Closet Land

Ég ákvað nýlega að fletta upp myndum á YouTube með Madeleine Stowe sem ég skil ekki hvað hefur farið hjótt um. Endur fyrir löngu sá ég mynd með henni sem heitir eitthvað Blink en ég finn hana ekki aftur.

Ég fann hins vegar Closet Land og byrjunin er einhver sú áhrifamesta sem ég hef séð. Ég hef ekki lagt í að klára hana.


Rafmagn, ó, rafmagn

Bróðir minn (73) er niðurkominn í miðri Afríku um þessar mundir. Hann er búinn að vera á heimshornaflakki í 10 mánuði. Hann sendir okkur systrum reglulega upplýsingar um sig og sína hagi á forritinu Whatsapp sem rúmar texta, myndir og myndbönd. Hann þráskallast nefnilega við og neitar að skrá sig á Facebook.

En hvað um það, hann er núna í síendurteknu rafmagnsleysi og hann finnur sannarlega fyrir því, bæði upp á ljós og svo að hlaða símann og halda kælivöru kaldri. Mjög bagalegt.

Og þá rifjast upp fyrir mér að pabbi var rafvirki. Hann margsagði við mig á lífsleiðinni: Ég er bara rafvirki.

Ég vissi þá, og veit það æ betur með árunum, að rafmagn er undirstaða mikilla lífsgæða og ef rafmagnið skortir erum við á köldum kalda.

Og ég sendi Grindvíkingum samúðarkveðjur. 

cry


ESTA

Ég ætla að skjótast til Orlando í næsta mánuði að hitta frænku mína sem hefur búið þar alla sína ævi. Skjótast er ekki rétta orðið, flugið tekur þriðjung úr sólarhring og svo er tímamunur. En til þess að mega koma í nokkra daga í þetta (bölvaða) land þarf að fá ESTA-vottorð. Ég hef aðeins trassað að pæla í því en fólk hamast við að segja mér að þetta sé ekkert mál og kosti ekkert eða í mesta lagi 10 dollara.

Jæja, nú er ég búin að sitja sveitt við í klukkutíma, margsetja inn símanúmer af því að landsnúmerið átti síðan að koma tvisvar og svara því hvort ég ætli mér að fremja eða hafi framið þjóðarmorð og/eða hryðjuverk. Þvílík paranoja í þessum Bandaríkjamönnum. Dæs.

Og ég var rukkuð um 21 dollara sem er síst of mikið fyrir flækjustigið en undanfarið hefur fólk keppst við að segja mér að þetta kosti ekkert eða í mesta lagi 10 dollara. Af hverju segir fólk svona þegar það veit það ekki?

Þegar ég fór til Bandaríkjanna 2006 man ég að ég svaraði svona spurningum í flugvélinni en þegar ég fór 2014 man ég ekkert hvernig það gekk fyrir sig. Á næsta ári verð ég kannski orðin eins og öll hin, segi að þetta sé ekkert mál og kosti ekki túskilding með gati. En þá get ég flett upp þessari færslu minni. 

tongue-out


,,Hún hét Sara"

Ég veit ekki hvar hún var upphaflega sýnd, franska myndin sem er núna í spilara RÚV, Hún hét Sara. Myndin er orðin 14 ára gömul og ég hafði aldrei heyrt á hana minnst fyrr en einhver mælti svo óskaplega með henni nýlega. Og það sem verra er, ég hafði aldrei heyrt um Vélodrome d´Hiver! Hvernig í veröldinni hefur það farið framhjá mér?

Myndin, og sagan sem hún segir, er svo áhrifamikil að ég lagði öll snjalltæki frá mér og horfði bara á myndina (enda skil ég ekki frönsku). Franska stúlkan sem er mikill örlagavaldur í lífi litla bróður síns, og sjálfrar sín, kom þvílíkt út á mér tárunum. Þvílík örlög, þvílíkur harmur, þvílíkt lífshlaup. 

Þvílíkt.

Hún er aðgengileg í spilaranum í hálfan mánuð enn. Ég tek það fram vegna þess að spilarinn hentar mér vel. 

Ég er enn að hrista hausinn yfir fáfræði minni. #dæs


... fé fylgi nemendum ...

Mér þótti ég heyra góðar fréttir áðan, að Listaháskóli Íslands þurfi ekki að rukka skólagjöld frá og með næsta hausti. Ég hef aldrei skilið af hverju skóli sem er einn með sitt námsframboð hefur þurft að rukka mikil skólagjöld. Ég hef engan áhuga á að búa til list, og er alveg ófær um það satt að segja, en mér finnst mikilvægt að sérhvert samfélag mennti áhugasamt fólk í þessum geira.

Hins vegar gæti endað með því að ég prófaði HR sem ég hef rennt hýru auga til af því að ég er bóknámsskólamanneskja og mér blöskrar svolítið að borga 900.000 kr. á ári, til samanburðar við svokallað skrásetningargjald Háskóla Íslands upp á 75.000 kr. á ári.

Vel gert, ráðherra.


Holy Spider

Ég veit ekkert hvað myndin kallast á írönsku en hún er kynnt sem Heilaga köngulóin í spilara RÚV og mátti engu muna að dygði til að fæla mig frá henni. Sjálfsagt vísar heilagi hlutinn í borgina Mashhad þar sem (sannsögulegir) atburðir myndarinnar gerast en hvort köngulóin vísar í vændiskonurnar veit ég ekki.

Öll með áhuga á réttarfari og sanngirni ættu að splæsa tveimur tímum í myndina. Fyrsta korterið var ég ekki viss um að ég vildi horfa en endirinn og lokin á endinum koma svo innilega á óvart að ég er ánægð fyrir mína parta með að hafa haldið áfram.

Og hvað á okkur svo að finnast um réttlætið og réttarfarið í Íran? 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband