Terry Gunnell með fyrirlestur um jólasveinana í Þjóðminjasafninu

Ég nota flest tækifæri til að segja frá jólaveinunum þegar ég er leiðsögumaður, *hóst*. Ég er áreiðanlega nýbúin að nefna hvað ég er efins um enskt yfirheiti, eru þeir Fathers Christmas(es) (verður að vera fleirtala), Christmas Lads, Santa Clauses - eða Yule Lads eins og bókin mín heitir sem Brian Pilkington myndskreytti?

Á morgun gefst gullið tækifæri til að heyra hvernig Terry Gunnell nálgast viðfangsefnið.


Ég lét það eftir mér - ,,tökum Shackleton á þetta"

Ég fór á fyrirlestur Finnans sem útflutningsráð bauð mér á í morgun. Skemmtigildi hans var ótvírætt og ég er ekki frá því að stjórnendur og fólk í viðskiptalífinu gætu hafa haft gagn af sumu sem hann sagði. Hann Pata Degerman ákvað að klífa fjall sem enginn hafði klifið, þ.e. marka spor, sýna frumkvæði, brjóta í blað, taka á sig krók, voga sér að vera öðruvísi og kannski dálítið skrýtinn.

Hann fékk félaga sinn í slagtog og svo hófust þeir handa við að skipuleggja fjallgöngu á Suðurskautinu. Þeir puðuðu við eigið hugarfar og ýmsar aðrar hindranir í þrjú ár - og fóru samt hvergi. Þá ákváðu þeir að snúa við blaðinu, eiginlega öllu heldur henda blaðinu sem þeir höfðu sett allt sitt traust á og nálgast viðfangsefnið upp á nýtt, þó með fullri meðvitund um mistök þriggja ára.

Svo fóru þeir.

Lærdómurinn sem ég get dregið af þessu er að stundum þurfa sumir að sveigja af leið til að stækka heiminn - sem er eftirsóknarvert - og að ekki er alltaf skynsamlegt að skilja nei sem nei. Rökin rokka!

Og af því að samt er ekkert nýtt undir sólinni rifjaðist upp fyrir mér landkönnuðurinn ágæti Ernest Shackleton sem þurfti í landkönnunarleiðangri sínum með 30 karla að takast endalaust á við hindranir og finna nýjar leiðir út úr ógöngunum. Í vissum umgangshópi mínum flýgur stundum fyrir setningin: Við tökum bara Shackleton á þetta!


Ég er orðafasisti, ég játa það

Þessa færslu las ég í Orðinu á götunni:

Sindri Freysson, rithöfundur og margreyndur blaðamaður er kominn til starfa á ritstjóran Viðskiptablaðsins og sestur í sætið hans Ólafs Teits Guðnasonar, sem er orðinn starfsmaður Straums-Burðaráss. Á næstunni mun svo Arnór Gísli Ólafsson, viðskiptablaðamaður á Mogganum, flytja sig um sel og hefja störf á Viðskiptablaðinu.

Af öðrum atvinnumálum blaðamanna er það helst að frétta að Jóhann Hauksson, hinn gamalkunni haukur, er hættur störfum á dv.is.

Leturbreyting mín.

Ég les Viðskiptablaðið flesta daga, a.m.k. flesta föstudaga, og mun spennt fylgjast með hvernig Arnór þrífst á selnum.


Mig langar að fara

Forvitnilegur fyrirlestur á miðvikudagsmorgun:


Munum við glutra niður ferðaþjónustunni á Íslandi?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að leiðsögumenn hafa ekki fengið löggildingu á starfsheiti sitt. Rökin gegn því eru fánýt og engin man ég önnur en þau að fái leiðsögumenn löggildinguna setji það annálaða kunnáttumenn til hliðar. Sjálf sæi ég enga sérstaka meinbugi á að Ari Trausti og Arthúr Björgvin fengju að taka stöðupróf og hljóta þannig náð fyrir augum löggildingarstimpilsins.

Ég réð engu um málið meðan ég var í stjórn Félags leiðsögumanna og engu ræð ég núna.

Nú er allt útlit fyrir frekari ógnir við fagið og stéttina. Stefán Helgi Valsson flytur okkur fregnir af því að lektor í ferðamálafræðum sjái fyrir sér að erlend stórfyrirtæki kaupi upp fyrirtæki á Íslandi í ferðaþjónustu. Öll fyrirtæki í bisniss vilja græða þannig að verði þessi veruleiki ofan á hér má búast við enn þrengri stakk sem okkur verður sniðinn.

Ég er svo lítið verseruð í viðskiptum að ég átta mig líklega ekki til fullnustu á gróðamöguleikunum í ferðaþjónustu á Íslandi. En ætli þeir séu ekki þó nokkrir?

Í öðrum löndum er sums staðar mikið lagt upp úr fagmennsku. Ég sé þann kost helstan við löggildingu að hún ætti að ábyrgjast það að sá stimplaði kynni til verka, vissi viti sínu um staði, fólk og ástand ásamt því að skilja það umhverfi sem gestirnir koma úr. - Tryggir löggildingin það? Nei, en hún ætti þó að geta síað burtu lakara starfsfólk. - Er útilokað að hæft fólk sinni starfinu án þess að vera löggilt? - Vitaskuld ekki, en ef löggildingunni fylgir hærra kaup og meira starfsöryggi eru umtalsverðar líkur til að fleira hæft fólk veljist í stéttina.

Það held ég.


Heimskortið mitt

Stendur til bóta.

 


create your own visited country map

Kenning mín um útlendinga á Íslandi

Tilgátan er sú að þeir útlendingar sem koma mjög langt að eigi tiltölulega auðvelt með að tileinka sér a.m.k. grunnfærni í notkun nýs tungumáls, hér íslensku. Þegar ég vann í sjoppunni hjá bróður mínum komu þangað margir útlendingar sem áttu mjög auðvelt með að gera sig skiljanlega og nú umgengst ég útlendinga nær mér sem ná góðu valdi á tungumálinu.

Þegar maður tekur sig upp og flyst til nýs lands með gjörólíku hugarfari og tungumáli, þegar maður kemur frá Filippseyjum, Víetnam, Tælandi, Rússlandi - til Íslands - krefst það ákveðins hugrekkis og sjálfstrausts, jafnvel þótt vinnan krefjist fyrsta kastið ekki alls þess sem hinn aðflutti hefur upp á að bjóða.

Nú er ég bara að hugsa upphátt.


Svo auðveld í umgengni, hahha

Persónu(leika)próf (sem ég hlýt að hafa ráðið úrslitunum í) - áreiðanlega réði þessari góðu niðurstöðu að bjánar í umferðinni trufla mig ekki baun í bala.
Results of Your Type A Personality Test

 Personality Type
Ruler
Your score = 41Your score



What does your score mean?

You seem to be in the middle between the Type A and Type B personality. In this case, the middle ground is good. Your attitude to life is more of the "smell the roses" kind and you know how and when to relax. Nonetheless, you realize that picking up a challenge and competing a little bit for your place in the sun can add some spice to your life. The equilibrium is important, so don't let your hostile, aggressive, and competitive alter ego take over too often. Generally, you are easy to be around, and people tend to feel relaxed and comfortable in your presence. Yours is a very healthy attitude towards life.


Ljótu hálfvitarnir (frá Húsavík) spila á NASA í kvöld

Ég hef sossum aldrei farið á NASA, en Ljótu hálfvitarnir ætla að spila þar í kvöld. Það er besta ástæða sem hægt er að hugsa sér til að stinga þar inn nefi og því sem með fylgir.

Klambratún, menningarnótt


Huglægni bókmenntaverðlaunanna

Mikið óskaplega hljóta þetta að vera FRÁBÆRAR fagurbókmenntir ef þær skáka Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Án gamans skil ég ekki - frekar en endranær - hvernig hægt er að keppa í smekk. Fyrir hvern eru þessi verðlaun?

Spennandi umsóknir um starf ferðamálastjóra

Um áramót verður ráðinn nýr ferðamálastjóri. Frestur til að sækja um rann út á sunnudaginn, samkvæmt vef samgönguráðuneytisins verður farið yfir umsóknir næstu daga og vikur en svo á að ráða frá og með 1. janúar nk. Hmm, ég vona að ekki verði kastað höndunum til ráðningarinnar því að á listanum er margt gott fólk. Og það skiptir þessa stoð atvinnulífsins á Íslandi miklu máli að hæf manneskja verði ráðin.

 


Á Úlfljótsvatni er ,,spider camp"

Hinrik ber ábyrgð á því að ég grenjaði úr hlátri í kvöld þegar hann útskýrði hvernig stundum gæti gengið svona og svona að skipta á milli dönsku og ensku. Ég geng ekki lengra í að útskýra brandarann en að segja að skáti er spejder på dansk.

-Sem minnir mig á þegar ég var við sumarstörf í Vaasa í Finnlandi, fór einhverju sinni í sérstaka símabúð til að hringja í góðkunningja minn í Helsinki og sló fallega saman sænsku og ensku þegar ég sagði honum að ég væri í telephone affär“. Það varð ekki aftur snúið.

Kakóið á fundi leiðsögumanna var upphituð kakósúpa upplýsti mig meiri matráður en ég get þóst vera - mér þótti súkkulaðið ágætt (enda mest svag fyrir swiss miss) - en pönnukakan var óæt þegar maður er vanur pönnukökum mömmu sinnar. Að öðru leyti var kvöldið fyrirtak og rúmlega það. Mikið skelfing er gaman að þekkja leiðsögumenn og umgangast þá.

Félag leiðsögumanna er orðið 35 ára gamalt, var stofnað 1972. Þrír stofnfélagar voru á fundinum og var hún Ásta Sigurðar heiðruð enda mikil driffjöður til margra ára.

Pétur Gunnarsson leiðsögumaður (ekki rithöfundur) sagði af ferð sinni til Nepals sem var hin forvitnilegasta. Hann er høj og slank (svona eru dönsku áhrifin endalaus) og mikill burðarkraftur í honum en samt sagðist hann ekki hafa átt roð í pínulitlu og afar grönnu nepölsku konurnar sem stukku um með 70 kílóa steina á bakinu.

Ég þýfgaði auðvitað Skúla um árangur af kjarafundi dagsins í dag. Ég kýs að vera bjartsýn ...

Svo tók ég umtalsverðan helling af myndum en nú á Ingvi eftir að kenna mér að taka þær út af kortinu. Ingvi? Annars dregst það fram yfir 19. desember þegar ég er búin í þýðingaprófinu mínu.


Kakó og pönnukökur með heilbrigðu spjalli

Nú gefst okkur leiðsögumönnum tækifæri til að spjalla um fagið á afmæliskakófundi. Hvernig segja leiðsögumenn t.d. frá flekakenningunni þegar henni hefur verið úthýst af Þingvöllum? Breyta sumir engu þar? Ég hitti Borgþór Kjærnested nýverið og hann sagðist segja frá henni í grennd við Selfoss. Ég fer ekkert endilega framhjá Selfossi þótt ég fari á Þingvelli.

Þýða leiðsögumenn öll örnefni? Þau helstu? Engin? Parliament Plains? Smokey Bay? En örugglega íslensku heitin þá með, ekki satt?

Ég á von á a.m.k. Ursulu, Bryndísi, Þórhildi og Magnúsi úr árganginum mínum. Vonandi Möggu. Pétri líka ef hann er ekki að sinna skyldustörfum á Blönduósi. Aðrir eru bónus! Hvað með Auði, skyldi hún koma frá Hvammstanga?

Og skyldu mínar ágætu bloggvinkonur Lára Hanna og Steingerður eiga heimangengt??

Spennan er óbærileg að verða. 21 klukkutími fram að kakófundi.


Jólabók er inni

Hvur skrambinn, hér sit ég í afhallandi kvöldi og aðlíðandi nótt og fletti upp í Gegni og kemst að því að á bókasafninu mínu er bæði einn Arnaldur og einn Einar Már, og Yrsa í frágangi. Ætli sé dónalegt að standa á þröskuldinum þegar safnið verður opnað á morgun?

Reyndar gæti verið að ég þyrfti að vera annars staðar kl. 10.

Skrambans.

Ég er þó það heppin að Alþingisrásin er ennþá kvik ...


Illa nýttur starfstími

Góðkunningi minn sem vinnur þægilega innivinnu fullyrðir að 30% af starfstíma þeirra sem sitja við tölvu allan daginn sé eytt í þágu starfsmannanna sjálfra. Ég hef enga trú á því.

Dekurdagur í sjónvarpinu

Silfur Egils, Mannamál og Forbrydelsen. Ég hef engu við þetta að bæta. Nema þætti á BBC Prime þar sem tveir stílistar (tvær stílistur?) taka í yfirhalningu konur sem eru áhugasamar um að breyta til í fataskápnum.

Svona eiga sunnudagar stundum að vera.


Leiðsögumenn búnir að funda einu sinni með SA

Vefurinn okkar flytur þau tíðindi af samningaviðræðum leiðsögumanna og Samtaka atvinnulífsins að kröfugerð hafi verið lögð fram og að næsti fundur verði um miðja næsta viku. Magnús Oddsson, ekki-ferðamálastjóri, sem útskrifaðist með mér árið 2002 og sem ég hef óbilandi trú á er hóflega bjartsýnn á að samningar náist fyrir áramót. Það held ég að sé dulkóðun fyrir að ekki verði samið fyrr en 17. maí 2009 eða svo. Samningar eru hins vegar lausir 31. desember nk.

Efsti dagvinnutaxti er kr. 1.450 - með orlofi. 17% hækkun flytti taxtann upp í kr. 1.697. Ég vel töluna 17% að vel yfirlögðu ráði - samt er tímakaupið lágt.

1.697 * 170 tímar = 288.490 (með orlofi og óvissu í ráðningu).

Ég veit um leiðsögumenn sem finnst þetta ágætt.


Ég nota alltaf tækifærið til að segja útlendingum frá vetninu þegar við keyrum framhjá stöðinni

Í hinum klassíska Gullhring keyrir maður einu sinni framhjá vetnisstöðinni og ég sleppi ógjarnan tækifærinu til að segja ferðalöngum af framtíðardraumum okkar Íslendinga, a.m.k. mínum, sem sagt að við munum þegar upp verður staðið keyra fyrir vetni í stað bensíns eða olíu. Ég hef staðið í þeirri meiningu að síðasta eina og hálfa árið hafi einir þrír strætisvagnar og 40-50 fólksbílar verið knúnir með vetni. Sá galli er á gjöf Njarðar að þetta er eina stöðin þannig að maður skutlast ekkert á vetnisbíl lengra en kannski til Hveragerðis. Ég sé ekki í þessari frétt að til standi að fjölga stöðvunum. Stendur það samt til? Verður hægt að taka vetni á Akureyri fljótlega?

Ég á reyndar engan bíl - en getur ekki verið að ég hafi séð í fréttunum nýlega eitthvað um að eldsneytisverð hafi hækkað, og m.a.s. frekar mikið? Hvað kostar svo vetnislítrinn (og hvað kostar farartækið)? Hversu miklu betur fer notkun vetnisbíla með umhverfið en önnur vélknúin farartæki?


mbl.is Vetnisstöð vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðsögn að vetrarlagi

Kannski má kalla mig frístundaleiðsögumann, a.m.k. hef ég ekki aðallífsviðurværi mitt af leiðsögn og mun bara halda áfram í þessu hlutastarfi eins lengi og ég hef gaman af. Ég er svo heppin að vinna helst fyrir fyrirtæki sem kann sig, þar sem eigendur eru húmoristar og treysta starfsmönnum sínum til verka. Að vísu rekur mig ekki minni til að hafa orðið fyrir vantrausti, en ég hef heyrt alls kyns sögur af óhæfu ferðaskrifstofufólki sem hringir í leiðsögumenn í tíma og ótíma, algjörlega að óþörfu. „Ertu komin/n á hótelið?“ „Tókstu nestið með?“

Ég hef heldur ekki verið tiltakanlega mikið við vetrarleiðsögn. Ég fór þó núna einn laugardag um miðjan nóvember á Langjökul með hvatahóp í því ískaldasta veðri sem ég hef upplifað þar um slóðir. Við lögðum af stað úr Reykjavík kl. 8 og fyrsta klukkutímann sáum við ekki neitt. Svo stoppuðum við í Fossatúni og eftir það sást bara sæmilega út um allar jepparúður.

Það sem kom mér á óvart var hve auðvelt reyndist að segja frá í niðamyrkri. Í þoku hef ég oft sagt frá lífi fyrri tíma, þegar fólk gekk á milli allra staða og bar mal sinn á bakinu, reyndi að flýta sér og jók hraðann, heyrði eigin hjartslátt og hélt að það væru ófreskjur sem ætluðu fólk lifandi að éta, komst heim við illan leik, skellti í lás og skemmti sér svo við að segja söguna. Aftur og aftur þess vegna, og alveg þangað til hún tapaði tengingunni við upprunalegan ótta.

Við svona frásagnir dundaði fólk sér á löngum kvöldum ásamt því að prjóna, þæfa, hekla og þvílíkt. Þessar sögur hafa lifað mann fram af manni og svo segi ég farþegum að við séum látin lesa þjóðsögurnar í grunnskóla, þess vegna trúum við svo staðfastlega á huldufólk og annað ósýnilegt!

Um daginn þegar við keyrðum af stað í myrkrinu sagði sú sem sat næst fyrir aftan mig: Segðu okkur frá jólasveinunum. Og það endaði með því að ég talaði um jólin í upp undir klukkutíma, svaraði spurningum og var næstum farin að sjóða hangikjötið. Það má gera sér mat úr myrkrinu.


Leiðsögumenn setjast að samningaborðinu

Kjaranefnd leiðsögumanna sem í eru Halldór S. Magnússon, Magnús Oddsson og Skúli Möller sest á morgun, mánudag, að samningaborðinu með hjálparkokkum okkar í ASÍ og reynir að ná samningum við Samtök atvinnulífsins. Það er ekki seinna vænna því að núverandi kjarasamningar renna út í árslok.

Mér finnst miður hvað ég hef ekkert fram að færa annað en það sem ég hef þegar gert, reynt að standa uppi í hárinu á þeim atvinnurekendum sem ætla ekki einu sinni að fara eftir okkar aumu samningum, reynt að halda því til haga að samningarnar sem hafa verið gerðir eru lágmarkssamningar en ekki tilfallandi-samningar eða stundum-samningar.

Ég hef tekið þátt í að berjast fyrir löggildingu, án árangurs - enn sem komið er. Nú um áramót flytjast ferðamál milli ráðuneyta og þá er lag að reyna enn. Þau rök sem ollu höfnuninni síðast, að löggilding útilokaði hæfa menn eins og Arthúr Björgvin Bollason, Sigurð Líndal og Ara Trausta Guðmundsson frá leiðsögn, þykja mér ekki halda vatni. Hæfir menn sem hafa sannað sig nú þegar geta annað hvort fengið undanþágu eða einfaldlega tekið stöðupróf sem þeir hljóta að standast með láði.

Taxtinn er of lágur, menn slíta sér út, segja já þegar þeir hafa ekki einu sinni orku til að segja nei við ferðum, og hætt er við að sumir leiðsögumenn nái ekki að uppfæra sjálfa sig, endurmennta sig, fylgjast með, fræðast meira og hlaða battaríin. Það bitnar til langs tíma á starfinu og einstaklingnum. Fullt af hæfu fólki hefur hrökklast úr stéttinni og farið í önnur störf þótt margt hæft fólk sé sem betur fer enn að störfum.

Mínar aðalkröfur væru hærri laun, lengri uppsagnarfrestur og aldrei minna en dagurinn greiddur. Fólk sem tekur að sér transfer kl. 12 á miðvikudegi getur ekki lofað sér í neina aðra launavinnu allan dann dag. Ólaunuð binding.

Aukakröfur vörðuðu aðbúnað í langferðum, gistingu og vinnuaðstöðu í rútu. Þótt ferðamenn séu upp til hópa skemmtilegir og eftirsóknarverður félagsskapur er líka stundum brýnt fyrir leiðsögumenn og bílstjóra að vera út af fyrir sig. Á því er mikill skortur í hringferðunum þegar báðar stéttir sitja t.d. skammt undan hópnum í matartímum - og elskulegum hópnum finnst sér stundum skylt að veita umræddum stéttum félagsskap.

Og það grátlega við þessa umræðu er að maður festist í baunum í stað þess að tala um fagið.

Frá því að ég las það að flekakenninguna gæti maður ekki útskýrt á Þingvöllum því að flekarnir mættust ekki þar hefur það varla borið á góma við kollegana, ekki í mínu tilfelli. Við komumst ekki upp úr baunatalningunni og upp á faglegan umræðugrundvöll. Ég er ekki búin að vera á Þingvöllum að ráði síðan ég heyrði af þessu en ég hef ekki hugsað mér að hætta að nota sigdalinn milli Norður-Ameríku- og Evrasíuflekans til merkis um flekaskilin. Hvar og hver er samt faglega umræðan um málið?

Hvernig er með Borgarfjörðinn sem stendur sig best í að vera með fjölmálaskilti á fallegum stoppistöðum? Verður einhvern tíma auðveldara að stoppa í Reykholti upp á mat að gera? Af hverju finnst mér Snorrastofa óspennandi? Það er gaman að skoða Snorralaug, styttuna af Snorra eftir Gustav Vigeland, kirkjugarðinn, jafnvel líta í átt til gróðurhúsanna en Snorrastofa dregur mig ekki inn. Hvað með aðra?

Segja menn frá Fróðárundrunum á Snæfellsnesi, draugagangi og blóðsúthellingum? Vinnst kannski ekki tími til? Segja menn Þjóðverjum og Norðmönnum frá en ekki hinum viðkvæmu Bandaríkjamönnum?

Hvernig segja leiðsögumenn frá pólitík á Íslandi? Að hér sé lýðræði, við höfum verið danskt amt, við veiddum hvali aftur til skamms tíma, herinn sé farinn, velmegun sé mikil, allir skuldi í jeppunum sínum, i-poddar séu hátt tollaðir?

Mikið væri gaman að komast upp úr skotgröfunum og fara að tala um fagið. Eigum við að reyna?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband