Færsluflokkur: Dægurmál

Reykjavíkurmaraþonið

Ég tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 1984-2018. Ég segi þetta í skýrri þátíð vegna þess að ég ákvað fyrir margt löngu að hætta að taka þátt. Mig minnti reyndar að ég hefði hlaupið 2019 en ég finn mig ekki í úrslitunum það ár.

Þetta var stórkostlega gaman þangað til ég tók þátt í heilu maraþoni 2018. Hlaupið þá var í sjálfu sér alveg skemmtilegt, fyrirtaksfínt hlaupaveður og ég hafði minn eigin héra sem hjólaði með mér nokkra spretti. Svo var ég búin að stefna fólki á vissa staði til að hvetja mig en ég vissi sem var að á löngum köflum var engin hvatning og ég vissi náttúrlega líka að ég yrði lengi á leiðinni.

En það sem mig grunaði ekki var að ég þegar ég kom í mark eftir fimm klukkutíma voru starfsmenn búnir með úthaldið. Ég fékk með naumindum álteppi eins og allir maraþonhlauparar fá og drykkurinn sem ég fékk var útþynntur. Mjög leiðinlegur endir og sýndi mér RM í öðru ljósi. Ég minni einnig á að það var árið sem brautarvörður færði slá til að hleypa einhverju(m) í gegn áður en hlaupið hófst og færði hana svo til baka á rangan stað þannig að við hlupum öll 300 metrum styttra en við áttum að gera og fengum ekki gilda mælingu.

Ég þekki marga hlaupara og hef farið að hvetja hér og þar. Eftir fíaskóið í gær, sem var fyrirséð, er ég að hugsa um að segja alveg skilið við RM. Með 40 ára reynslu í farteskinu gengur mótshöldurum bara verr. Og til að bíta höfuðið af skömminni er þátttökugjaldið orðið fáránlega hátt og farið að rukka töskugjald!

Fruss.

Ég skrifa græðgina á Íslandsbanka.


Bíó fyrir hagvöxtinn

Í gærkvöldi fórum við fjórar í Laugarásbíó að sjá Ástina sem eftir er. Okkur langaði að sjá hana af því að okkur leist vel á hana og við erum meðvitaðar um að einhver þurfi að fara í bíó til að menn nenni að framleiða bíómyndir. Í Laugarásbíói eru sýningarnar bara kl. 15:20 og 17:40 og seinni tíminn hentaði okkur ljómandi í þetta skipti þótt mér finnst frekar að maður eigi að sjá bíó í myrkri, a.m.k. ekki í björtu sólskini.

Ég veit ekki hvað verður um hagvöxtinn vegna þess að tilkoma okkar tvöfaldaði áhorfendafjöldann. Þó að miðinn hafi kostað 2.650, sem er alveg slatti, vegur það sinnum 8 lítið þegar framleiðslukostnaðurinn er skoðaður.

En okkur langaði aðallega að sjá hana af því að okkur leist vel á söguþráðinn og leikaravalið. Og leikararnir sviku ekki. Saga Garðarsdóttir var frábær sveitadurgur að framleiða ryðguð listaverk og Sverrir Guðnason á sjónum og með sín misskildu uppeldisráð en systkinin, maður minn, þau voru stórkostleg og samleikur þeirra þriggja einn og sér gerir myndina þess virði að sjá hana. Þau áttu að vera börn Sögu og Sverris (man ekki hvað hún heitir í myndinni og Magga) en eru í raun systkini og börn leikstjórans og voru ábyggilega stundum að spinna þráð. Spuninn þeirra var svo skemmtilegur að ég myndi kaupa mig inn í matarboð fjölskyldunnar.

Haninn Bibbi blíði sló heldur ekki af að ógleymdri tíkinni Pöndu. Svo kom einn sænskur galleríseigandi við sögu sem var skemmtilega leiðinlegur og sjálfhverfur. Loks sat Dóri DNA í símanum fyrir sunnan með skemmtileg komment. Já, engan skugga bar á leikarana en miðað við upptalningu á vef er eins og Ingvar E. Sigurðsson sé í hvað stærsta hlutverkinu. Hann er það ekki en fór vel með sitt eins og hin.

En hver var söguþráðurinn? Saga (sem var oftar kölluð mamma) og Sverrir (Maggi) eru nýskilin en búa áfram í sama plássi sem virðist vera skammt frá Höfn í Hornafirði. Börnin þeirra þrjú, eldri systir og yngri tvíburabræður, eru miklir gárungar en ekkert mikið gerist í myndinni. Þau eru með fuglahræðu sem sýnir okkur hvernig tíminn líður en myndin er borin uppi af svo skemmtilegri myndatöku að mér var alveg sama þótt myndin hefði engan eiginlega söguþráð. Hún var bara augnakonfekt og ég á örugglega oft eftir að flissa við að rifja upp hitt og þetta.

Ég ætla að leggja Ídu Mekkín Hlynsdóttur (17 ára í dag) og tvíburana Þorgils Hlynsson og Grím Hlynsson (12 ára) á minnið.


Hvammsvirkjun

Ég hlustaði á samskiptastjóra Landsvirkjunar í fréttum Sýnar í gærkvöldi. Hún hneykslaðist einhver býsn á því sem hún kallaði rökþrota málflutning framkvæmdastjóra Landverndar. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum og hneykslaðist á samskiptastjóranum fyrir að skilja ekki myndmál. 

Svo lét ég loks verða af því að lesa skoðun framkvæmdastjórans sem er þrír fartölvuskjáir af rökum og sannfæringu, en samskiptastjórinn sér bara þetta:

Aðferðin minnir á hvernig heimilisofbeldi er þaggað niður. Ekkert er að, húsbóndinn segir fjölskylduna hamingjusama og sjáist áverkar á konu eða börnum, þá gengu þau óvart á hurð.

Og mér finnst ekkert að þessu! Hins vegar er greinin að öðru leyti öll um staðreyndir og málefni. 

Allt fram til gærdagsins hef ég tekið mark á Þóru Arnórsdóttur og trúað henni þegar ólík sjónarmið hafa tekist á. En með ummælum sínum í gær missti hún allan trúverðugleika. Ég tók diplómu í blaða- og fréttamennsku fyrir nokkrum árum og þótt ég hafi ekki unnið við blaðamennsku er ég eldri en tvævetur og hef fylgst ágætlega með í nokkra áratugi. Trúverðugleiki er dýrmætasta eign blaðamanns og ég hefði haldið samskiptastjóra. 

Ég hef ekki forsendur til að meta Hvammsvirkjun en ég las héraðsdóminn sem féll fyrr á árinu og sem Hæstiréttur staðfesti. Já, kannski gerðu þingmenn mistök við lagasetningu og það væri þá ekki í fyrsta skipti en ég spyr: Þurfum við Hvammsvirkjun til að knýja heimili eða almenn fyrirtæki, sem sagt ekki bara rafmyntir eins og ég hef heyrt fleygt?

Ég reikna ekki með neinum svörum hér enda er ég alltaf bara að hugsa upphátt á þessum vettvangi og spyr kannski fyrr en síðar einhvern sem ég tel hafa svarið.

 


Ágangur ferðaþjónustunnar eða árangur ferðaþjónustunnar?

Heimildin fjallaði um ferðaþjónustuna núna í vikunni. Fyrrverandi framhlið ferðaþjónustunnar fjallaði um umfjöllunina í kjölfarið og var ekki sammála. Hún skrifaði:

Veftímaritið Heimildin (leiðrétting: kemur líka út í blaðaformi) stundar nú stórfurðulega, einhliða og einstaklega rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu og fólkinu sem rekur ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein og maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn, undan hvaða rótum hún er runnin og hvaða gagn hún á að gera. Að stuðla að samfélagslegri sátt er allavega ekki það sem rekur Heimildarfólk áfram - heldur þvert á móti að etja ferðaþjónustunni og þjóðinni saman, ala á óvild og öfund, búa til tortryggni og það á einstaklega ósmekklegan hátt. Heimildin velur í umfjöllun sinni dæmi sem eru líkleg til að hreyfa við tilfinningum fólks og reita það til reiði og fjallar oftast um jaðartilfelli - öfgafull tilfelli sem eiga sjaldnast við.
Sem dæmi má þar nefna að þannig hefur Vík í Mýrdal orðið þungamiðja herferðar Heimildinnar gegn ferðaþjónustu.
Þorp sem fyrir örfáum árum var deyjandi byggðarlag, en hefur náð vopnum sínum svo um munar eftir uppgang ferðaþjónustunnar. Skatttekjur Víkur í Mýrdal af ferðaþjónustu á árinu 2024 voru um það bil hálfur milljarður króna. Ég veit fyrir víst að mörg sveitarfélög myndu gjarnan vilja vera í sporum Víkur í Mýrdal. Auðvitað er það ekki nógu safaríkt eða vont fyrir Heimildina, svo það er best að kasta sér á það sem er neikvætt og fá þar á meðal aðfluttan íbúa til að kvarta yfir aðfluttum íbúum. Sem er auðvitað einstaklega pínlegt. Heimildin kallaði sömuleiðis fram hneykslan einhverra þegar hún fjallaði með miklum tilþrifum og myndbirtingum um að ferðamenn hefðu ruðst með látum inn í jarðarför í kirkjunni í Vík í Mýrdal. Það er vissulega ekki hægt að mæla því bót - en auðvitað tiltölulega einfalt að koma í veg fyrir, eins og gert er í kirkjum um allan heim, þegar þær eru lokaðar almennri umferð.
Sama má segja um Hallgrímskirkju. Þar var kirkjuhaldari dreginn upp á dekk og látinn segja frá ferðamönnum, sem ekki fara eftir fyrirmælum og troða sér jafnvel inn í útfarir. Þessi sama kirkja hefur um 300 milljónir í tekjur af ferðamönnum á ári og ætti að vera í lófa lagið að halda fólki í burtu, þegar það á við.
Heimildin hefur leitað fanga víða til að byggja undir vafasaman málflutning sinn. Hún nafgreinir meðal annars fólk sem hefur haslað sér völl í ferðaþjónustu til að gera það tortyggilegt, elur á hugmyndum um gróðastarfsemi sem þekkir engin mörk, launaþjófnaði, illa meðferð á starfsfólki (sérstaklega erlendu auðvitað) og kyrjar fleiri kunnugleg stef, sem ferðaþjónustan í heild þarf að sitja undir ár eftir ár.
Heimildin telur sig örugglega vera að stunda stórkostlega rannsóknarblaðamennsku þegar akkúrat hið gagnstæða á við. Léleg blaðamennska, byggð á upphrópunum, smellabeitum og að því er virðist djúpstæðu hatri á atvinnulífinu.
 
Hún fær svör bæði með og á móti. Einn sem tekur undir með henni segir:
 
Hilmar Sigvaldason
Hafnarsjóður Ísafjarðar, Akureyrar, Húsavíkur, Grundarfjarðar, Vestmannaeyja og fleiri staða njóta góðs af komum skemmtiferðaskipa og það eru tekjur upp á einhverja milljarða á ári.
 
Ég játa að ég nenni ekki að skrifast á við fólk á annarra manna síðum þannig að ég dreg þetta svar út og velti fyrir mér hvort þessir hafnarsjóðir hafi raunverulega tekjur upp á MILLJARÐA á HVERJU ÁRI. Ég leyfi mér að efast um það og ef ég hefði nennt í umræðuna hefði ég beðið manninn um ársreikninga sjóðanna.
 
En þá að minni eigin reynslu. Það var einmitt í Vík í Mýrdal sem ég ákvað endanlega að ég gæti ekki lengur unnið í ferðaþjónustunni. Það var sumarið 2012. Ástæðan? Sú að innviðirnir voru sprungnir, öll upplifun neikvæð, fólkið mitt kvartaði undan mannmergð. Við vorum ekki í kirkjunni heldur niðri í þorpinu og fengum enga þjónustu. Síðan eru liðin 13 ár. Hefur staðan batnað? Ég held ekki. Laun leiðsögumanna? Fólk lifði ekki af þeim þá nema fólk væri með beltið í innsta gati. Sumir kunna að halda að það sé mikil uppbót að fá að borða í ferðunum. Já, sumum kann að vera akkur í því en fólk þarf samt að brauðfæða aðra í fjölskyldunni og fjórði diskurinn á borðið gerir ekki gæfumuninn í matarkostnaðinum og ef fólk er í langferðum getur það ekki notað meintan frítíma á kvöldin í neitt með fjölskyldu eða vinum, nú, eða til að vinna aukavinnu ef hún skyldi annars vera í boði.
 
Ég hélt út í ferðaþjónustunni í 12 sumur af því að mér fannst svo gaman og það þrátt fyrir lúsarlaun. Hæsti, hæsti, hæsti taxti leiðsögumanns núna er 552.874 krónur ef maður reiknar tímavinnukaupið yfir í mánaðarlaun og obbinn af leiðsögumönnum er ekki með fastráðningu og trygga vinnu heldur verkefnaráðningar sem hægt er að segja upp með stuttum fyrirvara.
 
Ef ferðaþjónustan er sú stað sem fyrrverandi formaður SAF ætlar hana er sú stoð bara undir fáum toppum. Það er mín bjargföst meining eftir rúman áratug í hlutastarfi í stéttinni.
ferðaþjónustan

Strandveiðar

Ég held að ég standi með strandveiðisjómönnum.

Ég veit að ég bý í upplýsingaóreiðusamfélagi og get ekki treyst því sem ég les. Ég get bara treyst því sem ég þekki sjálf á eigin skinni. Hins vegar velur maður alltaf eitthvað sem maður heldur að sé rétt.

Einhverra hluta vegna datt ég inn á síðu um strandveiði- og ufsaveiðispjall og hef verið þar eins og fluga á vegg í sumar. Umræðan þar virkar heilbrigð og málefnaleg í aðalatriðum. Hlutaðeigendur ræða veiðiaðferðir og aflamagn. Strandveiðisjómenn veiða á stangir og koma hvergi nærri sjávarbotninum, koma með spriklandi ferskan fisk í land og veitingamenn geta boðið upp á frábæran mat.

Togararnir fara langt út og eru lengi, sum veiðarfærin þeirra skrapa botninn og eyðileggja lífríkið. Fiskurinn fer í lestina og er sjálfsagt ísaður til að halda ferskleikanum eins og hægt er. Veitingamaðurinn fær ekki eins nýja vöru.

Strandveiðisjómenn geta auðvitað ekki veitt nógu mikið fyrir allar fiskætur þannig að togararnir eru alls ekki til óþurftar, en tilfinning mín er sú að eigendur togaranna og kannski eigendur eigendanna (já, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi) sjái ofsjónum yfir smábátunum. Ég man vel eftir LÍÚ og Kristjáni Ragnarssyni sem var alltaf með grátstafinn í kverkunum og þó að ég vissi ekkert í minn haus, enda barn, heyrði ég fólk í kringum mig gera grín að því að ríkasta fólkið skældi mest.

En það sem ég væri til í að vita, úr því að frumvarpið dagaði uppi, hversu marga daga vantaði upp á þessa 48 að smábátasjómenn væru að veiðum. Hvað hefði vantað mörg tonn upp á að klára dagana?

Hvað erum við að tala um mikil verðmæti?

Ég gæti alveg spurt einhvern úr hópnum en mér finnst sérkennilegt að fjölmiðlar grennslist ekki fyrir um svona atriði.


Morgunglugginn

Þegar best lætur í Morgunglugganum á Helgi Seljan stjörnuleik. Hann spyr viðmælendur sína alvöruspurninga og fylgir þeim eftir. Nú er hann að tala við formann Framsóknarflokksins sem túlkar alla umræðu um Evrópusambandið í sína þágu. Þessi andstaða við það að leyfa þjóðinni að tjá sig og taka afstöðu veldur því að ég held að einarðir andstæðingar Evrópusambandsins hafi eitthvað að fela og búi yfir ríkri spillingarþörf.

Hingað til hef ég ekkert verið svo spennt fyrir Evrópusambandinu. 


Evrópusambandið eða ekki

Ég er lengi búin að vita að á Íslandi þrífst spilling, en ég held að ég sé dálítið orðin samdauna henni. Sjúkt ástand sem varir lengi verður normið. Ég hef sjálf ekkert að óttast, t.d. ekki um afkomu mína, en samt tala ég varlega svo ég styggi engan. En núna, þegar ég les svo mikla heift sumra út í Evrópusambandið - sem ég hef ekki hugmynd um hvort ég vil ganga í eða ekki - hallast ég að því að Evrópusambandið sé það eina rétta. Helstu og háværustu andstæðingarnir, sem maður veit að skara fyrst og fremst eld að eigin köku eða kökum vina sinna, átta sig ekki á því að þeir uppskera allt annað en þeir sáðu til.

En af því að samsæriskenningar eru svo vinsælar spyr ég: Eru yfirlýstustu andstæðingar ESB kannski með leikrit og eiga hauka í hornum ESB?


Þversögn stjórnarandstöðunnar

Ég skil að sumir þingmenn eru á hærri launum hjá stórútgerðinni en á þingi. Ég skil að sumir einstaklingar hafa ekki metnað fyrir hönd þjóðarinnar. Ég skil að fólk sé ósammála mér. Ég get skilið það allt.

Það sem ég skil ekki er þegar þetta sama fólk reynir ekki að vera sannfærandi í málflutningi sínum. Nú talar sama fólkið um að það verði að ræða og samþykkja fjármálastefnu og/eða fjármálaáætlun sem fjárlagagerðin byggi á, það talar um að mörg brýn mál bíði sem komist ekki að vegna þess að ríkisstjórnin vilji fyrst afgreiða veiðigjaldsfrumvarpið sem þorri landsmanna vill að verði samþykkt. Og núna þegar á einmitt að forgangsraða í þágu þessara sjónarmiða með því að greiða atkvæði um mál sem meiri hlutinn er einhuga um kemur sama fólkið og mótmælir sínum eigin sjónarmiðum.

Ég var búin að stinga upp á að hinir fáu andstæðingar þess að fiskurinn verði í sameign þjóðarinnar myndu biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu og það er sjálfsagt enn hægt.

Kjarnorkuákvæði 71. gr. þingskapa er of stórt orð fyrir þá hugsun að takmarka óhóflegar umræður þegar öll sjónarmið eru komin fram. Norrænu þingin eru með skipulag um sínar umræður og nú er lag að gera eins. 

---

Einn þingmaður sem hefur talað í marga klukkutíma kallar veiðigjaldið núna eitt lítið skattahækkunarmál. Þá hló ég upphátt.


Veiðigjaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu

Ég man árið 2004 þegar þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, svokallað frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993. Því var útbýtt 28. apríl, tæpum mánuði eftir síðasta dag, rætt 3., 4., 11.-15., 19., 21., 22. og 24. maí þegar það var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 30 og einn þingmaður sat hjá. Þá var mikið talað um að í Noregi hefði svipað frumvarp verið undirbúið og rætt í fjögur ár.

Mér finnst vissulega gaman að gramsa í vef Alþingis og rifja upp en nú háttar svo til að ég sé lausn á þrætunni um veiðigjaldið. Ef frumvarpið verður núna borið undir atkvæði verður það auðvitað samþykkt af meiri hlutanum sem stendur með því en svo getur forseti neitað að skrifa undir það og skotið til þjóðarinnar.

Tillagan mælir með sér sjálf og nú er bara að skjóta þessu að þinginu.


Þingmenn eru þingmönnum verst

Algjörlega óháð uppistandinu og gríninu sem ég fylgist samviskusamlega með á Alþingisrásinni er ég á því að þingmenn geti sjálfum sér um kennt þegar fólk segist lítið mark geta tekið á þeim. Þau tala:

a) eins og starfið snúist um að þau komist í sumarfrí, jólafrí, páskafrí - eða heim! eins og þingmenn séu hlekkjuð við vinnustaðinn allan sólarhinginn á vinnutíma. Það er löngu tímabært að einblína á verkefnin en ekki klukkan hvað þeim lýkur.

b) eins og þau séu ekki í vinnunni nema í þingsal. Allt sanngjarnt fólk áttar sig á að þingstörfin felast ekki í ræðuhöldunum, aftur burt séð frá málþófinu. Ræðurnar eiga að kjarna þær skoðanir sem einstaklingar eða eftir atvikum flokksheildirnar hafa. Megnið af vinnunni á sér stað hjá frumvarpshöfundum og svo í nefndavinnunni.

Og þetta á ekki við um þennan meiri hluta og þennan minni hluta sem eru núna á Alþingi.

Að lokum óska ég þess að þingmál megi lifa á milli þinga. Ef því hefði verið breytt einhvern tímann væri hægt að kæfa þennan málþófseld núna og endurvekja hann um miðjan september. Ef málið verður hins vegar ekki afgreitt fyrir annan þriðjudag í september þarf að mæla fyrir því að nýju, hvernig sem því yrði breytt og jafnvel þó að ekki staf yrði breytt, og þá gæti hringekjan farið aftur af stað.

Nördinn í mér hefur gaman af þessum fíflagangi en vitsmunirnir í mér hrópa að nú verði að fara að sinna brýnum hagsmunum alls almennings og þá er ég ekki að tala um sumarfrí þingmanna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband