Færsluflokkur: Dægurmál

Vottur af flóði

Ég var það óheppin í vetur að rétt eftir að ég lét pússa parketið lak snjór af hjólinu í forstofunni undir þröskuldinn (sem hafði þá aðeins losnað frá) og skemmdi nokkrar lamellur sem eru spýturnar (ég er nýbúin að læra þetta fræðiheiti, hoho). Ég fékk smið til að laga þröskuldinn og hélt að svo mætti slípa lamellurnar aftur. Nei, það gekk ekki, þær fóru að vinda upp á sig og kvarnast úr þeim. Í gær kom smiðurinn aftur og sleit ónýtu lamellurnar upp og þegar hann ætlaði að sníða til nýjar og leggja þær reyndist aðeins of mikill raki enn á því sem er næst þröskuldinum.

Skítaredding er þessi motta sem átti að vera alveg í felulitunum. Er þetta ekki bara nokkuð smart? 

tongue-out

Engin mottaMotta


Bróðurómyndin

Þegar ég fæddist var ég fjórða systkinið og það síðasta. Ekkert okkar er dáið en ég lít svo á að við séum bara þrjú vegna þess að þegar ég sá á eftir foreldrum mínum 2018 og 2019 kom í ljós úr hverju sá bróðir var gerður sem var næstur mér í aldri.

Mér finnst stundum gott að segja þetta upphátt á bloggsíðu vegna þess að ég er alltaf að heyra sögur um vinslit í fjölskyldum og þótt tilefnið sé sorglegt finnst mér gott að finna að við systkinin þrjú sem stóðum og stöndum saman erum ekki ein um að horfa á eitt systkinið fara yfir öll mörk. Þessi bróðir, sem mér finnst ekki lengur vera í systkinahópnum, hafði svo sem sýnt takta í ætt við græðgi, tilætlunarsemi og yfirgang, bæði gagnvart mömmu og pabba og svo sjálfri mér, en ég var samt svo hrekklaus að ég varaði mig ekki. Ég tapaði miklum peningum á honum. Hann gerði lítið úr ákvörðunum mínum. Hann gerði almennt sitt besta til að gera lítið úr mér og tala mig niður.

Ég sé ekki eftir honum og því miður ekki heldur dætrum hans sem sýndu líka hvar þær stóðu í þessum efnum. Blóð er bara ekki þykkara en vatn og ég umgengst miklu heilbrigðara fólk en hann.

Ástæðan fyrir að ég rifja þetta upp sisona miðvikudaginn 10. júlí? Jú, ég er þrátt fyrir allt minnug á afmælisdaga og bróðurómyndin er 63 ára í dag og ég hef ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn, hvorki með tilliti til vinnu (sem honum hefur yfirleitt ekki haldist á) né hver mætir nú með veitingar í afmælið hans.


Frítt í sund, ófrítt í sund

Mér finnst röng nálgun að stytta afgreiðslutíma sundstaða og mér finnst bilun að gera sjósundi ekki hærra undir höfði, svo sem með því að hafa opið lengur í Nauthólsvík og með því að byggja upp góða aðstöðu víðar.

En ég get ekki tekið undir að 4.000 kr. árgjald í sundlaugarnar ríði baggamuninn fyrir 67 og eldri heilt yfir. Og að tromma upp í fjölmiðlum og tala nánast um aðför að lýðheilsu er í mínum augum og eyrum skrum.

Það eina sem ég er samt að pæla í er hvort fólk muni eiga auðveldara með að misnota svona árskort. Segjum að annar makinn sé 67 og hinn yngri og yngri makinn ætti þá að borga 44.840 kr. árgjald. Getur hann þá fengið kort makans og smyglað sér inn? Þau sem núna eru orðin 67 þurfa að sýna skilríki, er það ekki?

Ég held ekkert að fólk stundi þetta eða muni stunda þetta, það er ekki það. Ég held bara að þetta gæti orðið auðveldara.


