Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 9. maí 2025
Velgjan sem kólnar
Ég væri ekki hissa - og er ekki hissa á mælingu - á að landsmenn tækju fagnandi þeirri breytingu að láta þá sem hafa hagnýtt sameiginlega auðlind borga fyrir afnotin. Ég er svo forfallin að ég er búin að fylgjast með umræðu á Alþingi um frumvarp um veiðigjaldið og þau sem tala um að landsbyggðin leggist af ef stórútgerðinni verði gert að borga eðlilegt gjald og muni þá flæmast með landvinnsluna úr landi virðast ekki vita að mestu stórbokkarnir hagræða fyrst og fremst í eigin þágu og sum landvinnsla er farin. Það hefur ekkert að gera með veiðigjaldið.
Ég er hlynnt hækkun veiðigjalds en mér finnst líka ástæða til að skoða hvort einhverjir angar í ferðaþjónustunni hafa ekki skarað eld að eigin köku síðustu árin og áratugina. Hver á Langjökul?
Straumlínan ætti að vera að auðlindir nýtist landsmönnum í heild, ekki örfáum einstaklingum sem byrja síðan að skæla og LÍÚja þegar þingmenn nenna að taka slaginn.
Ég hef það gott en fullt af fólki nær ekki endum saman þrátt fyrir að vinna fulla vinnu og hafa jafnvel menntað sig til verðmætra starfa fyrir samfélagið.
Það er ekki endingardrjúgt að pissa í skóinn sinn. Það er volgt fyrst en kólnar svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. maí 2025
Jon Øigarden
Sagt er að maður eigi ekki að samsama lögmenn skjólstæðingum sínum og að allir eigi rétt á bestu vörn. Þetta finnst mér hartnær óskiljanlegt vegna þess að ef lögmaður hefur ekki sannfæringu fyrir málstað skjólstæðings síns myndi ég halda að hann beitti sér minna og svo spyr ég: Hvað um alla þá sem hafa ekki efni á að ráða sér lögfræðinga á eigin kostnað?
En ég byrjaði á útúrdúr vegna þess að ég las vörn Fannars Sveinssonar í gær. Og ég spyr: Hvaða.leikstjóri.í.veröldinni.fylgist.ekki.með.samfélaginu.sínu? Ég veit ekki hvort hann vill frekar að ég haldi að hann sé heimskur eða siðlaus. Og þau rök að maður þurfi að taka þeim verkefnum sem bjóðast til að eiga fyrir mat handa börnunum sínum halda heldur ekki vatni. En sá málflutningur rökstyður hins vegar að vel hafi verið greitt fyrir þetta siðlausa verkefni af því að a) enginn heilvita maður tekur svona að sér nema fá böns of monní, b) útgerðin veit ekki aura sinna tal.
Alveg sama hvernig á málið er litið heldur stórútgerðin áfram að grafa gröfina sína.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. apríl 2025
Njósnarinn Björgólfur
Ég á eftir að horfa aftur á Kveik kvöldsins, þetta var svo yfirgengilegt að ég missti yfirsýnina. En núna í fyrsta skipti í drjúgan tíma get ég hrósað RÚV sem mér finnst lengi, lengi, lengi hafa endurtekið einhverja froðu og sápukúlur.
Á eftir Kveik kom hins vegar aftur eitthvert lap sem var óáhugavert og/eða endursýnt.
Áfram Helgi Seljan og Ingólfur Bjarni!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. apríl 2025
Spónn í aski
Þegar menn hafa miklu að tapa leggja þeir mikið undir til að halda fengnum hlut. Þannig líður mér gagnvart hinum yfirþyrmandi auglýsingum SFS sem ég heyri engan hrósa. Ég bý ekki í sama bergmálshelli og framkvæmdastjóri SFS.
Ég undra mig á þessu fólki sem hefur fengist til að leika í þessum ósmekklegu auglýsingum.
Ég undra mig á þeim peningum sem útgerðin hefur augljóslega aflögu til að reka áróðursherferð sem gerir lítið úr henni sjálfri og misbýður vitsmunum allra í mínum bergmálshelli. Stórútgerðirnar hafa fjárfest í óskyldum rekstri. Þær mega vel greiða út arð vegna þess að hann rennur til ýmissa, trúi ég, en að skæla, væla og grenja á öxlunum á venjulegu launafólki er svo ósmekklegt að þeim verður bara að mæta af fullri hörku, en málefnalega eins og verið er að gera.
Ég er annnarrar kynslóðar Reykvíkingur og bjó bara einu sinni einn vetrarpart á Dalvík. Ég vann í fiski á Kirkjusandi sem unglingur. Þessi atvinnuvegur, ris hans og hnignun, snertir ekki mitt daglega líf, en ég TRÚI þeim sjávarþorpurum sem segjast muna þegar byggðir voru blómlegar ÁÐUR EN stórútgerðirnar seldu og keyptu kvóta og fóru með milli byggðarlaga og voru þá EKKI RASSGAT að tala um þorpin sem legðust í eyði ef gjöld yrðu hækkuð.
Stórútgerðin verður að fara að hugsa um sanngirni, réttlæti, samfélagið og - sjálfrar sín vegna - álitið sem hún kallar yfir sig með þessum vaðandi dónaskap gagnvart vitsmunum og réttlætiskennd fólks.
Pálmi Gestsson sendir auglýsingapésunum snyrtilega pillu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. apríl 2025
Kvennaathvarfið
Ég ætlaði ekki að horfa á söfnunarþáttinn á laugardaginn en það endaði samt þannig að ég horfði með öðru auganu. Eins og ég bjóst við var margt vandræðalegt og stjórnendur kjánalegir, en reynslusögurnar stóðu fyrir sínu.
Mér finnst yfirgengilegt að vera með tveggja tíma söfnunarþátt með tilheyrandi símaveri og yfirbyggingu, syngjandi þingmanni, svarandi biskupi, kleinuhringjakappáti og gallabuxnauppboði og klappa sér á bak og báðar axlir fyrir að safna skitnum 135 milljónum. Mér finnst milljón mikill peningur og sannarlega 135 milljónir en þegar um er að ræða hús sem á að taka á móti konum og börnum í neyð er þetta skotsilfur og stjórnvöldum hvers tíma væri nær að standa að svona húsi með sköttunum okkar.
Ég tel mig alltaf hafa alist upp við umhyggju, alúð, væntumþykju og snúða. Samt sé ég í baksýnisspeglinum að pabbi var ekki alltaf skikkanlegur við mömmu. Hann ætlaði að kenna henni á bíl en lét hana setja bílinn í þriðja gír til að fara af stað. Hún drap þá alltaf á bílnum og kenndi sjálfri sér um.
Af virðingu við þau, sem nú eru bæði látin, ætla ég ekki að tíunda fleiri minningar en vil segja að ég held að þau hafi náð betra jafnvægi í hjónabandinu á síðari hluta ævinnar. Ég er yngsta barn og varð líklega minnst fyrir barðinu á misklíðinni eða yfirgangi pabba. Við erum fjögur systkini og ég tel að vel hafi ræst úr þremur okkar en hinn bróðir minn var svo óheppinn að fæðast eða verða siðblindur og eftir áratugi af meðvirkni lét ég hann loks lönd og leið.
Ég sé örugglega eftir að birta þessa færslu en huggunin er auðvitað að fáir munu sjá hana. Hver les færslu með yfirskriftina Kvennaathvarfið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. mars 2025
Ekki hægt að koma í orð
Það er svo margt sem er svo sjálfsagt að manni finnst óþarft að hafa orð á því. Hvernig finnst verkalýðsleiðtoga eðlilegt að hætta í starfi og fara út með tugi milljóna? Af hverju hótar útgerðin að hætta landvinnslu á Íslandi ef henni verður gert að greiða skatta og gjöld eins og aðrar atvinnugreinar gera? Umræðan um það mál hefur verið hávær í áratugi og ég hef hugsað þetta síðan ég var í Leiðsöguskólanum 2000-2001, hafði ekki áttað mig fyrr. Ég borga skatta og tek glöð þátt í samneyslunni. Gerir þú það ekki líka? Af hverju þá ekki fyrirtækin sem fengu ómælt fé að gjöf við frjálsa framsalið upp úr 1990? Einhverjir gamlir kvótahafar seldu sig út úr greininni, seldu gjafagerning, en fyrirtækin sem greiða sér milljarða í arð eftir að öll gjöld hafa verið greidd, búið að fjárfesta í skipum og veiðarfærum, húsum og flæðilínum, ættu að sjá sóma sinn í að borga til samfélagsins. Gerir Kári Stefánsson það ekki með glöðu geði?
Nei, þetta er allt svo sjálfsagt að það er ekki hægt að koma því í orð. Kenning mín er að erfiðast sé að rökstyðja það sem blasir við. Þegar niðurstaðan er ekki eins ljós fer maður meira ofan í saumana á öllum hlutum.
Í Bítinu spjölluðu tveir þingmenn um hið lífseiga vandamál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. mars 2025
Barnamálaráðherra II
Þó að ég hafi ákveðið að hugsa hér upphátt á fimmtudaginn er ég móttækileg fyrir nýjum rökum og bjóst allt eins við að ég myndi eitthvað skipta um skoðun. En eftir helgina er ég sannfærðari en ég var - en áfram opin fyrir nýjum upplýsingum og rökum - um að enginn glæpur hafi verið framinn í aðdraganda þess að nú fyrrverandi barnamálaráðherra og barnsfaðir hennar urðu foreldrar 1990.
Og viljinn til að fella keilur um trúnaðarleka úr forsætisráðuneytinu virkar svo fráleitur að ég á ekki til önnur orð um hann en þann að barnamálaráðherra bauðst að sitja fundinn meðan enginn vissi efni hans.
Ég trúi ekki á guð en ég trúi á sanngirni og þessi orð eru sérlega viðeigandi: Sá yðar sem syndlaus er ...
Skyldi ekki eitthvað misjafnt koma upp úr óhreinatauskörfunni hjá þeim sem hafa galað hæst ef tauið yrði hengt á snúruna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. mars 2025
Barnamálaráðherra
Ásthildur Lóa gerði vel í að segja af sér ráðherraembætti, annars hefði enginn friður orðið um góð störf nokkurs í ríkisstjórninni, en ég vil segja þetta:
Árið 1990 urðu börn fyrr fullorðin, að lögum. Því miður finn ég ekki barnalög sem kveða á um aldurinn og ég man hann ekki, en það er klárt að börn hættu fyrr að vera skilgreind börn fyrir þessum áratugum.
Þess eru fjölmörg dæmi að 15-16 ára stelpur voru með 20-25 ára strákum og eignuðust með þeim börn. Það er sjaldgæfara að stelpan sé eldri.
Þegar ég var einu sinni fararstjóri í sumarbúðum barna, árið var víst 1992, var þar 15 ára fullorðinslegur strákur sem dró einn fararstjórann, finnska konu, á tálar. Við vorum vissulega mjög bit á henni.
En þessi fyrirsögn Heimildarinnar er fyrir neðan allar hellur:
Barnamálaráðherra eignaðist barn með barnungum pilti
Enginn lesandi sem ekki hefur séð eitthvað á undan lætur sér detta annað í hug en að núverandi barnamálaráðherra hafi NÚNA eignast þetta barn. Barnamálaráðherra eignaðist auðvitað ekki barn sem barnamálaráðherra.
Vísir er skömminni skárri:
Barnamálaráðherra eignaðist barn með táningspilti þegar hún var 22 ára
Þessi fréttaflutningur gerir samt í því að kasta skömm á viðfangsefnið frekar en að upplýsa lesendur um sannleikann. Og ég get alveg játað það að ég ætla ekki að sitja í neinum fílabeinsturni og benda fingri á ráðherrann fyrrverandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. mars 2025
Flug til Ísafjarðar, flug frá Ísafirði
Hvað verður um sjúkraflugið þegar Icelandair hættir að fljúga til og frá Ísafirði?
Og hvernig eiga ömmur Ísafjarðar að komast til læknis í Reykjavík?
Þessar fréttir dyndu varla á okkur ef annað flugfélag flygi til og frá Ísafirði. Eða flýgur einhver á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur þegar Bogi Nils selur vélina sem hentar þröngri aðkomunni á Ísafirði?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. mars 2025
Nanna gagnrýnir RÚV á Vísi
Ég horfði á fyrsta matarsöguþáttinn á RÚV fyrir mánuði og mér fannst hann svo ótrúlega lélegur og óspennandi að ég hafði orð á því í spjalli við nokkrar vinkonur. Þær höfðu ekki horft nema ein sem var sammála mér þannig að ég vissi ekkert um almenna skoðun og veit svo sem ekki enn, en nú tjáir sig einn viðmælandi úr þáttunum.
Helsti matargúrú samtímans býsnast yfir notkun myndefnis í þáttunum. Ég tók mjög eindregna ákvörðun um að horfa ekki á fleiri af þessum tilgerðarlegu og uppskrúfuðu þáttum þannig að ég vissi ekki hvort þetta hefði haldið áfram en mig grunar það eftir lestur þessarar skoðunar Nönnu.
Nú væri freistandi að nota ferðina og tala um lélega dagskrá RÚV en ég læt duga að segja:
- Fækkaðu endurtekningunum, Stefán.
- Hættu að láta kynninn (af spólum) kynna efni ofan í efnið, Stefán.
- En takk fyrir handboltann í janúar, Stefán.
Ég er ekki áskrifandi að Stöð 2 en ef ég þyrfti að velja á milli fréttatíma Stöðvar 2, sem er í opinni dagskrá, og RÚV myndi ég velja Stöð 2. Það eru margir fínir fréttamenn á RÚV en stundum vantar bara aðeins of mikið upp á (frásagnar)gleðina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)