Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 17. nóvember 2015
Elsku stelpur
Atriðið sem vann Skrekk þetta árið hefur aldeilis slegið í gegn. Fyrir tilviljun sá ég verðlaunaafhendinguna í gær, en aðeins hana, ekki öll atriðin, og svo atriðið sjálft eftir það. Ég þekki tvær af elsku stelpunum og vissi fyrir að þær væru kraftmiklar og létu ekki eiga hjá sér en mikið djö varð ég ánægð með að sjá þennan stóra, flotta hóp með sterku skilaboðin um að stelpur sitji við sama borð og strákar. Skildir þú það kannski öðruvísi?
Ég hef ekki fylgst nógu vel með síðustu árin en hefur ekki Skrekkur gengið meira út á huggulegheit og samhæfðar hreyfingar? Í mínum augum er Skrekkur núna kominn á kortið og ég mun spennt fylgjast með að ári.
Og auðvitað Dúnu, Margréti og vinkonum þeirra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. nóvember 2015
Also sprach Eiríkur á degi íslenskrar tungu
Ég man þegar opinber starfsmaður, man hvar hann vann en ekki hvað hann heitir, fór hamförum í hruninu og elti uppi fólk sem gagnrýndi ríkjandi stjórnvöld og talaði vitlausa íslensku. Ég man hvernig ég upplifði þennan eltingarleik hans við fólk sem hafði lítið vald á tungumálinu en samt vald á hugsun sinni og var ósammála honum. Hann niðurlægði fólk. Kannski lærðist mér þá helst að aðgát skal ævinlega höfð í nærveru sálar. Ég man nefnilega að þegar ég var unglingur leiðrétti ég málfar fólks. Sjálfsagt hafði ég einhvern tímann rangt fyrir mér en ég hef alltaf haft góða málkennd, las mikið sem barn og var afar gagnrýnin ef fólk talaði vitlaust. Ég er hins vegar guðsblessunarlega hætt að tuldra ofan í hálsmálíð á mér þótt fólk segi málvillu. Ég reyni að hlusta á það sem fólk vill segja mér en vinn síðan við að leiðrétta málfar fólks sem biður um það.
Auðvitað er sumt vitlaust og öllum ber saman um það. Þótt við segjum réttilega að fundir geti verið langir segjum við ekki að *hundir séu langir. Samt er eintalan af hundum hundur eins og eintalan af fundum er fundur. Ég tala við þig og það er vitlaust að ætla að tala við *þér. Ég *dettaði ekki og *ráddi ekki heldur. Allt fólk nema börn á máltökualdri og útlendingar segir þetta rétt.
Hins vegar er aragrúi matsatriða sem fólk er ekki á einu máli um. Hvort talar maður um að rústa íbúðina eða íbúðinni? Samkvæmt orðabók er þolfallið réttara og kennarinn minn í háskólanum sagði að fólk undir fimmtugu talað um að rústa einhverju en fólk yfir fimmtugu rústaði eitthvað. Það var fyrir þremur árum þannig að nú hlýtur það að miðast við 53 ára og eldri ...
Í dag er dagur íslenskrar tungu og Jónasar Hallgrímssonar og þá vekst allt svona upp. Ég las stutt viðtal við annan gamlan kennara úr háskólanum sem segist aðhyllast reiðareksstefnuna, að vera ekki of ferkantaður í tungumálinu þannig að fólki sé ekki gert erfitt fyrir að tjá sig þótt það tali ekki 100% mál (hver gerir það svo sem?) heldur þvert á móti hvatt til þess. Tungumálið breytist, og er það ekki hafið yfir vafa að málbreytingar byrji almennt sem málvillur? Ég er samt ekki búin að samþykkja málbreytingarnar um *einhverjar 5 milljónir, *hundruðir þúsunda, að ég *sé ekki skilja eitthvað eða að fólk spái í *einhverju. Mér er enn tamt að tala um að menn tali hvor við annan og að þeir hafi setið hvor sínum megin við borðið en rökréttar villur munu ryðja hinu á brott einn daginn. Ég hlakka enn til sumarsins og mig langar enn í ipad en eftir 40 ár mun ég sennilega tilheyra þeim 10% sem enn hlakka til í nefnifalli og langar í þolfalli og þá telst ég tala rangt mál. Svona er það. Hins vegar á maður að spyrna við fótum og halda áfram að vanda sig. Þótt málbreytingar séu ekki óæskilegar tel ég stökkbreytingar vera það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. nóvember 2015
Múgsefjun
Ég hef ekkert á móti því að fólk sýni andúð sína á hryðjuverkum með því að breyta um prófílmynd á Facebook. Skárra væri það. Eða þótt það sé með því að sýna frönsku þjóðinni stuðning. Ég er hins vegar of þvergirðingsleg til að stökkva á svona vagna. Hryðjuverkin eru að sjálfsögðu óverjandi, hroðaleg, skelfileg, ógnandi og hafa í för með sér óréttlætanlegt mannfall, skelfingu, vanmátt, uppgjöf að hluta og ótta við framtíðina.
Ógeðslegt.
Og því miður alltof algengt athæfi. Það eru því miður stríð úti um allan heim og hafa verið um langan aldur. Hvað er gert til að uppræta svona vonsku? Kannski róa menn stöðugt að því öllum árum á leiðtogafundum heimsins og vissulega hafa æðstu menn þjóða stigið fram og hvatt menn til að elska friðinn. Ég geri ekki lítið úr því sem hefur verið gert en greinilega er ekki nóg gert úr því að ekki tekst að uppræta þetta.
Ég man enn fyrstu færsluna mína á blogginu fyrir tæpum níu árum. Þá höfðu líka verið framin ódæðisverk og þá ruku líka einhverjir upp og höfðu skoðun og ég held að það hafi verið vegna þess að gjörðin hjó nærri okkur sjálfum. Það er erfitt að hafa stjórn á 8 milljörðum manna, ég skil það, en sýna ekki verkin merkin? Er ekki vandinn sá að voldugir menn berjast um auð og áhrif? Hvaða áhrif hafa vopnaframleiðendur? Hvað veldur því að unglingar fremja svo viðbjóðslegan verknað eins og raunin varð í París?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. nóvember 2015
Ferköntuð á Facebook
Ég fer eftir mörgum reglum á Facebook, einkum mínum eigin. Ein af þeim reglum sem ég brýt sjaldan er að læka ekki textalausar myndir. Ég læka ekki tvisvar sömu myndina, fyrst sem mynd á vegg og svo prófílmynd. Ég læka myndir sem ég er merkt á nema mér þyki þær vondar. Ég á það til að taka merkinguna af þannig að myndir birtist ekki hjá mér. Ég birti sjálf ekki textalausar myndir. Ég svara öllum athugasemdum, annað hvort með læki eða athugasemd.
Hvort ætti maður annars að skrifa Facebook eða facebook? Ég sletti en í ritmáli laga ég tökuorðið að íslenskum rithætti. Ég er bara ekki búin að gera upp við mig hvort mér finnst Facebook vera sérnafn eða ekki. Eða, jú, ég hef náttúrlega F hérna.
Þetta lá mér á hjarta í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 11. nóvember 2015
Prófarkalestur
Ekki vil ég vanþakka athyglina, ég sem alltaf breiði út faðminn þegar ég sé myndavél án þess að eiga nokkurt erindi í fangið á henni. Ef ég gæti ráðið væri allt fólk vel skrifandi og vel talandi, til vara vildi ég að það léti lesa textana sem það vill/þarf að skrifa. Ástæðan fyrir þessu tuldri mínu í kvöld er sú að í Vísi er nú Wappi Einars hampað og því veitt athygli. Ég kem aðeins við sögu og því er mér öldungis ekki sama um greinina frekar en ritmál yfirleitt.
Greinin er svo skelfilega illa (skrifuð og) yfirlesin að það er grátlegt fyrir manneskju sem hefur lífsviðurværi sitt af ítarlestri, handritalestri, prófarkalestri og yndislestri.
#gráturoggnístrantanna
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. nóvember 2015
Er lögreglustjórinn hörkutól? Á lögreglan að vera hörkutól?
Í sjónvarpsfréttum í gær fannst mér lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, dálítið lúpuleg. Mér fannst hún biðjast afsökunar á sjálfri sér og kannski fannst mér fortíð hennar í starfi þvælast fyrir. Ég stóð mig að því að hugsa að hún ætti að vera dálítið hnarreistari hvort sem hún ætti fyrir því eða ekki.
Það er náttúrlega bilun. Í mér.
Í öðru orðinu vill maður að fólk axli ábyrgð, sýni iðrun og biðjist afsökunar á mistökum sínum sem verða alltaf einhver hjá öllum og í hinu orðinu vill maður að opinberar persónur beri höfuðið hátt og láti eins og þær hafi allt valdið.
Ég stend mig að minnsta kosti að þessu.
Ég ræddi þetta aðeins á kaffistofunni í morgun og okkur kom saman um að í öllu falli væru umtalsverðar líkur á að harðar yrði tekið á heimilisofbeldi þegar konur væru orðnar innstu koppar í búri lögreglunnar.
Erum við líka á villigötum þar? Eða getur verið að konur geti auðveldar sett sig í spor fórnarlamba heimilisofbeldis sem eru mun oftar konur en karlar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. nóvember 2015
Wappið á Karolina Fund
Sérstakt áhugamál mitt. Ég veit að söfnunin næst en hún má sko vel fara yfir 100% því að það auðveldar okkur bara að gera fleiri leiðarlýsingar en þessar fyrstu 25 sem eru í kortunum. Svo hlakka ég líka til að mæta í Toppstöðina annað kvöld og fylgjast með Einari í beinni útsendingu.
Útivist bætir og kætir. Enda er ég alltaf í góðu skapi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 24. október 2015
Kvennafrídagurinn 40 ára
Í dag eru 40 ár síðan konur lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi sitt í þjóðlífinu. Missti ég af allri umfjöllun og upprifjun eða var hún engin?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. október 2015
#toppstöðin #wappið #karolinafund
Mér leiðist þegar myllumerkingar eru ofnotaðar.
Þess vegna ætla ég bara að skrifa samfelldan texta um uppáhaldsáhugamálið mitt þessar vikurnar. Ég er náttúrlega frek til fjörsins og treð mér þess vegna fremst á myndir (og víðar). Og nú er minn góði Einar að gefa út wappið, gönguleiðalýsingar um allt land í fyllingu tímans, og í því augnamiði hefur hann hafið söfnun á Karolina Fund sem er íslenskur fjármögnunarvefur vegna alls konar verkefna, gjarnan frumkvöðlaverkefna. Söfnunin hófst í gærkvöldi og stendur til 13. nóvember og ég vona að margir leggist á árarnar með verkefninu því að það á svo sannarlega erindi.
Og myndin, já, ég held að ég þekkist á græna litnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. október 2015
Bleika krabbameinið
Ég fór í bleikt í morgun. Í vinnunni var fjöldinn allur í bleiku, aðallega konur reyndar. Það var mikil stemning, svona eins og stundum myndast um mottumars. Ég opna Facebook þegar ég kem heim og sé fullt af bleikum myndum og ég læka eins og vindurinn. Ég kann vel að meta meðvitund.
Ég vona bara að menn, bæði karlar og konur, mæti reglulega í krabbameinsskoðun til að hægt sé að uppgötva frumubreytingar og önnur mein nógu snemma til að hægt sé að uppræta þau sem fyrst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)