Minnistap

Mögnuð leikin mynd um Alzheimer var í sjónvarpinu um helgina. Fimmtugur háskólakennari finnur að hún byrjar að gleyma og áður en hún segir nokkrum í fjölskyldunni frá pantar hún tíma hjá taugalækni og fær skoðun á heilanum. Þegar hún segir manninum sínum frá og svo uppkomnum börnunum er hún þegar farin að sjá framtíðina skýrt og sendir framtíðarsjálfi sínu skilaboð um að þegar hún muni ekki lengur nöfnin á börnunum sínum skuli hún sækja töflur á vissan stað í kommóðunni og gleypa þær allar með vænum skammti af vatni.

Læknirinn segir að sjúkdómurinn sé langt genginn vegna þess að hún hafi notað heilann svo ótæpilega, þannig hafi einkennin ekki komið fyrr í ljós en fyrir vikið sé minna hægt að meðhöndla.

Myndin var svo átakanleg og vel gerð að ég hágrét yfir henni sums staðar. Ég get bara ímyndað mér einhvern mér nákominn sem hættir einfaldlega að muna það sem var sagt rétt í þessu. Það reynir á þolinmæðina en samt vita allir að við þessu er ekkert að gera. Minnisglapamanneskjan er sannarlega ekki að leika sér að þessu.

Og ég get líka sett mig í spor manneskjunnar sem veit að hún tapar öllum minningum og mestallri færni og verður í raun kannski byrði á sínum allra nánustu.

Mögnuð mynd. Grátlegur veruleiki sem ég vona að sem fæstir upplifi en óttast að of margir upplifi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband