fólk sjáist ekki fyrir og eyði og eyði um efni fram og kollsteypist því þegar harðnar á dalnum? Er daglegur eyðslustuðull orðinn svo hár að fólk getur ekki lagað sig að kreppunni?
Mér hefur ekki stokkið bros á vör alla vikuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. apríl 2008
Dagur bókarinnar er runninn upp
Og ég er að lesa Óreiðu á striga. Hún töfrar mig ekki eins og Karitas án titils gerði, en samt ...
Annars spjallaði ég heilmikið um það nýlega hvort Marja væri Marju eða Mörju í aukaföllum. Við ákváðum fyrir okkar parta að beygja hana sem Marju (eins og mér sýnast allir gera reyndar) en samt væri hitt rökréttara. Erum við bara svona ... marísk?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 22. apríl 2008
Hvernig er þvagfæraleggur á ensku? En þýsku? Og norsku?
Beinþynning, blóðmeinafræði, örvera? Ég kann ekki einu sinni að nefna þetta á íslensku þannig að mér eru strax allar bjargir bannaðar. En ef erlendir sérfræðingar eiga að taka upp hnífinn og geislann á LSH hrýs mér pínulítið hugur við. Menn mega bretta greiðlega upp á ermarnar til að þjálfa sérfræðingana í lágmarkstungumálanotkun.
Er það ekki annars?
Og eru þeir komnir til að vera, framtíðarlausn?
Kannski eru sérfræðingarnir okkar bara svona latir, og þessir sem enn hafa ekki verið ráðnir verða bara himinsælir með kjörin sem standa til boða. Sannast sagna hefur umræðunni að mestu tekist að sniðganga kjarnann því að ég veit mest lítið um hvað deilan stendur annað en vinnutíma og meint öryggi.
Nýi forstjórinn reyndi í Kastljósinu áðan að varpa ljósi á málið. Hún virtist þeirrar trúar að einstaklingssamtölin skiluðu því að menn hættu við að hætta. Hún hefur átta daga til að sannfæra fólk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. apríl 2008
Alcoa ætlar að FJÖLGA fólki
Ég get ekki að því gert, alltaf þegar ég sé þessar auglýsingar um að Alcoa ætli að fjölga fólki vorkenni ég fólkinu á myndunum. Gæti Alcoa ekki látið duga að bæta við fólki?
Ég vona a.m.k. að fólkið fjölgi sér ekki á staðnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 21. apríl 2008
Er húmor óæðri?
Þeir sem vinna við að skemmta fólki hafa oft látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að litið sé niður á húmor, t.d. í leiklist. Það er hins vegar mikil kúnst að skemmta fólki. Og ég held að fyrirlestur Eddu Björgvinsdóttur í hádeginu á morgun geti verið forvitnilegur. Hún hefur einmitt oft kitlað hláturtaugarnar.
Ég sá Bjarna Hauk Þórsson í Mannamálum í gær. Hann var ekki laus við að vera fyndinn og spontant. Mér dettur samt ekki í hug að fara á nýja einleikinn hans, þennan um vandræðagang fjármálaspekúlantanna. Og ég gengst fullkomlega við fordómum mínum. Ég held að hann sé með aulahúmor oftast og í besta falli almenn sannindi. Byggi það á því litla sem ég sá til hans þegar hann kynnti Hellisbúann á sínum tíma, öllu því gáfulega sem Habbý sagði mér eftir ferð sína á umrætt leikstykki og núna dómi Maríu Kristjáns í einhverju blaði um helgina.
Sum sé, mér finnst gaman að hlæja og læt oft eftir mér að hlæja þegar aðrir sjá ekkert fyndið. Og stundum reyni ég að vera fyndin. Í leiðsögn reyni ég t.d. að vera vitsmunalega fyndin. Ég útskýri t.d. gjarnan nafnið mitt með því að tengja það við komu flugkappans Charles Lindberghs 1927, segi að ófrísk kona hafi orðið svo hugfangin af þessum glæsta manni og ákveðið að skíra son sinn í höfuðið á honum. Hún hafi hins vegar fætt dóttur og því orðið að snúa nafnhlutunum við. Og svo tek ég fram að ég sé ekki sú tiltekna dóttir - frá 1927. Ég fæ alltaf hlátur og bæti stundum við að að vísu hafi ég yngst mikið við að fara í Bláa lónið, en samt ...
Árangurinn? Farþegar mínir læra nafnið mitt. Og svo fæ ég iðulega skemmtilegar og forvitnilegar spurningar um allt mögulegt. Búin að brjóta ís.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 20. apríl 2008
Reið í Reykjavík
Ég er að lesa próförk að þýðingu á bókinni sem ber enska heitið Sex and the City. Ég veit ekki enn hvort einhver deyr og þá hver, en velti fyrir mér hvað bókin ætti að heita í rammíslensku umhverfi. Laufey er hugmyndarík og stakk upp á titlinum sem er í fyrirsögninni.
Meiningin er að bókin komi út um svipað leyti og myndin verður frumsýnd. Áhugasamir fá því fullnægjandi svar innan alltof langs.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 18. apríl 2008
Er samúð mín með leigubílstjórum illskiljanleg?
Ég fékk far með leigubíl í annað sveitarfélag í vikunni. Það kostaði alveg um 3.000 krónur og mér ofbauð ekki. Auðvitað er það peningur að reiða fram, en hvað fær maður í staðinn? Ég hringi og fimm mínútum síðar rennur heitur bíllinn að húsinu, við tekur forvitnilegt spjall um þjóðmálin, á áfangastað þarf maður ekki að finna stæði - og maður borgar ekki 1.000.000 krónur á ári í rekstrarkostnað. Leigubílstjórinn borgar hins vegar síhækkandi eldsneytisverð, fastan rekstrarkostnað eins og tryggingar og afborganir ef bíllinn er keyptur á lánum, annars þarf hann auðvitað að staðgreiða dobíu.
Leigubílstjórinn sagðist vera hissa á hvað fólk áttaði sig ekki á þessu. Að vísu keyrir hann oft gamalt fólk (fastakúnna) í búðir og líka í flug, en langtum fleira fólk velur að eiga eigin bíl og jafnvel tvo eða þrjá frekar en einn. Bíleigendur borga fyrir bílinn, tryggingar, bensín, viðgerðir, þurfa að skafa á köldum vetrardögum, lenda í bilunum og e.t.v. fleira.
Í staðinn gætu margir sleppt bílnum (eða aukabílnum), notað strætó, hjólið og postulana. Kenning mín er sú að ef fólk fer á leigubíl á virkum degi haldi það að aðrir haldi að það eigi enga fjölskyldu eða vini sem nenna að keyra það milli hverfa.
Huhh.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Sjónvarpsfréttaviðtölin við mig
Athyglisþörf minni var rækilega svalað á leið minni upp Bankastrætið í dag. Meintir útlenskir sjónvarpsmenn þóttust vilja taka við mig viðtal. Ég hef fyrir reglu að segja ekki nei ef ég get sagt já þannig að þegar þeir spurðu hvort þeir mættu spyrja mig út í viðhorf mitt til vöruverðs á Íslandi sagði ég auðvitað já. Þá sagði spyrillinn líka svo róandi að stöðin hefði ekki nema 600.000 manna áhorf (allt fólk sem maður þekkir ekki).
Ég hélt að þeir væru að atast í mér þegar viðtalið var hálfnað (búin hálf mínúta) þannig að mér hefur sennilega tekist að eyðileggja möguleika mína á að birtast í finnska sjónvarpinu. Annars hefði ég verið Íslendingurinn sem kvartaði ekki yfir afkomunni.
Mér finnst ekkert leiðinlegt að verða af heimsfrægðinni. Leiðinlegra þykir mér alltaf að viðtalið sem Logi Bergmann tók við mig árið 1997 fyrir RÚV var aldrei birt. Það var um hinn merkilega miðbæ Reykjavíkur og umgengni um hann á næturnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 16. apríl 2008
Konur vs. karlar í atvinnurekstri
Ég er svolítið að velta fyrir mér hvort það sé ekki í alvörunni kynbundinn munur þegar kemur að rekstri fyrirtækja. Eins og það blasir við mér eru karlar djarfari og áhættusæknari og konur varfærnari og meira með fast land undir fótum.
Ég er sjálf svona agalega kvenleg, ég myndi aldrei fara út í atvinnurekstur með mikið lánsfé, ég þyrði aldrei að taka sénsana. Ég þakka guði fyrir að ég er ekki alls staðar, það yrði frekar lítil framþróun, fá spennandi skref stigin, varla leigubíl ekið. Þótt sum fyrirtæki sigli í strand og þótt sum verði aldrei barn í brók gengur mörgum fyrirtækjum vel, stundum ábyggilega þeim sem menn bjuggust ekki við svo miklu af.
En hvað verður nú til nánustu framtíðar litið um djarfhugana sem selja bíla, blóm og nudd sem fólk hlýtur að byrja að skera niður í kreppunni? Hvaða dekur mun fólk láta eftir sér þegar það þarf að velja á næstu mánuðum? Hvað neitar það sér um?
Eða verður enginn niðurskurður í neyslu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)