Vetrarríki í Reykjavík

Ég er röng manneskja í vitlausu landi. Úti er byrjað að snjóa, það er m.a.s. viðvarandi föl að sjá á jörðunni, ég er boðin í laufabrauð til systur minnar og ég kalla það þrekvirki ef ég kemst áfallalaust í hverfi 104. Ég er kveif og skal gangast við því á öllum fundum ...

Síðustu 10 árin eða svo hefur íslenska veðrið dekrað við mig, hvort sem um er að ræða hnatthlýnun eða bara innlit hlýskeiðs, og ég vil ekki sjá vetrarmánuði bernsku minnar á ný. Ekki ég.


Smakkað á þýðingahlaðborðinu

Í Saltfélaginu var boðið upp á þýðingahlaðborð í dag, giska girnilegt. Ég entist þó aðeins skamma hríð því að Saltfélagið er ekki síður húsgagnaverslun og kaffihús en bókahorn. Og ég undi mér illa sitjandi á stól hinum megin við ganginn, stól sem var til sölu. Og engan stól mun ég kaupa þarna, frekar en skál eða disk, ekki aðeins vegna þess að ekkert heillaði mig heldur líka vegna þess að ómerkilegustu glös kostuðu marga þúsundkalla. Ég treysti mér ekki til að lofa sjálfri mér því að ég brjóti ekki alveg eins vatnsglas sem kostar 4.000 og það sem kostar 40 krónur.

Mér þótti umhverfið ekki hvetja mig til að narta í hlaðborðið eins og ég ætlaði.


Aðfenginn brandari

Í starfsmannahandbók nokkurri segir eitthvað á þá leið að leitast skuli við að ráða hæft fólk til starfa. Þetta er svo sjálfsagt atriði að maður hlýtur að spyrja sig hver muni vilja hafa í starfsmannahandbók sinni að leitast skuli við að ráða óhæft fólk til starfa.

Og svarið er:

Þróunarfélag.

Við skellihlógum að þessu, nokkur, í hádeginu.


Jólabókaflóðið fellur að

Ég fékk fyrsta þefinn af jólabókalestri í kvöld. Mér var reyndar hálft um hálft boðinn Harðskafi Arnaldar til láns í hádeginu en sökum ófyrirgefanlegs athugunarleysis míns láðist mér að þekkjast það góða boð.

Í kvöld lá leið mín á Bókasafn Hafnarfjarðar sem stendur fyrir Kynstrunum öllum. Fimm höfundar lásu úr bókum sínum og heillaði mig sú sem ég átti síst von á. Það var mikil öndvegisstund í miklum þrengslum og nú er ég staðráðin í að lesa Bíbí sem ég var áður staðráðin í að lesa ekki. Það má vel vera að ég heillist ekki af spágáfunni en Vigdís Grímsdóttir hitti í mark með lestrinum.

Svo mun ég spennt lesa Sautjándann eftir Lóu Pind Aldísardóttur sem ég þekki að góðu einu úr fréttum. Í bókinni sinni var hún búin að vopnvæða strandlengjuna sem er heldur nöturleg framtíðarsýn. Þess þá heldur er manni hollt að vera undir innrásina búinn ...


Nýtt hleðslutæki komið í hús

Til að allrar sanngirni sé gætt ætla ég að skrá hér og nú að Síminn reyndi ekki að rukka mig fyrir nýju hleðslutæki þegar ég sótti símtækið úr meintri viðgerð í dag. Hleðslutækið var vissulega ónýtt en orðið rúmlega ársgamalt og því hafði verið hótað að ég yrði að kaupa nýtt (eða ónýtt, hehe?). Síminn gerði skynsamlega í að reyna ekki að láta mig borga.


Eins og ég væri látin spá fyrir um launin mín

Í mínum augum er Kaupþing hreinn og beinn hagsmunaaðili þegar kemur að fasteignamarkaði. Og margir skulu vera mér sammála um það. Hvernig má þá vera að bankinn spáir fyrir um fasteignaverð sem hann lánar út á? Honum er akkur í því að markaðurinn frjósi ekki. Auðvitað spáir hann hækkun á næstu árum þótt það sé óskhyggja.

Tekur einhver mark á spádómnum? Ég spái því að mínir vinnuveitendur ætli að hækka mig upp í 17.500 kr. á tímann, launþegalaun.


mbl.is Kaupþing: kólnun en ekki frost á fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ju minn - hræringar

Ég vísiteraði í Hellisheiðarvirkjun í dag og lét óhemjulega að vanda - skyldi ég bera ábyrgð á Selfossskjálftunum?

Nei, maður á ekki að grínast með svona sem skiptir fjölda fólks á svæðinu máli. Hins vegar var ég svo ljónheppin að eiga erindi í Hellisheiðarvirkjun í dag. Og það verður ekki á kynningarmálin logið ...


Hvað gerir Alþjóðahús?

Hjá Útvarpi Sögu er núna skoðanakönnun um Alþjóðahús, spurt hvort fólki finnist skattgreiðendur eiga að standa undir kostnaði af rekstri þess. Núna klukkan rúmlega níu finnst tæplega 70% að skattgreiðendur eigi ekki að borga fyrir reksturinn.

Ég er kannski hlutdræg, ég veit það ekki. Ég er í námi fyrir verðandi dómtúlka og löggilta skjalaþýðendur. Alþjóðahús hefur beðið mig að taka að mér verkefni sem ég á reyndar erfitt með að sinna vegna annarra anna. Tilfinning mín er samt ómæld sú að Alþjóðahús skipti máli, sé gagnlegt og dálítill gluggi fyrir útlendinga sem eru að reyna að komast inn í íslenskt samfélag.

Á heimasíðunni er að finna allrahanda upplýsingar á 11 erlendum tungumálum. Ég hef verið á póstlista hússins og veit þess vegna um þau ógrynni sem boðið er upp á til að hjálpa fólki að fóta sig og finnast það velkomið.

Hingað koma útlendingar og hér búa útlendingar. Það er okkur öllum fyrir bestu að taka vel á móti fólki og reyna að styðja það fyrstu skrefin. Fyrr en síðar leggst það á árarnar og rær til jafns við aðra.

Ég greiddi sem sagt atkvæði með því að við stæðum undir kostnaði við Alþjóðahúsið. Það er ekki tapað fé.


Í fréttum

Í langan tíma man ég ekki eftir eins vondri frétt eins og frétt Láru Ómarsdóttur á Stöð 2 áðan um brúðkaup Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Lilju Pálmadóttur. Ég er kannski merkt því að mér finnst þetta vera óttaleg ekkifrétt en það að tala um að þarna hafi verið gefið saman fólk úr tveimur ríkustu fjölskyldum landsins finnst mér sannarlega ekki vera fréttapunktur (og í fréttunum í gærkvöldi tíundaði Lára hvað þau væru skráð fyrir mörgum milljörðum samkvæmt einhverju blaði í sumar). Svo var hún með ljóta málvillu sem ég er sem betur fer búin að gleyma og loks klykkti hún út með því að segja að þarna hefðu bæði ríkustu menn og konur landsins verið samankomin.

Ég hélt bara að fréttamiðlar hefðu metnað til að skara fram úr, m.a. í málfari og efnistökum. Þótt einhverjum finnist allt í lagi að tala eins og að konur séu ekki menn og þótt sumir spái í einhverju (þágufalli) (villan var af þeim toga) hélt ég að fréttastöðvar vildu sem sagt gera betur. Og mér þykir leitt að það skuli rifjast upp fyrir mér að umrædd Lára er einmitt sú sem þverskallaðist við að tala íslensku við forsetafrúna á einhverjum viðburði þótt Dorritt vandaði sig við að tala einmitt ekki ensku.

Ég hef auðvitað áhyggjur af að vera þvergirðingsleg og fordómafull gagnvart vondum vinnubrögðum en stundum verður maður bara að láta það sannast á sig.


Ólöf (40)

Ekki hefði ég trúað því upp á tónlistaráhugaleysingjann mig að hringbrosa yfir karlakór. Það gerðist þó í gærkvöldi í eðalafmælinu hennar Ólafar sem á kyn til tónlistar í báðar langættir. Það var ekki lítið sem ég öfundaði hana af söngnum sem var sunginn til hennar í gær, hún sat eins og drottning á stól á miðju gólfi meðan 30 stórsöngvarar sungu henni óð á hnjánum. Og skolli sem það klæddi hana vel.

Kjams, hvað veitingar voru bragðgóðar og veislan öll hin besta. Ég sendi afmælisbarninu mínar hugheilustu kveðjur.

Karlakór Reykjavíkur verður með tónleika viku fyrir jól. Það gæti hent mig að mæta.


Að verða fyrir tæknilegu hrósi

Í gamla daga skattyrtist ég oft við elskulegan bróður minn sem rak sjoppu, og með sleifarlagi þótti mér stundum. Hann er óttalega ágætur en mér þótti hann ekki duglegur að taka eftir því sem vel var gert. Stundum reyndi hann að taka sig taki og hrósa svona almennt: Takk fyrir að vera svona dugleg alltaf, eða: Takk fyrir að vera hugmyndarík.

Arg.

Hann átti að taka eftir þegar starfsmaður tók upp hjá sjálfum sér að stilla vörum öðruvísi fram, þrífa sérlega vel í kringum bland-í-poka-borðið, galdra fram meira pláss í frystikistunni eða selja fyrir helmingi meira en á öðrum miðvikudagskvöldum.

Í gærkvöldi velti ég svo hrósi enn meira fyrir mér þegar ég varð viðfang(sefni) í verkefni vinkonu minnar sem er í stjórnunarnámi. Uppleggið var umbun í starfi, hvati (eða lati) - og hrós. Og ég áttaði mig á að almennt hrós er mér einskis virði. Hrós verður að vera fyrir eitthvað afmarkað og helst einstakt. Ég upplifi hrós fyrir það sem mér finnst sjálfsagt að maður geri sem verið sé að tala niður til mín, eins og að segja við vel stálpaðan ungling: Duglegur ertu að reima skóna þína.

Hmm, er ég úti að aka á villigötum? Er ég vanþakklát?

Þegar ég leiðsegi fólki finnst mér mikil umbun þegar fólk hlær einlæglega að bröndurunum mínum og svo líka þegar það kemur til mín við fyrsta tækifæri og spyr af forvitni út í eitthvað sem ég var að segja. Endurgjöfin er áhuginn sem vaknar en ekki endilega ef það kemur og þakkar mér innantómt fyrir með handabandi. Þegar ég hef haft tækifæri til að kenna í Leiðsöguskóla Íslands hef ég látið nemendur vita skýrt að ég gef ekki að pistlunum fluttum einkunn í formi orðanna fínt eða gott, heldur með því að spinna þráðinn áfram og gefa fólki færi á að fylgja málinu eftir.

Ég veit alveg með hvernig fólki ég vil vinna.


Finnst einhverjum nóg að rafhlaða í fartölvu endist bara í 10 mánuði?

Já, seljandanum.

Ég keypti tölvu fyrir rúmu ári og byrjaði að nota hana í janúar. Fyrir á að giska mánuði kom stórt rautt X þar sem hleðslan var vön að sjást. Ég fór með tölvuna á verkstæði fyrirtækisins á mánudag, skildi rafhlöðuna eftir og fékk í morgun upphringingu þar sem mér var sagt að rafhlaðan væri ónýt og fallin úr ábyrgð. Tölvan sjálf er hins vegar í ábyrgð í þrjú ár.

Hvað drífur tölvuna áfram?

Það sem ég ekki skil er hvernig nokkru fyrirtæki finnst verjandi að segja við kaupanda að rafhlaðan eigi ekki að endast lengur. Nú er ég spennt að sjá hvað seljandi nýrrar rafhlöðu segir mér að hún muni endast lengi.

Ég er algjörlega sannfærð um að rafmagnstæki eru markvisst og meðvitað framleidd með það fyrir augum að gefa upp öndina miklu fyrr en áður tíðkaðist. Og það er ekki einu sinni svo gott að fartölvan mín hafi kostað skiterí, nei, hún kostaði hátt í 200 þúsund krónur.

Hver man eftir Westinghouse-ísskápunum sem entust von úr viti? Þeir eru ekki framleiddir lengur. Ég finn ekki einu sinni mynd af svoleiðis grip.


Loksins aftur dottin ofan í bók

Titillinn er fráhrindandi og svolítið villandi, Ástin í lífi mínu (La mujer de mia vida?), en af því að Bjartur gaf út sló ég til og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum.

