Þorsteinn í Okkar eigin Osló

Ég var búin að heyra ýmislegt um Okkar eigin Osló áður en ég fór. Þess vegna átti ég von á ýmsu misjöfnu. Og vissulega fannst mér brandarinn um hundinn lélegur.

En mér var skemmt, ég hló oft og mér fannst þar að auki persónusköpunin ganga upp. Þorsteinn leikur verkfræðinginn Harald sem er svo bóngóður og viljugur og ferkantaður og kúgaður af látnum föður sínum og slappur söngvari og strangur/góður við systur sína og hlýr og klaufalegur. Sem sá sanntrúaði lúser sem hann er í raun fer hann yfir strikið tvisvar eða þrisvar.

Brynhildur er Vilborg og enginn glæpamaður þótt vissulega hefðu einhverjir getað haldið það í Lækjargötunni.

Þau eru í burðarrullum.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir fannst mér varla geta verið mamma Þorsteins en að öðru leyti smellpassaði hún í hlutverkið. Hilmi Snæ tókst að vera heldur ófrýnilegur sem er afrek í sjálfu sér. Að auki var hann Pálminn með gretturnar og minnimáttarkenndina sem braust út úr sjálfumgleðinni.

Handritið hafði óvæntar vendingar og tókst að koma mér á óvart. Fyrir utan að skemmta mér. Og ég var sko ekki sú eina sem hló í fámennum salnum, það heyrðust stöðugar rokur um allan salinn.

Reynir Lyngdal á áreiðanlega stóran þátt í þessu verki en Þorsteinn er kominn á stall hjá mér, hann er óborganlegur.


Sama hvaðan gott kemur?

Ég sá ekki allt Kastljósið í gærkvöldi en ég fæ samt hroll við tilhugsunina um að 10 loðnir um lófana renni hýru auga til íslenska ríkisborgararéttarins. Alltaf þegar harðnar í ári hjá smáfuglunum eru langtímamarkmiðin látin fyrir róða, s.s. varðandi jafnrétti og náttúru, og hugsunarhátturinn um að það sé sama hvaðan gott komi skýtur sterkt upp kollinum.

Það er ekki allt falt ef gjaldið er nógu hátt. Þar að auki er gjaldið ekki einu sinni svo öruggt eins og dæmin sanna. Kannski er það tungumálið sem skilst, það er alls óvíst að gróðinn skili sér þótt honum sé lofað hástöfum.


Ég er hjólisti

Ég hjólaði úr miðbænum í gær upp í Grafarvog af því að ég þurfti að nálgast bók í Foldasafni. Þótt ég sé hjólisti er ég ekki virkasti hjólisti Reykjavíkur þannig að þetta voru svolítil átök. Þegar ég kom að Bílabúð Benna var ég orðin svo leið á mótlætinu að ég ákvað að hvíla hjólstigið og gekk einn rúnt á planinu.

Vá, hvað Chevrolet er fallegur bíll.

Á leið upp brekkuna rakst ég á bíl með kerru sem var lagt á gangstéttina. Öllu heldur hefði ég átt að rekast á hann, en auðvitað steig ég af hjólinu og lempaði það framhjá bílnum sem vel að merkja var þar enn þegar ég kom aftur niður eftir þannig að þetta var greinilega ekkert skyndistopp.

Aumingja Volkswagen-bíllinn fékk ekkert bílastæði

Ég skil illa að Sundabraut sé ekki komin sem væri afar mikil og góð samgöngubót, en ég skil alls ekki að ekki sé einhvers konar göngu- og hjólaleið úr Grafarvoginum niður í bæ. Hjólamenn þurfa virkilega að fara stofnbrautir bílanna til að komast hverfa á milli. Ég þurfti sem sagt að hjóla meðfram Grafarvoginum tvisvar í stað þess að hjóla yfir hann.

Ég var að vísu verðlaunuð með fallegum æðarfuglum.

Ó, sá blauti Grafarvogur Æðarfuglinn sífagri

 

 

 

 

Á leiðinni til baka hjólaði ég Bryggjuhverfismegin við stórbrautina og þá var ég afvegaleidd sem lengdi leiðina aðeins. Á leið upp brekkuna kom svo á daginn að hjólastígurinn er fráleitur.

Ekki ætlað fólki fyrir eigin vélarafli

Harðir áhugamenn um bíllausan lífsstíl geta alveg linast í borg bílanna.


Laugardagsfár á föstudegi

Mér finnst það eiginlega fyndið að RÚV skuli ætla að sýna myndina sem John Travolta skein svo skært í í kvöld - öðru sinni á tæpu ári. Myndin sú er náttúrlega ekki nema 34 ára. Og dagskrárstjórinn virðist aftur ekki hafa séð hana því að hefði hann horft (eða fengið álit) væri á henni hóflegt bannmerki. Það eru nefnilega býsna fjandsamlegar senur í þessari mynd sem flestir muna sem hugljúfa dansmynd.

Þetta man ég aðeins af því að í hið fyrra sinni (á síðasta ári) urðu umræður á Facebook um ljótu senurnar og mannfjandsamlegu sem enginn mundi eftir úr bíó.

Nei, annars, þetta er ekki fyndið. Þetta er lélegt og ófaglegt af RÚV.

 


Tek áminninguna til mín

Í gær voru Fjöruverðlaunin veitt í fimmta sinn. Á vef Rithöfundasambands Íslands er þennan nokkurra ára texta að finna um verðlaunin:

Þær raddir verða sífellt háværari sem segja að jólabókaflóðið og þær markaðsaðferðir, sem þá ráða ferðinni, gefi ekki rétta mynd af þeirri fjölbreyttu flóru rita sem gefin er út á Íslandi. Margar áhugaverðar bækur nái sér ekki á flot í flóðinu og drukkni jafnvel með öllu. Telja ýmsir að bókum eftir konur sé sérlega hætt við þessum örlögum.

Verðlaunin eru sem sagt veitt konum sem hafa tilhneigingu til að fara með veggjum. Ég er áhugamaður um bókmenntir en þessi verðlaun hafa farið framhjá mér þangað til núna. Ástæðan fyrir því að ég fór var að Marín, vinkona mín og langömmubarn Guðrúnar frá Lundi, var búin að lofa að flytja erindi um langömmu sína.

Hún gerði það líka, og hún gerði það vel. Fyrsta bók Guðrúnar frá Lundi kom út þegar hún var 59 ára. Hún þóttist ekkert vilja af skriftunum vita, reyndi að fara laumulega með þetta þráláta áhugamál sitt og þegar blaðamaður hringdi að sunnan til að grennslast fyrir um hana og ritstörfin gerði hún hvað hún gat til að stytta í samtalinu og draga úr öllu. Hún reyndi að þagga niður í sjálfri sér.

Nú er ég búin með tvö bindi af Dalalífi og þótt ég eigi 1600 síður eftir ætla ég samt að treina mér lesturinn og lesa ekki 3. bindið fyrr en ég fæ útgáfuna frá 2000 á bókasafninu. Ég lagði fyrir skemmstu út af bókunum og ætla ekki að endurtaka það hér.

Næst bar Guðrún Jónsdóttir, bókmenntafræðingur og bóka(vörður?) úr Borgarfirði, saman Guðrúnu og Indriða G. Þorsteinsson. Það var fróðlegt að rifja upp hvernig Guðrún hefur verið töluð niður fyrir meint kaffiþamb en Indriði upp. Samt er enn eftirspurn á bókasöfnunum eftir Dalalífi. Já, að sönnu er ekki alltaf best það sem meirihlutinn vill og velur, en Dalalíf er enn í pöntun á sumum bókasöfnum 60 árum eftir frumútgáfu.

En kannski er hugarfarið að breytast og Guðrún að fá sinn réttmæta sess. Guðrún Jóns sagði að Jón Yngvi, bókmenntafræðingur og háskólakennari, hefði einhverju sinni í tíma hafið Dalalíf á loft og beðið nemendur að hafa hugfast að það væri rangt að kalla þessar bækur ekki bókmenntir. Þetta sat í Guðrúnu og varð til þess að hún valdi bækurnar sem umfjöllunarefni í lokaritgerð.

Síðan voru verðlaunin veitt og það var hlý stund.

En nú kemur að þeim hluta sem gaf mér sinn undir hvorn. Tek aftur fram að ég kýs að taka áminninguna til mín þótt skipuleggjandi hafi gert sig seka um þöggun, óbeina kannski en samt sláandi. Þegar Ingunn tók dagspartinn saman í lokin og þakkaði gestum fyrir komuna tók hún fram að Árni Matthíasson á Morgunblaðinu ætti þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á verðlaununum, fyrstu árin hefði verðlaunahafanna varla verið getið og þá ekki fyrr en talsvert var liðið frá athöfninni. Þá ræskti sig Jórunn Sigurðardóttir frá RÚV (Okkar á milli) og benti á að hún hefði fjallað um verðlaunin frá upphafi en líklega þætti Ingunni ekkert til þess koma að kona á Rás 1 hefði fjallað um þau, athyglina fengi karlinn á blaðinu.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig orðin féllu og verð að hnykkja á því að ég tek áminninguna sem fólst, nei, opinberaðist í hógværri gagnrýni Jórunnar líka til mín. Ég held að konum hætti líka til að þagga niður góð verk kvenna. Við eigum enn langt í land og verðum að varast að reyna að falla í fjöldann - því að hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.

Og nú ætla ég að halda áfram með Ljósu. Reyndar veit ég ekki hvernig Kristínu ætti að takast að skáka bókinni Sólin sest að morgni sem ég las um daginn og dáleiddi mig alveg.


... engu til sparað?

Ég var að hlusta á hinn mæta þátt Kviku og þar sagði maðurinn að engu hefði verið til sparað. Hvernig verður svona málbreyting? Maður sparar peninga eða mikið eða lítið - eða ekkert. Er það ný þágufallslenska að segjast spara engu? Spara engu til?

Það er ekki Sigríður Pétursdóttir, umsjónarmaður þáttarins, sem sagði þetta heldur maður sem veit mikið um þýskar kvikmyndir og nú veit ég ekkert lengur hvað hann sagði.

Auðvitað fæ ég heilbrigðar efasemdir um sjálfa mig og málkennd mína. Þá fletti ég upp í google sem þekkir svo marga og margt. Á málfræði.is segir þetta:

Spara ekkert til

Orðasambandið kosta e-u/miklu/litlu/öllu til (e-s) vísar til þess er menn kosta fé/peningum til e-s og er það allgamalt í málinu. Orðasambandið spara ekki/ekkert til (e-s) er eldfornt, jafngamalt elstu heimildum. Í Íslensku hómilíubókinni stendur: vísar oss til þess fagnaðar er vér skyldum ekki til spara að vér næðum. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að þessu tvennu sé ruglað saman svo að úr verður spara engu til, t.d.: Tyrknesk yfirvöld ætla engu til að spara í þeim ásetningi sínum (11.10.07); Engu er til sparað [til að gera tónleikana sem best úr garði] (16.8.07) og verður engu til sparað til að hafa upp á hinum seku (8.7.05).

Þá get ég haldið áfram að spyrja: Hvað veldur svona tilgangslausum málbreytingum?

Að svo mæltu verð ég að láta þess getið að mig rak í rogastans þegar ég las bls. 468 í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi:

Þóra var sízt að skilja ...

Um miðbikið stendur (byrjar aftast í línu): Þóra var sízt að skilja, hvað þær gætu verið að tala saman, og fékk heldur aldrei að vita það.

Málbreytingin að vera ekki að skilja eitthvað er örfárra ára gömul. Þess vegna kemur þessi lína mér spánskt fyrir sjónir. Ég er ekki að skilja þessa bók er engin merkingarbreyting frá því að segja: Ég skil ekki þessa bók, bara málbreyting. Og mér finnst hún ljót og tilgangslaus og fyrst og fremst fletja tungumálið út og gera það einsleitara. Ég er ekki að gera eitthvað merkir nákvæmlega á þeirri stundu. Ég er að tala í símann NÚNA. Ég var að hlusta á útvarpið.

Dalalíf er merkileg bók, falleg og hrífandi saga um Jón á Nautaflötum og Þóru í Hvammi (ég er bara búin með fyrstu tvö bindin) en ekki síður er hún tíðarandalýsing, saga um útjaskaðar vinnukonur og aðra sem vinna í sveita síns andlitis, muninn á búsældarlegri sveitinni og sólríkari ströndinni, um gæði og vangæftir, útþrá, dauða og uppeldi. Kannski dálítið melódramatísk inn á milli en aðallega mjög trúverðug saga af breysku fólki sem á misgóðar stundir.

Allir líta upp til Lísibetar en hún dröslaðist með sitt þungbæra leyndarmál allt lífið. Jakob var gæfur og blíður og lagði öllum gott til en þjáðist áreiðanlega í hljóði fyrir útlitið. Jón sonur þeirra er miðdepillinn sem allir þrá og allir þrá að líkjast. Honum leiðist það ekki en þegar sorgin bankar á er hann óviðbúinn og ræður illa við mótlætið.

Ég á heil þrjú bindi eftir, best að skrifa ekki frá sér allt vit um ólesin hundruð blaðsíðna.


Hver reykir gangandi í frosti og fjúki?

Svar: Ótrúlega margir.

Undanfarna daga hef ég vart getað þverfótað fyrir fólki sem hangir á sígarettunni þrátt fyrir vonskuveður. Er ekki ráð að hækka pakkaverðið á einu bretti um hálfan annan helling til að gera fólki það auðveldara að hætta? Langar ekki alla að hætta að reykja?

Ef það er mótlæti (sem ég skil ekki) skal ég á móti hætta að borða lakkrís og normalbrauð.

 


Dávaldurinn er tvöföld saga

Nú er ég búin að eyða nokkrum klukkutímum á hálfum mánuði í að lesa Dávaldinn eftir Lars Kepler, sögu sem lofsorði var lokið á fyrir góða þýðingu. Og ég er alls ekkert svikin, hún er spennandi og hún er vel þýdd.

Mér finnst það samt galli á sögunni hvað hún dettur í tvennt um miðbikið. Rammasagan er um lækninn og dávaldinn Erik og rannsóknarlögregluna Joona sem reyna í sameiningu að komast að því hvaða kaldrifjaði morðingi drap heila fjölskyldu af viðbjóðslegri grimmd.

Fljótlega virtist alveg liggja í augum uppi hver hinn seki væri og þá horfði ég á 400 ólesnar blaðsíður og velti fyrir mér hvað þar væri fjallað um. Það var alveg skemmtilegt að þá var farið út í alls kyns sálfræðilegar bollaleggingar - en þá kom hliðarsagan um leitina að syni Eriks. Og þar er sumt óleiðinlegt en sumt alveg hrútleiðinlegt, alltof ævintýralegt og minnti mig á leðurblökumyndina sem George Clooney lék í, mynd sem var ágæt fram í miðbikið og varð svo hvínandi óskiljanleg og leiðinleg eftir því. Dávaldurinn minnir mig líka dálítið á Da Vinci lykilinn sem er með ofmetnari bókum. Sú bauð upp á gátu sem höfðaði til mín og svo voru langir og hrútleiðinlegir kaflar með eftirför, byssuhríð, konu hlaupandi á háum hælum, þyrluflugi og öðru svona yfirgengilega hraða-spennutengdu. Dan Brown ætlaði að heilla alla markhópa í einni bók en tryggði sér um leið að ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir hann. Og fæ enn kjánahroll við tilhugsunina um lykilinn hans.

Núna eru tveir dagar síðan ég kláraði Dávaldinn og ég er strax byrjuð að gleyma endinum. Það þarf ekki að spilla upplifuninni því að þegar til stykkisins kemur er það eiginlega sagan af Lydiu og uppvexti hennar, dáleiðslunni og úrvinnslunni sem sagði mér eitthvað. Unglingurinn Josef sem er næstum dáinn í byrjun rís af sjúkrabeði, hleypur uppi fólk og ratar á ólíklegustu staði - ótrúverðugt bull sem er komið í glatkistu minnisins. Og þótt ég sé byrjuð að gleyma kjánalega söguþræðinum þori ég næstum að hengja mig upp á að hann var ekki hnýttur alveg í lokin.

Best að lesa með væntingastuðulinn lágt stilltan.


Hvert stefnir í skólamálum?

Sá megnið af fínum þætti um menntamál í sjónvarpinu í gærkvöldi. Vinnuskylda kennara er gríðarlega viðkvæmt mál og vissast að tala varlega. Síst langar mig að kasta rýrð á góð störf góðra kennara. Reyndar held ég að flestir góðir kennarar njóti virðingar og aðdáunar bæði nemenda og foreldra þeirra þannig að orð mín mættu sín líklega hvort eð er lítils ...

En hvað er góður kennari? Í mínum augum er góður kennari áhugasamur um starfið, vel að sér í faginu og umhyggjusamur. En góður kennari getur átt erfitt uppdráttar í fjandsamlegu umhverfi og ég held, já, ég held að skólastarf á Íslandi takmarkist sums staðar, kannski víða, af of mikilli rammasetningu. Ég held að þeir sem gagnrýna að skólastarf taki fullmikið mið af kjarasamningum kennara hafi nokkuð til síns máls.

Sif Vígþórsdóttir hreif mig í þættinum í gær og ekki í fyrsta skipti. Í mars 2008 las ég um starfið í Norðlingaskóla og hugsaði það sama og núna, að hún væri frumkvöðull og að of fáir væru á þessari vegferð. Kannski binda sumir skólastjórar viðveru kennara meira, kannski vinna kennarar meira saman, kannski fara fleiri kennarar í vettvangsferðir en áður og og meira en ég endilega veit um, en meðan ég kenndi fannst mér ansi mikið mér gert af því að staglast í því sama. Áhugi nemenda er frumkraftur en það að reyna að virkja hvern og einn gerir öðruvísi kröfur til kennara. Meiri kröfur.

Ég vona að skólastarf stefni fram á við eins og öll umræðan í þættinum í gær lofaði. Ekki kenna meðaltal og orðflokkagreiningu bekk eftir bekk eftir bekk og gera bæði áhugalausa og áhugasama nemendur leiða.

Kennarinn minn í stjórnsýslufræðum er skýr í framsetningu, orðar hlutina af skynsemi og hlustar eftir röddum nemenda - en sem háskólanemar verðum við fyrst og fremst að hafa eigin innri aga. Hvort sem ég spreyti mig samt á prófinu eða ekki finnst mér ég skilja vanhæfi, málsmeðferðarhraða, andmælarétt o.fl. betur en ég gerði 5. janúar.

Lifi framsækið skólastarf á öllum skólastigum.


Bloggarafyrirkomulagið á dv.is

Bloggarar, sem eru ekki einsleitur hópur heldur hópur fólks með mismunandi þekkingu og mismunandi sýn, eru mér í sumum tilfellum mikilvægari fréttamiðlar en hinir meintu fréttamiðlar. Ef við ætluðum að byggja alla okkar þekkingu á bloggum yrði hún þó grágötótt, ég geri mér alveg grein fyrir að fréttir af ýmsu berast bara um eiginlegar fréttagáttir, en sýn bloggara er sem sagt mikilvæg viðbót og á köflum miklu skarpari en fréttamannanna. Ég hef þó samúð með fréttaflutningi því að hann á allur að vera byggður á staðreyndum og hinu óhrekjanlega en bloggarar geta leyft sér að leggja út af, túlka og spekúlera út og suður.

Já já, ég er farin að hljóma eins og Ragnar Reykás en mér finnst í alvörunni samhengi í þessu hjá mér, fréttir eiga að vera hlutlausar og yfirvegðar og eru fyrir vikið oft bitlausar og svo taka bloggarar fréttirnar og gefa þeim bit. Stjórnmálamenn geta líka leyft sér að segja að eitthvað sé það besta/versta í sögunni en t.d. sagnfræðingar verða að finna heimildirnar og geta þeirra.

Ég skil samt engan veginn þessa frétt um að JÁJ ávirði SH með vísan í greinargerð. JÁJ leggur augljóslega út af orðum í greinargerð sem fylgir ekki fréttinni og mér verður fyrst fyrir að hugsa að hann leggi, vísvitandi, ranglega út, beiti háði sem fréttavefurinn sannreynir ekki. Eitthvert árið gæti mér m.a.s. dottið í hug æsifréttamennska en ég held að þetta sé einfaldlega vangá BO sem virðist fyrir vikið ganga erinda JÁJ.

Þetta er það fyrsta sem ég hugsa þegar ég les fréttina. Veit ekki hið sanna. Finn ekki sambærilega frétt á Vísi og veit ekki með aðra miðla.

En það sem ég ætlaði að segja var að fínir bloggarar á DV blogga sumir hverjir aðeins of oft fyrir minn smekk og þess vegna gæti það farið svo að sama bloggaranafnið væri 10 sinnum í beinni línu niður. Nýjasta blogg bloggarans ætti að ýta eldri bloggum þess bloggara út af listanum, listinn yrði miklu áferðarfallegri og meira aðlaðandi. Það gerir Moggabloggið og sjálfsagt fleiri.

Það finnst mér. Jónas, Jenný og Teitur eru nú í margriti en áður var Eiríkur með stöku línurnar oft eftir nánast endilöngum listanum.


Var Howard Davies kjörinn rektor LSE?

Ef hann var kjörinn er eðlilegt að hann segi af sér. Ef hann var ráðinn segir hann upp, segir starfi sínu lausu eða hættir bara.

Starfsmenn í úthringingum

Ég hjó eftir því í vikunni að níu starfsmönnum Símans sem unnu við að hringja í fólk og bjóða aðrar áskriftarleiðir var sagt upp vegna þess að þeir hökuðu við viðskiptavini án þess að hringja.

Það segir RÚV og það er eina ljósvakafréttin sem ég man eftir um málið.

Þá undraðist ég að upplýsingafulltrúinn virtist hafa samúð með starfsmönnunum sem höfðu brotið af sér en vék ekki aukateknu orði að þeim óþægindum sem viðskiptavinirnir höfðu hugsanlega orðið fyrir, sagði jú eitthvað um að viðskiptavinir hefðu fengið betra boð. Á þeirri stundu fannst mér að alls konar fólk hefði fengið upphringingu en það mun aðeins hafa verið hringt í viðskiptavini Símans.

Í gær heyrði ég á göngu minni um borgina að líklega hefði starfsfólkið verið skikkað til að gera þetta en hefði þurft að taka skellinn þegar einhver kvartaði. Og það er tónninn í Pressunni sem virðist hafa talað við báða aðila.

Ekkert veit ég - annað en það að ég vann einu sinni við símsölu á tryggingum tvö kvöld í viku og fannst það svívirðilega erfitt. Þegar kom að líftryggingum eftir áramót fannst mér að ég væri að boða ótíðindi, gat það ekki og hætti. Ekki held ég að nokkrum manni hafi dottið í hug að haka við einhvern sem sagði nei eða svaraði ekki.

Svo finnst mér endilega að Síminn hafi verið í fréttunum fyrir nokkrum mánuðum vegna einhvers leiðindamáls. Það kann að vera misminni en ég er samt fegin að vera annars staðar í viðskiptum. Ég vona að ég sé ekki eins andavaralaus og tugir símnotenda voru alveg áreiðanlega þar sem sagan segir að hakað hafi verið við 500 manns. Hversu margir kvörtuðu? Og fengu allir hinir betri áskrift?

Tortryggna Berglind er öll gengin efasemdunum á hönd.


10 tonn af þorski syndandi í héluðu grasinu

Það er ekki gott að hugleiða almennt út frá óhappi einstaklings, það er eins og maður geri út á óhappið, en ég gat ekki að mér gert að hugsa um ástand veganna þegar ég heyrði um flutningabílstjórann sem lenti út af veginum í Kelduhverfi í vikunni, skarst og tókst svo að brjótast út úr stýrishúsi bílsins og komast á næsta bæ þar sem hringt var eftir sjúkrabíl.

Ég hef mikla samúð með manninum og held alls ekki að hann hafi gert neitt vitlaust en er þetta ekki skýr vísbending um að a) vöruflutningar ættu ekki að vera á vegunum og b) það ætti að vinna þorskinn þar sem hann er dreginn á land?

Annað hvort ætti að flytja vörur sjóleiðina eða koma upp lestakerfi sem vörur eru fluttar eftir. Og er ekkert frystihús á Raufarhöfn?


Dalalíf eða Icesave

Ég er búin með 1. bindi af Dalalífi. Ég skil ekki þá sem gagnrýna þessa miklu mannlífsstúdíu. Þóra í Hvammi er í valþröng milli hins skemmtilega og hins siðlega. Jón á Nautaflötum heillar alla sem hann hittir af því að honum er svo sama um hið rétta, hann lætur sig aðeins hið skemmtilega varða. Og kemst upp með það af því að hann er svo ógurlega fagur á að líta, og á reyndar mikið undir sér líka, hreppstjórasonurinn sjálfur. Það er hægt að gagnrýna hann Jón en boj-ó-boj, hvað það er auðvelt að skilja hann og hinar persónurnar - og finna til með þeim.

Sótti mér 2. bindi á bókasafnið í dag og fresta Icesave-lestri á meðan. Er ekki líka hrikalega langt í 9. apríl?


Í skugga góðverka

Það verður bara að hafa það ef ég hljóma eins og fúlimúli en ekki vildi ég verða fyrir góðverki. Skv. Snöru er góðverk

gott verk, verk til líknar e-m

en hvað er góðverk í raun? Þegar einhver aumkar sig yfir mann! Ef ég gerði mömmu og pabba góðverk [greiða] með því að fara í heimsókn og spila við þau ... vildi ég ekki vera þau að þiggja það góðverk. Ég vildi, í þeirra sporum, að ég vildi koma í heimsókn. Ef einhver kaupir bakkelsi og kemur með óvænt í vinnuna - er það góðverk? Er það ekki bara einhver að gera eitthvað óvænt (ef svo) og skemmtilegt fyrir stemninguna, fyrir sig og hina?

Er það góðverk að horfa eftir því að eitthvert barn sem á leið yfir sömu götu og maður sjálfur komist yfir götuna? Er það góðverk barns við foreldra sína að fara að sofa þegar það á að fara að sofa? Og ef börnum er innrætt að það sé góðverk að gera sjálfsagða hluti er hætt við að þau fari að heimta sérstaka umbun fyrir það.

Þessi að-því-er-virðist úrillska er í boði góðverkavikunnar. Úrillskan þýðir alls ekki að mér finnist að fólk eigi ekki að koma fallega fram við annað fólk og umhverfi sitt. Ég vildi bara að hvatinn væri að fólk langaði til að gera hið rétta og umbunin væri sú að hafa gert rétt. Mér finnst gaman að koma fólki á óvart ... já, ef einhver vill fremja á mér góðverk er það með því að gera mig hissa og koma mér til að hlæja.

Persónulegri verð ég ekki á veraldarvefnum.


Harðstjórar æsku minnar

Mér er Gaddafi í barnsminni og hann ætti þar af leiðandi að vera hrokkinn upp af standinum. En nú þegar hann er að terrorísera mannskapinn, allan heiminn og ekki lengur fyrst og fremst sínar 6,5 milljónir, kemst ég að því, þegar mér finnst að hann ætti að vera minnst 140 ára, að HANN ER EKKI ORÐINN SJÖTUGUR.

Þegar ég var þetta áminnsta barn forðum daga birtist í einhverju dagblaði heilsíða með myndum af öllum hugsanlegum leiðtogum heims, nafnlaust, og bróðir minn alvitur sagði mér og hlýddi mér yfir hvert einasta nafn. Seiseijá, síðan man ég eftir skúrkinum í Líbíu sem er enn í fullu fjöri, á sextugastaogníunda aldursári.


Um Aðra Líf (ég er ekki með hástafablæti)

Þá er ég búin með nýjustu bók Ævars Arnar Jósepssonar. Fyrst er að nefna titilinn sem er í nefnifalli, tjah, Önnur líf hélt ég en svo skildist mér að líklega snerist titillinn um stúlkuna Líf þannig að titillinn, sést ekki á bókarkápu, hlýtur að vera Önnur Líf. Bókin er strax orðin miklu skárri en glæpasagan Ég man þig sem ég las síðast. Reyndar er titillinn hræðilega áferðarljótur svona.

Nema hvað, góðkunningjar mínir, Katrín, Guðni og Árni, eru öxullinn í þessari bók að vanda. Þau eru breysk og broguð og full af fortíð sem ég kann að meta. Vegna smæðar íslensks samfélags er heldur ekki frítt við að þau séu klukkuð af samferðafólki sínu sem ýmist verður fyrir ofbeldi eða beitir því. Í lok sögunnar eru þessi þrjú mislöskuð og hafa ekki endilega náð stórkostlegum árangri í lífinu. Það verður eitthvað svo auðvelt að hafa samúð með og skilning á fólki sem ræður ekki örlögum sínum að fullu. Á prenti.

Sagan um hina baráttuglöðu Erlu Líf sem lætur ekki bjóða sér hvaða skít sem er náði fullum tökum á mér, og ekki síður fyrir það að hún þurfti að heyja marga hildi sem voru fyrirfram vonlausir. Hún tekur margar rangar ákvarðanir og geldur illilega fyrir það en á sinn hátt voru þær óumflýjanlegar. Fléttan gerir sig en mér til mikillar ánægju áttaði ég mig á henni um miðja bók. Næstum.

Meðfram glæpasögunni skýtur Ævar Örn náttúrlega föstum skotum á staðið samfélagið og meðvirknina í því.

Þrálátar slettur skrifaðar upp á íslensku bögga mig ekki baun. Hins vegar veit ég um eina sem hætti eða hugsaði a.m.k. um að hætta að lesa. Mín vegna mætti hann alveg slaka á í þessu sem og því að skrifa saman tvö eða þrjú orð. Skrýtið t.d. að sjá að minnstakosti (minnir það en er reyndar búin að láta bókina frá mér) og margt svona. Svo er náttúrlega púrítaninn í mér alltaf skammt undan og hvessti sig þegar bíllinn var sitt á hvað masda, Masda og Mazda. Ritháttur ýmissa annarra orða var líka með ýmsu móti þannig að bókin hefði alveg þegið einn lokalestur.

Breytir því samt ekki að ég húrraði mér í gegnum hana og var ekki svikin af sögunni.

Og þá er aftur komið að Dalalífi, lagði hana frá mér um daginn á bls. 85. Enn er enginn farinn að lepja kaffi af móð og ég bíð spennt eftir meintum kellingastílnum. Jón Trausti hvað?


Bað einu sinni í viku

Flestir sem ég þekki baða sig daglega eða svo gott sem. En er einhver ástæða til að fólk sem hreyfir sig lítið og svitnar ekki að ráði baði sig svo oft? Mér finnst reyndar munur á einu sinni eða tvisvar í viku en ég þekki líka fullorðið fólk sem vill ekki sjá bað oftar en einu sinni í viku.

Það eru sjálfsagt ýmsar brotalamir á elliheimilum en að garga sig hásan yfir þessu dæmi finnst mér ekki vinna með málstaðnum.


Smalalíf

Ekki aðeins er ég byrjuð að lesa Dalalíf (vísun í fyrirsögn) sem er löngu tímabært heldur ástundaði ég smalalíf í gær. Ekki í fyrsta sinni, að sönnu, en í fyrsta sinn á árinu. Ég fór með tæplega 50 Bretum á Langjökul (og sex vönduðum bílstjórum, seiseijá). Veður var fagurt og blítt, Skotar, Englendingar og Wales-búar rúntuðu um jökulinn (alls ósprunginn) á sleðum og slöngum. Já, fullorðnir karlmenn renndu sér glaðbeittir niður brekkurnar, snerust í hringi, köstuðust í snjóinn og brostu út að öxlum. Ég hef ekki tölu á hversu margir sögðu mér að þeir ætluðu að koma aftur og þá með fjölskyldurnar með sér.

Hins vegar höfðu mínir góðu vinir, bílstjórarnir, áhyggjur af eldsneytisverðinu. Það hækkaði frá því að við fórum úr bænum og þangað til við komum aftur í bæinn. Rekstrarkostnaður svona ökutækja er mikill og þegar eldsneytisverðið flöktir stöðugt upp á við, flöktir sem sagt ekki heldur stígur bara, þurfa ferðarekendur að bæta því með tímanum ofan á ferðirnar og þá gæti stofninn ofurskattaðir ferðamenn orðið ofurskattaðir ferðamenn sem hættu við að koma til Íslands og fóru í staðinn til Keníu. Þó höfðu bílstjórarnir fundið fyrir aukningu á árinu vegna hópa sem höfðu bókað til Egyptalands en ákváðu að setja öryggið á oddinn og koma til lands sem er ekki þekkt að óeirðum.

Ein fyrsta spurningin sem ég fékk þegar hópurinn kom til landsins var einmitt um eldsneytisverð og þótt það sé hér á bensínstöðvum áþekkt og í Bretlandi skilst mér að verðmyndun vegna bíla og reksturs þeirra sé að öðru leyti ósambærileg.

Þeir höfðu skiptar skoðanir á því hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið. Ég þorði ekki að spyrja þá um þorskastríðin en sumir voru nógu gamlir til að muna þau.

Rentokil vinnur á meindýrum!

Smalalífið var einfalt og gott enda úrvalshópur á ferð og flinkir hópstjórar.


Man ég þig?

Ég get varla munað titilinn á nýju bókinni hennar Yrsu þegar ég legg bókina frá mér og þá finnst mér hann vondur. Ég hefði viljað hafa eitthvað lýsandi að vestan, eitthvað sem vísaði á Hesteyri, eða þá Ísafjörð eftir atvikum. Hvernig hefði t.d. Hringsólað á Hesteyri hljómað? Látnir ganga aftur? Fortíðin er enn á Ísafirði? Ekkjur eru varhugaverðar? Fortíðin er framundan?

Mér heyrist fólk ekki amast við langa titlinum á bók Braga Ólafssonar þannig að þetta snýst varla um það að ná augum fólks í því tilliti. Nei, ég held að þetta varði stóra mál sögunnar, að sögurnar eru tvær.

Þær eru tvær og óskyldar framan af, alveg línulegar og óháðar þangað til í blálokin. Auðvitað veit lesandinn frá upphafi að þær munu ná saman í lokin en í hartnær 300 síður er fyrst sögð önnur sagan, síðan hin, síðan sú fyrri, síðan hin síðari. Mér leiðist sjálfvirkni og þótt sagan sé vissulega draugaleg og spennandi er hún svo yfirgengileg formúla að ég skil ekki þá almennu aðdáun sem hefur ómað út af þessari sögu. Að sönnu þakka ég fyrir að Þóra er ekki á staðnum því að hún er virkilega hundleiðinleg og karakterlaus persóna, að ógleymdri ritaranefnunni á lögfræðistofunni. Ég er svolítið veik fyrir íslenskum skáldsögum, ístöðulaus og þess vegna les ég aftur og aftur höfunda sem ég ætla ekki að gera. En nú töluðu menn hástöfum um að Ég man þig væri spennandi og svo draugaleg að fólk flýði í annarra manna faðma.

Ég las bókina í myrkri (það er nefnilega vetur) en aldrei sótti að mér hrollur, aldrei heyrði ég aukabrak í húsinu, aldrei missti hjartað úr slag. Auðvitað segir þetta meira um taugarnar í mér sem bilast bara þegar fólk nálægt mér leggur sig einfaldlega ekki fram, hvorki við nám né aðra vinnu, en ekki þótt einhver hleri opnist í skáldsögu.

Af því að þessi ritdómur er hvort eð er meira um mig en bókina ætla ég að rifja upp að mér varð sennilega síðast um og ó þegar ég sá Lömbin þagna í bíó og þó var komið fram á vor. Mér getur brugðið en ég verð ekki skelkuð í lestri.

Að þessu sögðu er ekki nema maklegt að ég ljóstri samt líka upp þeirri skoðun minni að plottið gengur að mestu leyti upp. Það eru krossristurnar og innbrotin sem ég fæ ekki almennilega botn í, en ég skil mannshvörfin, handanhrópin, svikin og sitthvað fleira sem ég vil ekki nefna af tillitssemi við þann sem á eftir að lesa Ég man þig.

Er ég kannski þegar búin að segja of mikið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband