Laugardagur, 26. febrúar 2022
Að hafna rússneskum vörum?
Ha? Ég sá á einhverjum samfélagsmiðli áðan spurningu um hvaða vörur væru rússneskar svo viðkomandi gæti sniðgengið þær. Ég skil það ekki. Þótt maður fordæmi Pútín, stríð og innrásir er flest rússneskt fólk venjulegir borgarar sem vinna við eitthvað til að afla sér viðurværis. Ég er einmitt líka búin að sjá heilmikla umræðu um að rússneskur almenningur sé einstaklega geðugur og greiðvikinn.
En af hverju sameinast ekki yfirvöld allra landa heims um að taka völdin af Pútín? Hann verður sjötugur í haust og ef hann fær að ráða getur hann vaðið uppi með vondar hugmyndir og vondar ákvarðanir í 20 ár - og svo vitum við líka að síðasta fíflið er ekki fætt.
Er enginn samtakamáttur hjá góðu fólki til að hindra stríð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 23. febrúar 2022
Páll og nafnlausi þolandinn
Þolendur allra landshluta hljóta nú að fagna því að lögreglan taki kynferðisbrot og dreifingu einkamyndefnis alvarlega. Ég óska öllum Pálum landsins góðs bata og réttlætis en ekki síður öllum þolendum sem hafa mátt bíða og bíða eftir svörum, niðurstöðum, bréfum, símtölum - og réttlæti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. febrúar 2022
Breytum kirkjum
Ég hélt að sárkristið fólk hreykti sér af umburðarlyndi og kærleika í garð annars fólks. Ég var að lesa í gegnum þráð á Facebook sem hefði líklega afkristnað mig ef ég hefði verið einhverrar sérstakrar guðstrúar. Ég man ekki alveg hvenær ég sagði mig úr þjóðkirkjunni en það var a.m.k. fyrir aldamót og þá var ég búin að vera lengi á leiðinni út af einhverjum meintum þjóni kirkjunnar sem hafði ofboðið mér.
Sagan hefur sýnt að mörg ódæðisverk eru framin í nafni trúar. Mörg stríð hafa verið háð vegna meintrar trúar.
Ég trúi á ýmislegt, m.a. á fyrirgefningu og umburðarlyndi en ég er ekki til í að bjóða hinn vangann ef ég er löðrunguð og mér finnst hreint út sagt einfeldningslegt að horfa í gegnum fingur sér ef einhver manni nákominn t.d. fremur glæp. Ég elska engan skilyrðislaust en ég er alltaf til í að hlusta á rök og meðtaka ef fólk gengst við mistökum og sýnir yfirbót.
Ég vil sem sagt aðskilja ríki og kirkju og mér finnst frábær hugmynd að breyta kirkju í gistiheimili eða einbýlishús eftir atvikum. Þegar ég var á ferð í Dublin endur fyrir löngu hringdi í langlínusímtal úr fyrrverandi skriftaklefa sem búið var að breyta í símaklefa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 21. febrúar 2022
Aumingja kapítalistarnir
Ég er meðvirk. Ég vorkenni kapítalistunum og fæ reglulega samviskubit þegar ég er ekki nógu dugleg að fara í búðir og kaupa. Samt á ég fulla skápa af fötum sem ég er búin að gleyma og sem ég passa sum ekki í. Ég fæ örari hjartslátt þegar ég er ekki nógu dugleg að kaupa tilbúinn mat. Samt fer ég í úrvalsbúðir og kaupi gott brauð og sushi í miklu magni þegar ég býð völdum gestum í mat. Ég fer líka á veitingastaði og kaupi mat sem einhver annar leggur á borðið hjá mér og vaskar upp eftir mig.
Gráðugir einstaklingar hafa komið óorði á kapítalistana. Kapítalisti er skv. Snöru:
(samkvæmt marxískri kenningu) sá sem ávaxtar eignir sínar (beint eða óbeint) með (launa)vinnu annarra.
stórríkur maður, auðjöfur
Líka skv. Snöru:
maður sem nýtur arðs af eignum sínum. 2. auðjöfur. 3. auðvaldssinni.
Sannur kapítalisti þarf að hætta fé sínu og taka áhættu. Stundum er sagt að menn geti ekki náð árangri nema mistakast líka. Af mistökunum megi draga hvað mestan lærdóm. Mistökum getur fylgt tjón. Ég tek ofan fyrir þeim kapítalistum sem taka áhættu, reka sig á, bæta sig og uppskera almennilega. Það er bara svo skrambi erfitt að þekkja þá úr. Nú, eftir tvö ár af faraldri, er ég ekki viss hvar skikkanlegu veitingamennirnir, flugrekendurnir, fatasalarnir, hárgreiðslumeistararnir og blaðamennirnir halda sig og hvar ég á að versla til að styrkja heiðarlega kapítalista sem hafa dregið vagninn sjálfir.
Og ég er í alvörunni meðvirk vegna þess að ég á það til að kaupa eitthvert drasl og einhvern óþarfa handa mér og handa öðrum í stað þess að kaupa það sem mig langar í þegar mig langar í það. Ég er nefnilega neyslugrönn að eðlisfari ... en líklega hefur meðvirknin verið alin upp í mér af neyslusamfélaginu - sem ég held að sé að breytast.
Ég versla í Rauðakrossbúðunum af því að mér líka vörurnar og vilja gefa þeim framhaldslíf og ég ferðast á hjóli af því að ég upplifi sjúklega mikið frelsi á hjólinu. Ég er loks búin að átta mig á að mér líður illa í dýrustu flíkunum sem ég kaupi ... og bíllinn - ja, hann er bara fastur í skaflinum fyrir framan húsið. En ég þakka innilega fyrir að þurfa ekki að kaupa mér fasteign í Reykjavík í bráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. febrúar 2022
Sprengisandur í morgun
Ég hlustaði á Sprengisand í morgun. Þar talaði lögmaður um lögfræði.
Útskrifaðir lögfræðingar kunna ekki bara lögin og rétta meðferð, þeir kunna sumir klækjabrögð og breyta vísvitandi rangt eða reyna að hafa óeðlileg áhrif á útkomu mála.
Fyrir tveimur árum skrifaði ég manneskju tölvupóst, sjá mynd. Daginn eftir hringdi í mig lögmaðurinn sem ég vísaði í og hótaði mér málsókn vegna ærumeiðinga út af þessu tveggja manna tali. Ég vissi að ég skuldaði honum ekki neitt og neitaði að segja honum það sem hann vildi vita. Hann gargaði [ekki ofmælt] á mig að ég skyldi hringja í hann daginn eftir og segja honum það sem hann vildi vita. Ég vissi rétt minn en almáttugur, hvað ég fékk mikinn hjartslátt. Ég hringdi ekki til baka og hef sem betur aldrei framar fengið upphringingu frá honum.
Ég og þessi lögfræðingur vorum aldrei vinir en þessi manneskja sem fékk póstinn frá mér áframsendi póstinn til lögfræðingsins en svaraði mér aldrei. Ég held að viðkomandi hafi verið heilaþvegin/n af vitsmunum og framkomu lögmannsins.
Ég treysti ekki lögmönnum fyrir það eitt að vera lögmenn. Og af því að þekki fjöldann allan af lögmönnum ætla ég að segja hið sjálfsagða: Margir lögmenn, kannski langflestir, eru gott fólk sem vandar sig í því sem það gerir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. febrúar 2022
Styrkir og arðgreiðslur
Ég á smáaur í verðbréfum. Safnið er í Stefni - Samvali hs. Ég er búin að eiga þetta lengi og hef séð upphæðina fara upp og niður. Sum árin hafa verið í mínus. Þegar maður fjárfestir í áhættu getur maður átt von á góðum gróða eða tapi, í því felst áhættan.
En ekki í augum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins:
Halldór Benjamín segir ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki greiði út arð þrátt fyrir að hafa þegið ríkisstyrki vegna heimsfaraldurs Covid-19.
Segir. Ekkert. Óeðlilegt.
Ríkt fólk getur ekki gert endalausa kröfu um aukið ríkidæmi. Fólk á ekki að setja í áhætturekstur peninga sem eiga að duga fyrir eðlilegri framfærslu. Áhættufé getur tapast - en tapast ekki hjá þeim sem vilja einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið og fá að ráða.
Segin saga. Gömul saga. Margendurtekin saga. Óþolandi í alla staði.
Tek fram til öryggis, vegna riddara gróðapunganna sem stundum villast hingað inn, að ég öfunda ekki framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins af gróðastöðu sinni. Ég hef hins vegar séð færslur hjá honum á Twitter og þær eru oft meinfyndnar. Hann mætti nota kímnigáfuna oftar í viðtölum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. febrúar 2022
Skatturinn, 3. þáttur
Ég fékk tiltal frá Skattinum af því að ég lagði saman tvo og tvo og fékk út þrjá. Skussaháttur hjá mér en óverjandi að Skatturinn skyldi ekki koma auga á svona augljósa villu fyrr en hálfu ári síðar. Og nú er hann búinn að taka sirka 20 mannklukkutíma, hálfa vinnuviku, í að senda mér bréf eftir bréf frá Vestmannaeyjum með tiltali á mörgum blaðsíðum um augljósa villu - en núna síðast án þess að láta þess getið í öllu orða- og talnafarganinu hvar ætti að leggja inn og hver gjalddaginn væri. Það er sko samt búið að leggja á mig aukaálögur og skussaháttarvexti.
Ég eyddi auðvitað einhverjum klukkutímum í að ráða gátuna - takk, Skattur! - og nú er ég að fara að borga skuldina til að fá ekki vöndinn á nakið handarbakið.
Ég hef aldrei þurft að eiga við Tryggingastofnun eða Útlendingastofnun en hef heyrt slæma hluti um þær stofnanir. Af hverju er ekki vilji hjá þjónustustofnunum til að vera skilvirkar og með snefil af þjónustulund? Ég fullyrði að það er EKKERT MÁL að vinna vinnuna sína. Það er ekki endilega við frontinn að sakast, kannski er vilji hjá yfirstjórn til að sýna stífni og eyðslusemi því að í mínu tilfelli hefði verið hægt að útkljá málið með einu símtali.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. febrúar 2022
Samsæriskenning
Ég hlustaði á viðtal við Pál Vilhjálmsson á Bylgjunni í morgun. Ég sé að það er bara rúmar 16 mínútur en mér leið eins og það væri langtum lengra. Ég hlustaði drjúga stund á leið út úr húsi og svo alla leið á áfangastað.
Hvað sagði framhaldsskólakennarinn í viðtalinu? Jú, hann hafði áhyggjur af því að skipstjóra hefði verið byrlað eitur þannig að hann missti meðvitund, hefði verið fluttur á spítala þar sem starfsmenn RÚV hefðu stolið af honum símanum, farið með hann upp í Efstaleiti, stolið af honum gögnum, skilað símanum, sagt svo upp störfum í snatri, ráðið sig til annarra fjölmiðla og lekið gögnum af símanum til þeirra fjölmiðla. Meðal lekinna gagna voru upplýsingar um skrímsladeild Samherja sem á að vera innanhússgrín skipstjórans og lögfræðings Samherja.
Ég er ekki fjölmiðill sem fer endilega í mikla rannsóknarvinnu heldur bloggmiðill sem skrifa stundum eftir minni. Þið sem lákuð hingað inn fyrirgefið mér vonandi þótt ég skauti í fimm setningum yfir 16,5 mínútur af einræðu kennarans enda vísa ég á frumheimildina í fyrstu línu. Áhugasamir sem misstu af geta hlustað í tækjunum sínum.
Og af því að ég er alveg víðáttukærulaus bloggari ætla ég að segja að mér finnst metnaðarlítið af kennaranum sem hittir margar ungar stúlkur á hverjum degi í vinnunni að hafa ekki sjáanlegar áhyggjur af því að ungu nemendunum hans hafi verið byrluð ólyfjan úti á meðal fólks.
Ég er á móti því að eitrað sé fyrir fólki en atburðarásin sem ég dró saman í nokkrar línur er svo ótrúverðug að ég get að svo stöddu sáralítið gefið fyrir baráttu Páls fyrir réttlæti og sanngirni. Ef ég hefði ekki eingöngu heyrt kennarann verja vondan málstað hefði ég kannski lagt betur við hlustir. Og skildi ég ekki rétt að hann liti svo á að út af þessu væri lögreglustjórinn á Akureyri, áður lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sem gaf lítið fyrir umræðu um nauðganir á þjóðhátíð, að kalla blaðamenn í skýrslutökur?
Og gaf hann ekki líka í skyn að starfsfólk á fréttastofu RÚV væri nú farið í stórum stíl út af alls konar lekum?
Ég vil endilega vita hið sanna og mun fylgjast með framvindu allra þessara mála en mér finnst samsæriskenningin um að Þorsteinn Már sé varnarlaus kettlingur ekki trúleg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. febrúar 2022
Guggan verður áfram gul ...
Mér líður eins og Verbúðin haldi áfram með tíðindum dagsins.
Af hverju er ekki búið að breyta lögum um stjórn fiskveiða?
Af hverju erum við ekki komin með nýja stjórnarskrá?
Er orkan komin í einkaeigu? Hvað með jöklana?
Ég hef það sjálf gott en við gætum öll lifað í vellystingum praktuglega og þyrftum ekki að vera með undirmannað heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Við gætum haft boðlega vegi alls staðar, göng eftir þörfum og 30 stunda vinnuviku ef við skiptum aðeins jafnar.
En Guggan skipti litum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 10. febrúar 2022
Gróði bankanna
Bankarnir hreykja sér af góðum hagnaði og arðgreiðslum. Fjölmiðill spyr: Getið þið ekki látið eitthvað af hagnaðinum nýtast kúnnunum ykkar, viðskiptavinunum sem borga háa útlánsvexti en fá lága innlánsvexti?
Bankastjóri: Við erum í samkeppni alla daga.
Fréttamaður: ...
Bloggari: Það er bara engin lógík í því að vextir á sparifé séu í kringum 1% en vextir á skuldum allt að 14%, kannski enn hærri. Ég hef ekki nennt og nenni ekki heldur núna að reikna út vaxtamuninn í prósentum, allt læst fólk sér að hann er fáránlegur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. febrúar 2022
Fólkið í kirkjugarðinum
Dreptu mig ekki, hvað Rás 1 er að endurspila skemmtilega þáttaröð seinni partinn á laugardögum. Flest munum við gleymast þegar við verðum horfin yfir móðuna miklu þótt við verðum laufblöð á einhverjum ættartrjám og skiljum jafnvel eftir okkur fingraför á internetinu sem munu varðveitast sem gjálfur í hafi. En Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir spæjaði um legsteina í Hólavallakirkjugarði og las sér til um suma hina látnu og gröfnu. Afraksturinn var spilaður á Rás 1 í fyrrasumar en ég heyrði fyrst einn þátt um daginn fyrir tilviljun.
Og í gær var þáttur um skáldin Jóhann Gunnar Sigurðsson og Sigurð Breiðfjörð sem ég las um báða í íslenskunámi mínu á síðustu öld. Hér bætir Þorgerður óskaplega miklu við æviferilinn hjá þeim báðum og gerir það svo vel að maður næstum hjólar framhjá viðkomustaðnum eða gleymir að maður sé að skúra.
Jóhann varð 24 ára en Sigurður 48 en samt komu þeir miklu í verk ... já, eins og við öll þótt við yrkjum ekki ódauðleg harmkvæði eða verðum dæmd til 20 vandarhagga fyrir tvíkvæni ...
Ég elskaði lífið og ljósið og ylinn.
Nú liggur það grafið í djúpa hylinn.
Og vonirnar mínar, sem voru fleygar,
sumar dánar, en sumar feigar.
JGS
Ástin hefur hýrar brár
en hendur sundurleitar,
ein er mjúk en önnur sár,
en þó báðar heitar.
SB
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. janúar 2022
Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann
Ég veit ekkert um SÁÁ, ég þurfti meira að segja að fletta því upp núna til að sjá hvar þau væru til húsa. Ég trúi að samtökin hafi hjálpað mörgum að brjótast út úr vítahring og verið lífsbjargandi, eins og það var orðað í Vikulokunum í gærmorgun.
En ég á alkóhólskemmdan bróður sem hefur verið í einhverjum samtökum, AA og líklega víðar. Einhvern tímann fyrir mitt minni var ég með í bíl að keyra hann á Vog. Hann drekkur ekki lengur áfengi en hann er núna narsissisti og búinn að ræna, rupla og ljúga sig frá okkur systkinunum. Kannski var hann alltaf narsissisti en kannski var sjálfhverfan alin upp í honum í einhverjum samtökum. Ég þekki sjálf enga jafn sjálfselska manneskju og hann og ég þekki engan annan vel sem hefur verið í sjálfshjálp í 40 ár. Mín mistök í 30 ár voru að halda að hægt væri að hjálpa honum til að verða almennileg manneskja. Hann hefur bara engan áhuga á því, hann vill bara mergsjúga og blóðmjólka fólkið í kringum sig. Allir meintir vinir hans síðustu þrjú, fjögur árin eru fólk sem þekkir hann ekki í raun vegna þess að eins og siðblindra er háttur getur hann komið vel fyrir í skamma stund.
En hann drekkur ekki lengur áfengi og hefur lengi haldið sig frá því. Er þá áfengisvarnastarfið ekki búið að standa sig vel?
Hann var drykkfelldur á æviskeiðinu 11-24 ára og það er tímabil sem ég man ekki gjörla eftir nema svona skítsæmilega síðustu fimm þeirra. Hann er sem sagt búinn að vera þurr alki megnið af fullorðinsævi minni, búinn með sporin, hefur sótt fundi ... en ekki bætt sig. Mesti harmurinn er að mamma og pabbi voru alla tíð á nálum yfir að hann félli og hlóðu þess vegna undir hann.
Kannski eru SÁÁ lífsbjargandi samtök en þau björguðu mér ekki frá því að blindast af fjölskyldukærleik gagnvart snarveikum bróður. Engu sé ég meira eftir í lífinu en að hafa trúað lygunum úr honum. Ég réð bara ekki við ástandið og vissi ekki að ég væri hjálparþurfi. Nú er hann bara ekki lengur í lífi okkar systkina og það er blessun svo langt sem það nær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. janúar 2022
Miskunnarlausi Samverjinn
Vá, hvað spennumyndin sem RÚV sýndi fyrir hálfum mánuði var spennandi. Mér fannst hún vel leikin og það af leikurum sem ég þekki ekki sem er sérstakur bónus. Náunginn sem myndin hnitast um er forhertur glæpon en um leið með undursamlega bjarta og djarfa ásjónu sem fólk hlýtur að falla fyrir þangað til ysta byrðið flagnar af.
Já, hann er auðvitað siðblindur. Sumt var vissulega ótrúverðugt en á hinn bóginn brást fólk við eins og maður myndi reikna með hjá sjálfum sér. Hver fer ofan í myrkvaðan kjallara í húsi sem hann þekkir ekki og kveikir ekki ljósið? Hvaða smákrimmi fer með mikilvægar upplýsingar til lögreglunnar og reiknar með að sér sé skilyrðislaust trúað?
Nei, það gekk vel upp í myndinni.
Hárin rísa og ef þið eruð fyrir þess háttar smáspennu í einn og hálfan klukkutíma eru enn tveir og hálfur mánuður til stefnu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. janúar 2022
Skatturinn: Framhaldssaga
Ég hef sagst ekki skilja stofnunina Skattinn. Ég vil ekki skulda, ég vil ekki svíkja undan skatti en ég vil að hlutir séu skýrir og verkferlar einfaldir. Ég hugsa að ég eigi mörg skoðanasystkini í þessu.
Í vikunni fékk ég sem sagt langt, þurrt og lagakrækjulegt bréf um að ég hefði vantalið fram verktakatekjur á árinu 2020. Ég skulda skatt af því að ég setti í samtölureit ranga tölu en allar tölurnar að öðru leyti voru réttar. Viðskiptagreindu fólki ætti ekki að verða skotaskuld úr því að leiðrétta það án þess að prenta út langhunda í Vestmannaeyjum og senda fótgangandi í Hlíðarnar, næstu götu við Skattinn á Laugaveginum.
En hvað gerðist í dag?! Ég fékk hnipp frá island.is og þar beið mín þetta tilskrif:
Engar frekari skýringar eru á þessum útborgaða virðisaukaskatti. Ég er ekki í virðisaukaskattsskyldum rekstri, hef hvorki rukkað né greitt virðisaukaskatt. Og vitið þið við hverju ég býst næst? Að eftir ár fái ég harðort bréf frá Skattinum um að ég skuldi 19.794 kr.
Viðbót: Í svefni rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerðar á bíl 16. nóvember 2021. Í skýringum með innborguninni er ekkert sem bendir á það. Hins vegar er ekki hægt annað en að mæla með Allir vinna - þá fær maður ÓVÆNTAN glaðning tveimur mánuðum seinna.
Dægurmál | Breytt 27.1.2022 kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. janúar 2022
Gervigreind
Ég er mjög hrifin af gervigreindarhugmyndinni og hef góða reynslu af hugbúnaði sem breytir tali í texta. Svo erum við með heimabankana, stafrænu myndavélarnar, sjálfvirka opnara, afgreiðslukassa í búðum og bókasöfnum - og þvottavélar. Og þá upphefst argið hjá mér. Ég á nýja AEG-þvottavél sem tæmdi sig ekki í síðasta þvotti. Ég tók eftir að affallsleiðslan (veit ekkert hvað hún er kölluð) hafði losnað þannig að ég festi hana aftur en þá var andskotinn þegar orðinn laus.
Og nú er ég með blautan þvott í þvottavélinni sem ég get hvorki sett aftur af stað né opnað tromluna til að taka þvottinn út og bara vinda, a.m.k. þangað til ég finn út úr rest.
En uppþvottavélin sem er a.m.k. 10 ára, sennilega 20 ára, malar eins og nýstrokinn köttur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. janúar 2022
Getuleysi Skattsins
Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu.
Ég taldi fram of litlar verktakatekjur fyrir árið 2020. Ég var hluta ársins í námi og með svolitlar verktakatekjur en ekki fastar launagreiðslur. Svo taldi ég fram og taldi mig gera það allt rétt.
8. desember sl. fékk ég póst frá Skattinum. Hann var dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 30. nóvember sl. Þar var mér gefið að sök að hafa talið of lítið fram og vísað í upplýsingar sem ég gaf sjálf upp í skattskýrslunni. Í einn reit hafði ég skrifað vitlausa samtölu. Ég er ekki vitlaus, ekki einu sinni í tölum, en framtal er nánast það leiðinlegasta sem ég geri þannig að ég kastaði aðeins höndunum til þessa smáræðis.
Ég gengst strax við mistökunum. Nokkrir tölvupóstar fara á milli mín og starfsmanns Skattsins. 7. janúar sl. sendi ég nýja rekstrarskýrslu. Núna áðan, 24. janúar, tek ég úr bréfalúgunni gluggapóst frá Skattinum þar sem mér er gert að greiða meiri skatt, samt ekki nein krónutala nefnd. Sá póstur er dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 17. janúar. Undir skrifar starfsmaður staðsettur á Laugaveginum. Mér er gefinn kostur á að andmæla þessari viðbót sem ég var búin að gangast við að skulda.
Ég skil ekki þessi vinnubrögð. Ég skil ekki af hverju ég fæ bréfpóst sem silast um hverfin og ég skil ekki af hverju ég var ekki bara spurð hvort ég gæti hafa gert mistök í framtalinu án þess að vísa holt og bolt í lagagreinar.
Í svarinu mínu 7. janúar bað ég um að fá að greiða skuldina í einu lagi. Ég spurði líka hvort hægt yrði að rukka framtíðarálögur vegna verktakatekna í einni greiðslu en því var ekki svarað. Það passar líklega ekki í formið.
Ég hef einu sinni átt í útistöðum við Skattinn. Hann gerði mistök og gekkst við því. Það tók ár og daga að fá úr því skorið.
Ég mun héðan í frá aldrei vorkenna Skattinum þegar hann hefur mikið að gera. Hann ber alla ábyrgð á því sjálfur.
Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu, eins og ég hóf þennan pistil á að skrifa. Kerfið er svo meinlegt að ég trúi því til að pönkast á þeim sem gagnrýna eða andmæla. En ég hef engan áhuga á að svíkja undan skatti, ég hef bara áhuga á að hafa kerfið skilvirkara en það er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. janúar 2022
Höft og bönn
Ég er þæg og löghlýðin, fer meira að segja eftir lögum sem ég er ósammála. Lögin eru mannanna verk og Gummi bróðir er t.d. varinn af fyrningarreglu laganna þótt samband okkar hafi ekki verið viðskiptalegs eðlis heldur drifið áfram af fjölskyldukærleik sem er nú allur fyrir borð borinn.
Nóg um þau hryðjuverk, ég er alltént laus við þann ódám úr lífi mínu.
Ég er að hugsa um veiruna skæðu sem er búin að leggja (tímabundið) að velli ekki færri en níu leikmenn íslenska liðsins á hinu stórkostlega handboltamóti í Ungverjalandi. Það er auðvitað bara stórkostlegt fyrir hvað það er skemmtilegt en forkastanlegt fyrir hvað mótshaldarar standa illa að því.
En leikmennirnir sem dúsa nú í einangrun með félagsskap af veirunni eru ekki veikari en hinn spræki lýsandi Einar Örn Jónsson sem lýsti af sömu einurð og allajafna, fékk sér bara aðeins meira heitt vatn og hunang.
Ef menn mega hópast saman í eina höll í einu landi og fyrirfram er vitað að múgur manna mun handfjatla sama boltann ættu þeir að fá að spila nema þeir veikist og treysti sér ekki í leikinn. Maður hefur nú séð þá nokkra haltra á fjórðungi fótar en þá eru þeir spreyjaðir og látnir endast út leikinn.
Nú finnst mér nóg komið - en mun sjálf auðvitað fara áfram að lögum og reglugerðum. Hef bara verið svívirðilega heppin með sjálfa mig og mitt athafnalíf gjörvöll tvö árin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. janúar 2022
Auglýsing vefmiðils?
Ég er fyrir löngu búin að fela á Facebook allar meintar fréttafærslur frá meintum vefmiðli sem brotist var inn á skrifstofuna hjá í gær. Ástæðan? Ómerkilegur fréttaflutningur í bága við vilja fréttaefnis, ekki síst æsifréttir af slysum og endursögn úr minningargreinum.
Ég tek bara undir tístið sem ég las áðan en passa sjálf að skrifa ekkert upphátt og fullyrða ekki heldur neitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. janúar 2022
Klíníkin og Orkuhúsið
Ég er búin að vera að bíða eftir þeirri spurningu frá fjölmiðlamönnum hvort heilbrigðisstarfsfólk í einkageiranum sem er núna lánað Landspítalanum fái ríkislaun meðan það er í láni. Segjum að hjúkrunarfræðingur í liðskiptaaðgerðum Klíníkurinnar fengi 1.000.000 kr. á mánuði (algjört gisk) en sambærilegur hjúkrunarfræðingur fengi 600.000 hjá Landspítalanum - heldur sá fyrri milljóninni og borgar þá Klíníkin mismuninn?
Á Twitter sá ég loks örla á þessari spurningu.
Ef 1.000.000 kr. hjúkrunarfræðingurinn heldur sínum launum, hvað finnst þá 600.000 kr. hjúkrunarfræðingnum sem þarf jafnvel að skóla 1.000.000 kr. hjúkrunarfræðinginn og kenna á búnaðinn?
Er boð Klíníkurinnar eins göfugt og húrrahrópin gefa okkur tilefni til að halda?
Með þessum vangaveltum tek ég auðvitað sénsinn að fólk haldi að ég vanþakki boð einkageirans en ég held að atgervisflóttinn á þjóðarspítalanum hangi saman við laun og vinnuálag, já, og kannski ekki nógu góða stjórn spítalans.
Ókei, þetta eru bara vangaveltur, ég þekki ekkert til á LSH ... en einmitt þess vegna væri gott að fá spurningar frá fjölmiðlunum og svör frá þeim sem hafa þau á takteinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. janúar 2022
Þriðja æviskeiðið
Í minni ætt er langlífi og ég reikna með að verða háöldruð og heilsuhraust. Ég veit að það er ekki á vísan að róa en ég vona að ég verði fjörgömul og, já, heilsuhraust. Eftirlaunaaldur hefst á bilinu 67-70 ára hjá launþegum og eftir það getur maður átt 30 góð ár. En ég ætla ekki að ögra æðri máttarvöldum heldur segja í þriðja sinn, í fullri auðmýkt, að ég vonast til þess. Ég geri auðvitað sitthvað til að auka líkurnar, svo sem að hreyfa mig og umgangast gott og skemmtilegt fólk.
Ein fyrirmynd sem er áhugavert að líta til er Stella í Heydal, nú áttræð og búin að reka ferðaþjónustu við Ísafjarðardjúp síðan hún hóf töku eftirlauna.
Og það er gaman að segja frá því að við í gönguhópnum Veseni og vergangi ætlum um hvítasunnuna að gista í Heydal og ganga yfir Glámu.
Ég sendi ykkur póstkort ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)