Borgarskipulag og skoðanir

Hvarf Gísla Marteins úr atvinnustjórnmálum kemur flatt upp á mig. Nú sannast að ein vika er langur tími í pólitík án þess að ég sé svo sem til frásagnar um ferðir og hugsanir borgarfulltrúa.

Ekki síður kemur á óvart að heyra um nýja starfið hans og þá rifjast upp að Láru Hönnu Einarsdóttur var meinað að flytja vikulega pistla á RÚV um árið og henni borið á brýn að vera einhvers staðar í pólitík, líklega á vinstri vængnum af því að hún skrifaði fyrir Smuguna sem var að hluta í eigu Vinstri grænna. Að vísu birtist yfirlýsing um að hún endurnýtti pistlana sína en maður veit ekki alltaf í hvaða röð hlutirnir skipta máli.

Það truflar mig ekki að pistlahöfundar og þáttastjórnendur hafi skoðanir. Mér finnst að fréttamenn eigi að víkja þeim til hliðar í vinnunni og gæta sín líka utan vinnu en mér finnst almennt mannréttindi að fólk megi hafa skoðanir. Og þá er nú betra að vita hvar fólk stendur.

Var þátturinn annars nokkuð á dagskrá í dag ...?

 


Fegursta orðið - að mínu mati eða þínu

Leitin að fegursta orði íslenskunnar er mér að skapi. Hana má réttlæta eða útskýra með því að við förum að lesa meira, grufla, fletta, spá og spekúlera, tala saman, jafnvel búa til merkingarbær orð. Tungumálið er síkvikt. Ég er enn bara í orðum sem ég hef heyrt menn hampa sem fögrum: foss, dalalæða, himbrimi, dögurður, lævirki, meinbægni, hljómkviða, Glóðafeykir - hljómfögrum orðum óháð merkingu. Eða er það merkingin sem menn tengja við og skapar fegurðina, dulúðina, aðdráttaraflið?

Þess vegna get ég ekki gúterað að dómnefnd viðurkenni þær „tillögur“ sem henni „þykja skara fram úr“. Hvernig geta orð keppt í fegurð? Eina skynsemin er að láta afl atkvæða ráða niðurstöðunni.

 

 


Kynleg mismunun

Þegar ég vann sem nordjobbari í Finnlandi um árið var ég á hærra tímakaupi en Finnarnir sem unnu sömu störf og ég, bæði karlkyns og kvenkyns. Allir útlendu nordjobbararnir voru á hærra kaupi, skildist mér. Rökin? Við þurftum að borga leigu og höfðum almennt meiri rekstrarkostnað en heimamenn.

Það má sannarlega deila um þetta. Það munaði að vísu engum ósköpum, kannski var þetta meira táknrænt en þetta var sannarlega viljandi gert.

Vilji er allt sem þarf. Ef allir eru sammála um að óþolandi sé að mismuna fólki á grundvelli kyns á að breyta því. Á hverju strandar?

Á hverjum andskotanum strandar?


Kynjað sund?

Ég er alveg ágætlega nýjungagjörn og vil ekki hafa hlutina eins og þeir eru af þeirri einu ástæðu að þeir hafi alltaf verið eins og þeir eru. Ég sver það. Í vinnunni minni hef ég m.a.s. lagt til ný vinnubrögð sem gætu falið í sér að ég missti vinnuna af því að mér finnst að við eigum stöðugt að velta við steinum og hagræða.

Nú berast þær hugmyndir úr heita potti Ráðhússins að sniðugt gæti verið að hafa sérstaka kvennadaga í sundi. Ég ætla hér með að taka mér það bessaleyfi að hafna þeirri nýjung. Ég hleyp ekki í kynbundnu hlaupi og ég vil ekki fara í kynbundna laug. Til vara verður hún að vera utan seilingar minnar, þessi kvennalaug, en alls ekki á þeim slóðum þar sem ég stunda sund.

Hver er ekki sammála minni upplýstu og ígrunduðu skoðun á málinu? Enginn. Enginn er ekki sammála vegna þess að allir hljóta að vera sammála mér um fjölbreytileikann. Ástæðan fyrir því að það voru kvenna- og karladagar í gufunni (og eru kannski enn sums staðar) var að fólk mátti vera nakið. Eða var það ekki?


Þurr vindur

Ég á það til að brúka minniskubbinn í hausnum á mér eins og hver annar gullfiskur. Þess vegna ætla ég að færa hér til bókar að í gær og í dag hefur verið glaðasólskin í Reykjavík og hraður vindur (bannað að segja rok, skilst mér). Og þetta hefur mér fundist fyrirtaksveður. Vindar mega blása EÐA himnarnir gráta. Ég vil helst ekki hvort tveggja í einu en í hádeginu hitti ég gamla samstarfskonu sem vildi frekar rok OG rigningu, allt frekar en fljúgandi ryk.

Við erum hvert með sínu mótinu.


Ættleiddir þættir

Ég er fullumburðarlynd þegar kemur að titlum sem eru ekki þýddir. Ég hefði viljað að Idol hefði verið þýtt á sínum tíma en missti hvorki svefn yfir útlenskunni né sneri út úr með því að kalla þáttinn eitthvað upp á íslensku, s.s. Hjáguð, Ágoð eða Ædol.

Survivor var heldur ekki þýtt og ekki held ég So you think you can dance en hvernig í heitasta helvíti dettur nokkrum í hug að kalla þátt Ísland got talent?

Nei, forlátið, það er Ísland Got Talent! Verður hann svo skammstafaður ÍGT?

 


Þunnur vír?

Hér er lokakaflinn í áliti mínu á þýðingunni á Killing Floor sem ég hélt í einhverju jákvæðnikasti að væri bara ágæt.

Á blaðsíðu 460 stendur:

Þetta voru eins og þunnir vírar í mjúkum, þurrum hanska.

thin þýðir: þunnur; gisinn; mjór, grannur - og þetta er ekki tæmandi upptalning. Hver hefur séð þunnan vír? En grannan eða mjóan?


Krimmaþýðingin

Þegar maður les þýðingu og hnýtur ekki að ráði um hana hneigist maður til að halda að hún sé í lagi. Sennilega er það líka oft rétt. Hins vegar er andskotalegt þegar lesandi hugsar í sífellu um þýðinguna og það er það sem hefur ágerst við lestur bókarinnar Rutt úr vegi.

Á blaðsíðu 239 er talað um sjöttu hæð.

sjötta hæð Á næstu blaðsíðu er sjötta hæð orðin sú sjöunda. bls. 240 Skömmu síðar lítur hann niður af sjöttu hæð og horfir þá 17 hæðir niður. bls. 241

Aðeins aftar er sérkennileg orðatalning í gangi. Þar stendur:

„Síðasta atriðið var þrjú orð: Skýrsla Grays um Kliner.“

Neðar á sömu blaðsíðu stendur:

„... og þessi fjögur orð: Skýrsla Grays um Kliner.“

Og svo stendur:

„„Við þekkjum bara þá dauðu,“ sagði ég. „Hubble [Paul, sem sagt karl] og Molly Beth.““

5hymok.jpg

Þýðandi talar um alla sem dauða, enginn er dáinn, hvorki góðir né slæmir. Er það til siðs? Og er ekki óeðlilegt að Paul og Molly séu dauðir? Jú.

Ég gæti tíundað meira en læt duga að rifja upp að „svo“ tröllríður flestum blaðsíðum. Eftir sem áður held ég að ýmislegt sé vel gert en þyrfti auðvitað að skoða frumtextann til að sjá.

Ætli geti verið að Forlagið hafi flýtt sér helst til mikið? 


,,Svo hverjum voru þeir á eftir?" (bls. 216)

Ég er að lesa þýðingu á krimma sem margt má gott um segja, einkum framan af. Þegar á líður kemur einhver þreyta, ég sver það þótt ég hafi ekki lesið skáldsöguna á frummálinu. En frá upphafi hefur orðið „svo“ verið gegnumgangandi. Ég held að það sé „þýðing“ á orðinu „so“ þegar miklu oftar ætti við að nota orðin „þá“ eða „þannig“ með breyttri orðaröð.

„Svo hverjum voru þeir á eftir?“ hljómar miklu betur og eðlilegar svona: „Á eftir hverjum voru þeir þá?“ eða jafnvel: „Hverjum voru þeir þá á eftir?“

Annað dæmi, nú af bls. 177: „Svo nema við séum með tvo aðila sem beita nákvæmlega sömu hótun á sama tíma og sama stað, er þetta önnur tenging.“ Mér finnst öllu breyta að hafa þetta svona: „Þannig að þetta er önnur tenging nema við séum með tvo aðila sem beita nákvæmlega sömu hótun á sama tíma og sama stað.“ Mér finnst þetta líka ganga: „Þannig að nema við séum með tvo aðila sem beita nákvæmlega sömu hótun á sama tíma og sama stað er þetta önnur tenging.“

Báðar þessar málsgreinar eru bein ræða þannig að þetta er eðlilegt talmál - nema svoið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband