Ágengum bankaráðgjafa verður ekki ágengt með útlendan eiganda fasteignar á Íslandi

Vinkona mín ein, útlensk, var véluð á fund með bankaráðgjafa um daginn. Hún (S) lýsti samtalinu lauslega ... á þessa lund (í tölvupósti):

Ég hitti bankaráðgjafa í morgun, og hann reyndi allt að fá mig að skrifa undir nokkurt dót, en það tókst ekki, huauaua.
Ráðgjafi: Hvar er bíllinn þinn tryggður?
S: Hjá TM.
R: Og hvað borgar þú míkið?
S: Ég held svona 50'000 plús þungaskatt plús jeppaaukagjald.
R: Nú, áttu jeppa? Flottan? Hvernig?
S: Jú, hann er æðislegur flottur og frábær. Alvöru jeppi, sko! Þetta er gamall Landrover, svona ekta drusla.
R (irriteraður, fattar ekki neitt): Já nú, er það? Jahá. Þá er kannski stutt í bílalán, ha! Við erum með fínt tilboð hérna, sérðu...
S: Nei, mig vantar ekki bíl, hann er hægur og stundum í vondu skapi, en hann mun alveg lifa 20 ár í viðbót. Og ef það er Guðs vilji að hann mun drepast á næstunni, þá á ég hjól.
R (ennþá meira pirraður): Og hvað, ætlarðu þá að hjóla eða hvað?
S: Já, það er það sem ég geri mest hvort sem er.
R: (fattar ekki neitt, en er búinn að skipta um umræðuefni og er að tala um aukalífeyrissjóð)
R: Sko, þegar þú gerir þetta og þetta, þá ertu komin með nokkrar miljónir þegar þú ert yfir 60.
S: Hvað ef ég drepst fyrr? (nei, hugsaði ég bara, sagði það samt ekki) Og ég má ekki taka út peninga áður?
R: Ekki áður en þú ert orðin 60.
S: Nei, ég nenni ekki að hugsa svo langt í tíma, og meira en það er ég með aukaellislífseyrisdót í Sviss.
R: Já, þú ert frá Sviss. Ertu þá líka með peninga úti?
S: Jújú, auðvitað á ég svissneskan bankareikning.
R: Og þú ert ekki að spá í að færa peningana hingað?
S: Guð nei, ég treysti ekki íslenskum bönkum, þetta helvítis goppedígopp og upp og niður, þá veit ég maður ekki hvað sem verður á morgun, betra að hafa það þar.
R: (ekki smá pirraður) Já, ähem, en heldur þú að þú færð eins góða vextir þar eins og á Íslandi?
S: Örugglega ekki í augnablíkinu. En sko, ég hugsa ekki bara um núna, ég er búin að eiga bankareikning úti síðan afi gaf mér þúsundkall daginn þegar ég fæddist. Og þúsundkallinn hefur nú gert sitt síðan, því það er ekki svo míkið goppedigopp og hummumhæ úti eins og hérna. Kannski eruð þið með hærri vexti núna, en góðir hlutir gerast hægt!
R (andar djúpt að sér): Já, hvað um sparnað, sko, Íslendingar í dag (!!!) hugsa svolítið mikið um sparnað. Og ef þú mundir til dæmis geyma svona 5'000 kr. á mánuði... þá blablabla...
S: Já, ég veit, þetta er grundvallarhugmyndin hjá svissnesskum bönkum, mér var kennt að spara þegar ég fékk fyrsta vasapeninginn minn.
R: Og hvað um skuldir, viltu ekki borga af þeim?
S: Ég er ekki með neinar skuldir nema íbúðina. Á ég kannski að borga af íbúðin hraðar?
R: Neinei, það borgar sig ekki. Já, ert ekki með skuldir? Já, en hvað um tryggingar....
(þá fann hann eitthvert tryggingatilboð sem mundi henda mér, einstæður einstaklingur á gömlum bíl og blablabla)
Já hérna, líst þér ekki vel um það, ætlum við ekki bara ganga frá þessu? Hérna er penni, þú þarft bara að skrifa undir hérna niðri.
S: Nei, ég skrifa ekki undir svona dót sem ég er ekki búin að hugsa um eina nótt með því að sofa yfir það. Og meira en það þarf ég fyrst að tjekka á tryggingar úti, en ég get gert það á næstunni, því ég fer til Sviss bráðum.
R: Villdu þá kannski panta tíma hjá mér í oktober og við göngum frá þessu næst?
S: Nei, ég held ekki.

Búahahaha, það tókst honom ekki, hihihi.

Og ég er svo ánægð með að þekkja svona manneskju sem stendur í ístaðinu, lætur ekki selja sér eitthvað sem hana vantar ekki og hún vill ekki. Er nóg af svoleiðis fólki í kringum okkur? Ég held ekki. Svo fannst mér lýsingin of skemmtileg til að ég tímdi að geyma hana í tölvupóstinum mínum.


Hús flytur lögheimili sitt

Ég fylgdist ekki með heilu nóttina þegar stóð til að flytja Hverfisgötuhúsið í Bergstaðastrætið, hins vegar sá ég í gærkvöldi framhaldið og í morgun þegar húsið var komið á grunninn. Og viti menn, er það ekki bara hálfkarað. Var þetta þess virði ...?

Flutningur að kvöldlagi Húsið komið heim


Smekkfullur fundur hjá Samsonum í Listasafni Íslands í morgun

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég mætti á morgunverðarfundinn í Listasafni Íslands í morgun kl. 8:15. Þrátt fyrir að eiginlegur fundur ætti ekki að byrja fyrr en kl. 8:30 var þegar setið á næstum öllum uppröðuðum stólum í stóra salnum uppi. Og morgunverðarhlaðborðið var ekki til þess fallið að fæla frá.

Erindin sem voru flutt gengu út á það, eins og í Ráðhúsinu í fyrrakvöld, að miðborgin er ekki eins góð og hún gæti verið. Frummælendur, ekki síst danski arkitektinn Jan Gehl sem er hokinn af reynslu í skipulagsmálum, sýndu fram á möguleika.

Ég segi bara aftur: Vitundarvakningin er mikil og ég er full bjartsýni fyrir hönd okkar miðbæjarmúsanna. Mér sýnist sem ég þurfi að fara að hitta Sigurgeir Orra, stórvin minn og mótmælanda, á einkafundi til að spjalla um framtíðarhorfur og fortíðarvanda. Miðbærinn getur ekki bara verið hugsaður fyrir skemmtistaðaeigendur, í honum á að vera blönduð byggð.

Samson styrktaraðili


Ég minnist ára minna í Ingólfsstrætinu með trega

Það er naumast að það hefur orðið vitundarvakning. Ég mætti á borgarafund í Ráðhúsinu og þar hélt hver frummælandinn af öðrum fyrirtakserindi um hvað þarf að bæta í miðborginni, og hvað hægt er að bæta með góðu móti. Ég átti dásemdarár í Ingólfsstrætinu forðum daga en svo spruttu upp skemmtistaðir með leka hljóðveggi og ég hrökklaðist að heiman. Sá tími rifjaðist kirfilega upp fyrir mér á fundinum áðan og árið sem ég gekk milli Pontíusar og Pílatusar að leita úrbóta. Aumingja fólkið sem ég þekkti þá, ég talaði stanslaust í á að giska ár um helvítið sem mér fannst ég búa við. Og þökk sé fólkinu með stáltaugarnar sem hélt tryggð við mig. Úff, ég sé núna úr fjarlægð enn betur hvað þetta var ömurlegt fyrir mig og alla hina líka.

Góðu fréttirnar eru þær að borgarstjóri, lögreglustjóri, íbúar miðborgar og doktorsnemi í skipulagsfræðum eru öll sammála um að nú sé tímabært að snúa þróuninni við. Að öðrum ólöstuðum fannst mér mest gaman að hlusta á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrum fréttamann hjá RÚV og verðandi borgarskipulagsfræðing, þótt hann hafi syndgað feitast upp á náðina. Hann sýndi evrópskar miðborgir með kostum og göllum og það leyndi sér ekki að smekkfullur Tjarnarsalurinn var alfarið á móti einsleitum kumböldum sem þjóna gróða fárra. Það var orðað aðeins öðruvísi.

Við hlógum oft því að erindin voru líka fyndin. Vonandi markar þetta upphafið að bættum miðbæ eins og borgarstjóri lofar. Ég á eftir að una mér enn betur í 101 til framtíðar litið. 


Hver borgar muninn?

Ég veit ekki hvort mér skjöplaðist illilega í áhorfi á fréttir Stöðvar tvö rétt í þessu. Heimir Már Pétursson sagði frétt af flugi frá Bandaríkjunum í gegnum TravelZoo til Íslands með gistingu í tvær nætur á Hótel Loftleiðum. Pakkinn sagði hann að kostaði 36.000 kr. Ég finn bara þetta í fljótu bragði - en ef eitthvað í líkingu við þetta er satt hlýtur maður að spyrja: Hver borgar raunkostnaðinn?

Icelandair er í samkeppni við erlend flugfélög. En hver veitir Icelandair aðhald hér heima, hver er stjórnarandstaða Icelandairs?

Es. Ehemm, Icelandair býður sum sé Bretum að fljúga til Bandaríkjanna með þessari tveggja daga viðdvöl í Reykjavík. Á 36.000 krónur. Ég flaug til New York fyrir rétt tæpu ári og borgaði minn 45.000-kall með tiltölulega glöðu geði með tveggja mánaða fyrirvara. Það sem maður lætur löðrunga sig.


Staðbundnar veðurspár eru veruleiki

Ég trúi því varla en prófaði samt, ég get flett upp staðbundinni veðurspá fyrir Langjökul! Mér kemur málið við og á morgun verður þar virkilega frost og stinningskaldi. Skárra á sunnudag.

Nostalgían gæti hellst yfir

Ju, í dag barst mér partíboð frá kaupanda íbúðarinnar minnar í fyrra. Ég hef ekki séð íbúðina síðan ég flutti. Og varla kaupandann sem þó er vinkona mín. Af því tilefni rifja ég upp dyrabjöllumerkinguna mína sem þó er ekki hálft eins frumleg og dyrabjallan hennar Guðrúnar Friðriks. Á henni stendur efsta bjalla, ómerkt.

Ursula þekkir fullt af dularfullu fólki, það verður áreiðanlega rafmagnað í partíinu.


Ásgerður ætti að heita Stargerður

Og hér sést hvers vegna ég segi það:

Ásgerður og smjattarnir

Upp á þetta var hún búin að þurfa að horfa (aggalítið staðbundið hjá mér):

BL og MG Meira af BL og MG

 

 

 

 

 

 

Og tilefnið var, auðvitað, að M&S höfðu gift sig:

Brúðarvalsinn ... eða þannig


Fura, Grelöð, Arngnýr, Brák

Mannanafnanefnd blessaði ýmis nöfn nýlega og um þau var fjallað í vikunni. Í tilefni af því að stórvinkona mín, Sólveig Ólafsdóttir, á afmæli á þessum drottins dýrðar rigningardegi ætla ég að rifja upp hvað hún ætlaði að skíra börnin sín ef hún eignaðist þau. Strákurinn átti að heita Arngnýr af því að það var svo flott á prenti og stelpa annað hvort Grelöð (sú sem ber fræ) eða Brák (fóstra Egils). Fleiri nöfn flugu fyrir og er mér alltaf minnisstæðast þegar hún sagði pabba sínum að hún vildi skíra stúlku í höfuðið á honum. Hún ætti þá að heita Fura.

Og þá rifjast upp líka þegar Erla, önnur stórvikona, sagði í vinnunni sinni að dóttir hennar hefði verið skírð Halldóra Þöll og ein samstarfskonan rak upp ramakvein og sagði: Skírðirðu barnið TRÖLL?

Eldri dóttir Erlu kom heim úr leikskólanum einn daginn með öndina í hálsinum og sagði: Veistu, mamma, það er kominn nýr strákur í leikskólann og hann heitir BJARNI. - Hún var sko ekki lítið hneyksluð.

En nú er mannanafnanefnd búin að leyfa karlmannsnafnið Álfar. Er það fleirtala eða Ál-far?

Til hamingju með þennan merkisdag, Sólveig.


Íbúð óskast

Kröfur eru hóflegar. Hún skal vera 90-120 fm, á svæðum 101 eða 105, með sólarsvölum (eða verönd) og gjarnan viðhaldsfrí. Fallegt eldhús með t.d. frístandandi eyju skaðar ekki og gott væri ef baðherbergið væri sjálfhreinsandi. Útsýni kemur í mesta lagi í 10. sæti þannig að hæð neðarlega í húsi er hreint ekki fráhrindandi tilhugsun.

Ég vil kaupa. Annars nenni ég bráðum ekki lengur að hokra á skerinu.

 


Krefjandi samskipti

Þetta hugtak komst mjög afgerandi til tals í dag. Hvað eru krefjandi samskipti? Er það ekki þegar reynir á mann? Og þá kemur í ljós úr hverju maður er gerður.

Ef einhver er t.d. mjög latur í nærumhverfi manns eru samskiptin við viðkomandi krefjandi. Og hvað getur maður gert? Leitt letina hjá sér? Þannig leggur maður sig ekki fram heldur kemur sér undan. Rekið hegðunina framan í hinn lata (t.d. á vinnustað)? Þá er ég sjálf orðin gribba og með erfiða framkomu. Huhh.

Ég er líklega þessi erfiða í samskiptum (bara ekki vegna leti) og ætla til öryggis að gráta mig í svefn í kvöld. Verð góð aftur með morgninum.


Icelandair á samkeppnismarkaði?

Ég skil ekki vandræðaganginn hjá Icelandair. Af hverju er flugfélagið í stríði við starfsmennina? Á Icelandair núna Iceland Express, þarf þess vegna ekki að keppa á markaði og heldur að það geti bara ráðið lögum og lofum (loftum)? Ég hallast að því fremur en að flugfreyjum, -þjónum og -mönnum sé alls varnað í heilbrigðum samskiptum.

En ég veit ekki (enn) allt um málið. Fæ nánari fréttir bráðum ... af fundinum.


Nokkrir brullaupsgestir í tjaldinu 1. september

Hrafnhildur Steingrímsdóttir sem ekki sagði orð ...

Hrafnhildur fékk ekki að vera brúðarmær í brúðkaupi foreldra sinna en hún fékk að vera með og ÞAGÐI YFIR ÞVÍ Í HEILAN MÁNUÐ. Mamma hennar og pabbi líka og það gengur líka kraftaverki næst. Gáfust þó góð tækifæri til að tala af sér, t.d. þegar Habbý spurði Steingrím í partíinu hjá Matta 13. júlí hvort þau færu ekki bráðum að láta verða af þessu, fólk væri farið að gleyma hvenær trúlofunin hefði átt sér stað. Þá kvað Steingrímur hafa sagt: „Tíminn er svo afstæður, kannski gerðist þetta bara í gær.“

Mér láðist að taka mynd af matnum eftir að hann var reiddur fram þannig að ég hef hér með mynd af matnum áður en hann varð alveg frambærilegur. 

Undirbúningur að matnum

Guðrún og Þorgerður skáru og söxuðu af móð - eldmóð.

Guðrún og Þorgerður draga ekki af sér

Kolla „systir“ tók langtum fleiri myndir en ég, ég veit bara ekki hvar hún lúrir á þeim.

Kolbrún Mjöll Hrafnsdóttir

Melkorka las ræðu frá föður sínum, Óskari Guðmundssyni, sem sat fastur yfir hundspotti í Borgarfirðinum. Hún var flott og ég sé Steingrím í allt öðru fataljósi - og þó, ljósi Sævars Karls hafði einu sinni áður verið brugðið yfir Steingrím. Best að láta allt frekara kyrrt liggja, Steingrímur vann þá á Þjóðviljanum ...

Melkorka Óskarsdóttir

Móðurbróðir Marínar, hann Stebbi, spjallaði við ljósmyndarann.

Stebbi „frændi“

Palli og Liv

Matti og Berglind Laufey komu seint og um síðir og varla nema til hálfs.

Smjattpattar

Habbý er sem betur fer sjálfri sér lík.

Habbý fann ber (held ég)

Högni entist til hálftólf og sagði að skilnaði: Ég verð hálftíma lengur næst. - Ætli hann haldi að Marín og Steingrímur ætli að gifta sig aftur?

Ásgerður og Högni

Arna og Himmi sátu sem fastast í tjaldinu eins og plön gerðu ráð fyrir. Þær voru ekki svo fáar, spekúlasjónirnar um hvernig hægt yrði að láta alla passa þar inn. Svo rættist svo fáránlega vel úr veðrinu. En Arna og Himmi vissu hvað gjöra skyldi.

Arna og Himmi

Auður ritari bæjarstjóra og Kalli á Byggðasafninu héldu Örnu og Himma selskap. Og fleirum. Kalli, Auður og svo Steinunn og Árni komu í lögreglufylgd á staðinn og fóru í sömu fylgd ... dammdaradamm. Athugasemdir heimilar í þar til gerðu athugasemdakerfi.

Auður og Kalli

Ég þekkti ekki alla

Orri, María, Marín, Dagný, Habbý hér fyrir neðan.

Krád

Snorri og Laufey

Brúðhjónin og Gullú „systir“

Þessa mynd varð ég að taka löngu eftir miðnætti, Steingrímur hafði nefnilega áhyggjur af að stönglarnir myndu ekki endast í pinnamatinn. Á daginn kom auðvitað að við erum upp til hópa soddan óhemjur að við brúkum puttana en ekki einhverja snyrtipinna (téhé).

Stönglarnir sem eftir urðu

Núna um helgina varð ég vitni að því að fólk í götunni minni var að bjástra við að koma upp samkvæmistjaldi. Fyrst sá ég þegar það átti við himininn, svo klukkutíma síðar sá ég hliðarnar smella í og um kvöldið þegar ég kom heim sá ég og heyrði gleðilætin.


The Incentive Saga (Hvatasagan)

Þetta ljóð birtist mér, skriflega, um helgina. Breskir ferðamenn, bændur, fengu það verkefni að yrkja um Ísland meðfram því sem þeir óku um torfærur.

Iceland is an island

It's surrounded by the sea

If you like steam and ice

It's the place to be.

 

The vikings came and found it first

And gave the place its name

There's lots of things to do and see

If you don't, it will be a shame.

 

Head up to the Langjökull

Ski-doo and have some fun

Be careful at the geysirs

They're so hot, you could burn your bum!

 

The booze is quite expensive

But the "Lecky" is very cheap

It's made using the hot water

That's ....'. from way down deep.

 

Not all the water is so hot

As it flows from higher ground

At the awesome Gullfoss waterfalls

It makes a crashing sound!

 

Iceland is quite striking

Thrilling and diverse

We've run out of things to say

So this is the last verse!

Höfundar skírðu sig í átt til íslensks veruleika: Erik "the viking" Rippingaleson, Sven "the axe" Plumbson, Tim "norse-hammer" Doeson og Derik "ice bum" Peckson.


Af hverju lækkar matvælaverðið hjá okkur við að ganga í Evrópusambandið?

Kemst þá á eitthvert evrópskt jafnaðarverð? Getur Ísland sótt um styrki? Lækkar álagning kaupmannanna?

Af hverju lækka útlánsvextir við að ganga í Evrópusambandið?

Ég þykist vita að þetta gangi að einhverju leyti út á samninga og samkomulag en ég sé ekki beinu línuna milli þess að ganga í Evrópusambandið og að allt verðlag skáni hér.

Ef þetta snýst að einhverju leyti um álagningu kaupmanna fá þeir annað hvort alltof mikið í vasann núna eða munu fá alltof lítið eftir hugsanlega breytingu.

Hver missir spón úr aski sínum þegar verð lækkar og vaxtamunur minnkar? Milliliðir? Verður ódýrara að flytja frakt? Mér þætti gaman að komast að því.


Undarleg forgangsröðun hitamála

Ég skil ekki af hverju fólk æsir sig yfir leikinni auglýsingu Símans sem er í fyrsta lagi (greinilega) hugsuð til að espa fólk og fá það til að tala um auglýsinguna sem eykur auglýsingagildi hennar og í öðru lagi aldeilis hreint frábær leikþáttur og í mínum augum öllu öðru fremra sem Jón Gnarr hefur komið nálægt.

Fólk ætti frekar að tala með þunga um seðilgjöld og mínútugjöld, ósanngjarna viðskiptahætti og lélega þjónustu. Eða öllu heldur hætta viðskiptum við fyrirtæki sem veitir meðalslaka þjónustu og er með ógagnsæja reikninga.

Svo auglýsi ég eftir raunverulegri samkeppni á símamarkaði, bensínmarkaði, bankamarkaði og flugleiðum. Og vil að Anton drekni vinur minn fái vinnuna sína aftur.


Þetta er aldrei búið ...

Við Þorgerður fengum það hlutverk framan af laugardeginum að græja þvottahúsið sem barlíki. Okkur fannst við þvílíkt hafa hitt í mark þegar við ákváðum trjáskreytinguna í glugganum. Úti sést inn í tjaldið:

Á barnum

Hér sést Þorgerður á kafi í undirbúningnum:

Þorgerður hlynnir að skreytingunniÞorgerður og trjáglugginn

 

 

 

 

 

Þarna átti enn eftir að breyta uppröðuninni talsvert, færa til borð og hugsa fyrir hljómsveit - ásamt því að kaupa í matinn OG ELDA. Kannski átta klukkutímar þangað til von var á prúðbúnu fólki.

Marín að morgni laugardagsins 1. september

 

Guðrún við ísskápinn Þarna er þó búið að kaupa rjómann í fiskisúpuna og Guðrún dregur ekki af sér í að ganga frá aðföngunum.

Marín gerir að Marín sker laukinn af móð. Hvað töluðu þau um, þrjú eða fjögur kíló af skæluefni í súpuna? Þetta tók tíma, það get ég a.m.k. staðfest.

Steingrímur brúðgumi Maður sá aldrei framan í Steingrím meðan á matseldinni stóð. Hann þurfti líka pínkulítið að halda á spöðunum þar sem hann átti von á 60-70 svöngum gestum eftir sjö tíma. Það var fiskisúpa með fiski, lauk, papriku í öllum litum og áreiðanlega meiru sem mér skýst yfir núna. Svo ætlaði hann líka að steikja þorsk upp úr hveiti og kryddi. Og reiða fram saltfiskbollur. Finna skötuselinn. Konfektið, hella upp á kaffi. Steingrímur var áreiðanlega illa sofinn og allt stefndi í svefnlitla helgi.

Við Þorgerður stóðum í þeirri meiningu að við gætum kælt drykkjarföng í rigningunni! Og Marín rýmdi til í gjafakoju þegar ég var búin að suða um gjafaborð í marga daga.

Veigar

Gjafakojan, aka gjafaborð

 

 

 

 

 

Í næsta versi verða gestir kvöldsins. Nóg er að gert að sinni.


Og teitið lukkaðist hið besta á laugardaginn

Marín + Steingrímur = hjónasæng

Steingrímur + Marín laugardaginn 1. september 2007

Ég get svarið að það rigndi til kl. 19 á laugardaginn en þegar gestirnir komu í tjaldið (og húsið sem fylgdi) hafði ekki bara stytt upp heldur var sólin næstum farin að banka á. Gestir gátu því verið veisluklæddir og rápað út og inn án þess að vökna að utan.

Marín sem er margt til lista lagt flutti bæði ræðu um tildrög hjónabands þeirra Steingríms og söng síðan með hljómsveitinni (sem er í skugga hennar á myndinni). Steingrímur sem er líka myndarlegur til orðs og æðis eldaði matinn, fiskisúpu sem gat mettað alla götuna og steikti þorsk sem var hvort tveggja hreinasta sælgæti. Og svo að ég deili því líka með lesandanum var allt ógert kl. 17 á laugardaginn en allt tilbúið kl. 20. Það minnti hreinlega á frumsýningu í leikfélaginu mínu (og öðrum geri ég ráð fyrir).

Að öðrum aðkomendum málsins ólöstuðum verð ég líklega að geta þess að Guðrún og Ingólfur Steingrímsbörn sem gengu um beina stóðu sig alveg fáránlega vel (ekki komin með prófið eða neitt). Hér er ein mynd af hvoru:

Guðrún SteingrímsdóttirIngólfur Hersir Steingrímsson 

Ég skemmti mér konunglega og geri ekki ráð fyrir að öðrum hafi leiðst. Ég á eftir að sortera boðlegar myndir í safninu mínu og mun mjög trúlega deila nokkrum þeirra á næstu dögum með blogginu mínu ... bara sjálfri mér til upprifjunar.

 


Ég féll á sjálfrarmínstrætóprófinu

Mig vantaði handfrjálsan búnað við símann minn, fór út miðdegis og ætlaði að taka strætó í Kringluna. En nei, þegar til átti að taka nennti ég ekki að bíða eftir strætó og labbaði þangað. Þá ætlaði ég að taka strætó úr Kringlunni og í Laugardalinn en nennti ekki að kynna mér málið. Og loks úr Mánatúni og aftur í Þingholtin - gekk. Allan tímann með strætókortið góða í hægri vasanum. Og geymdi hjólið heima.

Ég þarf að vinna betri heimavinnu og vita tímana áður en ég legg af stað. Mér skal takast að nýta mér strætó.

Góðkunningi minn sem gæti átt svona námsmannastrætókort neitar að sækja það af því að hann á bíl, hefur efni á því að eiga hann og efni á að kaupa bensín. Þrjóska hans elur á þrjósku minni því að mér finnst það ekki einkamál hvers og eins hvort hann hefur efni á að reka bíl. Ekki er ég spurð hvort ég vilji borga slitið á götunum af hans völdum.

Ekki svo að skilja að ég andskotist almennt út í bíleigendur ... Mér hefur oft boðist far (á ögurstundu), m.a.s. alla leið vestur í Stykkishólm. Nei, mér finnst bara að almenningssamgöngur eigi að vera nýtilegri og betur nýttar.


Er ég verri kúnni í bankanum af því að ég stend í skilum?!?

Nú ollu sparisjóðirnir mér vonbrigðum, tvisvar á einni viku. Á sunnudaginn heyrði til míns friðar að borga hótelreikning upp á tæpar 80.000 krónur og sveiflaði ég því e-kortinu (fyrrum) góða. Það fékk höfnun (ekki ég). Hótelstarfsmaðurinn hringdi og fékk heimild í gegnum síma og ég talaði við hr. e-kort á Íslandi sem bauðst til að hækka heimildina mína í 400.000.

Ég ætti auðvitað ekki að leggja á lesandann svona smánarlega lágar upphæðir en heimildin mín var upp á 300.000 og ég var hvergi nærri búin að nýta hana. Ekki einu sinni þegar fyrra tímabil var lagt við, það tímabil sem var búið en ekki gjaldfallið (en sparisjóðirnir leggja þetta saman sem hefur einu sinni áður komið sér illa í lok mánaðar). Merkilegur andskoti. Samtals var ég vissulega farin að nálgast 300.000 króna múrinn en ekki rjúfa hann.

Og hr. e-kort hækkaði heimildina í 400.000, bauðst til þess. Almennilegt af honum.

Svo var ég í búð áðan, keypti fyrir slatta og rétti fram kortið sem hefur líka dugað alla vikuna. En nei, það fékk höfnun. Við hringdum í Kreditkort hf. og var sagt að hringja í sparisjóðina (550-1200) af því að þar væri enn opið. Þar fengum við líka það svar að ekki væri hægt að gera neitt, ekki væri heimild til að hækka heimildina um það sem hr. e-kort hækkaði hana um um síðustu helgi! Nú var 400.000-kallinn þak (minnir mig).

Stúlkan í búðinni var algjör snillingur (ég er að meina það). Hún spurði pollróleg frk. sparisjóð hvort hún væri bara að svara í símann en ætti ekki að veita þjónustu. Þá fauk í frökenina.

Ég endaði með að borga með debetkortinu og kvaddi búðarstúlkuna með handabandi.

Og nú væri skemmtilegt að hugsa sér að vegna framboðs af vondri þjónustu og eftirspurnar eftir góðri þjónustu ætti ég að flytja viðskiptin. Ég er því miður bara ekki viss um að aðrir veiti betri þjónustu. Þó hef ég enn ekki verið tuktuð af Landsbankanum. Björgólfur Guðmundsson er viðkunnanlegur. En kannski vilja bankarnir frekar að maður skuldi og borgi of seint, lendi á FIT og haldi bönkunum uppi. Mig langar ekki til þess.

Þegar ég var komin heim með góssið fór ég beint út aftur og keypti HVÍTT HÖFUÐFAT sem mig bráðvantaði líka, ákvað að taka gleði mína á ný og byrja aftur að hlakka til morgundagsins.

Næsti kafli hefst síðan á mánudag þegar ég hringi í hr. yfirsparisjóð og reyni að veiða upp úr honum svör við þeirri spurningu hvers vegna ég fái ekki að nota úttektarheimildina sem hr. undirsparisjóður veitti mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband