Miðvikudagur, 28. júní 2023
Hvað er RÚV að pæla?
Ég horfði á fréttina í gærkvöldi um 23 ára gamlan mann sem keypti 44 milljóna króna hús í Sandgerði fyrir bótafé eftir slys. Eins og margir er ég alveg bit á því að svona geti gerst, að hús sé selt fyrir 1/19 af markaðsvirði hússins, en ég spyr líka um ábyrgð fréttamanna. Fréttin var meingölluð en væntanlega verður málinu fylgt eftir af mörgum fjölmiðlum næstu daga og auðvitað dregur útgerðarmaðurinn tilboðið til baka og fjölskyldan fær að búa áfram í húsinu sínu.
1. Hvernig gat maðurinn sem vissi ekki að hann þyrfti að borga fasteignagjöld og rafmagn + hita keypt fasteign 18 ára gamall? Fékk hann ekki faglega aðstoð við það? Hvar var sú aðstoð eftir það?
2. Var enginn annar fullorðinn á heimilinu sem vissi þetta?
3. Var enginn annar fullorðinn á heimilinu sem gat veitt viðtal í fréttinni?
4. Er það satt að sýslumaðurinn og kaupandinn hafi komið saman í bíl að kaupa húsið fyrir slikk?
5. Er stjórnsýslan á svæðinu gegnrotin?
Þessari frétt var ekki ætlað að veita upplýsingar, henni var ætlað að vekja upp tilfinningaóreiðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. júní 2023
Stríðið í Írak
Ég horfði á magnaða breska bíómynd á RÚV um helgina. Ég vissi ekkert um hana (frá 2019) og ég vissi svo sem heldur ekkert um söguna sem er víst í aðalatriðum sönn. Ég man hins vegar þegar Ísland var sett á lista yfir staðfastar stuðningsþjóðir við stríðið í Írak 2003 sem tveir lítt vitrir menn höfðu allt frumkvæði að á Íslandi.
Stríðið var ólögmætt og illa að því staðið á alla enda og kanta og við megum skammast okkar fyrir það, en ekki hún Katharine Gun sem steig fram fyrir skjöldu til að reyna að hafa áhrif.
Mæli mikið með þessari mynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. júní 2023
Rækjuvinnslan á Hólmavík
Akurnesingar og þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa hátt út af vertíðaratvinnumissi 200 manns. Ég hef sjálf verið vinnu- og öryggisfíkill og hef mikla samúð með fólki sem getur ekki unnið fyrir sér.
Í öllu kraðakinu í kringum þetta mál og skýrsluna um veiðar á langreyðum finn ég ekki fréttina um að Kristján Loftsson hafi verið seinn að veita svör og andsvör vegna gagnrýni á veiðiaðferðir Hvals, en getur ekki verið að hann beri meiri ábyrgð en ráðherra á tveggja mánaða seinkuninni? Er þá ekki Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, að hengja bakara fyir smið?
Á sama tíma fer lítið fyrir frétt af því að nú ætlar Samherji að loka rækjuvinnslu sinni á Hólmavík. Í því litla samfélagi missa þá 20 manns vinnuna til frambúðar. Ég hef ekki heyrt Teit Björn Einarsson hækka róminn út af því. Ekki samt útilokað að hann hafi gert það.
Er þetta ekki a.m.k. tvískinnungur hjá hávaðabelgjunum á hitafundinum í síðustu viku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. júní 2023
Hvalveiðar
Kannski er þetta arfleifð frá leiðsögumannsárum mínum en ég sé alltaf kost og löst á hvalveiðum. Hvalveiðar voru sérstaklega teknar sem dæmi um það sem maður þyrfti að tala gætilega um við útlenska gesti á Íslandi.
Hvalir éta það sem fiskurinn okkar étur annars.
Hvalir eru tilfinningaverur.
Hvalir eru of margir.
Hvalir eru til sýnis.
Núna hefur ráðherra ákveðið að leyfa ekki hvalveiðar og þá kemur á daginn, miðað við það sem Vilhjálmur Birgisson segir, að störf við hvalveiðar borgi allt að fjórum sinnum meira en önnur störf sem bjóðast því fólki. Ég hef heyrt að fólk þéni á einu sumri árslaun í öðrum störfum, sem sagt fjórum sinnum hærra kaup.
Í hinu orðinu heyrir maður að kjötið seljist ekki. Hvaðan koma þá þær tekjur sem verða að launum þessa hátekjufólks?
Hefur það komið fram í fréttum? Það hefur þá farið framhjá mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. júní 2023
Óveiddi fiskurinn
Útgerðarfélög unnu mál gegn ríkinu um að þeim hafi borið að fá makrílkvóta. Þannig voru lögin. Milljarður í súginn eða kannski tveir. En það sem mér blöskrar er þetta:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. júní 2023
4-10% skerðing eftir skylduáskrift í áratugi
Fyrirhugaðar skerðingar á greiðslum úr lífeyrissjóði hljóta að jafngilda fyrirvaralausum launalækkunum.
Mannkynið er að eldast eins og hefur verið fyrirséð með betri meðferð á fólki heilt yfir. Reyndar hefur lengst af verið langlífi í minni ætt þannig að ég má alveg búast við að verða 110 ára. Ég er að reyna að ná utan um að greiðslur MÍNAR í lífeyrissjóðina verði rýrari þegar ég hef töku lífeyris. Ég hefði kannski bara sjálf getað ávaxtað féð betur en það er SKYLDA að borga í lífeyrissjóð og tilfinning mín er að starfsmenn lífeyrissjóðanna - sem eru of margir - taki óþarflega mikinn skerf af skylduáskrift okkar.
Ég er frekar brjáluð yfir þessu og fegin að einhver nennir að taka slaginn.
Svo er fólki bannað að vinna hjá hinu opinbera þegar það er orðið sjötugt þótt það hafi bæði vinnuvilja og þrek til þess. Ég skil alveg að sumir vilji hætta á öðrum tímapunkti og veit að sum störf slíta fólki meira en önnur, en ef við verðum að meðaltali 90 ára eftir 20 ár er óþarfi að SKIKKA fólk í frí þegar það vill halda áfram því sem það gerir vel og menntaði sig til að gera.
Þvílík forsjárhyggja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. júní 2023
Skatturinn - álagning
Ég er viss um að margir eru í sömu sporum og ég, að hafa fengið óskiljanlegan álagningarseðil frá Skattinum og að hafa fengið rukkun og endurgreiðslu í einhverri mynd nú um mánaðamótin.
Ég er líka viss um að margir eru sammála mér um að starfsfólks Skattsins er greiðvikið ef maður talar við það í síma.
Og sjálf er ég himinlifandi með innkomu Skattsins á Twitter þar sem færslur eru í sjálfu sér fræðandi og stundum meinfyndnar.
En flækjustigið er það ekki.
23. og 26. maí fékk ég fyrirvaralausar rukkanir frá Skattinum sem hétu í báðum tilfellum eftirstöðvar, innheimta, annars vegar upp á 115.000 og hins vegar 45.000 kr. (námundað). Í gær fékk ég svo lægri upphæðina lagða inn hjá mér sem staðgreiðslu, tryggingagjald. Fyrr í maí hafði ég fengið bréfpóst frá Skattinum um að ég ætti ónýttan persónufrádrátt frá 2021 sem myndi nýtast mér á þessu skattári.
2020 og 2021 taldi ég sjálf fram og greinilega svona illa en núna í febrúar fékk ég mér endurskoðanda sem gerði allt skv. bókinni. Samt eru allar upplýsingar frá Skattinum í skötulíki og rukkanir og endurgreiðslur óskiljanlegar venjulegum skattgreiðendum.
Ég er nefnilega viss um að ég er ekki ein um að sitja hér með spurningarmerki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)