Alice og Jack

Ég hámhorfði á mestu ástarsögu sem ég hef séð, þáttaröðina Alice og Jack. Hún er meira en heilt ár í spilara RÚV þannig að ef þið hafið verið að hugsa um að horfa ekki getur ykkur enn snúist hugur.

Í fyrsta þætti fannst mér hún hafa óskiljanlegt tak á honum, hrokafull og meiðandi. Ekki skánaði það í öðrum þætti en eftir það fór ég betur að skilja hvernig þeim leið. Og hún hafði auðvitað sínar ástæður fyrir undarlegri hegðun.

Það sem gerði útslagið með að ég gat ekki hætt að horfa var að samtölin komu mér stöðugt á óvart. Það var enginn fyrirsjáanleiki í framvindunni eða orðaskiptunum. Mig langar alveg að segja meira en flest myndi koma upp um söguþráðinn sem væri ekki fallega gert. En að lokum verð ég að segja RÚV til hnjóðs að mér finnst galið að nota sömu kynningu í línulegri dagskrá á öllum sex þáttunum (eins og RÚV gerir alltaf). Af hverju er ekki hægt að semja og láta flytja nýja kynningu sem þjónar efni hvers þáttar? Peningaleysi? Alice og Jack vörðu saman einni nótt sem hefur síðan langvarandi áhrif til framtíðar - er ekki lýsing sem passar nema í upphafi.

Til viðbótar vil ég segja að ég vona að fréttatíminn verði áfram kl. 21 og bara einn. Fréttaþyrstir (eins og ég) geta hlustað á útvarpsfréttir kl. 18, hlustað á Bylgjuna kl. 18:30 og svo væri gott að fá síðasta alvörufréttatímann kl. 21. Sá sem hefur verið í sjónvarpinu kl. 19 er oft lap upp úr útvarpsfréttum.

Þjóðhátíðarranti dagsins lokið. Til hamingju með daginn. 

kiss 


Guðni Th. og sagnfræðin

Ef eitthvað er að marka brautskráningarræðu rektors fer Guðni forseti aftur að kenna í HÍ. Það er einmitt það sem ég óskaði mér. 

Á sama tíma bjóðum við fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði, velkominn aftur til starfa við Háskóla Íslands.

Ég var reyndar búin að ímynda mér að öll fjölskyldan flytti til Kanada til að leyfa börnunum að kynnast sínum kanadísku rótum en svo heyrði ég einhvern orðróm um að þau Eliza ætluðu að skilja sem ég hef hvorki fengin hrakinn né staðfestan.

En ég fagna því ef nemendur HÍ fá að njóta krafta sagnfræðiprófessorsins á ný. 


Eldhúsdagurinn

Þvílík veisla, sérstaklega þegar ræðumenn lesa ekki af blaði ...


Fótbolti og breyttur fréttatími

Ég er breytingasinni þannig að ég fagna því bara að kvöldfréttir verði færðar til kl. 21 í sumar. Ástæðan er reyndar órökrétt, fótbolti þar sem Íslendingar eru ekki einu sinni með, en mér finnst gráupplagt að prófa þennan tíma og í öllu falli mjög gáfulegt að vera með samræmdan tíma í allt sumar. Ég man þegar fréttirnar voru kl. 20 og fannst það fínt, en enn betra að hafa þær kl. 19. Og ég er í hópi þeirra geirfugla sem horfa á línulega dagskrá.


Ég kaus í gær

Öll tólf höfðu eitthvað með sér, flest miklu minna en ég vildi sjá og eiginlega ekkert þeirra meira en 80%. Ég er greinilega svo blinduð af Guðna að ég bar frambjóðendur alltaf saman við hann og hans mannkærleika og gáfur.

Allan maímánuð var ég að máta frambjóðendur við embættið og mörg komu til greina á mismunandi stigum. Ég fór á sex kosningaskrifstofur og las og hlustaði heil ósköp. 

Hatur og heift í kosningabaráttunni fór algjörlega framhjá mér nema þar sem fólk kvartaði undan hatri og áróðri. Ég sá bara kvartanirnar, ekki áróðurinn. Samt las ég mikið á vefnum og horfði á umræður og viðtöl.

Í gær kaus ég svo með hjartanu, ég kaus frambjóðandann sem ég vildi helst og hann blandaði sér ekki í toppbaráttuna. Sá frambjóðandi getur gengið beinn í baki frá sinni kosningabaráttu og haldið áfram þeim verkum sem hann hefur unnið fyrir þjóðina.

Ég trúi að forsetinn sem varð fyrir valinu muni venjast vel en bíð eiginlega spenntust eftir að sjá hvernig fólk ætlar að tala um Björn heilsukokk. Verður hann kallaður forsetamaki eða verður hann Björn eða Bjössi? Verður forsetinn hann eða hún (í ljósi umræðunnar um kynhlutleysi orða) og verður forsetinn mætt eða mættur?

Ég hef engar sérstakar skoðanir á skoðanakönnunum en minni á að skoðanakannanir hafa áður litað umræðuna. Ég kaus minn frambjóðanda með hjartanu og höfðinu og hefði verið til í miklu meiri hlátur næstu árin.

 


Skoðanakannanir

Ég fylgist spennt með skoðanakönnunum og kappræðum. Ég sé líka að obbi frambjóðenda vill að svipað fyrirkomulag verði haft á í síðustu kappræðunum, á morgun, og var 3. maí. Þær þóttu mér líka heppnast vel og er margbúin að segja það við fólk í kringum mig. Það var byrjað á mismunandi stöðum í hópnum, spurningar voru persónulegar, við fengum hraðaspurningar og frambjóðendur fengu að spyrja hvert annað.

Ég var ekki eins hrifin af forystusætinu á mánudag og margar vinkonur mínar, en Steinunn Ólína benti sannarlega á ákveðna þversögn í sambandi við skoðanakannanir. Ef ekkert mark er takandi á 40-50% landsmanna í könnun, af hverju eru þá kannanir látnar ráða hvaða frambjóðendur fá að mæta í aðalsettið?


Kosningarýni

Kosningarnar núna eru einstakar og ekki hægt að bera þær saman við neinar fyrri forsetakosningar. Ég veit um fólk sem kaus ekki Guðna fyrir átta árum þótt það vildi gjarnan fá hann af því að það taldi hann svo öruggan að því væri óhætt að kjósa annan sem fengi þá ögn betri kosningu. Örn Úlfar Sævarsson nefndi líka svona dæmi í Pallborðinu áðan, ég held um sig sjálfan.

Ég spái Katrínu sigri af ýmsum ástæðum, aðallega þeirri að hún er hokin af reynslu og mjög margt fólk vill forseta sem kann á fólkið og kerfið, er með tengslanet, á auðvelt með að koma fyrir sig orði - og er með húmaníska menntun, íslensku.

Þau sem ekki vilja fá rútineraðan pólitíkus á Bessastaði geta ekki kosið taktískt af því að það er ekki hægt að sjá út úr kosningaspám hvaða frambjóðandi er í 2. sæti. 

Mín spá er að Halla Tómasdóttir eigi ekki eins mikið inni og hún átti á sama tíma árið 2016.

En hvaða forseti sem velst verður varla með meira en þriðjung atkvæða og mér finnst það dálítið dapurlegt. En svo ég haldi áfram að dansa í hring verð ég að rifja upp að okkar heittelskaða Vigdís vann með rúmlega þriðjungi atkvæða 1980 og varð mjög fljótt forseti okkar allra. Ég fæ kusk í augun þegar ég rifja upp þá djörfung sem hún sýndi með því að bjóða sig fram. Eftir því sem ég kemst næst bjóst hún alls ekki við að sigra, vildi bara sýna að kona gæti boðið sig fram.

En ég er svo mikill meðspilari að forsetinn sem kemur upp úr hattinum á sunnudagsmorguninn verður forsetinn minn, hvað sem ég exa við á laugardaginn. Ein vinkona mín á afmæli sama dag og einn frambjóðandinn og hún vonar að 11. október verði næsti fánadagur ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband