Þriðjudagur, 24. október 2023
Kvennaverkfallið
Klukkan er að verða eitt og ég sit í sófanum heima hjá mér, baða mig í D-vítamíni sem leggur inn um gluggann og er að fara að tygja mig á samstöðufund.
Ég er forréttindapési. Ég er í skemmtilegri vinnu sem ég menntaði mig til, á vinnustað sem hvetur til samstöðu og er á leið á samstöðufund sem er hugsaður til áréttingar á því að stórir hópar kvenna þiggja lægri laun fyrir sambærilegt starf og karlar vinna. Ég þekki sjálf engan einstakling sem vill að konur fái lægri laun en karlar fyrir jafn verðmæt störf.
En þetta er ekki eins einfalt og það hljómar. Störf við að varsla peninga eru einhverra hluta vegna metin hærra en að varsla fólk. Ég nota viljandi svona ómanneskjulegt orð, varsla. Einhver raðar fólki og stéttum á launaskalann og þótt konur hafi sums staðar hafist til metorða er eins og þær karlgerist í þeim stöðum og beiti sér ekki fyrir jöfnuði.
Ég ætla að mæta á fundinn vegna þess að þessi samstaða skiptir máli þótt ég hafi það persónulega mjög gott.
Svo eru ólaunuðu aukastörfin. Hver skipuleggur sumarfrí fjölskyldunnar? Jólagjafakaup? Skreytingar? Hver tekur til nestið? Þið þurfið ekki að horfa langt til að sjá að í obba tilvika sér konan um þessa aukavakt, ásamt því að líta til með fullorðnum foreldrum. Ég held að flest fólk, sem sagt konurnar líka, sé til í þessi aukastörf en vilji deila með hinum á heimilinu.
Áfram, jafnrétti!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. október 2023
Fækkum kóngum og drottningum
Vá, hvað mér líst vel á þessa tillögu um að sameina Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbæ. Mér hefur löngum fundist smákónga (og -drottninga)blætið kjánalegt. Hvað gerir Mosfellsbæ frábrugðinn Breiðholtinu? Hann er aðeins fjær miðbæ Reykjavíkur. En Kjalarnes er enn fjær og það tilheyrir Reykjavík.
Sameining myndi auðvelda almenningssamgöngur, sorphirðu og alls kyns þjónustu. Og, já, auðvitað ætti svo að stíga næsta skref og sameina til suðurs líka og fá Kópavog, Garðbæ og Hafnarfjörð í sömu sæng.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. október 2023
Eru sykursýkislyf grennandi?
Ég var að heyra að fólk sem er ekki með sykursýki taki sykursýkislyf sem megrunarlyf. Ég er nú svo gömul sem á grönum má sjá en ég hafði ekki heyrt þetta fyrr en í gærkvöldi. Getur það verið satt? Það fylgdi sögunni að fólk með aukakíló sækti svo í þessi lyf að raunverulegir sjúklingar fái ekki lyfið.
Getur þú staðfest þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. október 2023
Minnistap
Mögnuð leikin mynd um Alzheimer var í sjónvarpinu um helgina. Fimmtugur háskólakennari finnur að hún byrjar að gleyma og áður en hún segir nokkrum í fjölskyldunni frá pantar hún tíma hjá taugalækni og fær skoðun á heilanum. Þegar hún segir manninum sínum frá og svo uppkomnum börnunum er hún þegar farin að sjá framtíðina skýrt og sendir framtíðarsjálfi sínu skilaboð um að þegar hún muni ekki lengur nöfnin á börnunum sínum skuli hún sækja töflur á vissan stað í kommóðunni og gleypa þær allar með vænum skammti af vatni.
Læknirinn segir að sjúkdómurinn sé langt genginn vegna þess að hún hafi notað heilann svo ótæpilega, þannig hafi einkennin ekki komið fyrr í ljós en fyrir vikið sé minna hægt að meðhöndla.
Myndin var svo átakanleg og vel gerð að ég hágrét yfir henni sums staðar. Ég get bara ímyndað mér einhvern mér nákominn sem hættir einfaldlega að muna það sem var sagt rétt í þessu. Það reynir á þolinmæðina en samt vita allir að við þessu er ekkert að gera. Minnisglapamanneskjan er sannarlega ekki að leika sér að þessu.
Og ég get líka sett mig í spor manneskjunnar sem veit að hún tapar öllum minningum og mestallri færni og verður í raun kannski byrði á sínum allra nánustu.
Mögnuð mynd. Grátlegur veruleiki sem ég vona að sem fæstir upplifi en óttast að of margir upplifi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)