Mánudagur, 30. apríl 2007
Gamalt kók á nýjum belgjum
Ég fór á fund undir kvöld. Þar voru veitingar í lok fundar. Ég sá á borðum kók nokkurt zero, ákvað að láta mig hafa það að bragða á drukknum - og hann reyndist eins og aðrir þeir sykurlausu kókdrykkir sem ég hef bragðað. Ég hlýt að hafa lélegt bragðskyn.
Miklu eftirminnilegra er það létta hjal sem við tókum upp við gosdrykkjuna um tungumál hinna ýmsu þjóða, þýðingar þar á milli, Wuthering Heights og pólitísk þrætuepli.
Ég set stefnuna á aðalfund Bandalags þýðenda og túlka aftur að ári. Og obbolitlu veitingarnar dugðu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 30. apríl 2007
YouTube-tilraunin mín - áhyggjur Dana af samskiptaleysi sínu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Engifer
Ég ætla ekki að borða í heila viku, í hádeginu borðaði ég svo góðan mat með engifer. Í forrétt fékk ég kjúklingasalat Bláa lónsins með engifer og í aðalrétt túnfisksteik - með engifer.
Félagsskapurinn var að vísu ekki eins áhugaverður og á föstudaginn þegar ég spjallaði við breskan gáfumann um Tony Blair, breska dagblaðaútgáfu og útlendinga í Bretlandi - yfir öndinni.
Ég þakka Laufeyju fyrir að kynna mig fyrir engifer á sínum tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 27. apríl 2007
West Ham vs. Bolunga(r)vík
Hvernig má það vera að fréttinni af sekt West Ham er skipað mörgum skörum hærra á Stöð 2 en að fjölda manns hafi verið sagt upp í Bolunga(r)vík?
Eftir að heyra í útvarpinu nýlega að margir bolungar hefðu verið í víkinni held ég ekki lengur að maður eigi að skrifa Bolungarvík - en ég get ekki látið undir höfuð leggjast að geta þessa.
Björgólfur Thor er ábyggilega gæðablóð en skaðinn hjá honum - ef einhver - er brot af því sem skaðinn er fyrir Bolvíkinga að missa lífsviðurværið sitt. Eða var þetta aukavinna fólksins?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Er menntun kosningamál?
Ég tók áskorun í hádeginu og mætti á stefnumót við flokkana í Háskóla Íslands. Þau voru fimm og ekkert þeirra stóð sig illa. Þetta er náttúrlega vant fólk.
Spurningin sem skólafólk spyr sig - ekki síst ef draumurinn um að komast á listann yfir 100 bestu háskólana í heimi á að vera raunhæfur - er hvort efla eigi menntun. Og hvernig er hægt að tryggja meiri og betri menntun en nú er?
Ég held að Kristinn Már Ársælsson hafi átt giska góða spurningu úr sal að framsögum loknum: Nú eru um 50 nemendur um hvern kennara en almennur gæðastuðull kveður á um 14-18 nemendur - stendur til að breyta þessu?
Ef það á að breyta þessu verður það aðeins gert með meira fjármagni þannig að hver kennari hafi meiri tíma til að sinna hverjum nemanda umfram messuformið eins og einn frambjóðandi kom að í svari sínu.
Háskóli Íslands hefur þá sérstöðu að vera meiri þjóðskóli, universitet frekar en höjskole eins og annar komst að orði, og þess vegna er ekki hægt að skipa honum til sætis með skólum sem leggja ofurkapp á greinar sem hægt er að kenna með fyrirlestrum einum saman, eða svo gott sem.
Nú stunda ég þýðingafræðinám til meistaraprófs í téðum skóla. Ég sótti fyrsta tímann haustið 2004 og þá gat Gauti Kristmannsson, ljósfaðir námsins, auðveldlega lært nöfnin á okkur öllum. Nú er námið búið að slíta barnsskónum og fjölgun nemenda hefur orðið gríðarleg. Úrval í námskeiðum hefur ekki aukist, kennurum hefur eiginlega ekki fjölgað og ég veit vel að Gauti sér ekki út úr því sem hann vill gera - vegna þess að akademía er meira en að mæta í eigin kennslustundir og fara svo yfir ritgerðir og verkefni.
Ég var í íslenskunni þarna líka forðum daga. Öll árin vann ég næstum 100% vinnu og fór létt með. Ég er auðvitað dugleg, hehe, en þetta segir samt meira um kröfurnar sem voru gerðar.
Á þeim sama tíma þekkti ég auðvitað fólk í öðrum deildum, t.d. raungreinum, sem þurfti að mæta alla daga og vinna verklegar æfingar út í eitt. Ég var ekkert í sama skóla og það fólk þótt öll værum við í Háskóla Íslands.
Háskóli Íslands er vaðandi í fjölbreytileika og það þarf að hlúa að honum. Ætli það standi til?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Raunvera millistjórnenda
Það er svo sem of seint að agitera fyrir Eilífri hamingju Andra Snæs Magnasonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar þar sem ég var á lokasýningunni í kvöld.
Annars hefði ég gert það.
Sjálfsagt er hugmyndin sprottin upp úr vissum fordómum gagnvart hugmyndafræðingum auglýsingamennskunnar og markaðshyggjunnar. En þeir fordómar eru næstir raunveruleika okkar sem þekkjum ekki til. Engu að síður telur maður sig þekkja sum einkennin, kannast við manngerðirnar, samtrygginguna og togstreituna.
Er peningavitið stóriðja 21. aldarinnar?
Missir sá gjaldgengið sem skrifar sig út úr teymisvinnunni?
Eru konur settar til hliðar? Eru þær viðföng? Rjúfa þær samtrygginguna?
Einn millistjórnandinn var sprelligosi og algjörlega laus við viðkvæmni, einn var yfirmillistjórnandi og axlaði ábyrgð á tveimur börnum, einn var sigurvegari og vísaði stöðugt í gengna spekinga og einn virtist vilja bera klæði á vopn.
Tilsvörin voru oft ófyrirsjáanleg og handritið lagað að tíðarandanum og líðandi stundu. Það skemmtir mér. Og skemmdi ekki mikið fyrir þótt uppgjörið í lokin rynni svolítið út í sandinn. Allir eiga sitt Everest-fjall ...
Mér þótti hlutverk Ingvars sigurvegara sýnu verst skrifað, mér þótti gegnheilt pirrandi þegar hann svaraði næstum alltaf með því að vitna í orð Gandís og annarra vísra manna. Hinar persónurnar þóttu mér margbrotnari og gátu kallað fram ólíkar tilfinningar hjá mér. En kannski vildu höfundar teikna Ingvar svo skýrt að ég myndi aldrei ráða hann í vinnu.
Nafnið sem ég ætla að leggja á minnið er tvímælalaust Jóhannes Haukur Jóhannesson því að hann hefur ekki sagt sitt síðasta orð.
Ég er mjög ósátt við að hafa tvö löng atriði bara á ensku án þess að láta þess getið í kynningu. Það breytir því samt ekki að bæði Jóhannes og Orri fóru firnavel með þau hlutverk sín líka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Hlutleysi fjölmiðlunga, eða ekki
Sóley Tómasdóttir og Agnes Bragadóttir lögðu orð inn í umræðuna um fjölmiðlalög í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég varð mér ekki strax meðvituð um það þótt ég horfði af áhuga. Það var ekki fyrr en ég las bloggið hans Hjartar í morgun sem ég sá samhengi hlutanna skýrar. Það má segja að þær tvær hafi skattyrst (hér hefði Hjörtur skrifað skattyrzt og kannski er það áferðarfallegra) stuttlega um hlutleysi. Agnes lýsti yfir vandlætingu á hugsanlegri vinstristjórn og Sóley undraðist að hlutlaus blaðamaður hefði svo afdráttarlausa skoðun. En Agnes sagðist ekki vera hlutlaus og hefði ekki verið fengin í þáttinn til að þegja.
Ég get ekki spurt hvort Agnes sé hlutlaus, en ætti hún að vera það? Úr því að hún er ekki hlutlaus, kannast menn við að hlutlægni hennar sjái stað í skrifum hennar? Skrifar hún fréttaskýringar eins og skrif hennar heita eða eru þær e.t.v. bara skoðanir sem beri að lesa sem slíkar?
Hvað með aðra frétta- og þáttagerðarmenn? Ég nefni af handahófi nokkra sem eru misáberandi. Sigmar Guðmundsson sem stjórnaði stjórnmálaumræðum rétt áðan bloggar fyrir 5-6.000 manns á dag. G. Pétur Matthíasson, sem er reyndar farinn til Vegagerðarinnar en var hjá RÚV þangað til það breyttist í ÚV ohf., bloggar stundum. Ég man eftir Höllu Gunnarsdóttur, blaðamanni Moggans, Önnu Pálu Sverrisdóttur, sömuleiðis blaðamanni á Mogganum, enn fremur Davíð Loga Sigurðssyni. Það má nefna líka Lóu Pind Aldísardóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur, Svanhildi Hólm, Eddu Andrésdóttur, Styrmi Gunnarsson, Arnþrúði Karlsdóttur, Jóhann Hauksson, Þorstein Pálsson, Sigurjón M. Egilsson, Trausta Hafliðason, Björgvin Guðmundsson, Svanborgu Sigmarsdóttur, Kolbrúnu Bergþórsdóttur - og læt ég nú upptalningu lokið.
Allt þetta fólk meðhöndlar upplýsingar og hefur, meðvitað og ómeðvitað, áhrif á viðtakendur. Það skiptir okkur máli að við getum treyst því að það fari með upplýsingar af sanngirni og heiðarleika. Ég vil alls ekki láta leiða í lög að fólk skuli vera trútt starfi sínu, ég ætlast bara til þess að fólk sé siðlegt, en þetta með öðru var mikið rætt fyrir tæpum þremur árum þegar fjölmiðlalög voru sett og svo dregin til baka.
Er utanumhald utan um fjölmiðla nú bara orðið að algjörri eyðimörk sem stendur ekki til að vökva? Dugir kannski umræðan manna á meðal?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Leiðsögumenn, ó, gædar
Ætti maður ekki annars frekar að tala um gæta, sbr. læti?
Þar sem 30 leiðsögumenn koma saman, þar er ekki einn hugur! Ég sat framhaldsaðalfund Félags leiðsögumanna í gærkvöldi sem snerist að mestu leyti um lagabreytingar þær sem við frestuðum að taka afstöðu til á aðalfundi félagsins í febrúar.
Þær tvær breytingar sem samþykktar voru og eru mér núna eftirminnilegastar kveða á um að formaður félagsins skuli vera fagmenntaður (fagfélag sett ofar stéttarfélagi) og að fundargerðir stjórnar skuli birtar innan 10 daga frá fundum. Margar aðrar breytingar voru þó gerðar og má vænta nýju laganna á netinu innan langs tíma.
Óvæntur bónus undir liðnum önnur mál var kynning kjaragerðar. Samningar eru lausir í lok ársins og ef ekki verður gerð ansi hraustleg lagfæring á samningunum má búast við talsverðum atgervisflótta - nema leiðsögumenn séu farnir að semja betur en taxtarnir kveða á um. Því miður held ég að það sé lítil vegna þess að ferðaskrifstofur skáka í skjóli kjarasamninganna og vorkenna öllum öðrum í ferðaþjónustu meira en leiðsögumönnum. Finnst a.m.k. okkur.
Kröfugerðin er skynsamleg og sanngjörn og ég er mjög vongóð um að nefndinni takist að landa leiðréttingu handa okkur. Mér er náttúrlega engin vorkunn, treysti ekki á þetta starf eða þessar tekjur, en fólk á að geta lifað af þessu starfi. Og hvaða önnur stétt býr við það að klukkan 10 á mánudagskvöldi sé hægt að hringja í hana og segja: Ég þarf þig ekki á morgun, þriðjudag, skipið kemst ekki að bryggju?
Einhver?
Svo lýsi ég því yfir að ég saknaði Steingerðar á fundinum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. apríl 2007
Umræðugrundvöllur skoðanakannananna
Þegar ég var í uppeldis- og kennslufræði var okkur einu sinni raðað í hópa og svo áttum við að teikna tré. Fyrirmælin voru ekki önnur. Ég kann ekki að teikna og, það sem verra er, ég hef ekki sérlega gaman af að þykjast teikna þannig að ég greip bara til grunnskólateiknikennslufræða Sigfúsar Halldórssonar og teiknaði stórt brúnt tré eins og fyrirfinnst ekki einu sinni í Hallormsstaðaskógi, setti ofan á það mikið laufskrúð, gilda grein út úr því miðju, á hana krakka með iðandi fótleggi - og þar sem tíminn ætlaði aldrei að klárast setti ég fólk í útikroppi við rót trésins.
Þegar loks mátti hætta að teikna kom á daginn að sumir höfðu nostrað við æðar hinna ýmsustu laufa trjánna, gert alíslenskar birkihríslur með smákræklóttum greinum og sumir höfðu jafnvel teiknað stöðuvötn og sumarbústaði.
Svo kom leiðbeinandinn, sálfræðingur minnir mig, og bað okkur að rýna í teikningar hvert annars. Það sem ég sem sagt vissi ekki var að þetta ætti að verða umræðugrundvöllur og við áttum að ráða í og láta ráða í persónuleika okkar út frá þessum teikningum. Ég fékk sem sagt þann vitnisburð að ég væri mjög traust og laðaði til mín fólk.
Ég mátti hrekja umsögnina ef ég vildi.
Mér þótti þetta allt hið skemmtilegasta, einkum þegar upp var staðið, en almáttugur minn hvað þetta var mikill samkvæmisleikur. Og það sem ég vildi sagt hafa var það að þegar ég horfði í dag á þáttinn um Suðurkjördæmi helltust yfir mig leiðindin þegar frambjóðendur voru spurðir út í afstöðu til nýjustu talna og um hugsanlegt ríkisstjórnarsamstarf. Ég er skolli mikill áhugamaður um framvindu mála í vor en mig langar að heyra um stefnumálin, ekki hver teiknaði feitasta tréð.
Ég vildi gjarnan lenda í úrtaki og vera spurð hvort ég vildi fækka skoðanakönnunum. En ég er með bannmerki í símaskránni og lét taka mig út af lista Hagstofunnar. Þá er gott að hafa bloggsíðu, téhéhé.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Vantar ekki starfsfólk á Akranesi?
Að sumu leyti vildi ég að ég væri ekki svona kaldhæðin - og mér finnst virkilega leiðinlegt að það skyldi brenna á miðvikudaginn - en 100 stöðugildi í Reykjavík eru eins og 1 á 100 sinnum minni stað. Hvað búa margir á Flateyri? Í hversu marga daga var fjallað um það þegar níu misstu vinnuna hjá Kambi þar um síðustu mánaðamót? Ég þekki ekki til en man eftir að hafa lesið eina mbl-frétt hálfum mánuði síðar. Það var náttúrlega mannleg ákvörðun sem bruninn í Austurstræti var ekki.
Hvernig er brugðist við þegar fólk á Stöðvarfirði missir vinnuna - vegna mennskra ákvarðana? Mönnum er sagt að fara í næsta fjörð. Og því spyr ég í kaldhæðni minni: Er ekki góður veitingastaður á Akranesi sem getur bætt við sig fólki? Strætósamgöngur eru alltént góðar þangað. Um það er ég alltaf að lesa hjá Gurrí sem fer næstum daglega á milli.
Ég samhryggist öllu því fólki sem sér fram á óvissu og tekjumissi.
![]() |
Störf hátt í hundrað einstaklinga í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Skyldu nöfnin verða lesin upp á Sky og aðstandendum send blóm?
Nei, Vesturlandabúum stendur á sama um sómalísk nöfn og ástæður þess að nafnhafarnir eru sendir yfir móðuna miklu. Ef við höfum bumbuna okkar og pláss fyrir poppskálina látum við okkur 100 Mógadisja til eða frá í léttu rúmi liggja.
Sumir kalla þetta velmegun.
![]() |
Rúmlega hundrað óbreyttir borgarar fallnir í Mogadishu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. apríl 2007
Af hverju beygir enginn Prövdu?
Ég er vinur litla stafsins (lágstafsins?), eignarfalls-s (Tonys Blairs) og beyginga. Mér finnst fráleitt að tala um (eigendur) Pravda, jafn fráleitt og að menn hafi áður verslað í Karnabær eða farið til París eða til Róm.
En mér sýnist ég vera ein um þessa skoðun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Hver er fórnarlamb?
Á Sky er núna verið að fjalla um fjöldamorðið í Bandaríkjunum, þann hræðilega atburð. Ég er hvarflandi burt og um íbúðina, samt er ég tvisvar búin að sjá myndbandið sem maðurinn sendi NBC. Eins og glæpurinn sé ekki nægur eins og hann var framinn er núna aðstandendum fórnarlamba núið því um nasir að morðiinginn setur sjálfan sig í hlutverk píslarvotts og segist deyja eins og Jesús.
Ég þakka þó fyrir að íslenskir fjölmiðlar hlífa okkur við þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
,,Hagvöxtur - úlfur í sauðargæru"
Dr. Tóta er uppáhaldsleikritahöfundurinn minn í kvöld. Ég fór að sjá Epli og eikur í Möguleikhúsinu og veinaði úr hlátri. Það þykir mér gaman. Það er reyndar ekki fráleitt að hugsa sér að Oddur Bjarni Þorkelsson leikstjóri hafi líka haft eitthvað um málið að segja.
Við sögu koma hjónin Vala og Jóhannes fangelsisprestur, hann alltaf á hlaupum á eftir glæpakvendinu frú Stefaníu og Vala alltaf á hlaupum á eftir Jóhannesi, börn þeirra Baldur hinn óframfærni og Rakel sem er mest miður sín yfir að geta ekki framið glæp. Og fleira fólk.
Þetta er söngleikur og farsi um glæpi með skynsamlegri framvindu og góðum tímasetningum, fínum endalokum fyrir alla (nema Baldur, á honum var framinn galdur) og svo húmorískum og ófyrirsjáanlegum texta að ég sem sagt hló eins og ég væri í vinnu við það.
Skemmtilegast fannst mér að sjá þarna fínt nýtt fólk, Andreu Ösp Karlsdóttur, Baldur Ragnarsson og Hilmar Val Gunnarsson. Ég ætla að leggja þau nöfn á minnið - framtíðarleikarar hafa stundum byrjað ferilinn í Hugleik.
Til að allrar sanngirni sé gætt tek ég fram að Hugleikur er leikfélagið mitt. Og ég hafði ekki smekk fyrir Legi þótt það væri eftir Hugleik Dagsson.
Es. Lokasýning er í kvöld, fimmtudaginn sumardaginn fyrsta.
Dægurmál | Breytt 19.4.2007 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Kemur núna ,,kippur á fasteignamarkaðinn"?
Víst hljómar þetta vel með óverðtryggða erlenda lánið, en það er ekki jafn gott að fasteignasölurnar eru núna vísar með að vísa til þessa og tala um kipp á fasteignamarkaði eins og hann sé æskilegur. Kaupendur vilja stöðugleika og ég þori að hengja mig upp á að seljendur vilja líka stöðugleika. Seljendum finnst grætilegt þegar þeir hafa selt - og SVO kemur kippur. Annars vill ekki sanngjarnt fólk græða á vondum tímasetningum annarra, er það nokkuð?
Þessir kippir eru farnir að minna á jarðskjálfta og mér finnst nóg að gert.
![]() |
Glitnir býður nýja tegund húsnæðislána með 4,5% vöxtum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. apríl 2007
8.618 bílar pressaðir í fyrra
DV segir að tæpir 9.000 bílar hafi lent undir pressunni á síðasta ári. Úrvinnslusjóður tekur á móti, borgar úrvinnslugjald og telur.
Ef rétt er munað er bílaeign landsmanna um 700 á hverja 1.000 íbúa og þá eru um 215.000 bílar í landinu. Þannig eru 9.000 stykki um 4% þeirra allra.
Þegar ég sá töluna á forsíðu DV fannst mér hún svakalega há og ég hef ekki skipt um skoðun. Meðalaldur bílanna var 13 ár. Fólk hendir bílunum sínum af því að það kemur nýrra módel og það hefur peningaleg efni á að kaupa sér nýjan.
Er ekki eitthvað vitlaust við þetta?
Tvennt rifjast upp fyrir mér. Ellamaja seldi bílinn sinn fyrir tveim árum, módel 1998, og prísaði sig sæla að hann seldist yfirleitt, 7 ára gamall og vel meðfarinn. Hún sagði að það væri byrjað að pressa bíla einu ári eldri.
Og Kjartan ætlar að kaupa gamlan óséðan pallbíl á 50.000 kr. af því að hann langar að gefa honum framhaldslíf.
... reyndar ekki bíllinn - og gæti þó verið, hann er enn óséður, hahha.
Gott að eiga svona meðvitaða vini.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 16. apríl 2007
Atferli fólks í sundi ... er misgott
Ég er með hugmynd að lausn: Fjölgum sundlaugunum, en byrjum á því að stækka sundlaugina við Barónsstíginn. Fáum útilaug til viðbótar við innilaugina. Þar er pláss og þar vantar tilfinnanlega fleiri sundbrautir. Vilhjálmur Vilhjálmsson má eiga hugmyndina með mér.
Þegar ég er búin að láta svona í ljósi gremju mína yfir atferli fólks í laugunum þetta er nefnilega ekkert óalgengt verð ég að segja að mér fannst laugin á Dalvík mjög skemmtileg þegar ég fór í hana fyrir löngu. Þar var spiluð tónlist! Mér finnst sérlega gaman að fara í sund þegar ég er utan Reykjavíkur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
Kvöl og pína
Stundum verður maður að þjást tilhlýðilega. Það er ágætlega við hæfi skömmu eftir páska. Ég fór í fermingu í dag.
Þetta er greinilega vinsæll dagur því að það voru um 30 krakkar sem sögðu já við prestinn sem byrjaði á því að biðja fólk um að taka ekki myndir uppi á sviði (eða sagði hún það ekki, sviði?). Svo sagði hún að eftir athöfnina mætti skjóta eins og menn vildu!
Þetta er orðið helmingi meira sjónarspil en var þegar ég var fermd. Meint trú er a.m.k. lítt sýnileg. Ég verð þó að segja Svavs bróðurdóttur minni sem fermdist fyrir fjórum árum það til hróss að hún hugsaði vandlega um það hvort hún ætti að fermast, fermdist svo ári síðar en jafnaldrarnir - og sér reyndar eftir því. Ég tek kannski hrósið til baka, hehe. Systir hennar á að fermast á næsta ári og hugsar nú stíft sinn gang.
Hvernig á maður að geta virt kirkjuna og þjóna hennar þegar þeir rífast hátt og í hljóði, bera hver aðra sökum og ganga ekki á undan með góðu fordæmi og frið að leiðarljósi? Fríkirkjan er í mínum augum ekkert öðruvísi en þjóðkirkjan og Hjörtur Magni prestur eins og Dalla eða Flóki eða Bjarni eða Jóna Hrönn. Svo er hann kærður fyrir að hafa skoðanir á trúsystkinum sínum og stofnuninni sem þau starfa fyrir.
Ég nenni ekki að rifja upp öll þau skipti sem þjónar kirkjunnar hafa komist í fjölmiðla vegna óeiningar. Ég ætla heldur ekki að rifja upp spillta presta bókmenntanna eða blóði drifna slóð trúarinnar. Ég ætla heldur ekki að telja allar milljónirnar sem fara í þetta allt af skattfé. Þetta er gömul saga og sígild, því miður. Sjónarspilið er hins vegar að aukast, myndavélar ráða ferðinni og þessi þarna Jesús víkur æ lengra til hliðar. Hógværð er náttúrlega kostur ...
En hvað er ég að þenja mig? Ég gekk í Ásatrúarfélagið fyrir tveimur árum eftir að hafa verið utan trúfélaga í nokkur ár og þar sitja náttúrlega heldur ekki allir á sátts höfði.
Es. Fyrirgefðu, Addý frænka mín, að ég skuli nota fermingardaginn þinn til að úttala mig. Til hamingju með daginn, hmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 13. apríl 2007
Skiptir útlit kvenna máli þegar þær tala?
Ég hlustaði í dag á fyrirlestur Karenar Ross um stöðu kvenna í stjórnmálum. Hún hefur tekið viðtöl við fjölda kvenna í stjórnmálum, dregið saman niðurstöður og reifað þær, áreiðanlega víða.
Ég kom aðeins of seint og hélt að ég fengi varla sæti en það var öðru nær, salurinn í Norræna húsinu var rétt hálfsetinn, kannski vegna þess að margir stjórnmálamenn eru einmitt á tveim landsfundum. Kannski var þess vegna svona mikið pláss fyrir þá sem eru óflokksbundnir.
Karen flutti mjög líflegan fyrirlestur og tók fjölda dæma til að rökstyðja þá skoðun sína og fjölmargra annarra að konur eru frekar en karlar dæmdar af fötunum, hárgreiðslunni og hjúskaparstöðunni.
Það voru engin ný sannindi, en sannindi samt. Góða vísu má kveða oftar en einu sinni. Sjálf gef ég reyndar oft hálstaui sjónvarpsfréttamannanna (eða viðmælenda) gaum og met hvernig það passar við jakkafötin. Úps. Stundum hefur það meira að segja orðið hálfgerður samkvæmisleikur á heimilinu.
En mér finnst kjánalegt að taka ekki fram að fyrirlesturinn yrði fluttur á ensku. Titillinn var þýddur og þess vegna gátu einhverjir ályktað að Karen Ross kynni íslensku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 13. apríl 2007
Og hvað vilja tæp 40%?
Mig minnir að rúmlega 70% hafi kosið um deiliskipulagið í Hafnarfirði um daginn sem var svipuð þátttaka og í sveitarstjórnarkosningunum þar í fyrra. Það þótti mjög gott. Yfirleitt er kosningaþátttaka í alþingiskosningum þó betri.
Og hvað segir þá þessi könnun Capacents okkur? Meirihlutinn vill hafa eitthvað um frekari stóriðju að segja. En hvað þýðir það? Á að vera þjóðaratkvæðagreiðslu um Helguvík, Keilisnes, Bakka á Húsavík?
Í Sviss er þjóðaratkvæðagreiðsla mjög oft og þar skilst mér að kosningaþátttaka sé almennt komin ofan í 60%. Þar er reyndar líka spurt um marga tiltölulega hégómlega hluti, eins og hvort opna eigi áfengisbúð á þessu horni, leyfa kanínuhald í hinni kantónunni eða hækka sektargjald fyrir of hraðan akstur um 1% (eða álíka). Þar er svolítið búið að gengisfella stórar atkvæðagreiðslur milli kosninga.
Ég velti fyrir mér hvað þessi tæpu 40% vilja. Hafa þau engar skoðanir yfirleitt eða bara ekki skoðanir á þessu máli? Eru þau kannski þvert á móti þeirrar skoðunar að við séum á réttri leið? Og hvaða leið er þá það? Eru þau á móti íbúalýðræði eða bara könnun um stóriðju?
Mér þykir þessi könnun segja mér fátt. Það kemur ekki einu sinn fram hversu margir voru spurðir!
En ég vildi gjarnan fá að segja skoðun mína oftar en sjaldnar. Og ég vildi fá 10 atkvæði í kosningunum 12. maí - hvaða sanngirni er í því að þurfa að greiða allt atkvæðið einu framboði?
![]() |
Rúmlega 60% þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu um frekari stóriðju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)