Föstudagur, 27. júní 2008
Hver setur stofuna út í bílskúr?
Mikið leiðast mér fasteignaauglýsingar sem láta eins og bílskúrinn sé hluti af íbúðinni. Ég sé þetta æ oftar og einu sinni sá ég auglýsingu þar sem svalir voru reiknaðar með í fermetrafjöldann. Þetta gerir mig neikvæða gagnvart bæði eigninni og fasteignasölunni.
Þrátt fyrir einhverja lækkun finn ég enn ekki eignina sem mig langar að kaupa. Og alls ekki á okurverði með falslýsingum. Maður ætti kannski að íhuga Pólland ... Ég fer a.m.k. til Krakár í haust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 26. júní 2008
Í boði [bíb] ...
![]() |
Skipulagðar hópferðir að Kerinu stöðvaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 25. júní 2008
101 Reykjavík í sænska sjónvarpinu á morgun
Svona er ég sjálfhverf, ég hjó eftir þessu í dagskrárkynningu - sennilega út af minni 8 sekúndna ... frægð í þeirri mynd.
Góð mynd, 101 Reykjavík! Lifir enn góðu lífi 8 árum síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 24. júní 2008
En leiðsögumenn sömdu í dag ... og ég á inni 700 kr. eingreiðslu
Í Félagi leiðsögumanna eru um 600 félagsmenn. Þar af hafa um 150 rétt til að greiða atkvæði um kjarasamninga, þeir 150 sem hafa á síðustu 12 mánuðum greitt félagsgjöld af a.m.k. fjórum dagsverkum.
Póstkosning var höfð um samningana sem undirritaðir voru 29. maí sl. Talning fór fram í dag. 67 nýttu sér réttinn til að kjósa, 35 sögðu já, 30 sögðu nei, 2 skiluðu auðu.
Starfandi leiðsögumenn horfa til ólíkra hluta í samningunum. Sumir skoða launaliðinn, sumir uppsagnarákvæðin, sumir ákvæði um aðstöðu, sumir kannski veikindarétt og sumir allt þetta.
Ég er lítið sem ekkert í langferðum og ég lít helst til launaþáttarins. Samkvæmt samningunum sem runnu út um áramót fékk ég um 1.450 kr. á tímann í dagvinnu og 2.200 í yfirvinnu. Ég kann ekki að reikna nákvæmlega burtu orlofið, sem er innifalið í taxtanum, og kostnaðarliðina en það lætur nærri að dagvinnan sé 1.200 kr. Það losar þá í mánaðarlaun 200.000 kr. en ég þekki varla leiðsögumann sem vinnur fulla vinnu hjá sama fyrirtækinu allt árið. Leiðsögumenn sem vilja vinna við það allt árið þurfa því að prjóna við.
Nú les ég um afbókanir og versnandi afkomu í greininni. Flugumferðarstjórar, sem einhver sagði að væru með 850.000 kr. á mánuði, ætla að lulla nokkra virka morgna, olíufurstarnir geta í krafti hagfræðireglunnar um framboð og eftirspurn hækkað eldsneyti eins og þeim hugnast á syfjulegum morgnum, gengið er eins og jójó og veðrið er árviss óvissuþáttur. Náttúruöflin hafa sín áhrif sem sást t.d. á því um daginn að a.m.k. einn þýskur hvatahópur hætti við að koma til landsins af ótta við að jörðin gleypti hann. Þar misstu fyrirvaralaust einhverjir spón úr aski sínum.
Ja, ég segi bara það að óbilgirni leiðsögumanna er ekki til að dreifa og það eru ekki óviðunandi launakröfur okkar sem valda samdrættinum.
Ég er dús við að samningarnir voru samþykktir með næstminnsta mun.
Og ef 700-kallinn minn - brúttó - skilar sér ekki af sjálfsdáðum mun ég ekki fara í innheimtuaðgerðir.
![]() |
Áhyggjur af haustinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 24. júní 2008
Spennan vex hjá Félagi leiðsögumanna
Seinni partinn í dag verða talin atkvæði í pínulitlu stéttarfélagi þar sem aðeins um 150 hafa atkvæðisrétt. Ef ég þekki mitt fólk rétt verða greidd atkvæði sjálfsagt innan við 100. Og ef ég þekki mitt fólk rétt verða samningarnir samþykktir.
Ég vinn næstum eingöngu fyrir eitt ferðaþjónustufyrirtæki. Það er mjög gott fyrirtæki, skemmtilegar ferðir, frábærir vinnuveitendur sem treysta manni til að vinna vinnuna án þess að hanga á öxlinni eða vakta mann með símanum, mátulegt kæruleysi í tímasetningum, vaðandi húmor og glens - og ferðirnar gerðar upp strax að þeim loknum. Í þessum bransa þar sem fyrirtæki týna tölunni er mikilvægt að vinnuveitandinn sé traustur, eigandinn sjálfur allt í öllu og kennitalan frá 1988.
Engu að síður er kaupið lágt. Ég vann nýlega akkúrat heila vinnuviku á rúmum þremur dögum, mestmegnis á dýrari tíma. Brúttólaunin voru um 90.000. Það þýðir 360.000 fyrir heilan mánuð næstum eingöngu í yfirvinnu. Það er - ég er auðvitað aðeins farin að endurtaka mig hér - með orlofi, með stuttum uppsagnarfresti ef svo ber undir, með undirbúningi, með fatakostnaði, með bókagjaldi og með desemberuppbót.
Leiðsögumaður notar ekki kaffitímann til að borga reikning í heimabankanum eða hringja úr síma vinnuveitandans í börnin sín og reka á fætur í sumarfríinu. Leiðsögumaður skreppur ekki frá til tannlæknis eða læknis eða í hádegismat með félögunum. Leiðsögumaður ákveður ekki að stytta daginn í annan endann vegna verslunarferðar eða til að nýta sveigjanleikaákvæði (hvaða ákvæði er það?). Nei, leiðsögumaðurinn notar kaffi- og matartímann til að gæta þess að farþegarnir fái sína næringu, alltaf á vaktinni ef þarf að þýða fyrir einhvern (þýska, franska, ítalska, spænska, finnska, hollenska o.s.frv.). Vissulega fá leiðsögumenn mat og stundum ofboðslega góðan humar eða sushi eða grafinn lax eða lambasteik eða nautasteik eða fjölbreytilegt hlaðborð - en leiðsögumaðurinn getur alltaf átt von á því að þurfa að rjúka frá borðinu. Kúnninn gengur alltaf fyrir og vissulega hafa leiðsögumenn þurft að hverfa matarlausir frá borðinu af því að of naumt hefur verið skammtað.
- Ég hef verið boðuð á skrifstofu félagsins til að fylgjast með talningunni. Heitar fréttir og lokatölur í næsta pistli ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 22. júní 2008
Takk, Sigurður Líndal
Á blaðsíðu 2 í Fréttablaði dagsins lýsir Sigurður Líndal skoðun sinni á málbeitingu háskælinga. Ég held að hann hafi lög að mæla. Málið snýst ekki svo mjög um fagurfræði eða áferð (sem ég legg samt líka talsvert upp úr), þetta bitnar ekki síður á skilningi og eykur líkur á misskilningi.
Ég held reyndar að kunnáttunni sé ekkert að byrja að hraka núna. Habbý talaði um slaka framsetningu nemenda sinna í HÍ þegar hún var þar stundakennari fyrir nokkrum árum. Sjálf get ég ekki kvartað undan samnemendum mínum, alltént ekkert að ráði ...
Við verðum öll fyrir áhrifum alls staðar að - sem er fínt - en við þurfum að rækta tungumálið.
Jíei!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. júní 2008
T-bær, kaffihús í landi Torfabæjar í Selvogi
Veitingar, gisting og tjaldstæði í næsta nágrenni við Strandarkirkju. Ég fékk svo góða þjónustu þar á miðvikudaginn að mig langar að fara strax aftur og ég má til með að plögga fyrir T-bæ.
Ef menn gifta sig í Strandarkirkju - sem er upplagt ef menn eru þannig þenkjandi - er sérlega gráupplagt að halda veisluna fyrir 60 nánustu vini á þessum huggulega og íburðarlausa veitingastað.
Sími 483-3150 - og ég hef engra hagsmuna að gæta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 20. júní 2008
Þá hló marbendill
Enn hef ég ekki farið með túrista á Hveravelli en samt hugsaði ég um það í dag hvað ég myndi gera ef ég væri á leiðinni þangað. Myndi ég segja frá sporunum í hálfkæringi - þetta væri villa - eða myndi ég segja frá sporunum til að fólk gæti verið á varðbergi? Hefði ég e.t.v. þagað þunnu hljóði?
Ég bryddaði upp á þessu í bænum í dag og ein sagði mér grafalvarleg að ferðamennirnir sem sáu sporin hefðu verið mjög áreiðanlegir. Svo hefðu þeir ekki vitað um hina ísbirnina. Ja, því trúi ég alltént ekki, að þeir hafi ekki frétt það t.d. að heiman þegar við vitum að myndirnar af böngsunum hafa farið um heimsbyggðina eins og ... eldur í sinu. Túristar eiga líka síma og heyra í sínu heimafólki.
Jamm, ég hefði talað um meint ísbjarnarspor. Og ég hefði haft rétt fyrir mér.
Ég er náttúrlega kaldrani. Ég hlæ að þessu þangað til ég horfi upp í gin á einu krúttlegu kvikindinu. Hehe.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. júní 2008
Leik- og grunnskælingar ættu að eiga skattkort
Börn geta ekki gengið sjálfala. Börn þarf að annast. Þegar leik- og grunnskólar hafa lokað heilu og hálfa dagana vegna annarra starfa starfsfólks þarf einhver að annast börnin. Foreldrar eru ekki of góðir til þess, sossum, en þá þurfa þeir að gera hlé á öðrum störfum. Og það finnst atvinnurekendum oft ógaman. Og foreldrum finnst líka leiðinlegt að eyða sumarleyfisdögunum sínum í staka starfsdaga hér og þar í skóladagatalinu.
Mér finnst að foreldrar ungra barna ættu að geta nýtt skattkort sem börnin ættu að eiga. Þannig gætu foreldrar ungra barna verið í lægra starfshlutfalli, jafnt mæður sem feður, og þannig væru ekki eins mikil viðbrigði að þurfa að hverfa frá stundum.
Annað vandamál er að ég held að marga foreldra langi ekki til að vera heima með börnunum sínum heilu dagana, óháð eftirspurn á vinnumarkaði. Þess vegna þarf að hvetja til þess með einhverjum ráðum.
Ég ætlast til að Habbý geri gáfulega athugasemd við þetta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 18. júní 2008
Ófeimnir hestar við Suðurstrandarveg
Og aftur hættir maður svoleiðis við að hætta í bransanum. Fór með skemmtilegan hóp á vegum utanríkisráðuneytisins á Þingvöll, Stokkseyrarbakka, að Strandarkirkju og í Bláa lónið. Buðum upp á samlokur og vatnsflöskur - og svo hraunbita. Þeir klikka ekki.
En hestarnir fengu bara hlýjar kveðjur frá okkur, og strokur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. júní 2008
Veðrið á þjóðhátíðardaginn
Það lék við okkur 101-strumpana.
Ég hef einhverra hluta vegna aldrei lagt leið mína í miðborgina fyrr á þessum drottins dýrðar sautjánda. Og bara svona fyrir plötuna [eins og Matti myndi orða það] var veðrið gott á 17. júní. Sumir vilja orða það öðruvísi ... nefnilega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 16. júní 2008
Einhver þóttist skara eld að eigin KÖNNU
Já já, öllum getur orðið á þegar orðið á götunni er annars vegar. Eða hins vegar. Þetta minnir mig á hið sígilda lamasleysi (orðið í fjölskyldunni). Og sjálfa mig þegar málshátturinn Það kostar klof að ríða röftum sneri út úr mér.
Það er mörg minningin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. júní 2008
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
Mikið er undarlegt hvað slóðin á beygingar í tungumálinu er langsótt: http://iceland.spurl.net/tunga/VO/. Hverjum getur dottið það í hug?
Engum.
Svo er síðan líka gölluð þótt um margt sé hún ágæt og staðfesti það sem maður veit. Hún viðurkennir tvo kosti þar sem við á en gleymir stundum sterku beygingunni.
Sumir vilja draga að hún en það er þá eins og að draga að sig. Allir vita betur en svo.
Gaman að þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 15. júní 2008
Heilbrigðar efasemdir um sjálfan sig
Ég hef einu sinni kviðið fyrir hvataferð. Það var sumarið 2003 og ég reyndist hafa góða ástæðu til þess. Þá vildi einn af hópstjórunum fá að tala við mig fyrirfram og hringdi frá Þýskalandi með fyrirmæli um að segja frá hinu og þessu, segja skemmtilegar sögur af víkingum, fara nákvæmlega yfir plötuskilin, hvaða kvikmyndir hefðu verið teknar upp hér á landi og ýmislegt annað sem ég man ekki lengur. Hann bað mig að lesa vel spurningalista sem hópurinn átti að fá - og svara síðustu 10 spurningunum eða svo. Samtals voru þær um 60. Að auki var ég beðin um að þýða matseðilinn yfir á íslensku! Þá sagði ég hingað og ekki lengra, matseðillinn er þýddur úr íslensku yfir á þýsku þannig að ferðaskrifstofan hlýtur að eiga hann á íslensku, sagði ég.
Ég tala alveg bærilega þýsku, takk, á misgóða daga svo sem og stundum finnst mér ég alveg einstaklega vitlaus í þýsku. Það er aðallega þegar búið er að pönkast á vitsmunum mínum alveg botnlaust.
Þessi hvataferð fyrir fimm árum hefði getað heppnast alveg einstaklega vel. Veðrið var frábært, ekkert minna þá daga. Við gistum í Hveragerði þannig að við spöruðum akstur fram og til baka aftur og aftur. Ég byrjaði í morgunmatnum á að svara spurningum eins og í venjulegri hringferð og þurfti að dansa með fram yfir miðnætti.
Það þóttu mér nokkuð langir dagar.
Hópstjórinn var ein fimm kvenna í hópnum og fann að öllu. Hún skammaðist yfir einu skýi. Hún skammaðist yfir að fleira fólk væri á Markarfljóti í flúðasiglingum þótt við værum tveimur tímum of sein af því að fólkið hennar virti ekki tímasetningar. Hún skammaðist yfir þurrki. Hún skammaðist yfir því að ekki mætti reykja í Fjöruborðinu þótt gestunum væri slétt sama og færu gjarnan út í góða veðrið og birtuna til að anda að sér nikótíninu. Og hún kvartaði yfir að ég væri ekki nógu skemmtileg.
Þar með var spilið tapað. Þessi ferð verður ekki botnuð. Og starfsmaður ferðaskrifstofunnar sem ég vann fyrir þá helgina stóð ekki með mér, studdi mig í engu og svei mér ef hún naut þess ekki að sjá mér líða illa. Og ekki fannst þeirri ferðaskrifstofu ástæða til að borga allar unnar stundir, ekki heldur símakostnað minn.
Nú ligg ég hér í sófanum mínum á sjötta tímanum á sunnudegi og get mig varla hrært af þreytu eftir viðburðaríka hvatahelgi. En mér líður samt vel, veit að við skiluðum góðri vinnu saman, vorum samhent og þrátt fyrir einstaka skavanka fara farþegarnir heim með fallegar myndir, góðar minningar og eiga eftir að senda hingað fleiri gesti á næstu árum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 14. júní 2008
Sviðsetning Ara og Örvars
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 13. júní 2008
Ein lítil staðreynd um hvali
Ég fór í gær með erlenda gesti í hvalaskoðun. Við sáum enga hvali, einhver uppástóð að tveir höfrungar hefðu sést. Við sáum mökk af lundum og einn fýl.
Svo var hlaðborð á einum veitingastaðnum, þar var hangikjöt, annars konar kjöt, alls konar - og ræmur af hval. Gestunum mínum þótti það fyndið.
Ég veit ekki hver pantaði eða hanteraði hlaðborðið svona.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. júní 2008
Bókaköff
Nú er komið nýtt bókakaffi sem ég prófaði í hádeginu, alltaf gaman að fara hringinn i miðbænum. Það olli mér vonbrigðum, lítið úrval, vont úrval fyrir minn smekk, rétt ætur gulrótarkökubiti á 390 krónur. Þrátt fyrir útisetumöguleikana þarf mikið að koma til svo að ég leggi leið mína þangað aftur.
Eins varð mér innanbrjósts um árið þegar ég kannaði úrvalið í bókakaffi Eymundssonar. Maður nær ekki fyrstu kynningu nema einu sinni - bókaköffin verða að vanda sig betur ef ég á festast í önglinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 11. júní 2008
Húsdýragarðurinn að loknu hjólaátaki ÍSÍ

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. júní 2008
Greiðvikni kaupandinn í Krónunni
Vinkona mín lenti í því í búð nýlega að uppgötva við kassann að hún hafði gleymt seðlunum heima. Hún bað geislagaurinn að geyma vörurnar meðan hún skytist stutta leið. Hann tók því fjarri þannig að hún hélt að hún yrði að byrja upp á nýtt - þangað til maðurinn sem stóð fyrir aftan hana í röðinni bauðst til að borga fyrir hana, hún myndi svo bara leggja inn hjá sér við tækifæri.
Og það varð ofan á.
Ég sagði þessa sögu nokkrum í gær - og viti menn, þetta er algengara en ég hugði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 9. júní 2008
Keyrða kynslóðin = krakkarnir með bílafæturna
Fyrra hugtakið flaug fyrir á Bylgjunni í morgun, hið seinna hef ég heyrt annars staðar. Dapurlegt að stórir hópar fólks komist ekki gangandi lengra en út í bíl.
Þessir láta þó lóðsa sig um á allt annan hátt:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)