Lagabreyting 2021

Ég er að reyna að glöggva mig á umræðunni um stjórnmálasamtök annars vegar og félagasamtök hins vegar. Skatturinn er með lista yfir skráð stjórnmálasamtök  og þar kennir ýmissa grasa sem ekki eru á þingi. Samtals eru framboðin 25. Eru þá allir listar sem eru í sveitarstjórnum þarna eða vantar kannski líka stjórnmálaframboð á því stigi?

Hjá Skattinum er líka eyðublað til að breyta skráningu úr félagasamtökum í stjórnmálasamtök og byggir á lögum frá 2006 sem virðist síðast hafa verið breytt 2023.

Svo finn ég frétt frá 2022 á vef Stjórnarráðsins með yfirskriftinni:

Vilji stjórnmálasamtök þiggja opinbera styrki þurfa þau að skrá sig

Fréttin er reyndar mjög ruglingsleg en inntakið sýnist mér samt vera það sem stendur í fyrirsögninni.

Þá er spurningin: Af hverju skrá stjórnmálasamtök sig ekki sem slík ef það er forsenda þess að þiggja styrki – ef þau vilja þiggja styrki? Samkvæmt gjaldskrá kostar það 30.000 kr.

Og: Hver er ábyrgð Fjársýslunnar?

Loks: Tóku þau stjórnmálasamtök sem mest hafa verið í umræðunni ekki þátt í að setja þessi lög?

Ef þessi breytingalög eru þau sem um ræðir, nr. 109/2021, voru þau samþykkt með 52 atkvæðum, 11 voru fjarverandi.

Ég er voða hrædd um að margur öryrkinn hafi þurft að endurgreiða ofgreiðslur sem hann þáði í góðri trú um að greiðandinn vissi hvað hann væri að gera. Ef greiðandinn leggur lykkju á leið sína til að endurheimta 240 krónur get ég ímyndað mér að honum finnist ástæða til að ganga eftir 240 milljónum króna.

 

 


Handboltinn

Ég er stundum forfallinn handboltaáhorfandi og búin að vera það núna í janúar. Ég hefði viljað sjá Ísland fara alla leið en ég bjóst aldrei við því. Ég er umburðarlynd gagnvart mistökum í þessum bransa og röngum ákvörðunum þjálfara. Ég er kannski of umburðarlynd þegar kemur að þessu þar sem hlutaðeigendur eru sannarlega í vinnunni og það ágætlega launaðri vinnu (eða er það ekki örugglega?).

En sem hægur skokkari frá árdögum Reykjavíkurmaraþonsins hef ég stundum sett mér hófleg markmið og samt ekki náð þeim. Og þrátt fyrir það sem ég veit um atvinnumennsku er ég stútfull af skilningi og umburðarlyndi. Og athugum eitt, ef síðasti leikur, gegn heimamönnum Króatíu, hefði tapast með þremur mörkum en ekki sex væri staðan öll önnur. Svona munar nú litlu. Íslenska liðið vann seinni hálfleikinn (í leikhléi var staðan 20-12) og hafði áður unnið fjóra leiki, þar af tvo þá seinni sem flestir bjuggust við að gæti brugðið til beggja vona.

Ég ætla að horfa á Argentínuleikinn í dag og lifa mig inn í hann alla leið vegna þess að í mínum augum er þetta veisla. Stundum fær maður bragðbesta brauðréttinn og stundum uppþornuðu kransakökuna, þetta er samt veisla og ég sendi landsliðinu ómælt knús og sérstakar stuðkveðjur.


Varnarsigur

Ég horfi á landsleiki í handbolta af áfergju og ástríðu en samt án tilfinninga. Ég man þegar Ísland tapaði fyrir Suður-Kóreu 25. febrúar 1986. Menn voru harmi slegnir, miður sín og ábyggilega sumir skömmustulegir. Væntingarnar voru langtum meiri, á pappírunum var Ísland með betra lið og Kóreumennirnir voru smávaxnir á móti hávöxnum Íslendingunum. Ég varð ekki hissa og ég var alls ekki sár. Mér finnst eðlilegt í íþróttum að gera harkaleg mistök.

Ég hef sem sagt gaman af að horfa á handbolta á stórum mótum en kippi mér ekkert upp við slakt gengi. Í vinnunni er reyndar spápottur og þar spáði ég Íslandi 10. sæti og við vorum flest á þeim slóðum. Það að vinna silfur á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 er auðvitað stórkostlega ánægjulegt en 17 árum síðar er það ekki viðmiðið.

Já, íslenska liðið lék illa í gær eftir fjóra sigurleiki í fyrstu fjórum leikjum mótsins, en keppinauturinn var lið á heimavelli með 13.500 gólandi áhorfendur á móti háværum 1.500 Íslendingum. Liðið hefði mátt tapa með þremur mörkum ef það ynni síðan Argentínu á morgun, sunnudag, og þá hefðum við verið örugg inn í átta liða úrslitin. Við töpuðum með sex mörkum en eftir fyrri hálfleikinn var ég farin að halda að við myndum tapa með tólf mörkum.

Þess vegna segi ég og skrifa: Varnarsigur!

Lesendum sem vilja skilja þetta sem tilvísun í alþingiskosningaúrslitin í haust er frjálst að gera það ...


Ekki rétta systirin

Oh, það er svo gaman að finna nýja höfunda. Kringlusafnið er oft með annað úrval bóka en bókasafnið í Grófinni og þar datt ég niður á Claire Douglas, The Wrong Sister. Sú bók er óhefðbundinn krimmi að því leyti að bókin gerist eiginlega öll hjá fórnarlömbunum og mögulegum gerendum en ekki hjá lögreglunni eins og mér finnst algengt. Tvær systur og makar þeirra ætla að skiptast í eina viku á íbúðum þar sem önnur systirin er dálítill stórbokki og þau hjónin mjög efnuð og hin systirin er heimakær og á tæplega þriggja ára tvíbura.

Og þá fer í gang sérkennileg atburðarás sem felur á endanum í sér siðferðisleg álitamál um hvort systir gerir systur greiða þótt hann sé strangt til tekið út fyrir mörk hins löglega og siðlega. Hvað er hægt að fyrirgefa og hverju er hægt að horfa framhjá? 

Hvenær er glæpur glæpur og hvenær er glæpur yfirsjón eða lítils háttar hliðarspor?

 

Gæti verið mynd af texti


Verbúðin/Vigdís

Elsku Vesturport, því miður nær þáttaröðin um Vigdísi ekki sömu hæðum og gæðum og þáttaröðin um kvótakerfið gerði. Mig grunar að það sé af því að við sem erum eldri en tvævetur munum forseta Íslands 1980-1996 og höfum á henni skoðun. Vigdís Finnbogadóttir skipar þvílíkan sess í mínum huga að ég tárast við tilhugsunina um allt sem hún áorkaði og allt sem hún gekk í gegnum. 

Ég var mjög spennt að sjá þættina og sussaði á alla í kringum mig, ég yrði að horfa á þættina í línulegri dagskrá. Fyrsti þátturinn var fínn en dálítið hægur. Annar þátturinn var mjög hægur og ég fór að halda að handritshöfundar teldu sig ekki hafa nóg efni í fjóra þætti. Nú er þriðji þátturinn búinn og sama merki brenndur og sá sem fór á undan.

Enginn nema Mannlíf og DV virðist vera að tala um þessa þætti. Ég man ekki eftir að spyrja neinn um þá og enginn spyr mig. Tala ég þó við ýmsa. Ég sé ekkert á netinu og mér er skapi næst að halda að þáttaröðin um elsku Vigdísi sé fallstykki.

Eftir fyrsta þáttinn, sem mér fannst sýnu bestur, fór ég að hugsa hvort ekki væri vert að gera þátt eða þætti um Kristbjörgu Kjeld sem er líka kraftmikil og spræk sómakona, verður níræð næsta sumar en átti m.a. stórleik í síðasta áramótaskaupi. En kannski væri einn leikinn þáttur nóg.


9. nóvember

Á þremur kvöldum las ég bók sem ég var ekki viss um að höfðaði til mín. Ástarsögur þurfa ekki að vera væmnar og tilgerðarlegar þótt ég hafi fyrir löngu lesið nokkrar af þeim toga, þær geta verið merkilegar þroskasögur, en ég hef samt varann á mér þegar þær eru auglýstar sem ástarsögur. Í 9. nóvember er um að ræða vinskap sem hefst á stórundarlegan en engu að síður sannfærandi hátt þegar strákur í næsta bás á matsölustað ákveður að koma til hjálpar stelpu sem skattyrðist við pabba sinn.

Og af stað fer atburðarás sem snýst öll um þessa dagsetningu, 9. nóvember. Daginn eftir að ég byrjaði á bókinni heyrði ég fréttaskýringaþáttinn Þetta helst sem fjallaði um aðra bók eftir sama höfund, Colleen Hoover. Sú umfjöllun styrkti mig frekar en ekki í að halda áfram en strangt til tekið fannst mér byrjunin ögn skrýtin af því að strákurinn og stelpan voru bæði 18 ára og látið var að því liggja að þau ættu bæði þá þegar atvinnuferil, hún sem leikkona og hann sem rithöfundur. Ég trúi ekki að menningarmunurinn sé svo mikill að 18 ára stelpa sem hefur þurft að hætta að leika í sápuóperu 16 ára sé álitin taka niður fyrir sig vegna þess að hún afli tekna með hjóðbókalestri.

Mér finnst þetta alveg galli á ágætri bók, það að láta eins og svona ungt fólk sé búið að koma sér fyrir á atvinnuhillu fyrir lífstíð, en þetta er tvímælalaust helsti galli bókarinnar að mínu mati.

Og þessi Colleen er búin að skrifa margar aðrar bækur sem ég iða í skinninu eftir að lesa.


Að hjóla í manninn

Ég þykist vita að Andrési, Gísla Frey og Stefáni Einari væri alveg sama þótt ég drullaði yfir þá en ég ætla ekki að gera það. Ég get alveg verið ósammála þeim án þess að kalla þá hálfvita, á spena auðmanna eða geltandi hunda (nei, þetta er ekki orðalag frá þeim), en ég skil ekki af hverju menn með alla þessa áheyrn láta ekki bara eftir sér að vera kurteisir og málefnalegir. En þótt þeir misbjóði stundum vitsmunum mínum mun ég halda áfram að hlusta á pólitísk hlaðvörp þannig að auglýsendum er óhætt að halda áfram að versla við þá, bara ekki víst að ég versli við þá auglýsendur. En þá er á hitt að líta að við látum öll glepjast annað veifið og kannski enda ég með bílinn minn á þvottastöðinni þeirra.

Ég hlustaði á þennan þátt á göngu þannig að ég sat ekki með blað og penna eða tölvu í fanginu og punktaði hjá mér. Ég man að þeir flissuðu að því að enginn læknir hefði gert stóra og góða hluti sem heilbrigðisráðherra, og hafa þá í leiðinni enga trú á Ölmu Möller, en ég man ekki betur en að það hafi komið fram um daginn að læknir hafi aldrei fyrr gegnt stöðu heilbrigðisráðherra.

Þeir virðast ekki láta sér nein tækifæri úr greipum ganga til að gera grín að Ingu Sæland en þótt hún sé með munninn fyrir neðan nefið og svari hátt og snjallt fyrir sig ætti að vera um auðugan garð að gresja hjá þríeykinu í hlaðvarpinu að gagnrýna hana fyrir skatta- og skerðingarlausar 450.000 krónurnar. 

Ásthildur Lóa fær á baukinn fyrir að vera kennari og það kennari sem hafi verið bara tvö ár og mest sex ár hjá hverjum vinnuveitanda. Og þeir höfðu miklar efasemdir um að KENNARI gæti látið til sín taka í menntamálaráðuneytinu.

En ég gat ekki betur heyrt en að þeim fyndist fyrirtak að fá 26 ára stúdent með reynslu af auglýsingaskrifum sem aðstoðarmann dómsráðherra. Já, hann er líka með hlaðvarp.

Þessi ítarlegu hlaðvörp eru svo ný af nálinni, alltént í mínum síma, að ég veit ekki hvort þessir sömu menn gagnrýndu eða hefðu gagnrýnt það útspil að gera dýralækni að fjármálaráðherra, húsasmið að samgönguráðherra, búfræðing að barnamálaráðherra, námsráðgjafa að matvælaráðherra og mannfræðing að fjármálaráðherra. Þegar til stykkisins kemur skiptir pólitísk sýn máli, samvinna og heilindi og þekking á málaflokknum getur varla skaðað.

Ég hlustaði á þennan hlaðvarpsþátt til enda en ég gafst upp á öðrum þætti þar sem Marta Smartland fór háðulegum orðum um fótabúnað fólks og annað hjóm. Verðmætamatið hjá henni er af þeim toga að ég gat virkilega ekki lagt á mig að hlusta á þann þátt nema kannski hálfan. Ekki víst að sponsorar græði mikið á mér þar.


Ósátt við jóla- og áramóta-RÚV

Ég horfi á línulega dagskrá og RÚV hefur farið langleiðina með að standa undir minni áhorfsþörf. En núna um jól og áramót er mér misboðið. Á stóru frídögunum finnst mér eiga að frumsýna almennilegar myndir. Mér finnst Napóleonsskjölin almennileg stórmynd, en t.d. ekki gerendameðvirki Johnny King á jóladagskvöld. Mér finnst Vigdís almennilegur þáttur og hlakka mikið til að sjá framhaldið og skaupið var alveg brillíant og einnig krakkaskaupið.

Þar með er eiginlega upptalið af frumsýndri jóladagskrá. Uppistaðan var endursýnt efni, endursýnd Vera, endursýndur tónlistarannáll, endursýnd Vigdís daginn eftir!, endursýndir Jülevenner, endursýndir jólatónleikar frá 2022, endursýnd Nolly í tveimur pörtum, endursýndur David Walliams - endursýnt efni frá fyrra degi eða fyrri viku.

Og nú finnst mér steininn taka úr þegar dagskrá morgundagsins er kynnt á einn veg á vefnum en í dagskrárauglýsingu í línulegri dagskrá er allt annað efni! Ég get vel hugsað mér að horfa á Vestfjarðavíkinginn sem er keyrt á í sjónvarpinu sjálfu en hann sést ekki í dagskrárkynningu RÚV.

NÚNA sé ég eftir afnotagjaldinu mínu. 

LEIÐRÉTTING kl. 20:38: Víkingurinn er í kvöld. Hann heitir ekki lengur Vestfjarðavíkingurinn. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband