Laugardagur, 14. júlí 2007
Ég er innlent vinnuafl
Seinni hluti júlímánaðar er toppurinn í ferðaþjónustunni og Magnús Oddsson ferðamálastjóri hefur hér réttilega orð á því að hluti af upplifun útlendinga í heimsókn til hvers lands sé að hitta og umgangast þarlenda. Þegar gestir fá sér skyr í morgunmatnum spyrja þeir kannski manneskjuna sem gengur um beina hvort þetta sé etið á heimilum líka og ef viðkomandi lenti bara hálfum mánuði á undan gestunum verður fátt um svör.
Hluti af þjónustunni við að afgreiða bækur um Ísland, keyra fólk á mili staða, leiðsegja í hvalaskoðun, bera fram lambakjöt og selja Kjörís er að geta svarað spurningum um lifnaðarhætti.
Hér er ekkert atvinnuleysi, ekki á höfuðborgarsvæðinu, en sinna allir þeim störfum sem þeir eru hæfastir til að gegna? Hefur ferðaþjónustan besta fólkinu á að skipa eða er það kannski búið að snúa baki við henni af því að hún er ekki samkeppnisfær í launum?
Þessir fjórir milljarðar sem Magnús Oddsson talar um að muni koma í þjóðarbúið næsta hálfa mánuðinn - hvar endar framlegðin af þeim?
![]() |
Fjórir milljarðar á 14 dögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. júlí 2007
Smásöluverð hækkar líka í Bandaríkjunum
Þegar ég var í New York í fyrra keypti ég undurgott kaffi, drakk sumt þar og tók sumt með mér heim. Bandaríkjamenn hafa þennan sið að verðmerkja vörurnar þannig að ég veit og man að 340 grömm af hnetukaffinu kostuðu 5,49 dollara. Sendingin sem mér barst í gær er hins vegar komin upp í 5,99 dollara.
Eru ekki rúm 8% óeðlilega mikil hækkun? Það er greinilegt að það hefur ekkert verið tekið til í virðisauka þarlendra nýlega ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Lögmálið um framboð og eftirspurn
Í gær lagði Blaðið á forsíðu út af því að samspil milli framboðs og eftirspurnar væri ekkert, þ.e. ógrynni notaðra bíla hefði ekki áhrif á verð þeirra. Það er rangt, það fullyrði ég og ég ætla bráðum að sanna það og kaupa mér bíl til að friða ýmsa í nærumhverfi mínu.
Í fréttum RÚV í kvöld var frétt um ímyndaða tvo ferðamenn sem ætluðu hringinn á Íslandi á bílaleigubíl. Þar var gert ráð fyrir lögmáli framboðs og eftirspurnar. Reyndar var ekki farið út í að tíunda verð á gistingu yfir vetrarmánuðina og sums staðar er gistingin ekki í boði nema um háönnina. Tveggja manna herbergi með baði og morgunverði kostaði 13-20 þúsund kr. Þetta gera gististaðir, flugfélög, afþreyingarfyrirtæki, veitingastaðir - af því að þau nýta sér lögmálið um framboð og eftirspurn - þau hækka verð á þjónustu þegar eftirspurnin eftir henni er mest. Þjónusta er takmörkuð gæði og í takmörkuðum mæli. Ef leiðsögumenn ætla að gera þetta (og bílstjórar) er þakkað pent fyrir og svo kafar ferðaþjónninn eftir systursyni eða föðursystur sem finnst spennandi að fara hringinn án þess að þurfa að borga fyrir það! Nema náttúrlega sætta fleiri en færri leiðsögumenn sig við smánarlaun.
Ég vildi gjarnan að einhver hrekti þetta með rökum.
Miðað við lausamennskuna ætti tímakaup að vera ekki undir 4.000 kr. í verktöku. Góðvinur minn leigði frá sér hljóðkerfi nýlega og rukkaði 50.000 kr. á tímann. Reikningurinn var ógagnsær. Auðséð að fjárfesting í hljóðkerfi er miklu verðmætari en í menntun og þekkingu. Framboð og eftirspurn ...?
Í næstu viku er ég að fara nokkrar dagsferðir fyrir fyrirtæki sem ég hef ekki unnið fyrir áður. Út af leiðarlýsingum, nafnalistum og geiðslubeiðnum þarf ég að mæta á staðinn og sækja gögnin ásamt því að fá frekari skýringar. Vegna annarrar vinnu hef ég átt erfitt með að finna tíma í vikunni til að mæta á staðinn og sækja gögnin - og ferðaþjónustufyrirtækið er frekar pirrað yfir að ég geti ekki komið þegar því hentar - kauplaust.
Eiga leiðsögumenn að taka heilan frídag frá leiðsögn til að mæta kauplaust á einhverja skrifstofu til að fá upplýsingar og gögn? Er eðlilegt að við eigum alltaf að hringja til baka úr gsm-símunum okkar og fá ekki borgað fyrir það?
Það auðvelda fyrir mig væri auðvitað að hætta í leiðsögn, en ég man eftir fjöldamörgum blaðagreinum föður blaðburðarbarns sem barðist fyrir bættum kjörum blaðburðarbarna. Mér finnst það miklu merkilegri aðferð en að láta sig hverfa þegjandi og hljóðalaust.
Áatökin eru kannski smávægileg en ég tek bara eitt skref í einu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. júlí 2007
Offramboð notaðra bíla veldur ekki verðlækkun, segir Blaðið í dag
Á forsíðu Blaðsins er snilldarfrétt um að breiðurnar af notuðum bílum þýði ekki að verð á þeim lækki. Með leyfi, hver segir? Bílasali í Reykjavík og viðmælandi Blaðsins. Ég gef lítið fyrir þær heimildir.
Í gær frétti ég einmitt af ljómandi góðum og vel nothæfum bíl sem seldist ekki á bílasölu. Gangverðið var 390 þúsund en ásett verð 120 þúsund. Þegar eigandinn ætlaði, átta mánuðum eftir að hann hafði skráð hann á bílasöluna, að keyra hann í Sorpu og hirða 15 þúsund kallinn sinn varð á vegi hans góð kona sem leysti bílinn til sín fyrir 20 þúsund. Og halda menn að þetta sé einsdæmi?
Svona sögur segja mér miklu meira en forsíðufrétt Blaðsins í dag. Hagsmunaaðilar vilja hafa hlutina öðruvísi en þeir raunverulega eru og kjafta hluti upp og niður þegar þeir sjá sér færi á því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. júlí 2007
Af hverju er enginn fiskmarkaður í Reykjavík?
Í tvo daga hef ég unnið á ráðstefnu um hagfræði fiskifræðinnar. Finnsk stúlka sá eitthvað um ráðstefnuna í fjölmiðlum í gær og lagði leið sína á ráðstefnustað til að spyrja hvers vegna ekki væri fiskmarkaður í Reykjavík eins og hún þekkti frá Helsinki. Hún sagðist hafa bara gengið út frá því þegar hún kom að hægt væri að fara niður á bryggju og kaupa nýveiddan fisk á markaði.
Mig setti örlítið hljóða (enda er ég ekki ráðstefnugestur og alls enginn hagfræðingur). Svo sagðist ég halda að það væri kannski vegna veðurs - sem er þó ekki sérlega sannfærandi því að í öðrum norrænum löndum eru fiskmarkaðir - og gott ef ekki var markaður í Hafnarfirði í gamla daga.
Ég bar þetta undir viðstadda hagfræðinga þegar ég náði í þá og þeir höfðu líka orð á veðrinu. Svo er náttúrlega markaðurinn ekki stór enda stutt síðan við urðum tiltölulega þéttbýl. Þá má ekki gleyma fiskbúðunum sem nú eru meira og minna komnar inn í Nóatún og Hagkaup. Og Fiskisaga er með réttina.
Spilar kannski óstöðugt veðrið stóra rullu?
Ég fann mynd af japönskum markaði og hann er undir þaki. Af hverju getum við ekki keypt spriklandi fisk á markaði? Og þá er ég ekki að tala um að elda og éta lifandi fisk eins og ég sá í fréttum í gærkvöldi. Ég er ekki mikil tilfinningavera en sú frétt var bara af meiðandi atburði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 9. júlí 2007
Þjónustuleysi strætó
Ég fer flestra minna ferða gangandi eða hjólandi en myndi vilja eiga val um strætó. Í dag talaði ég við Þjóðverja sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hún gistir á Cabin í Borgartúninu og ætlaði í morgun að fá far með strætó þaðan og út í Öskju á háskólasvæðinu. Strætó kom ekki á uppgefnum tíma. Í gær reyndi hún líka að taka strætó á allt öðrum tíma. Gekk ekki heldur.
Í gær fór hún fótgangandi og í morgun tók hún leigubíl. Hún virðist ágætlega gefin og er vön strætóum heiman frá sér - en þetta gekk bara ekki.
Er þetta þjónustan sem Strætó bs./hf./ehf./fj. ætlar að bjóða notendum upp á, að ekki sé hægt að taka strætó milli hverfa í eitt eða fá skipti? Er ætlast til þess að menn skipuleggi strætóferðir sínar fyrir heilt ár og helst að heiman?
Ég vildi að ég væri áhugasamari um að kynna mér leiðirnar og tímasetningarnar en það þarf mikinn áhuga til að setja sig inn í þetta.
Ég bíð spennt eftir nafngiftum strætóstoppistöðvanna og nýjum leiðabókum. Þá kannski verður þetta raunhæft val.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 8. júlí 2007
Reykjavíkurbréfið um ferðaþjónustuna
Höfundi Reykjavíkurbréfsins í dag finnst ástæða til að gera ferðaþjónustunni hærra undir höfði, ekki síst með því að bæta samgöngur. Því miður hef ég ekki aðgang að Mogganum á netinu því að ég er ekki áskrifandi þannig að ég las hann á pappír.
Höfundurinn gerir m.a. Gjábakkaveg og veginn að Dettifossi að umtalsefni og svei mér ef þetta eru ekki aðalflöskuhálsarnir. Það er óttalega krúttlegt í nokkrar mínútur að hossast á þessum þvottabrettum en til lengri tíma er þetta einfaldlega fyrir neðan allar hellur. Af hverju er ekki búið að laga þessa vegi sem öllum hlýtur þó að bera saman um að ekki sé vanþörf á?
Komi Reykjavíkurbréfið fagnandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 7. júlí 2007
Ég stökk út í Hvítá
Og saup svolítið af henni, skammaðist mín helling fyrir að láta mig svo bara fljóta eins og einhvern pramma en skánaði svolítið í sjálfsálitinu þegar mér var sagt að engin önnur kona í hópnum hefði stokkið (hinar voru reyndar allar útlenskar).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Flugvöllurinn á Ísafirði leikvöllur fyrir jaðarsport?
Há fjöll og djúpir dalir henta engan veginn fyrir þunga flugumferð þannig að spakir menn í nærumhverfi mínu komust að þeirri niðurstöðu í dag að flugvöllurinn á Ísafirði væri þénugur fyrir jaðarsport eingöngu. Þingeyri væri hins vegar nógu víð til að geta tekið við millilandaflugvélum.
Og þá finnst mér gaman. Ég er nefnilega hlynnt millilandaflugi í alla landsfjórðunga. Ég vil millilandaflugvöll á Þingeyri, Akureyri og Egilsstaði. Þá er hægt að flytja inn og út beint úr fjórðungunum, bæði vörur og fólk. Þá hættir suðvesturhornið að vera miðstöð allrar ferðaþjónustu og fleiri ferðamenn eru líklegir til að fara um önnur svæði. Vestfirðirnir eru t.d. vannýtt auðlind.
Fjölgun millilandaflugvalla væri forvitnileg stefnumótun í ferðaþjónustu sem og inn- og útflutningi. Sammála?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Í Elliðaárdalnum með hatursmanni Moggabloggsins
Ég held að hatrið á Moggablogginu sé allt í nösunum á Stefáni Pálssyni sem fór fyrir 100 manna hópi áhugasamra um Elliðaárdalinn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í gærkvöldi. Hvorki Moggann né blogg bar á góma.
Hins vegar sagði hann okkur frá upphafi rafveitunnar 1921 og leyfði okkur að fara inn í stöðvarhúsið, honum dvaldist lengi við asbestómyndina og gladdi okkur, a.m.k. mig, með þeim fréttum að til stæði að rífa Toppstöðina í haust, hann þyrði þó ekki að lofa því fyrr en hann tæki á því. Við litum yfir gróðurmengunina og þá hló ég mest því að ég hef verið óþreytandi við að segja ferðamönnum mínum frá trjám, kostum þeirra hér og þó meira kostum trjáleysis. Tré skyggja á landslagið ... Kristinn garðyrkjustjóri, einnig frá OR, sem fylgdi hópnum með myndavél tók öllum ákúrunum með jafnaðargeði enda veit hann, eins og fleiri, að Stefán Pálsson er grínaktugur maður.
Við stoppuðum ekki við Skötufoss sem er vettvangur glæps enda varð Stefáni að orði í næsta stoppi (erfitt að liðast um dalinn með svona stóran hala, fyrir vikið erfitt að stoppa eins oft og ella) að það morð væri fyrir löngu um garð gengið og morðinginn hefði fundist.
Ég ætla ekki að tíunda fleira úr þessari miklu gleðigöngu en þótt ég hefði heyrt flest áður brosti ég samt hringinn í blíðskaparveðrinu.
Kristinn garðyrkjustjóri taldi um 100 manns og hér smellti ég einni mynd þegar við fórum út úr rafstöðinni sjálfri. Þar inni eru gljáfægðar túrbínur því að þær eru ekki í gangi frá 1. maí og til septemberloka ef ég man rétt. Þess vegna vinna sumarstarfsmenn við að fægja gripina ...
Þær heimtuðu að ég tæki mynd af þeim sérstaklega!
Stefán dró ekki af sér í frásögnunum. Hér stendur hann uppi á Árbæjarstíflunni og lætur móðan mása um ... hana. Ef einhvern vantar hugmynd að afmælisgjöf handa mér gæti ég vel hugsað mér að eignast svona taldós. Svo má hugsa sér gps og nýja gönguskó.
Kristinn garðyrkjustjóri mundar myndavélina og skömmu síðar sagði hann okkur að næsta þriðjudag yrði plöntuganga um dalinn í boði OR.
Lagnir hafa verið svona og svona fóðraðar í gegnum tíðina. Sumar hafa brostið og í þessu litla gili varð stórkostlegt hamfaraflóð fyrir tæpum 10 árum sem varði í eina fjóra klukkutíma. Mesti skaðinn varð í strætó sem keyrði undir brúna á þeim tíma og vatn flæddi inn í. Annað sem er athyglisvert er að sárið var látið eiga sig í tilraunaskyni til að sjá hvað gróðurinn yrði lengi að taka við sér. Öllum að óvörum hefur hann verið langtum duglegri en menn reiknuðu með. Nú er þetta sjálfsáið sár og stefnir í mikinn vöxt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. júlí 2007
Ég hef verið í Lystrup
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. júlí 2007
Helgarrapport
Sól sól skín á mig ... það þarf ekkert að hvetja þessa dagana og þá liggur heldur betur vel á minni. Ég eyddi helginni í Stykkishólmi við grill (og m.a. gráðaostasósu úr frysti sem var fyrrum gefin af góðum hug) og skrafl og miklar rökræður um heima og geima. Reyndar var skraflið ekki svo skemmtilegt (þrátt fyrir fiskaþemað sem óvænt kom upp) því að Steingrímur og Einar ruddu sig svo, m.a. með því að hreinsa bríkina í fyrstu umferð. Og þá braust fram í þeim oflætið, tééééé.
Hér má sjá Marín sýsla við salatgerð. Hún var húshaldari í þessum bústað.
Og hér er verið að dansa Makarenu af miklum móð. Ingólfur Hersir fylgist með. Potturinn var aldrei langt undan.
Laufey kynnir fyrir okkur eitthvert galdraverk sem hún keypti í New York í fyrrahaust.
Hraðinn var svo mikill að ég náði ekki framhliðinni á fraukunum.
Það var ekki að sjá að Marín þætti leiðinlegt að sjá á bak gestum sínum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 1. júlí 2007
Sólbrunnin á tungunni
Það eru litlar ýkjur að segja að ég hafi sólbrunnið á tungunni í Stykkishólmi þessa helgina. Þó má með engu móti segja að ég hafi haft orðið meira en aðrir, eiginlega komst ég varla að.
Við Ólöf, Laufey og Margrét brunuðum á Volvo Laufeyjar í Stykkishólm í gær til að taka hús á Marín, Steingrími, Guðrúnu, Ingólfi og Hrafnhildi Jónu í sumarbústað.
Leynigesturinn í gærkvöldi var Einar hinn helgari Helgi - og undrunarefni helgarinnar var að einmitt hann hélt fyrir okkur vöku. Téhhéhé, það kemur honum á óvart að lesa þetta og ég fullvissa hann um að þetta er ekki illa meint.
Téhéhéhé.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)