Þýðingin er góð (og áreynslulaus, ég verð lamin fyrir að lýsa henni svona) og greinilegt að einhver annar hefur skrifað lýsinguna fyrir síðu Bjarts. Ég kann ekki aukatekið orð í spænsku þannig að ég get ekkert borið saman. Bókin hins vegar teflir saman lífi Theos, Antoníos og Klöru í Bretlandi og Sjíle - og dauða líka.

Hlakka til að klára hana.


Hver verður ferðamálastjóri um áramót?

Nú hefur Magnús Oddsson tilkynnt að hann hætti sem ferðamálastjóri. Hvað líður löggildingarmálum leiðsögumanna? Bráðum eru kjarasamningar lausir. Um áramót flytjast ferðamál til ráðuneytis iðnaðar sem verður líka ráðuneyti byggðamála. Er ekki svo? Breytist eitthvað hjá leiðsögumönnum?

Fasteignahremmingar

Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að segja fleiri grátklökkar sögur af fasteignakaupum en ég verð samt að rifja upp að þegar ég gerði tilboð í íbúð í fyrra sem hagstætt KB-lán (hét KB þá) hvíldi á var mér gert að verða viðskiptavinur KB ef ég ætlaði að njóta þessa hagstæða láns með 4,15% vöxtum. Ég varð að gera tvennt af þrennu hjá KB:

- stofna launareikning, taka þar viðbótarlífeyrissparnað, stofna greiðslukort.

Þar sem ég var nýlega flúin frá KB, sem hafði umbreyst frá mínum gamla góða Búnaðarbanka, tók ég þetta ekki í mál og gerði tilboð miðað við að taka lán hjá Íbúðalánasjóði. Svo gekk reyndar ekki saman með mér og seljanda, kannski af öðrum orsökum en líka kannski vegna þess að viðleitni KB til að múlbinda viðskiptavin fór þvert í mig.

Og nú á ég bara peninga og enga íbúð.


Pólverjar í víking

Ég heyrði því fleygt inn í umræðuna í gær að nú væri tímabært að lögreglan auglýsti eftir Pólverjum í vinnu. Ég tek undir það. Hér eru komnir svo margir Pólverjar og ekki allir vel íslenskumælandi að það væri vert að fá nokkra í löggæsluna sem geta sinnt málum þeirra.

Þetta kváðu þeir hafa gert í Osló, reynt að fá nokkra pólska smiði í lögregluna sem vildu það ekki og því leitað fanga í Varsjá. Hmm, er allt í einu núna að velta fyrir mér tungumálinu því að þetta snýst að ansi miklu leyti um það að lögreglan geti með góðu móti sinnt þeim málum sem henni berast og varla eru Pólverjar sem eru heimtir frá Varsjá orðnir vel norskumælandi af því einu.

Ætli lögreglan hér hafi markað sér einhverja stefnu í málinu? Fljótum við e.t.v. bara sofandi?


Æfingin skapar meistarann

Og sjá, hér er Jóhanna lærimeistari að verki:

Marín í yfirhalningu

Svo er þetta að verða endurtekið efni, Ásgerður með yfirgripsmiklar meiningar, hehe:

Ásgerður lætur ekki setja sig hjá

Habbý tókst að róa hana um stundarsakir með því að fletta í hönnunarblaði:

Habbý og Marín alveg rólegar yfir Húsum og híbýlum

Þarna var Jóhanna tískulögga búin að kristna Marín:

Marín fékk sína yfirhalningu ósvikna

Laufey og Ólöf á hliðarlínunni:

Laufey og Ólöf penar og prúðar

Habbý flaggar snyrtivörunum áður en hún stingur höfðinu í sléttujárnið:

Habbý með krullur

Og hér er hún komin út úr því aftur:

Habbý slétthærða

Loks ein af mér í maskínunni:

Berglind skeytt

Og það þurfti ekkert að gera fyrir Jóhönnu:

Jóhanna kom reddí

Bara rétt að taka fram að þetta gerðum við okkur til skemmtunar og Jóhanna tískulögga er í vinkvennahópnum. Takk fyrir stórskemmtilegt kvöld, allar saman. (Ég ætla ekki að mæta á ilmvatnskynningu samt ...)


Bónus er hverfisbúðin mín

Reyndar eru 10-11 og 11-11 líka í næsta nágrenni, Krambúðin á þarnæsta horni og Krónan ásamt Hagkaupum í hjólafjarlægð.

En ég kaupi inn í Bónusi og þar er verð þrátt fyrir allt oft lágt eða lægra en í öðrum nálægum búðum. Og nú er ég enn og aftur búin að fá svar um framlegð Bónuss, á strimlinum er annað verð en kirfilega auglýst inni í búðinni. Nú var ég t.d. látin kaupa tveggja lítra kók í þeirri góðu trú að flaskan kostaði 58 kr. Hún kostaði hins vegar á kassa 78 kr. Það sá ég þegar ég skoðaði strimilinn á hraðri leið í burtu, með poka í báðum höndum og flýtinn í sjálfri mér í augsýn. Ég vil sannarlega að bæði Vífilfell og Jón Ásgeir fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína en mér leiðist að láta ljúga að mér.

Ekki sneri ég við. Ég sný aldrei við, ætla bara alltaf að taka betur eftir næst. Og hvað eru 20 krónur ...? Þriðjungur af uppgefinni tölu, einn fjórði af innheimtri tölu. 33% yfir uppgefnu verði 10 mínútum innar í búðinni.

Svo er annað svar um framlegð Bónuss það að ég keypti líka vöru sem er ekki verðkönnunarvara, servíettur. Þær voru ekki á neinum spottprís, 20 ræfilslegar - en snotrar - og kostuðu 259 kr. Kirfilega ekki merkt á hillu - og ég í sakleysi mínu og asa mat það svo að Bónus myndi selja þessar servíettur við sanngjörnu verði.

Ég var á námskeiði í dag um dómtúlkun, bæði skemmtilegu og gagnlegu. Þegar við vorum búin að ræða fagmennsku, kröfur, ástundun, undirbúning, aðferðir, útkallstíma, viðbragðsflýti o.fl. í þeim dúr kom spurning um taxta. Dómtúlkurinn sem hefur 20 ára starfsreynslu sagði að ekki mætti hafa samráð - sem við föllumst á - en hún gæti sagt okkur að hún tæki kr. 6.500 á tímann + virðisaukaskatt. Þá skiptir engu þótt hún sé kölluð út um miðjar nætur (sem hún sagði reyndar fátítt) en að vísu er þriggja tíma útkall.

Okkur rak í rogastans.


Svarið er: birgjarnir

Ég horfði á kvöldfréttirnar í fóðurhúsum. Þar var fjallað um meint samráð. Kannski var samráð, kannski ekki. Verð er samt lægst í Bónusi. Ég varpaði fram spurningunni: Ef Bónus og Krónan hafa samráð með sér - hver tapar?

Mamma sagði: birgjarnir.

Mamma er séð. Ég var búin að gleyma birgjunum. En í kvöld rifjaðist upp fyrir mér þegar ágætur poppkornssali sem seldi bróður mínum, sjoppueigandanum, popp í eina tíð og hann sagði að Bónus kúgaði hann til að selja poppið undir kostnaðarverði. Kynni okkar poppkornssala voru með því móti að ég hafði ekki ástæðu til að vefengja orð hans.

Fyrir vikið varð hann að reyna að vinna tapið upp annars staðar. Hlýtur það ekki að vera? Poppið kostaði meira út úr heildsölunni en í verslunum Bónuss. Ætli það sé ekki eitthvað til í skarpskyggni mömmu? Líða ekki birgjarnir - og ef þeir ætla að halda sér í bransanum þurfa þeir ekki að ... taka vanlíðan sína út á öðrum smásölum?

Ég veit samt ekkert um samráð.


Ræræræ

Berglind á afmæli

Auðvitað er maður alltaf í húsverkunum þegar maður á afmæli. Þarna glittir líka í Nonna, og Svavs sést skýrt.

Eitt kvikindiSóley bróðurdóttirEinn bróðir, GummiSysturdóttir, ArnfríðurBróðursonur, DavíðBróðurdóttir, SvavsArnfríður og pabbinn hennar (Nonni)Kolbrún með fleirum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband