Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 13. desember 2015
Box og barningur
Ég vildi að ég gæti fært eitthvað nýtt inn í umræðuna um Gunnar Nelson. Ég sá brot úr bardaganum við Maia og fæ hroll. Af hverju eru einhverjir að mæra þessa íþrótt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 12. desember 2015
Svefnvenjur unglinga
Í sjónvarpsfréttum í gær var vísað í rannsókn um svefnvenjur unglinga og talað við unglinga um svefnvenjur þeirra. Sum sögðust sofa of lítið og önnur virðast sem betur fer sofa nóg, en þau töluðu bara um nætursvefninn. Þeir unglingar sem ég þekki og eru í skóla eiga það til að sofna um miðjan daginn ... sisona.
Er það ekki algengt? Ég nenni ekki að gera rannsókn á því samt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 12. desember 2015
... veitir ekki viðtöl
Einhverra hluta vegna fór framhjá mér viðtal við kennara Almars Atlasonar í vikunni en nú er ég búin að bæta úr því. Ég hugsa að við sem vorum áhugasöm um gjörninginn höfum mörg hver mátað okkur sjálf í þessar aðstæður og það hafi gefið verkinu persónulegt gildi fyrir hvern og einn áhugasaman. Ádeila á neysluhyggju? Könnun á eigin úthaldi? Berskjöldun? Skoðun á samfélagsmyndinni? Já, en djö sem ég er ánægð með að hann tjái sig ekki sjálfur. Mitt er að yrkja, þitt er að skilja á sérlega vel við í dag.
Og mér verður enn hugsað til Duchamps sem setti venjulegan hlut í óvenjulegt umhverfi fyrir rétt tæpri öld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 7. desember 2015
Kostnaður við búrið
Ég er enn upptekin af gjörningnum í búrinu. Sennilega er ég almennt séð og yfirleitt dálítið hrifin af því sem vekur almenna hneykslan. Sjálf er ég óttalegur smáborgari og þótt ég hætti mér endrum og eins út fyrir boxið vil ég að dyr þess standi mér að minnsta kosti áfram opnar.
Spurning sem heyrist þráfaldlega við svona tækifæri er: Og hvað kostar þetta? Eða: Erum við skattborgarar að styrkja þetta?
Í orði kveðnu ríkir jafnrétti til náms á Íslandi. Ég veit ekki hvort allir upplifa það þannig en alltént eru ekki skólagjöld (þótt það séu náttúrlega áhöld um hvort pappírsgjald stendur straum af útlögðum kostnaði einum saman við skráningu) og ef menn klára tilskildar einingar eiga þeir að fá námslán.
Ég man ekki eftir því að nokkur maður hafi spurt fyrir, í eða eftir hrunið hvort íslenska ríkið - við skattborgarar - hafi virkilega styrkt fjárhagslega viðskiptafræðinga sem tóku að sér þau störf í bönkunum sem leiddu til hruns þeirra. En það útilokar ekki að einhverjir hafi haft efasemdir um gildi námsins ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. desember 2015
Kallinn í kassanum
Er api í búrinu?
Ein elsta minning mín í fóðurhúsum er gagnrýnið tal um brauð á sýningu sem myglaði eftir því sem leið á sýninguna og um heybagga sem var komið fyrir einhvers staðar (á Skólavörðuholtinu?) og grotnaði niður og varð engum til gagns eða gleði.
Nú er myndlistarnemi á 1. ári búinn að dvelja í litlum glerkassa í Listaháskólanum í tæpa viku. Mér heyrist fólk ekki mikið þora að gagnrýna og alls ekki lýsa yfir velþóknun eða mæla athæfinu bót. Það fólk sem ég heyri í vandar sig við að hafa ekki skoðun á gjörningnum.
Ég hef kíkt reglulega á Almar í kassanum alla vikuna. Ég hugsa með hryllingi til þess að vera lokuð inni, velja að þegja, lesa ekki samfélagsmiðlana, striplast fyrir framan óteljandi margt fólk og ráða engu. Mér finnst tilhugsunin um að framselja allt ákvörðunarvald yfir matnum mínum, lesefninu, félagsskapnum og almennt öllu alveg gríðarlega fráhrindandi.
Ég veit auðvitað ekkert hvað vakir fyrir Almari. Ef hann heldur áfram í þessu námi er alveg pottþétt að hann græðir á þeirri athygli sem hann fær út á verkefnið. Vonandi verður hann einhvers vísari um lífið, tilveruna og sjálfan sig. Ég er alveg búin að máta mig í kassann og veit að ég vil vera utan hans.
Ég sá viðtal við Godd í vikunni sem fannst forvitnilegast að sjá viðbrögð annarra nema í Listaháskólanum sem fylgdust með Almari á YouTube í stað þess að fylgjast með honum í kassanum sem var steinsnar frá. Niðurstaða mín: Það er forvitnilegt að fylgjast með fólki fylgjast með kallinum í kassanum, eins og að fylgjast með börnum horfa á myndir sem skemmta þeim eða vekja með þeim óhug. Ég hef stundum haft meira gaman af að fylgjast með viðbrögðum annarra við bíómyndum en að fylgjast með bíómyndinni.
Almar er aukaatriði, viðbrögð okkar eru málið. Það hvarflar hins vegar ekki að mér eitt einasta augnablik að það sé létt að vera í kassanum í heila viku. *hrollur*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 1. desember 2015
Lögmæti smálána?
Í gær var umræða á þingi um lögmæti smálána. Já, smálán eru lögmæt sem í mínum augum þýðir að okurlánastarfsemi er lögleg. Flestir þingmenn virðast á því að það þurfi að stemma stigu við þessari starfsemi en enn er beðið eftir niðurstöðu í dómsmáli sem smálánafyrirtæki hafa höfðað gegn Neytendastofu vegna dagsektarákvarðana.
Ég held að þetta sé bara eitt af því fáa sem ég skil ekki. Af hverju eru vextir upp á 2.0003.000% ekki ólöglegir?
Er það af því að sveitarfélögin ... eru oft að greiða niður þessar skuldir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 27. nóvember 2015
Svarti Valentínus ...
Þessi svarti föstudagur sem ég heyrði fyrst um í byrjun vikunnar er margra áratuga gamall í Bandaríkjunum. Svartur?!? Skattsvik? Nei, mánuði fyrir jól fara verslanir úr rauðu yfir í svart skv. Wikipediu. Kannski er ekkert að marka hana. Getur verið að verslanir séu almennt röngu megin við núllið þangað til mánuði fyrir jól? Er veltan í jólamánuðinum svo mikil að verslanir geti verið með taprekstur í 11 mánuði?
Og, já, ég viðurkenni að ég er ekkert á veininu hérna yfir öllum þessum innfluttu hefðum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. nóvember 2015
Pó-li-tík!
Ég er ávallt óvissuatkvæði þannig að ég ætla ekki að fjalla um flokkapólitík, skoðanakannanir eða almennar pólitískar skoðanir þótt ég nefni pistilinn minn þessu nafni. Nei, ég datt inn á Politiken og las grein um smálán. Já, þessi helv. lán tíðkast líka í útlandinu. Í greininni kemur fram að sjöundi hver Dani á aldrinum 18-30 ára eigi í fjárhagserfiðleikum.
Ég verð svo gröm þegar ég hugsa út í það. Ungt fólk er mótað af samfélaginu sem það elst upp í. Auðvitað er ekki allt ungt fólk eins en í samfélögum eru samt meginlínur. Ef tilhneigingin er sú að fólk eigi að geta eignast margt á unga aldri er erfitt að standa á móti þrýstingnum. Það er tölva, sími, eigið húsnæði (í eigu eða á leigu), bíll, skyndibiti (í einhverju íslensku dagblaði er vikulegt viðtal við eitthvert ungmennið sem á erlendar uppáhaldsborgir og talar um dýra veitingastaði sem staðinn sem það fer iðulega á), já, eilífar utanlandsferðir og það sem mér finnst almennt að fólk eigi að hafa dálítið fyrir að eignast. Það er engum hollt að fá allt upp í hendurnar.
Sem sagt, smálán eru auðfengin en þau eru dýr og þau þarf að endurgreiða. Mér finnst að þau eigi ekki að liggja svona á lausu, mér finnst að löggjafinn eigi að setja okurlánurunum stólinn fyrir dyrnar og mér finnst líka að við eigum að passa okkur á því að mæla ekki upp í ungu fólki hvötina og löngunina til að eignast allt á stundinni.
Guð forði mér frá því að rifja upp þegar ég fékk reiðhjól í sumargjöf þegar ég var 14 ára - en mér fannst ég hafa himin höndum tekið. Sem betur fer þróast tæknin og margt sem var ekki til þegar ég var 14 ára er sjálfsagt í dag en samt vil ég að allt fólk, ungt, miðaldra og gamalt, hafi hæfilega mikið fyrir hlutunum. Og það að hringja eftir lánsfé þegar mann langar í pítsu og súkkulaði eða í bíó eða í helgarferð til Brussel er - ekki - heilbrigt.
Og hananú.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. nóvember 2015
Hundruð en þúsundir?
Við tölum um mörg hundruð manns nema þegar við tölum um mörg þúsund manns. Hvaðan kemur það að tala um þúsundir (réttilega) en æpa af sársauka (ég) þegar einhver mismælir sig og segir hundruðir?
Hundrað er alltaf hvorugkynsorð en þúsund getur verið hvorugkyns OG kvenkyns!
Annað skrýtið er að foreldri er hvorugkyns í eintölu en karlkyns í fleirtölu.
Stundum er erfitt að standa fast á reglum sem eru órökréttar. Það á ekki við um foreldrana samt ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. nóvember 2015
Geena Davis hvað?
Ég er sorglega illa að mér um kvikmyndir og sá í kvöld fyrir rælni stórmyndina Top Secret (1984) með Val Kilmer. Mér skilst að Hernaðarleyndarmál hafi verið hans fyrsta alvörumynd. Þótt ég setji tvö orð í gæsalappir er ég sannarlega ekki að gera grín að þessari skopádeilu, ég hló alveg fantamikið mestallan tímann, samt sýnu meira framan af. Myndin er 31 árs og mér finnst alveg hvínandi undarlegt að hún hafi farið framhjá mér allan þennan tíma.
Ég man eftir einhverri mynd með Geenu Davis (The Long Kiss Goodnight?) sem sendi James Bond fingurinn. Ef ég man rétt hvaða mynd það var er hún samt 12 árum yngri en Top Secret. Já, ég á margt ólært í kvikmyndafræðunum. En ég veit þó að Geena Davis hefur gert margt merkilegra og/eða annað en að leika í misgóðum bíómyndum. Og þó er Thelma og Louise frábær mynd ...
Hvar fær maður hraðkennslu um bíómyndir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)