Misheyrn mömmu vekur kátínu okkar hinna

Þegar Vilhjálmur Þórmundur var spurður í gær í Kastljósinu hvað tæki nú við sagði hann býsna glaðbeittur: Nú hef ég meiri tíma til að spila golf og sinna fjölskyldunni. - Mamma lyftist alveg í sófanum af kæti yfir því að hann ætlaði að nýta tækifærið til að skúra gólf.

Hún þverskallast við að nota lítið tæki í eyrun sem kæmi í veg fyrir ... þessa kátínu hennar. Okkur er í fjölskyldunni líka minnisstætt að þegar hún aðstoðaði bróður minn við afgreiðslustörf í sjoppunni hans kom einu sinni maður og bað um DV og hún fór eins og stormsveipur að leita að réttu battaríi.

Það er ekki ónýtt að eiga svona mömmu.


framsóknarpálmi


Hver man árið 1999?

Úff, ég hlýt að vera gullfiskur, alveg var ég búin að gleyma hlutabréfafloppinu í Íslenskri erfðagreiningu. Hvar er rannsóknarblaðamennskan?

Það má misskilja Orðið á götunni

Mér verður endrum og eins litið inn á Orðið á götunni. Núna stendur þar þessi málsgrein frá því í gær:

Orðið á götunni er að þótt enn sé eftir að virkja eitt einasta kílóvatt af jarðvarma í útlöndum á vegum Reykjavík Energy Invest sé fyrirtækið búið að gjörnýta alla helstu virkjunarkosti meðal kosningarstjóra.

Ég hélt að aðeins bara eitt kílóvatt væri óvirkjað. Var ekki eðlilegt að ég lenti á þessum villigötum?

Að öðru leyti er Orðið bara í skemmtilegum orðaleik með virkjanir. Og þarna kemur líka fram að Rúnar Hreinsson var þessi kosningastjóri sem ég fann ekki nafnið á um helgina. En HVER er Rúnar Hreinsson?


Launastríð leiðsögumannsins heldur áfram

Hver er það aftur sem talar svo hátt og snjallt um samspil framboðs og eftirspurnar? Er það ekki einhver hagfræðingur? Eða stjórnmálamaður?

Um daginn var ég beðin um að taka að mér leiðsögn í Bláa lónið og á sleða á Mýrdalsjökul með viðkomu á Gullfossi, Seljalandsfoss og Skógafossi. Ég hafði blendnar tilfinningar gagnvart fyrirtækinu sem er byggt á gömlum og veikum grunni en komið með nýtt nafn og fagurt fyrirheit. Ég viðraði þessar efasemdir en skrifstofumaðurinn sór að allt væri breytt. Og ég sló til.

Ferðin var hin indælasta, gott og skemmtilegt fólk, glæfraakstur í svörtum sandbingjunum, mikið flissað og margt skrafað. Ég sé ekki eftir að hafa farið. Strax eftir ferðina sendi ég ferðaþjónustufyrirtækinu tímana mína og reiknaði með að fá borgað 1. nóvember eða síðar.

En í dag fékk ég launaseðil, útborgun og bréf þar sem mér var tilkynnt um framangreint. Og ég beðin um að hafa samband ef það væri eitthvað. Ég sum sé settist strax við ritstörf:

Sæl x.

Já, það er eitthvað. Ég átti reyndar ekkert sérstaklega von á að þið gerðuð upp fyrr en um næstu mánaðamót þannig að ég þakka þér fyrir að vera mun sneggri en ég átti von á. Og kannski er ástæða til að þakka fyrir að reikna orlof. Í mínum launaflokki er það reyndar 12,07% en ekki 10,17%.

Fjöldi tímanna er réttur, hins vegar er þeim vitlaust raðað á dagvinnu og eftirvinnu. Ég mætti kl. 15 á föstudegi og þá eru í mesta lagi 4 tímar í dagvinnu, allt annað í yfirvinnu, sem sagt 17,5 tímar. Þú hefur líklega ekki áttað þig á að Mýrdalsjökulsferðin var á laugardegi.

Svo er hitt, taxtinn sem þú reiknar er ekki til. Taxti félagsins er á heimasíðu félagsins, sjá: http://www.touristguide.is/index.php?option=content&task=view&id=25&Itemid=48. Dagvinnutaxtinn er sem sagt 1.445,38 og eftirvinnutaxtinn 2.191,26. Heildarsumman er þá 44.128,57 en ekki 33.518. Þetta eru taxtar sem félagið hefur samið um sem lágmarkstaxta við atvinnurekendur.

Að auki sé ég engar greiðslur fyrir símanotkun. Varla finnst þér eðlilegt að ég hringi í bílstjóra og x á skrifstofunni á minn kostnað, er það nokkuð?

Kær kveðja,
Berglind

Sú sem réði mig var ekkert lítið ánægð með að fá leiðsögumann. Hvað í veröldinni veldur því að fólki finnst sjálfsagt að ráða fólk í eins til tveggja daga vinnu með nokkrum símtölum og sem því nemur truflunum frá öðru án þess að ætla að borga því a.m.k. umsamin lágmarkslaun? Og hvað sætta leiðsögumenn sig almennt við? Sætta þeir sig við að fá borgað undir taxta og heldur þess vegna stríð mitt áfram?


Spádómur bókaprófsins


You're Compassion Fatigue!
by Susan Moeller
You used to care, but now it's just getting too difficult. You cared about the plight of people in lands near and far, but now the media has bombarded you with images of suffering to the point that you just don't have the energy to go on. You've become cold and heartless, as though you'd lived in New York City for a year or so. But you stand as a serious example to all others that they should turn off their TV sets and start caring again.
Take the Book Quiz at the Blue Pyramid.

Mér sýnist sem ég muni flytja til útlanda og verða kaldrifjuð og harðbrjósta. Og úr því að sjónvarpið kemur við sögu er ég einmitt að hlusta á Silfur Egils meðan ég tek þetta próf, afrita, lími og bregst við. Sjónvarpið rúlar ...


Hver er kosningastjóri Framsóknar?

Sá hefur verið nefndur alloft upp á síðkastið, en nafnlaus. Hver er einstaklingurinn?

Bílar eru óþarfatæki

Nema svo sem stundum. Nú er ég (af illri nauðsyn) búin að vera með bíl í láni alla helgina og ég þakka mínum sæla að sú skuli ekki raunin dagsdaglega. Þetta er fínn bíll, Ford Multipla, gullfallega horgrænn með rúðum sem sést vel um til fjalla - en gírarnir eru stífir og hurðarhúnarnir standa á sér. Þegar ég legg af stað legg ég öll ósköpin sem fylgja mér í eitt sætið og svo tekur það mig hellingstíma að tína allt saman í lok (stuttrar) ferðar. Ég þarf að belta mig og finna handbremsuna sem er lengst niðri á gólfi vinstra megin.

Og svo nenni ég hvergi að koma við á leiðinni, a.m.k. ekki í búð, því að þá þarf ég að leita að stæði, hahha! Ég mun því ekki eignast bíl á næstunni þrátt fyrir ógnvænlegan samfélagslegan þrýsting (enda er ég svo heppin að eiga bróður sem er bílasali (og aflögufær um eigin bíla þegar svo háttar til)).

Svo væri kannski ráð líka að flytja til útlanda þar sem almenningssamgangnamenning er ríkari. Ég er komin með ríka ástæðu til að hugsa málið alvarlega.


Hafa Benedikt og Hilmir ekkert elst?

Ég var víðs fjarri tölvu í allan dag og er orðin pínulítið sárfætt. Svo kom ég heim og sá þetta skemmtilega Fóstbræðramyndband í tölvupóstinum:

 

Varð að stela því ... í ljósi Kiljunnar og e.t.v. fleira.


Ég trúi á álfa ... eða huldufólk ... kannski - eða ekki

Ég fagna öllum tækifærum sem bjóðast til að segja farþegum mínum frá hjátrú Íslendinga. Auðvitað trúum við ekki á huldufólk, álfa, tröll og drauga ... en engu að síður eru sögur af því að verkfræðingar og verktakar fresti framkvæmdum við húsbyggingar, færi staðina til, ávarpi álfa og fái presta til að tala máli sínu. Vegna álagabletta sem hafa verið slegnir kemur einhver fram hefndum þegar tæki bila, brotna og fara ekki í gang. Vegir hlykkjast sumir óreglulega af engri sjáanlegri ástæðu.

Selshamurinn, 18 barna faðir í Álfheimum, trunt trunt og tröllin í fjöllunum, fálkinn sem étur systur sína rjúpuna, Rauðhöfði, Garún Garún, óhreinu börnin Adams og Evu, Gissur á Botnum - ég var látin lesa þjóðsögurnar sem barn og tel mig vita að þær hafi sprottið upp úr einhvers konar veruleika fólks á sögu- og/eða ritunartíma. Fólk ráfaði um í þoku og sudda og rökkri, hélt að ófreskja af einhverju tagi væri á hælunum, rétt slapp heim og naut þess að segja sögur af eigin björgun úr lífsháska. Það var ekkert sjónvarp, hey, fólk vantaði skemmtun á kvöldvökunum. Og eru þessar bókmenntir ekki í lagi sem slíkar?

Nú hefur Stefán Helgi Valsson leiðsögumaður vísað á heimasíðu Félags leiðsögumanna á tengla sem staðfesta að fleiri en ég telja þessar sögur frásagnarinnar virði, a.m.k. sem bókmenntir og forna þjóðarvitund.

Ráðnir auglýsendur ferðaþjónustunnar gera grein fyrir sögunum með vísan til Erlu Stefánsdóttur sjáanda. Þegar ég vann að menningar- og upplýsingamálum í Hafnarfirði varð ég aldrei vör við annað en að menn tækju a.m.k. hæfilegt mark á þjóðtrúnni enda er Hafnarfjörður aðalheimkynni huldufólks á Íslandi. Og Sigurbjörg Karlsdóttir leiðsögumaður heldur uppi merkinu og fer daglega á sumrin í álfagönguferðir sem eru vel sóttar af útlendingum.

Wikipedia, sem er nú stundum svona og svona, fjallar um Álfaskóla Magnúsar Skarphéðinssonar (sem er reyndar ranglega sagður bróðir formanns Samfylkingarinnar - hvað tíminn líður).

Jamm, ég segi gjarnan frá þjóðtrúnni, superstition, Aberglaube, og uppsker stundum skakkt auga bílstjóranna. En ég segi líka frá jarðskjálftum, skattaumhverfi, atvinnulífi, víkingum, lóunni, meðalhita, flúðasiglingum, tungumálinu, handritunum og einhverju til viðbótar.

Á ég nokkuð að leggja þjóðsögurnar á hilluna?


66°N, nei takk

Ég heyrði í útvarpinu áðan meðan ég var að vakna að í einhverju blaði kæmi fram í dag að vörurnar frá 66°N væru þrisvar sinnum dýrari hér en í Bandaríkjunum. Því trúi ég. Útivistarfatnaðarvörueigandinn var svo almennilegur að auglýsa á laugardaginn margar vörur með verði - og það er hreint og klárt rán. Fólk í kringum mig hefur ætlað að kaupa regnheldar buxur og jakka í stíl en fórnað höndum og hlaupið grátandi út. Einhver setti undir sig hausinn og keypti húfu og vettlinga fyrir vikulaunin.

En ég er enn staðráðnari í að vera í flísvestinu mínu frá Regöttu og lopapeysunni sem mamma prjónaði. Væsir ekki um mig en ég sel engar vörur fyrir 66° á meðan. Ég á gömlu slitnu úlpuna mína merkta fyrirtækinu og það fellur enginn í stafi yfir henni. Svo á ég reyndar eina flíspeysu frá þeim tíima sem 66° var ekki byrjað að sníða þær til og hún er bara hvorki þægileg né falleg, kannski meira að segja komin í tunnuna.

Nei, úr því að Sigurjón Sighvatsson vill frekar dekra við Bandaríkjamenn en mig verður víst ekkert af því að ég auglýsi vöruna hans fyrir öllum þeim fjölda Bandaríkjamanna sem ég dinglast í kringum á ársgrundvelli.

Ég er ekkert fúl ... en í hvaða blaði var fréttin?


Aðdáunarverð stéttarvitund

Ég dróst svolítið aftur úr í blaðalestri um helgina þannig að ég er að lesa laugardagsmoggann núna. Á forsíðu stendur að ekkert þeirra sem sagt var upp hjá Icelandair fyrir mánuði muni missa vinnuna í desember eins og þó leit sannarlega út fyrir. Ég var búin að frétta þetta úr innsta hring en ekki lesa neins staðar í fréttamiðlum. Og nú undrar mig að þessu séu ekki gerð betri skil. Þetta er nefnilega frétt um stéttarvitund. Flugfreyjur nýta sumar tækifærið til að fara í launalaust leyfi og aðrar til að minnka starfshlutfallið til að dreifa áfallinu og sjálfsagt teygir Icelandair sig líka svolítið til að koma til móts við kröfur (sem þó eru eðlilegar).

Alveg vildi ég að leiðsögumenn kynnu þessa tækni. Alveg vildi ég að leiðsögumenn stæðu saman. Alveg vildi ég að leiðsögumenn réttu hlut sinn.


Ýkjur og öfgar í þýðingum á einu og sama kvöldinu

Ef ég reyti hár mitt öllu frekar í kvöld verð ég sköllótt. Ég er að glíma við verkefni í þýðingafræðinni sem er svona:

Regular Expressions

Lýsing:
Skráin Vulgata.txt er textaskrá sem inniheldur hluta Gamla testamentisins á latínu. Búið til regexp-streng sem breytir skjalinu þannig að hvert vers sé í einni línu. Línan á að byrja á númeri versins.

Best er að nota textaritþór á borð við TextPad, EditPlus, UltraEdit-32. Þetta er hægt í Word, en þá er notast við þeirra eigin mállýsku sem er aðeins frábrugðin.

Reynið að leysa þetta með því að búa til regexp-lýsingu, þeas. strenginn sem settur er í „search and replace". Ef ykkur tekst það ekki getið þið skrifað með orðum hvernig hægt væri að leysa þetta. Það á þá að vera stutt lýsing.

Ef mér hefði tekist að mæta í tíma væri ég kannski með lausnina. Ég er búin að reyna að hlaða niður þessum textaritþórum (Ásgerður, sem sagt þágufall með sögninni að hlaða!) en alltaf þegar TextPad, EditPlus eða UltraEdit-32 voru að ná höfn átti ég aftur að samþykkja uppsetningu. Svo sýndist mér ég helst eiga að borga líka.

Þá reyndi ég að möndla við þetta í word. En hey, hvert er leyndarmálið við það að geta slöngvað 52.000 tölum fremst í línu í einni aðgerð? Um það snýst málið. Og geðheilsa mín. Ég er einstaklega vel gefin en ég get þetta ekki ...

Að þessu sögðu skæli ég líka af gleði yfir því að wordfast-forritið (þýðingaminni) sem ég keypti fyrir rúmu ári og hef hingað til geymt í glatkistunni er ekki rykfallnara en svo að það virkar! Og það sparar tíma. Eykur nákvæmnina. Jibbí. Samvinnan blívur. Blífur?


Prófarkalas útlendingur bíómiðann?

Ég er því miður ekki sjálf búin að sjá Ratatouille en önnur viðkvæm augu ráku sig í þennan texta á bíómiða sem keyptur var inn á sýninguna:

Sýningin er með ýsl. tali


Hollendingar eiga engan þjóðarrétt

Ég sat á skrafi við Hollendinga í gær. Eins og jafnan fer maður í netta landkynningu, og m.a. hældi ég lambakjötinu okkar, talaði um að mjólkurafurðir væru orðnar að útflutningsvöru og tæpti aðeins á hvalkjöti og hákarli ásamt harðfiski. Svo spurði ég hver væri þjóðarréttur Hollendinga því að ég myndi bara eftir tréklossum og túlípönum, hugsanlega ostum.

Þau sátu tvö á móti mér þegar þetta var og urðu bæði mjög stúrin á svip þegar ég spurði um þjóðarrétt Hollendinga. Hann væri nefnilega enginn, þau væru með kóresk eldhús, japönsk, kínversk, víetnömsk og þau vissu ekki hvað og hvað - en enga eigin þjóðarrétti, ekkert hollenskt eldhús, ekkert til að státa sig af - nema hugsanlega einhverja osta.

Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að Ásgerður bjó í Hollandi í eina tíð og var óskaplega hrifin af Leonidas-súkkulaði. Nei, það er belgískt. Alveg rétt.

Og ég held að ég hafi farið langt með að eyðileggja fyrir þeim kvöldið því að þau héldu áfram að rifja upp fyrir hvað Holland væri frægt úr því að það ætti enga matarhefð. Það eru eiturlyf og rauða hverfið sem er einmitt svo löglegt að starfsmenn þess eru með eigið stéttarfélag og hafa verkfallsrétt!

Samúð mín var óskipt (en ég fór ekkert að segja þeim að hjá Transparency International erum við hrunin úr fyrsta sæti þjóða með litla spillingu í stjórnsýslunni og ofan í það sjötta).


Er rautt litur munkanna?

Í gær fékk ég sms:

In support of our incredibly brave friends in Burma: May all people around the world wear a red shirt on Friday, September 28. Please forward!

Ég áframsendi aldrei neitt, það er regla, en það er ekki ofverkið mitt að vera í rauðri skyrtu í dag. Er ekki annars búið að breyta nafninu í Myanmar?


Laun í erlendum gjaldeyri

Í gær var mér boðin tveggja klukkustunda vinna við að gáta þýðingu á handbók um eitthvert vinnutæki. Í lok tölvupóstsins sem barst frá New York var ég beðin um að verðleggja vinnu mína. Ég er ekki vön að vinna milli landa þótt ég þekki það aðeins líka þannig að ég varð svolítið hugsi. Það að vinnan sé til tveggja tíma þýðir aldrei minna en þriggja tíma framlag, m.a. þarf að lesa póstinn, skoða verkefnið, samþykkja það, koma á samningi, skrifa loks reikning, senda hann, bíða eftir að hann verði greiddur og jafnvel ganga eftir því.

Ég sagðist því verða að rukka 100 dollara á tímann, verktakalaun.

Ég fékk bréf um hæl hvar í stóð:

Hi Berglind,

Thank you for your email.

Unfortunately, I am afraid your rate is beyond our budget. Most our linguists charge between $25-$50 an hour.

Thank you for your interest though!

Nú stendur dollarinn í 62 krónum. Fyrir örfáum árum var hann um 110. Ég þakka fyrir að viðskiptavinir mínir eru allajafna ekki búsettir í útlöndum.


Fundur í Iðnó í hádeginu

Herdrengurinn sem var gert að bera vopn og beita því á aldrinum 13-16 ára las úr bók sinni í Iðnó í hádeginu. Eða svo sagði auglýsingin. Ég ætlaði að mæta og hlýða en komst ekki inn úr anddyrinu. Það er út af fyrir sig gott að svo margir hafi áhuga á að heyra sjónarmið hans en samt held ég að áherslan á hádegissúpu hafi verið fullfyrirferðarmikil. Ég missi af kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna en bíð annars forviða eftir að heyra meira af hremmingum hans.

Ég er nú einu sinni heimsforeldri hjá Unicef.


Meira af verðlagseftirliti

Ég er mikið að letjast við að fylgjast með verðlagi einstakra vöruflokka. Það eru meiri möguleikar að ég geti borið saman eða bara býsnast. Og nú hljóp á snærið hjá hneykslaranum í mér.

AB-mjólk, 1 lítri, kostar 177 kr. í 10-11 en í Bónus, skv. strimli sem hafði orðið innlyksa í buddunni, kr. 127.

Í bakaríinu var mér gert að borga 635 kr. fyrir tvær kjallarabollur, tvö birkirúnnstykki, einn snúð og eitt sérbakað vínarbrauð. Mér þykir það mikið þótt ég sé borgunarmaður fyrir því. Huggun var að afgreiðslan var á íslensku. Ég þurfti ekki að þýða rúnnstykki - eða sérbakað. Það var reyndar gaman einu sinni þegar Steingrímur ætlaði að þýða sérbakað í Danmörku en það er allt önnur og hálfútlensk saga.


Ódýrir tannlæknar

Einu sinni útskýrði fyrir mér maður að ódýrt væri það sem maður borgaði lægra verð fyrir en sanngjarnt. Talan ein og sér segir ekki til um hvort varan sé dýr eða ekki, ef hins vegar er miklu meira rukkað fyrir hana en eðlilegt má teljast í ljósi framleiðslukostnaðar og e.t.v. framboðs og eftirspurnar er hún dýr þótt talan sé kannski 100 kr.

Á Útvarpi Sögu var auglýst eftir ódýrum tannlæknum í vikunni, og víðar sé ég núna talað um verðbirtingu hjá tannlæknum, t.d. ætla Svíar að auglýsa verð sinna tannlækna á netinu.

Í mínum augum er þá ódýr tannlæknir næstum ómerkilegur og óvandaður (sbr. cheap, ekki satt?) og varla eftirsóknarverður. Ég hef því miður reynslu af dýrum tannlækni eins og ég skil málið enn. Fyrir allmörgum árum var ég með svo heiftarlegan tannverk á laugardagsmorgni að ekkert annað kom til greina en bráðavakt tannlækna. Ég komst að hjá bráðatannlækninum sem fjarlægði sársaukann, ekki vandann heldur bara verkinn, og svo fór ég til tannlæknis á mánudeginum til að komast fyrir uppsprettu vandans. Fyrir þetta tók hann 12.000 krónur og mér þótti það rán. Mér finnst það enn. Sá tannlæknir var með skæslega biðstofu með fallegum afrískum munum og íslenskum eðalmálverkum á veggjunum. Sjálfsagt hefur hann keypt bæði Moggann og Mannlíf en ég naut þess þá í engu - frekar en yfirbyggingar í listaverkaeign.

Ég man alveg hvað hann heitir, þessi ágæti maður.

Tannlæknirinn sem ég ven komur mínar til er vandaður og vel uppfærður, tekst á við glímuna sem viðgerðirnar eru með sjáanlegum áhuga og rukkar hóflega. Hann er yfirgengilega minnugur á landslag gómsins og hver heimsókn er hin fínasta skemmtun. Krónan mín kostaði hjá honum 80.000 krónur en kjálkasérfræðingurinn sem ég þurfti að fara til líka kostaði hins vegar 120.000 - rán.

Ég var hins vegar forðum daga hjá ódýrum tannlækni sem þurfti endalaust að vera að tjasla saman eldri viðgerðum sínum. Nú er ég alveg hætt að sýna trúnað trúnaðarins vegna. Ég er hjá vönduðum tannlækni sem rukkar sanngjarnt en ég vildi ekki sjá að vera hjá ódýrum tannlækni.

Kannski snýst umræðan um máltilfinningu ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband