Síldin lifir!

Og svei, einhver reyndi að telja mér trú um að síldin hefði horfið vegna ofveiði. Nú veit maður betur, kuldinn hrakti hana á brott og nú er hún snúin aftur.

Í fiskveiðilandi eins og okkar ætti maður að vita mun meira um fisk og fiskveiðar en maður gerir. Ég velti fyrir mér hvort vankunnáttan stafi að einhverju leyti af því að maður fær svo misvísandi upplýsingar. Af hverju hefur ekki á ríflega 20 árum tekist með fiskveiðistjórnunarkerfinu, „því besta í heimi“, að tryggja okkur nægan þorsk? Hvert fer hann? Er hann ofveiddur? Er hann kannski vanveiddur og étur undan sér? Spilar hvalurinn einhverja rullu?

Bráðum fáum við alltént meira að vita um síldina og hegðunarmynstur hennar.

Annars væri gaman að vita hvað leiðsögumenn segja túristum um stöðu okkar í fiskveiðum. Þegar ég var í Leiðsöguskóla Íslands lærði ég að við fengjum um 65% útflutningstekna af fiski. Ég hef smám saman fært þá tölu niður og segi nú um 50%. Kannski er það ónákvæmni en vonandi ekki mikil. Álið er svona 15% og rest er dálítið af hestum, nokkrar kindur og oggulítið af skyri ...

Ég þarf greinilega að uppfæra mig fyrir törn sumarsins, ég sé að við svo búið má ekki sitja. Öll hjálp vel þegin.


mbl.is Rannsaka fæðu síldarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlaði ekki Björgólfur að gera Fríkirkjuveg 11 að safni?

Fékk hann ekki húsið keypt með því fororði? Ég man ekki betur. Af hverju ætti hann þá að vilja loka garðinum til að tryggja öryggi tignargesta? Ég geng iðulega í gegnum þennan garð og mér finnst mikið frá mér tekið ef Björgólfur Thor fær að loka honum.

Mér leist hins vegar vel á að hann nýtti húsið sem safn. Ég hélt að hann ætlaði að gera sem mér líkaði.


Um refsingar fyrir umferðarlagabrot

Síðunni barst bréf frá fyrrverandi framhaldsskólakennara á fertugsaldri: 

Ef ég tæki nú upp á því að aka ... tja, við skulum segja of hratt eða undir áhrifum áfengis/lyfja, mundi ég missa bílprófið. Ég fengi líka sekt og punkta í umferðarlagakerfið. Ef ég (réttindalaus) stuttu seinna tæki svo upp á því að keyra (þrátt fyrir réttindaleysið) og væri tekin (edrú og á löglegum hraða en bara svona „óheppin“ að lenda í úrtaki löggunnar) gæti ég lengt þann tíma sem ég er réttindalaus. Þannig var það a.m.k. einu sinni. En unglingur, sem ekki er kominn með ökupróf, sem stelur bíl foreldra sinna og er tekinn þegar aksturslagið er eitthvað óvenjulegt, fær ekki frestun á bílprófsleyfi og ekki punkt í kerfið! Hann fær bara 10 þús. kr. sekt og spjall við einhvern frá barnaverndarnefnd! Það er refsingin!  Er það nema von að fólk brjóti aftur og aftur af sér í umferðinni á Íslandi þegar refsingarnar eru svona. Refsingin fyrir þetta brot unglingsins hefði átt að vera 100 þús. (en ekki 10 þús.), margir punktar í kerfið og frestun á bílprófi í a.m.k. hálft ár. Vissulega má segja að foreldrum sé í sjálfs vald sett hvernig þeir refsa börnum sínum en kerfið á líka að refsa brotafólki ... og þá helst með háum peningasektum því peningar eru það eina sem Íslendingar skilja.  Hnuss!

Krossgötuþáttur Hjálmars Sveinssonar á laugardögum

Lára Hanna er búin að venja mig á Krossgöturnar. Og hafi útvarpið þökk fyrir að gera mér kleift að hlusta þegar mér sýnist. Í þetta skipti talaði Hjálmar m.a. um bensínverð, 4x4 og umhverfismál. Hann er mjög beittur og lætur viðmælendur sína ekki komast upp með neinn moðreyk.

Hið meinta atvinnuleysi framundan

Hvað byrjar fólk að skera niður í hugsanlegri kreppu? Hvar missir fólk vinnuna? Ég giska á að nú leiti ýmsir fasteignaráðgjafar að annarri vinnu en margir þeirra hljóta að búa að digru árunum þegar þeir tóku fulla þóknun þótt vinnuálagið við marga söluna hljóti að hafa verið lítið og vinnan nánast áreynslulaus. Menningarlíf blómstrar oft þegar harðnar á dalnum þannig að ég hugsa að listamenn þurfi ekki að kvarta.

Ef ég þyrfti að skera niður munað myndi ég trúlega byrja á hárgreiðslustofunni og veitingastöðunum, kannski líka nautnanuddinu. Er ekki fullmikið að borga 5.500 kr. fyrir klippingu sem tekur korter? Enn frekar þegar næsti kúnni stendur á línunni og bíður eftir að komast í stólinni? Og klipping og strípur á 15.000? Ef kúnninn fer fjórum sinnum á ári er hægt að spara 60.000, a.m.k. 30.000 ef hann fer annars í annað hvert skipti.

Frænka mín ein sem fermist á næsta ári var á leið í ljós nýlega. Ég rak upp stór augu, hélt í alvörunni að ljósabekkir heyrðu sögunni til. Hverfa þeir þá ekki a.m.k. í hallærinu?

Vinafólk fór nýlega með 20.000 kr. gjafakort á veitingastað í miðbæinn. Hún dæsti áður en þau fóru af stað og hafði áhyggjur af að þau gætu aldrei klárað inneignina. Það endaði hins vegar með að þau borguðu aukalega nokkra þúsundkalla. Er eðlilegt að magafylli kosti vel yfir 10.000 á mann á skikkanlegum veitingastað á laugardagskvöldi? Óhjákvæmilegt? Mun sá staður pluma sig í hallærinu framundan?

Er hægt að sleppa utanlandsferðum í þrengingum? Stórum jeppum, hjólhýsum? Mun starfsfólk í þessum geirum annars kveðja starfið sitt? Hvert fer það þá?

Mikið væri gaman ef óháður fjölmiðill velti þessu fyrir sér. Annars hef ég 0 trú á spádómum fólks sem hefur hagsmuna að gæta. Spádómar um mannlega breytni hafa ekki forspárgildi, þeir hafa áhrif!


Unicef að missa það

Af örlæti mínu læt ég 1.000 kr. af hendi rakna til Unicefs í hverjum mánuði. Ég veit að þetta er ekki há tala en manni er alltaf sagt að smáupphæðir geri gæfumuninn í þeim löndum sem peningurinn rennur til.

Þegar ég sé þessar yfirmátahallærislegu auglýsingar frá Unicef um vatn og vatnsviku langar mig mest að afturkalla lítilræðið. Kjánahrollurinn gerir næstum því út af við mína góðu vitund. Öll myndbrotin sem ég hef séð eru hörmuleg; þegar Ilmur hneykslast á stúlkunni sem veit ekki að Þröstur Leó grettir sig fyrir góðan málstað en sýnu verst er þegar Bjarni Ármanns fær unaðshroll yfir vatninu.

Það er unnið gegn góðum málstað.

 


Er þorskurinn skotinn í síldinni?

Síldin hvarf einu sinni. Einhvern veginn held ég að það hafi verið vegna ofveiði. Nú sé ég á RÚV að þorskstofninn sé í sögulegu lágmarki og það þrátt fyrir gjörgæslu þorsksins undanfarið. Er ekki bara vitlaust gefið? Er kannski þorskurinn að bera víurnar í síldina og farinn á vit hennar?

Miskunnsami Samverjinn lifir enn góðu lífi

Gummi bróðir stendur í flutningum og ég er svo góð litlasystir (af því að hann er svo góður stóribróðir) að ég rétti honum stundum hjálparhönd. Í kvöld reyndi ég að rétta honum litlafingur við flutning á þvottavél. Sem við stóðum fyrir utan heimili hans í miðborginni, kannski dálítið rotinpúruleg og uppburðarlítil, bar að ungan karl og unga konu. Sá var ekki að tvínóna þegar hann sá aumingjaskapinn og bauð fram aðstoð við þvottavélarburð.

Ekki bara var hann mjög snöfurmannlegur við þetta í alla staði, heldur stóðum við að burði loknum á hjali lengi kvölds. Riddaramennska er sko ekki liðin undir lok.

Mig langaði að skrásetja með mynd - en feimnin aftraði mér.


Er nokkur kreppa?

Mér fannst endilega að það væru alveg sérlega fáar auglýsingar í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég minnist þess að það barst í tal á heimilinu. Og maður hugsaði að þarna sæi kreppunnar stað.

Í dag frétti ég að góðvinur minn hefði ráðið sig á auglýsingastofu á föstudaginn og eytt allri helginni í að semja texta að óljósri sjónvarpsauglýsingu. Og við rifjuðum upp kreppuna sem var talað um árið 2002 sem gekk yfir meðan við depluðum augunum snöggvast. Sér maður bara kreppuna útundan sér þar sem sjónsviðið er hvað lélegast?

Ekki ætla ég þá að kvarta yfir því.


Man einhver Guðna læks?

Þegar Guðna Kolbeinssyni hafði orðið á, þegar Guðni Kolbeinsson beygði í útvarpi nafnorðið lækur í eignarfalli læks og sá svo, reyndar ranglega, að sér hefði orðið á í messunni hætti hann með útvarpsþættina. Honum varð svo um mistökin að honum þótti sér ekki lengur sætt.

Var það ekki snarboruleg hegðun?

 


Hver er þessi Leroy?

Í myndbandinu kennir hann alls kyns einföld dansspor, alls kyns ...:

 


Gildin sem manni eru kennd í grunnskólum

Ég lærði ógrynni í grunnskóla sem nýtist mér vel í dag, tungumál, útreikninga, vélritun, rithátt. Ég man fæst til að nefna það, man samt þegar ég féll í þá gildru á prófi að leggja sögnina að má út sem mega (nafnháttarmerkið var ekki með) og beygði þannig ranglega, man þegar ég gleymdi einu 0 á kristnifræðiprófi og sagði að kristnitakan hefði orðið árið 100 en man annars næstum ekkert af einstökum lærdómsatriðum. Ég vona að það sé sossum eðlilegt.

Það er aðallega tvennt sem ég man gjörla.

Ragnheiður Finnsdóttir var umsjónarkennarinn minn í 9. bekk og kenndi mér íslensku. Við skrifuðum ritgerðir og þær allar annað hvort með penna eða á ritvél. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég skrifaði um William Heinesen og lagði mikið á mig að hafa mynd af honum í ritgerðinni sem ég þurfti ljósrita (myndina), klippa og líma og ljósrita svo aftur áður en ég byrjaði að vélrita á síðuna. Ragnheiður kenndi a.m.k. mér í eitt skipti fyrir öll að ritgerð verður að vera manns sjálfs. Ef maður ætlaði að nota texta annars varð hann að vera í gæsalöppum og með tilvísunum og tilvísanirnar urðu að vera svo skýrar að hægt væri að finna heimildina. Ég gerði aldrei neitt öðruvísi, mér er bara minnisstæð innlögnin. Síðan hef ég skrifað fjölmargar ritgerðir og kennt ritgerðasmíð í framhaldsskólum, alltaf með þessari áherslu. Það er t.d. rosalega leiðinlegt að taka saman heimildaskrá, finnst mér, þannig að það er brýnt að skrifa hana jafnóðum og hafa samræmi í henni.

Sigfús Halldórsson tónskáld kenndi mér teikningu. Ég lærði aldrei neitt að teikna enda bæði hæfileikalaus og ekki síður gargandi áhugalaus um teikningar og þrívídd. Púff. Þetta ristir enn svo djúpt að þegar ég fæ póstkort skoða ég varla bakhliðina, les bara textann. Sigfús arkaði fram og aftur stofuna og sagði okkur að hann hefði sama sem gengið til Þingvalla í svo og svo mörgum kennslustundum. Það sem hann kenndi mér þó öðrum fremur var að greina á milli hugmyndanna um veikindi og lasleika. Þegar hann las upp nemanda og annar nemandi kvað hann veikan sagði Sigfús: Já, er hann á spítala? Kannski er þetta harðneskjulegt (og kannski gerðist þetta bara einu sinni) en ég held að fólk hafi haft og hafi enn tilhneigingu til að kalla vægasta hóstakjöltur veikindi.

Úr 10 ára grunnskólagöngu man ég ekki mörg önnur einstök lærdómsatriði (nema að vísu þegar Lárus kenndi mér algebru og hún kikkaði fyrirvaralaust inn um jólin þótt Lárus væri víðs fjarri og svo þegar Guðrún Svava leiðrétti hjá mér þegar ég hafði skrifað í stíl að klukkan væri 20 mínútur í átta - hún leiðrétti að hana hefði vantað 20 mínútur og síðan hef ég aldrei getað sagt það öðruvísi).

Jæja, þetta var aldeilis persónulegt á sunnudagsmorgni.


Sú bíllausa

Ég keyrði sjálfa mig og ýmislegt dót á milli bæjarhluta í dag og ákvað á bakaleiðinni að prófa eina þessara stöðva sem hafa svo mikið verið í umræðunni. Valið var svo mikið að ég keyrði framhjá hverri bensínstöðinni á fætur annarri og ákvað að taka bensín á Snorrabrautinni þar sem ég verslaði sennilega oftast síðast þegar ég var oft á bíl.

Þegar ég var vendilega búin að leggja bílnum og rifja upp pin-númerið á kortinu stóð ég í forundran fyrir framan auglýstan sjálfsalann - nema hvergi í aðkeyrslunni kom fram að sjálfsalinn tæki bara seðla.

Er þetta útspil olíusalanna í dýrtíðinni? Ef ég hefði ætlað að fylla 60 lítra tankinn hefði ég þurft að punga út átta fjólubláum seðlum. Ég geymi þá ekki í buddunni. Gerir það einhver nú orðið?


Ég gaf nemanda næstum falleinkunn í íslensku einu sinni fyrir að nota dálk úr bókmenntasögu án þess að geta heimildar

Hún varð brjáluð út í mig. Þetta var áður en google stal senunni og það var erfiðara að glöggva sig á hvenær nemendur gerðust fingralangir.

Hvernig getur háskólaprófessor EKKI vitað að maður skreytir sig ekki með stolnum fjöðrum - áður en Hæstiréttur kveður upp úr með það? Ég er svo gargandi bit.


Af hverju ættu kaupendur að eign nr. 2 að halda að sér höndum?

Ég skil ekki þessa stífluspá og enn síður spá um stíflubrot eftir afnám stimpilgjalda hjá þeim sem kaupa fyrstu eignina. Það er fjöldinn allur af stórum eignum í sölu sem eru ekki dæmigerð fyrstu kaup.

Lánin sem fást út á brunabótamat eru fjarri markaðsverði. Mun það breytast? Sparnaður upp á 400.000 þegar fólk kaupir 25 milljóna króna eign er vissulega mikilsverður en ef fólk þarf að brúa 10 milljónir og bankarnir lána ekki nema með 7,15% vöxtum er áfram verið að átthagafjötra fólk. Bankarnir ættu að andskotast til að sjá að sér. Þeir græða ekkert á að setja fólk út á klakann.

Ásett verð hefur ekki lækkað þar sem ég hef skoðað. Ég veit ekkert hvað er hægt að bjóða mikið niður en það er öllum til hagsbóta að halda flæðinu áfram. Það er alveg fáránlegt að höndl með heimili fólks lendi í frosti og að misvitrir spámenn ráðskist með svo mikla hagsmuni. Það er stórmál þegar fólk er búið að kaupa - af því að fólki var ráðlagt að kaupa áður en það seldi - og svo getur það ekki selt af því að allt í einu eru aðstæður óhagstæðar.

Þetta er ekkert grín.


mbl.is Óttast stíflu á fasteignamarkaði fram til 1. júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínverð

Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að spjalla um bensínverð og aðgerðir vöru-, sendi- og leigubílstjóra. Að sumu leyti er ég ánægð með að neytendur láti í sér heyra og rísi upp á afturlappirnar - en ég get ekki að því gert að mér finnst byrjað á öfugum enda. Ég get auðvitað trútt um talað sem vel að eiga ekki bíl, a.m.k. ekki í bili, og hef allt í göngu-, hjóla- eða strætófæri.

Ég vildi sjá fólk ybba sig yfir lélegum almenningssamgöngum. Til þess að geta lagt bílnum þarf fólk að hafa alvöruval. Og Ikea sem sýnir núna gott fordæmi með því að hækka ekki vöruverð er svo úrleiðis fyrir mig að Ikea er ekki raunverulegt val ef ég þarf að mublera upp hjá mér. Nema ég get auðvitað tekið leigubíl ... hmm.

Og mér er alveg sama þótt kaupmenn móðgist þegar ýjað er að því að þeir hafi hækkað vöruverð miklu meira en þörf krefur - af því að þeir geta það. Af hverju sniðgöngum við ekki þær vörur sem sannanlega hafa hækkað í helberu gróðaskyni? Af hverju erum við ekki upplýst um þær vörutegundir? Hvar er gagnrýna fréttamennskan?

Nei, þess í stað keyrir fólk langar vegalengdir til að kaupa ódýrari bensínlítra á Bústaðaveginum og stormar inn í Vodafone til að kaupa iPhone. Þegar upp er staðið erum það við neytendur sem berum heilmikla ábyrgð á því hvernig komið er fram við okkur, við þurfum að standa í ístaðinu og neita að láta misbjóða okkur.

Var nokkuð of mikið að borga 217 krónur fyrir 20 paratabs-töflur?


Er meiningin að láta okkur hlaupa apríl í kringum Björn Inga?

Ég er ekki mjög áhrifagjörn og þótt ég hefði átt bíl og séð fram á að keyra Bústaðaveginn á bilinu 7:30 til 9:30 hefði mér aldrei dottið í hug að reyna að komast í ódýra bensínið. Og það er heldur ljótur hrekkur á tímabili hins brjálaða verðs - nema þeim hafi verið alvara.

Hins vegar get ég ekki betur séð en að tveimur hafi dottið í hug að láta fólk elta Björn Inga. Mér heyrðist í útvarpinu sem hann ætlaði að árita bók sína um REI-málið í Eymundsson. Allir þangað. Svo sá ég í 24stundum að hann tæki við ritstjórn þess blaðs en að til tíðinda drægi hjá Ólafi Stephensen í Ráðhúsinu í dag kl. 14. Allir þangað.

Alltaf gaman að þessum samsæriskenningum.


Er miðbærinn í gíslingu?

Þórður Magnússon, talsmaður Torfusamtakanna, sýndi Agli Helgasyni og áhorfendum Silfursins í dag myndir, bæði ljósmyndir og teiknaðar, úr miðbænum. Þessa umræðu hef ég auðvitað orðið vör við og verð að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af stöðu miðbæjarins. Ég geng oft Laugaveginn, bæði á eigin vegum og stundum með útlendinga, og hef skammast mín fyrir tómlega glugga og hálfkarað viðhald. Ég hef verið ótrúlega sinnulaus um veggjakrot og næstum algjörlega dofin fyrir því sem virðist nú vera staðreynd, að fjársterkir kaupi eignir vegna lóðanna og ætli síðan að halda að sér höndum í öllu tilliti og bíða þess að geta selt lóðirnar undir gríðarleg háhýsi.

Ég er hlynnt þéttingu byggðar heilt yfir en það er einhver ógeðug lykt af þessu máli, ekki samfélagsleg vitund um þéttingu byggðar byggðarinnar vegna og íbúanna, heldur einstakra gráðugra verktaka. Og miðbærinn á ekki frekar en nokkurt hverfi skilið að verða bráð neinna manna sem hafa eigin hag einan að leiðarljósi.

Ég hef haft rúmlega annað augað á fasteignaauglýsingum í alllangan tíma og þá helst litið til 101, 105 og 107 - en mér hefur algjörlega yfirsést þessi auglýsing sem Þórður vakti athygli áhorfenda á. Reiknar seljandinn með að 47 fm einbýlishús seljist á verði sem er einhvers staðar nálægt 71 milljón? Hvað vakir annars fyrir honum? Já, í stað kofa sem hægt væri að gera huggulegan og viðhalda götumyndinni stendur til að tildra upp sex íbúða húsi. Engin mynd fylgir og ég veit ekki hvaða hús þetta er en það þarf engan eldflaugafræðing til að sjá að götumyndin muni - myndi - breytast.  

Og hvernig ætlar nú borgin að tryggja það að miðbærinn nái sér á strik?


Hækkar verðið í matvöruverslunum eftir kl. fimm?

Ég var í boði í gær þar sem því var haldið fram að verðið í Bónus og Krónunni væri hærra kl. 17 en t.d. kl. 14 þar sem verðkannanir færu fram skömmu eftir hádegi. Ég hélt að ég væri sæmilega meðvituð um verðlag og ég geri stundum innkaup í hádeginu en ég hef ekki alveg tekið eftir þessu.

Svo var líka talað um að alltaf þyrfti að leiðrétta eitthvað sem væri dýrara á kassanum en í hillunni. Ég lendi stundum í því en ekki í hvert skipti.

Loks var glænýtt dæmi um battarí sem ein ætlaði að kaupa á bensínstöð í hjólaluktina sína. Á hillu stóð 560 eða svo, a.m.k. innan við 600, en í búðarkassanum stóð um 1.200. Væntanlegur kaupandi neitaði að greiða tvisvar sinnum hærra verð fyrir vöruna og fór án battaríanna. Afgreiðslustúlkan varð fúl - en skyldi fólk annars vera nógu duglegt að neita okrinu? 


,,Á eigin vegum"

Það var ekki seinlegt að lesa bókina hennar Kristínar Steins um ekkjuna Sigþrúði sem víst elskaði manninn sinn en saknar hans ekki neitt heldur lætur eftir sér allar einföldu lystisemdir lífsins sem hann hafði engan áhuga á, eins og að fara á upplestra, mæta í jarðarfarir og opin hús til sölu. Til að byrja með þótti mér ásælni hennar í jarðarfarir - og vissulega erfidrykkjur - vafasöm en þegar á líður kemur á daginn að það er engin kökugræðgi sem ræður ferðum hennar. Hún er áhugasöm um fólk og blandar hraustlega geði þegar athöfnunum er lokið.

Krúttleg saga um fullorðna konu sem spinnur þráðinn þegar margur myndi hnýta enda dauðans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband