Sumarveðrið

Veðrið á morgun

Veðrið á morgun í nærumhverfi mínu. Hægt að borða úti. Er það ekki dásamlegt?


Fimmaur á sunnudegi

Afsakið slettuna en er nokkuð „vegan“ að nota gæsalappir?


Eitt orð eða tvö, þar er efinn ...

barna börn?

Þetta er alls ekki fyndið, bara gott dæmi til að sýna mikilvægi þess að hafa eitt orð en ekki tvö þar sem á að vera eitt orð.


Fuglaleikur

Það þarf sko ekkert samkomubann til að hafa gaman af að spreyta sig á því að þekkja fugla í sjón og hljóðið í þeim líka. Ég giska á að Íslendingar séu upp til hópa vel að sér um fugla. Hver þekkir ekki álft, hrafn, kríu og tjald?


16. mars -

Skrýtið. Það eru bara tveir mánuðir síðan tilkynnt var að við yrðum að umgangast fólk úr fjarlægð og allt þetta sem hefur verið veruleiki fólks undanfarið. Tveir mánuðir og okkur finnst flestum það heil eilífð, held ég. Tekjufall, svartsýnar spár, gjaldþrot, 50% atvinnuleysi á heimsvísu, andarteppa, vonleysi, uppsagnir, dökk rót í hári, já, eða grá, verkir í líkamanum sem sjúkraþjálfarar geta unnið gegn, verkir í sálinni, heimsendur matur, hámhorf á sjónvarp, heimakennsla. 

Og svo PÚFF, allt í einu er útlit fyrir að ferðaþjónustan sjái fram á bjarta tíð með blóm í haga og að við komumst til útlanda í sumar. Hlaupið sem ég átti að taka þátt í í Riga á sunnudaginn, 17. maí, hefur verið sett á dagskrá í október.

Verður dýfan þá bara til þriggja mánaða? Það sem ég skal þá fagna -- en auðvitað bara hóflega.


Ég skokka

Já, allir skokka, hjóla eða eru á fjallaskíðum í kringum mig. Ég skokka mjög hægt, ég get í besta falli hlaupið 10 km rétt undir klukkutíma en ef brekkur eru á leiðinni næ ég því ekki. Við þurfum heldur ekki öll að vera best. Ég hleyp hraðar en ég myndi gera ef ég stæði aldrei upp úr sófanum en ég geri margt annað mjög vel.

Það er samt rosalega mikið að fara út úr þægindarammanum að birta sólóhálfmaraþonhlaupið mitt frá því í morgun. Hlaupahópurinn minn ætlaði til Riga núna um miðjan maí til að taka þátt í hlaupinu þar en veiran setur strik í alla reikninga og þess vegna setti þjálfarinn okkar, Rúna Rut, upp prógramm þar sem hver og einn hlypi á sínum tíma. Og ég gerði það í morgun. Hins vegar erum við tvær sem ætlum að hlaupa yfir Hellisheiðina í næsta mánuði þegar veður er gott og vindur hagstæður. Þetta er nefnilega skemmtilegt og ekki alltaf keppni um að vera 1., 2. eða 3. í mark.


Sá sem aldrei gerir neitt ...

... gerir heldur ekkert af sér.

Ég fékk upphringingu i vikunni með hótun um málssókn sem er engin innistæða fyrir en þetta var samt óþægilegt. 

Ég hef stigið á tær og stundum verið fullhreinskilin en ég stel ekki af fólki, lýg ekki og er almennt ekki óheiðarleg. Ég dæmi stundum en er fyrsta manneskjan til að biðjast afsökunar af hjartans einlægni þegar mér verður á í messunni.

Það er verið að reyna að þagga niður í mér með óþverraskap og þegar það gerist hefur hið illa orðið ofan á. Ég get ekki enn gefist upp en kannski verður sigurinn einhvern daginn fólginn í því. Sú stund er ekki enn komin.


Eitt sinn bróðir

Gummi bróðir minn, meintur garðyrkjumaður á Sólheimum, fékk lánaðar hjá mér 7 milljónir árið 2008. Ég var í þeirri góðu trú að hann myndi endurgreiða lánið þegar hann gæti, þinglýsti ekki skuldinni, sendi ekki í innheimtu eða gerði formlegu gerningana.

Til viðbótar láninu frá mér fékk hann a.m.k. 10,5 milljónir hjá mömmu og pabba. Það skráði pabbi hjá sér í sömu góðu trú en þinglýsti ekki af því að við erum fjölskylda. Ég veit að allir glæpamenn koma úr einhverjum fjölskyldum þannig að hlutfallið í okkar fjölskyldu er kannski ekki óhagstætt en við vorum bæði grunlaus, við pabbi, eða ég held það. Hann er ekki lengur til frásagnar.

Kannski er skuldin töpuð af því að ég er ekki með pappíra til að senda í innheimtu. Gummi viðurkennir samt alveg lánið og gengst við skuldinni, honum finnst ég bara ekki þurfa á þessum peningum að halda. Hann hefur hælst um við fólk sem ég þekki sem hefur hringt í mig alveg hneykslað á honum. 

Þegar mamma dó og við hin systkinin vorum grátandi hvert í fanginu á öðru tók hann mynd af mömmu á dánarbeði með rós í fanginu og birti á Facebook með einhverri saknaðarkveðju, allt til þess að fá samúð frá Facebook-samfélaginu. Og hann fékk hana en aðallega frá fólki sem hann þekkir ekki vegna þess að hann sendir fullt af fólki vinabeiðni sem hann þekkir ekki. Þeir sem svara eru uppistaðan í vinahópnum hans.

Þá var pabbi á Hrafnistu sem varð lokaheimili hans. Á einu ári og níu mánuðum kom Gummi fjórum sinnum til pabba og í öll skiptin til að betla peninga. Pabbi var því fegnastur að vera ekki með peninga á sér en spurði mig einu sinni með ómælda sorg í augunum hvort ég gæti lánað Gumma x upphæð. Þótt ég muni ekki upphæðina man ég sorgina í augunum á pabba og sársaukann sem ég upplifði því að mamma var þá nýdáin og það eina sem skipti Gumma máli var að hann átti eftir að fá einhvern arf eftir hana. Pabbi var skýr í höfðinu, vissi hvað hann var orðinn gamall og lúinn í líkamanum en mundi og skildi alveg fram í andlátið. 

Fólk sem þykir vænt um mig, fólk sem ber umhyggju fyrir mér segir: Berglind, hættu að hugsa um Gumma, þetta gerir þér ekki gott. Því fyrr sem þú útilokar hann úr huga þér, því betra.

Vitið þið hvað? Ég vildi svoleiðis óska þess að þeir sem voru búnir að sjá úr hverju hann var gerður strax um tvítugt hefðu hnippt í mig. Það getur vel verið að ég hefði skellt skollaeyrum við í einhvern tíma en þegar fleiri og fleiri tákn um siðblinduna í honum birtust hefði ég kannski losnað við mistökin sem ég gerði. Ég get alveg bælt niður sársaukann og ég get þaggað niður í sjálfri mér en hann er enn laus og nú á Sólheimum þar sem hann sér örugglega fín fórnarlömb í hverju horni.


Sammála, sammála, sammála

Er til of mikils mælst að kjörnir fulltrúar einbeiti sér að aðalatriðum? Einkabíllinn er ekki upphaf, miðja og endir alls. Og hann er alls ekki yfirhöfn.


Verkefnalaus lögmaður hjálpar manni að stela af systur sinni

umboð Gumma Steins

Óvíða hef ég tjáð mig eins mikið og hér um bróður minn sem skrifar á meðfylgjandi skjáskoti undir umboð sem lögmaður hans samdi til að ganga hart eftir arfi eftir pabba okkar meðan hann var enn á lífi. Ég spurði lögmanninn í tölvupósti hvort dánarbú yrði nokkuð til fyrr en maður væri dáinn. Fyrst það er hafið yfir vafa, hvernig er þá hægt að tala um dánarbú manns sem er sprelllifandi? Ósmekklegur maður og þaðan af verri.

Sum lög vernda skúrka. Fyrir 12 árum lánaði ég bróður mínum sem er fjórum árum eldri en ég 5 milljóna króna handveð vegna íbúðar sem hann keypti. Það átti að vera algjört formsatriði. Hann stóð ekki í skilum og bankinn gekk að handveðinu. Gummi segir að hann beri ekki ábyrgð á því frekar en hruninu. Honum finnst þá að ég geti borið ábyrgð á hans skuldum af því að ég er ekki óreiðumanneskja eins og hann. Þar að auki hafði ég borgað fyrir hann 2 milljónir vegna fyrirtækis sem hann var með.

Af hverju gerði ég það? Jú, glæpur minn var að ég treysti því að bróðir minn myndi endurgreiða lánin. Af hverju gerði ég það? Þar rekur mig aðeins í vörðurnar en langlíklegast er það vegna þess að ég vantreysti bönkunum og vildi spara honum einhvern óþarfan vaxtakostnað. Hin ástæðan er að hann hafði oft fengið lánað hjá mömmu og pabba og þau tóku nærri sér að hann væri svona mikill aumingi og ég asnaðist til að hlífa þeim. Fyrir vikið sit ég kannski upp með 7 milljóna króna tap á virði ársins 2008.

Einhver gæti sagt: Margir töpuðu peningum í hruninu. Ég: Það er rétt. Ég tapaði líka öðru sparifé. Ég hef einfaldlega ekki reist mér hurðarás um öxl, ég hef ekki skuldsett mig, ég hef haft vinnu og lagt fyrir OG nú á Gummi pening til að endurgreiða mér lánið en lögmaðurinn hans bar fyrir hann fyrningarlög. Ég hefði þurft að reisa kröfu á hendur honum innan fjögurra ára frá lánveitingunni. Allt sanngjarnt fólk sér hálfvitaganginn í því að ég sem greiðvikin systir 2008 ætli að fara fram af hörku 2012 þegar hann átti engan pening, maður sem hefur sjaldnast tollað ár í vinnu á sama stað og alls ekki í námi. Gummi er vesalingur sem hefur samt rænu á að hafa pening af systur sem sá aumur á honum. Ég tek fram að hann er óvirkur alkóhólisti en ég veit ekki til þess að hann hafi lagt hendur á fólk.

Og núna, gott fólk, er lögmaðurinn sem ég krassaði yfir nafnið á, að sinni, kominn í Facebook-vinfengi við viðkvæma blómið, dóttur Gumma. Hún er svakalega mikill meinleysingi og ég er skíthrædd um að hann fari illa með hana en ég kemst ekki nálægt henni fyrir bróður mínum.

Þessi bróðir minn er garðyrkjumaður á Sólheimum, eða kallar sig það, og ég er líka logandi hrædd um að hann misnoti traust einhverra sem búa þar.


Ríkið er bara við sjálf

Ég veit ekki alltaf hvar ég vildi raða mér á hinn pólitíska ás þótt ég fari alltaf á kjörstað og velji þann flokk sem ég á mesta samleið með en ég hef skýrar skoðanir á hinu og þessu. Mér finnst ekki alvarlegast að fólk verði atvinnulaust í stórum stíl – ekki alvarlegast – heldur að fólk hafi kannski ekki framfærslu. Mér finnst eðlilegt að fólk hafi eitthvað fyrir stafni og mér finnst að fólk eigi að leggja gott til, bæði í vinnu og einkalífi, og uppskera en mér finnst t.d. ekki sáluhjálparatriði að fólk vinni 40 tíma á viku, enn síður 50 tíma á viku.

Ef heimurinn heldur jafnvægi með gríðarlegu atvinnuleysi má spyrja: Hvað gerði fólk áður sem enginn saknar? Eða söknum við einhvers annars en ferðalaga? Er ekki mikil atvinna búin til handa fólki án eftirspurnar? Væri ekki nær að stytta vinnuvikuna í 20 tíma yfir línuna?

Já, ég var að horfa á Silfur dagsins.


Helmingur mannkyns án atvinnu?

Menn eru byrjaðir að giska á að eftirköst kórónuveirunnar verði að helmingur mannkyns verði án lífsviðurværis. Ég hef séð bollaleggingar um að helmingur verði án atvinnu sem mér finnst ekki eins alvarlegt. Miðað við talningu nálgast fjöldi jarðarbúa 8 milljarðana óðfluga, þrátt fyrir dauðsföll telur stöðugt upp, ekki niður. Núna er talan 7.781.208.430 manns. Samt hafa 2.503.282 börn undir fimm ára aldri dáið á árinu og 6.777 manns úr hungri Í DAG.

Hagkerfi eru ekki upphaf og endir alls. 100% starfshlutfall, 40 tíma vinnuvika ekki heldur. Það sem skiptir máli er að fólk hafi í sig og á, haldi heilsu og geti leyft sér eitthvað. Það er eðlilegt að við leggjum öll eitthvað af mörkum. Í sumum heimshlutum streðar fólk allt lífið og þannig held ég að það hafi verið á Íslandi þangað til fyrir hundrað árum eða svo. Við sem erum á dögum núna getum ekki skilið hvað lífið muni hafa verið erfitt og lítið spennandi. Mikil ferðalög Íslendinga eru tiltölulega nýtilkomin. Núna erum við mörg sem náum nokkuð góðu jafnvægi milli vinnuframlags og frítíma. Hvað ef við reyndum að jafnvægisstilla enn meira og hugsa ekki allt út frá hagvexti? Hagvöxtur eykst ef rúða brotnar, flugvél bilar eða maður fær krabbamein. Er það besti mælikvarðinn á velsæld og líðan? Auðvitað eykst hagvöxtur líka með meiri framleiðni. En hvað eru íbúar jarðar að framleiða? Skrilljón boli í þúsund litum svo við getum mætt í vinnuna í öðrum fötum í dag en í gær. Mat sem við getum ekki klárað. Lúxusskemmtiferðaskip sem byrgja okkur sýn. Svakalega mikið af einnota dóti sem safnast í skápum sem við þurfum síðan að framleiða og kaupa fleiri til að koma öllu dótinu fyrir.

Sjálf á ég alveg haug af fjölnota plastdöllum sem eru aldrei allir í notkun í einu. Aldrei.

Mynd gæti innihaldið: innanhúss

Hvað með að skoða neyslumynstrið okkar, ferðahegðun og kauphegðun?

Það er svakalegt að fólk deyi úr hungri, vosbúð, eymd, sársauka, deyi vansælt, afskipt, deyi að óþörfu, en það er ekki svakaleg tilhugsun í mínum augum að hagkerfið hægi á sér, að kjör jafnist út, að fólk vinni eins og það þarf og getur. Mér leiðist sóun og ég held að við höfum verið dugleg að framleiða fyrir glatkistuna.

Að lokum legg ég til að betur verði samið við stéttirnar sem sinna börnum, sjúkum og gömlum en stéttirnar sem vakta peningana. 


Atvinnuleysið er tímabundið

Ég held að við vitum öll að við komumst tiltölulega fljótt upp úr dýpsta öldudalnum vegna kórónuveirunnar. Einangrun, sóttkví og takmarkað samneyti fólks virkar og Ísland verður spennandi áfangastaður strax í sumar vegna víðáttunnar og fámennisins.

Engu að síður sýnist mér augljóst að vegna mikils útstreymis fjár úr ríkissjóði, hvort sem það var handbært fyrir eða er tekið að láni í einhverjum mæli, muni skattheimta aukast á næstu árum, minna verði byggt upp og minni þjónusta veitt. Það hlýtur að bitna á grunnþjónustu, því miður. Þess vegna er brýnt að fyrirtæki sem fá fyrirgreiðslu taki ekki upp á þeim andskota að borga sér arð eða kaupa bréf í sjálfum sér. Þetta er tekið fram í lagasetningunni en því miður er full ástæða til að óttast stóru fyrirtækin.

Við munum borga 2.000 starfsmönnum Icelandair laun í uppsagnarfresti til að tryggja afkomu þeirra og vonandi rætist fljótt úr þar en hver mun síðan eiga Icelandair þegar rofar til? Ég flaug einu sinni með Icelandair á síðasta ári og borgaði (eða stofnunin sem vildi fá mig í viðtalið) sjúklega hátt verð fyrir vont sæti en kannski var ég bara óheppin. Ég sé í mínum vinahópi mikla væntumþykju í garð félagsins og vonandi stendur það með sínu fólki þegar við erum komin í gegnum skaflinn.


Með málfræði í augunum

Ó, ég hlustaði á svo dýrlegan þátt um málfræði, Orð af orði, í gær. Ég er ástríðufullur áhugamaður um efnið og þessi þáttur var stórskemmtilegur. Stjórnendur fjölluðu um greinarmerki af mikilli alúð og mig blóðlangar að lesa þáttinn líka, ekki bara hlusta.


Music appreciation

Eitt af því sem ég hef öfundað Trausta bróður minn af er að þegar hann var í þjóðfélagsfræðinámi í Bandaríkjunum fyrir margt löngu valdi hann áfanga sem hét music appreciation, einhvers konar hraðkynningu á tónlistarsögunni. Mig vantar svoleiðis af því að ég hef hvorki þekkingu né nógu mikinn áhuga á tónlist. Hins vegar finn ég alveg að tónlist er mér mjög mikilvæg og hef gaman af mörgum lögum.

Atvik höguðu því þannig á sumardaginn fyrsta að ég fór að leita að tilteknu Bítlalagi sem ég fann og allt í einu er ég orðin mikill aðdáandi Pauls McCartneys. Þvílík hlýja, þvílíkur húmor, þvílík manngæska sem stafar frá honum, að ógleymdri tónlistinni.

Og í gærkvöldi var frábært minningaferðalag í boði hjá RÚV. Ég hef aðallega sóst eftir umræðuþáttum í útvarpi, ekki síst um pólitík og samfélagsmál, en ég er að hugsa um að mennta mig í tónlist það sem eftir er. Ég á bara svo grefilli mikið ólært.


Bróðir minn er þorskur

Ég er ekki að segja að hann sé heimskur enda veit ég ekki hvort þorskar eru það. Þeim eru bara búin dálítið óheppileg æviskilyrði ef þeir lenda í netum sjómanna. Nei, Gummi bróðir er þorskurinn sem lifði netaveiðarnar af og hreykir sér nú eins og hann sé útgerðaraðallinn. Hann þverskallast við að endurgreiða skuld við mig sem hann og lögmaðurinn hans kalla fyrnda.

Ég ætla að rifja örsnöggt upp hvernig í landinu liggur. Árið 2008 keypti hann íbúð sem hann átti ekki fyrir og fékk lánað hjá mér handveð. Bankakonan fullyrti við hann að þetta væri formsatriði og Gummi fullyrti við mig að þetta væri formsatriði. Ég var blinduð af fjölskyldukærleik, öðru nafni meðvirk, og fannst óþarfi að bankinn hirti alls konar gjöld af svona formsatriði þannig að ég lánaði honum handveð.

Svo gat hann ekki borgað og það var enginn forsendubrestur vegna hrunsins, það er einfaldlega óráðsía manns sem kann ekki að fara með peninga, og bankinn gekk að MILLJÓNUNUM MÍNUM FIMM. Til viðbótar þessu hafði ég lánað honum tvær milljónir til að borga rekstrarreikninga vegna sjoppu sem hann átti (að nafninu til). Af hverju var ég svona múruð? Ég var nýbúin að selja íbúð og ekki búin að finna íbúðina sem ég vildi kaupa.

Hann átti ekki fyrir skuldinni fyrr en í fyrra þegar hann fékk greiddan út arf en hann og lögmaðurinn hans vilja núna ekki að Gummi borgi skuldina af því að ég byrjaði ekki að ganga eftir henni innan fjögurra ára frá lántöku.

Ég er ekki banki, þetta var ekki viðskiptakrafa, ég var ekki í áhætturekstri, ég var ekki með neina gróðavon, ég var litla systir óvirks alkóhólista að gera honum peningalegan greiða enda hefði hann annars beðið mömmu og pabba í eitt skiptið enn og ég vildi hlífa þeim.

Ég er auðvitað búin að afskrifa þennan bróður en ekki skuldina. Ég geng eftir henni í tölvupósti en á eftir að fara til hans á Sólheimum þar sem hann er garðyrkjumaður skv. símaskrá. Ég treysti mér ekki til að tala við hann í síma af því að til langrar fortíðar veit ég að hann hlustar aldrei. Ég á handskrifuð bréf sem bæði ég og mamma skrifuðum honum fyrir meira en 20 árum til að útskýra sjónarmið sem hann hlustaði aldrei á – en samt var ég meðvirk með göllunum á honum til ársins 2008. Eftir það hætti ég reyndar að greiða götu hans. Hann hætti ekki að betla, hann vildi m.a. að ég keypti gamla tölvu í greiðaskyni af einhverjum ólöglegum leigjanda hjá honum til að sá gæti borgað Gumma leiguna! Ég veit að það er talað um skattsvik á Íslandi sem þjóðaríþrótt en meira að segja þar er Gummi þorskurinn í hásæti sínu.


Þegar hótel standa tóm ...

... og fólk er heimilislaust mætti kannski samþætta lausn að einhverju leyti frekar en að margir tapi öllu. Hótel eru ekki heimili og lausu hótelherbergin eru langtum fleiri en heimilislaust fólk á Íslandi en er ekki hægt að hugsa aðeins skapandi í þessum málum? Ég tek fram að ég las þessa hugmynd en fékk hana ekki sjálf, þ.e. að heimilislausu fólki yrði boðin langtímagisting á annars tómu hóteli.


Efnahagslegt kul

Vegna þess að allt hrökk fyrirvaralaust í lás án þess að við fengjum svigrúm til að skipuleggja góða nýtingu á dauðum tíma er fyrirsjáanlegt að á næstu árum muni skattbyrði aukast, innviðir veiklast og þjónusta minnka. Það er leiðinlegt en það er ómögulegt að horfa framhjá því.

Ég fæ lítinn skell en ég mæti tjóni mínu með glöðu geði ... ef fyrirtækin sem hafa fengið geðveika fyrirgreiðslu á minn kostnað og annarra skattgreiðenda undanfarna áratugi stíga fram og gangast við ábyrgð sinni. Er ekki einhver blaðamaður til í að spyrja framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins hvort stöndugu fyrirtækin séu ekki til í að hlaupa undir bagga af samfélagslegri ábyrgð frekar en að skara fyrst og fremst eld að eigin köku? Allir talsmenn allra málaflokka virðast fyrst og fremst væla fyrir hönd þeirra sem hafa það allra verst og enginn nema Margrét Kristmannsdóttir hjá Pfaff virðist til í að horfa í eigin barm.

Ég þigg alveg uppbyggilegar áminningar um jákvæða einstaklinga í framvarðasveit atvinnulífsins. Ég man eftir einum og það er Kári Stefánsson.


Punktur, punktur, komma, strik

Ríkisútvarpið fær stundum hjarta mitt til að slá örar. Í nýjasta þættinum af Orð af orði tala stjórnendur um greinarmerki af mikilli umhyggju og ástúð. Ég þyrfti eiginlega að komast í handritið því að mig blóðlangar að hafa dæmin fyrir augunum líka.

Punktur, komma, depilhögg og íslenskar gæsalappir ...


Ferðaþjónustan á heimsvísu

Ég hef samúð með þeim sem eru verkefnalausir, verklausir, iðjulausir, tekjulausir, leiðir, framlágir, blankir og lúnir. Ég skil að höggið sem féll fyrirvaralaust á ferðaþjónustuna um allan heim var óvænt, einmitt fyrirvaralaust. Sjálf ætlaði ég til Riga í maí en nú er búið að blása þá ferð af og einhver tekur skellinn, annað hvort við sem ætluðum í ferðina eða ferðaþjónustan í því landi, sem sagt skattgreiðendur. 

Ég hef samúð með þeim sem ganga um eirðarlausir og hungrar í eitthvað að gera, eitthvað skapandi, gjöfult, merkingarbært og tekjuaukandi. Biðstaða er alltaf vond, það er alltaf vont að sjá ekkert fram í tímann.

Við erum örugglega öll sammála um þetta.

Hins vegar finnst mér undarlegt þegar tjónið er metið á 330 milljarða núna en hagnaðurinn hefði aldrei verið metinn svo hátt í góðu árferði.

Ég var viðloðandi ferðaþjónustuna í 12 sumur og veit alveg að framlínufólkið í greininni hafði almennt ekki gott upp úr sér. Ef tjónið er núna 330 milljarðar hefur einhvern tímann verið gróði og ég spyr: Hvert rann hann? Bjuggust menn aldrei við mögru ári? Geta fyrirtæki ekki rekið sig eins og heimili sem leggja fyrir?

Ég veit alveg um dæmalausa tíma og skil að róðurinn er þungur fyrir marga. Marga en ekki alla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband