Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 27. maí 2024
Lúxusvandi kjósandans
Ég er búin að líta inn á sex kosningaskrifstofur í mánuðinum og hlakka til að mæta á kjörstað á laugardaginn en er samt ekki búin að ákveða hver fær atkvæðið. Ég væri til í mörg þeirra og er búin að hafa stórkostlega gaman af kosningabaráttunni.
En hvert er vald forsetans? Ég held að það sé flesta daga, og í mörgum tilfellum allt fjögurra ára kjörtímabilið, svo lítið að forsetinn sem ég vel mér verður einhver sem kemur vel fyrir og er líklegastur til að senda jákvæð skilaboð til umheimsins. Og þar er úrvalið sannarlega mikið og gott.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. maí 2024
Forsetakosningarnar 1. júní
Ég er sólgin í allt upplýsingaefni um frambjóðendurna til embættis forseta. Ég er eiginlega ekki búin að gera upp við mig hvert atkvæðið fer en finnst þau næstum öll hafa eitthvað til síns máls. En akkúrat núna fá Ásdís Rán, Ástþór og Steinunn Ólína stærsta kúdosið fyrir boðaðan fund sameiginlega á Græna hattinum í kvöld. Ef ég byggi á Akureyri myndi ég mæta í síðasta kl. 19, fá mér að borða og bíða svo spennt eftir flugeldasýningunni. Það er svo mikil gleði í þessu.
Þessi (meinta) kosningabarátta er MJÖG skemmtileg. Hreinasta afbragð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. maí 2024
Pétur Gunnarsson rithöfundur á RÚV
Ó, þessi þáttur. Ég horfði alveg dolfallin á Pétur Gunnarsson, rithöfund og heimspeking, svara af svo mikilli hæversku öllu möguluegu um lífshlaup sitt og ferilinn og rauk svo á bókasafnið og sótti Punktinn og Ég um mig frá mér til mín. Hlakka mikið til að rifja upp kynnin af Andra.
Svo. Mikið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. maí 2024
Elías Auðar Haralds (1947-2024)
Nú er ég búin að lesa þrjár af Elíasarbókunum eftir Auði Haralds heitna. Ég var, og er, mikill aðdáandi hennar en hafði einhvern veginn samt ekki lesið hinar svokölluðu unglingabækur hennar. Guð minn góður, ég hló upphátt á hverri síðu. Elías er ábyrgi einstaklingurinn í þriggja manna fjölskyldu þar sem mamma hans og pabbi eru bæði mikið úti á þekju og til viðbótar stinga þau höfðinu í sandinn ef hætta steðjar að, þá helst þegar Magga frænka boðar komu sína eða - það sem er auðvitað hálfu verra - þegar hún birtist óforvarandis með kúst og kassa til að hjálpa þeim að pakka þegar þau flytja til Kanada.
Lýsingarnar eru náttúrlega óborgaralega fyndnar en á sinn lymskulega hátt tekst Auði að stinga að lesendum heilræðum og uppeldisráðum, allt í gegnum leik og glens.
Þvílíkur hvalreki sem Auður var fyrir bókmenntirnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. maí 2024
Meðvirkni er núna ofnotað hugtak
Horfið á kappræðurnar á Stöð 2 (ef þið hafið áhuga á forsetakosningunum og eruð ekki búin að horfa). Öll sex stóðu sig vel. Öll. Heimir spyrill fær verstu einkunnina fyrir að sýna einn viðmælanda úti á götu mæra einn frambjóðanda. Úrtakið var lítið og það var fáránleg mismunun að birta lofrulluna. Ekki samt víst að sá frambjóðandi græði á því.
Hálfur mánuður eftir og ég er ossa spennt.
Já, meðvirknin? Það er stutt á milli þess að trúa og treysta fólki og að vera meðvirkur. En við megum ekki glata tiltrú á fólki. Einn frambjóðandinn benti á þessa hættu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. maí 2024
Leyfð dánaraðstoð?
Ég hlustaði áðan á umræðu um hvort leyfa eigi dánaraðstoð eða ekki. Það er 100% að eitthvert fólk óskar eftir dánaraðstoð af því að lífsgæðin eru orðin engin. Ég átti vinkonu sem þjáðist svo af krabbameini og aukaverkunum þess að síðustu vikurnar af ævi hennar voru algjört kvalræði fyrir hana. Ég finn sárlega til þegar ég hugsa til hennar síðustu daga.
Svo get ég ímyndað mér að hlédrægt fólk, fullorðið fólk sem er orðið háð öðrum um margt, gæti orðið meðvitað (með réttu eða röngu) um að aðstandendum finnist það baggi og lætur þá í veðri vaka að það myndi þiggja svona aðstoð.
Ég er mjög tvístígandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. maí 2024
Bakgarðshlaupið
Ég skil ekki hvernig á því stendur að RÚV gerir bakgarðshlaupinu, sem er auðvitað sturlaður íþróttaviðburður, varla nokkur skil á meðan einkamiðillinn er með beina útsendingu frá upphafi til enda. Frá upphafi til enda er frá kl. 9 á laugardagsmorgni fram á miðjan mánudag. Starfsmaður Vísis er á staðnum með viðtöl og textalýsingar en mestmegnis bara mynd af ráslínu sem jafnframt er marklína. Ég sat í sófanum með verkefni hálfan sunnudaginn með kveikt á þessu spennandi sjónvarpi. Ekki kaldhæðni.
Af hverju getur ríkismiðillinn ekki gert þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 4. maí 2024
Kappræðurnar út af forsetakjöri
Postularnir tólf mættust í sjónvarpssal í gær. Ekkert þeirra skandalíseraði. Ekkert þeirra missti málið og gat engu svarað. Öll skildu spurningarnar. Þetta er ekki sjálfgefið í hita leiksins.
Mín spá er að Halla Tómasar fari að kroppa fylgi af einhverjum og að Jón Gnarr endurheimti einhver prósent sem hann var byrjaður að tapa.
Og hvað sem öður líður hafði ég dálítið gaman af Viktori sem handlangaði sig inn á listann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 26. apríl 2024
Ísland í bítið
Ég kveiki alltaf á Bylgjunni þegar ég vakna virka morgna. Heimir og Lilja eru mitt fólk. Í morgun kveikti ég, gekk frá, heyrði rödd sem ég kannaðist við en var ekki viss, kom svo til baka og heyrði Lilju ávarpa Loga og slökkti strax. Logi hefur aldrei gert neitt á minni persónulega hlut en maður sem hrökklaðist frá K100 verður ekki í mínu útvarpi.
Morgunútvarp Rásar 2 og jafnvel Rásar 1 gerir núna sama gagn og Bítið gerði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 20. apríl 2024
Bláu ljósin í Belfast
Ég held að starf götulögreglunnar sé hroðalega erfitt, sérstaklega í seinni tíð og sérstaklega í borgum þar sem glæpatíðni er mikil og stjórnvöld meðvirk.
Írsku þættirnir sem voru gerðir á síðasta ári, Bláu ljósin í Belfast, og eru núna í línulegri dagskrá á RÚV kalla fram mikla gæsahúð. Fullt af nýrri nálgun, góðum vilja nýliðanna til að hlúa að okkar verst stadda fólki og bévítans meðvirknin í efstu lögum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)