Færsluflokkur: Dægurmál

330.000 manna tungumál

... og ég vil viðhalda því eins og Sif Sigmars.


Skáldalaun vs. ráðgjafarlaun

Ég hef enga sérstaka sannfæringu fyrir þeirri aðferð sem er notuð til að launa skáldum og öðrum þeim sem leggja okkur til umhugsunarefni og afþreyingu. Ég er ekkert sérstaklega vel að mér um umsóknarferlið eða hver tekur ákvarðanir um útdeilingu fjárins. Ég gef mér bara að það sé ekki alltaf sama fólkið sem ákveður það.

En ég get sagt að mér finnst skondið að heyra fólk tala um í öðru orðinu að ekki megi umbuna fólki fyrir listsköpun ef það getur ekki „selt“ nógu mikið til að lifa af og í hinu orðinu að ekki megi umbuna fólki sem selur nógu vel til að lifa af því. Listamannalaunin eru 350.000 á mánuði, verktakalaun. Ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið er eftir þegar fólk er búið að borga launatengd gjöld en ég veit að margir með þau laun þurfa að drýgja tekjurnar með meiri vinnu.

Og ég hallast að því að Steinunn Ólína hafi býsna mikið til síns máls í grein sinni um ósanngjarna umfjöllun um Andra Snæ af því að nú hefur hann verið orðaður við forsetadæmið. Í litlu málsamfélagi er brýnt að slaka ekki á kröfunum, við getum ekki leyft okkur að skipta úr íslensku yfir í ísl-ensku og svo ensku, a.m.k. ekki umræðulaust. Ef við ákveðum að varpa okkar gegna tungumáli fyrir róða finnst mér að það þurfi að gerast að undangenginni umræðu. Um leið gerum við okkur þá grein fyrir að Íslendingasögurnar gætu glatast og margt annað sem er snúið í þýðingu.

Ókei, kannski er sumum sama um það. Ekki mér og ég er til í að berjast fyrir því. Þannig held ég að vel ígrundaðar bækur á vönduðu máli sem ögra okkur - jafnvel þeim okkar sem lesa ekki bækurnar sjálfar heldur tala bara við þá sem lesa þær - séu mikilvægar, mikilvægari en þær sem seljast staðfastlega fyrir hver jól af því að þær eru á þægilegu og ögrunarlausu máli. 

Hins vegar er ég ósköp fegin að þurfa ekki að ákveða hver fær skáldalaun frekar en hver fær ráðgjafarlaun í bönkunum fyrir að benda fólki á snargalnar ávöxtunarleiðir.


Sorphirða

Ég vildi að ég gæti bætt umræðuna um sorphirðu í Reykjavík en ég er voða hrædd um að ég sé bara sömu skoðunar og stóri hópurinn, vildi óska þess að sorp væri tekið nógu ört til að það hvorki myglaði né lyktaði í tunnunum og að verðið væri sanngjarnt. Við mitt hús er pappírstunna sem mætti hins vegar mín vegna hverfa út í buskann, þ.e. á sama stað og dósagámurinn er, já, og fatagámur Rauða krossins, því að það er ekki ofverkið mitt að bera pappírinn þangað. Ég þrái aftur á móti að fá moltutunnu á vegum borgarinnar því að ég get hvorki stundað moltugerð á svölunum né í garðinum. Til vara vildi ég fá góðar leiðbeiningar um hvernig maður getur orðið sjálfbær í þeim efnum. Fátt leiðist mér meira en að henda nýtilegum hlutum, þar á meðal mat.


Alias

Að spila (á jólunum) er góð skemmtun. Þó kom upp eitt vafatilvik í Alias um helgina. Það er auðvitað borin von að einhver lesandi geti dregið mig að landi en kannski glöggva ég mig með því að skrifa þetta upphátt ...

Orðið var höfuðleður og því var lýst sem einhverju sem væri á hausnum. Mér finnst ótækt að lýsa HÖFUÐleðri með einhverju sem er á HAUSnum því að höfuð og haus er það sama. Samt finnst mér í lagi að vera með orðið grobb og segja að það sé samheiti við mont.

Ég er ekki ein um þessa tilfinningu en okkur reyndist erfitt að rökstyðja þetta með öðru en tilfinningu. Hvernig væri best að lýsa

- bókbandi? Maður les texta í ... og þegar bók er komin segir maður að bókin sé í einhverju. Nei?

- hræðslupúka? 

- sláttuvél? Maskínu sem er notuð til að fjarlægja gras. Nei?

Samt er gaman að spila ...


Skaupið ... í rúminu

Við sum bætum stundum í gríni „í rúminu“ eða „in bed“ aftan við málshætti á páskum til að þykjast vera fyndin. Mér finnst við fyndin. Morgunstund gefur gull í mund ... Sjaldan launar kálfur ofeldið ... Margur verður af aurum api ... Hátt hreykir heimskur sér ... Dramb er falli næst ...

Fram eftir áramótaskaupinu í gær velti ég fyrir mér hvort það yrði meira og minna í rúminu. Svo fór ekki ...

Ég er greinilega einn af þessum leiðindapúkum sem fannst það dálítið ófyndið, aðallega langdregið. Af hverju var Landinn aftur og aftur? Ég næ því að hann á það til að vera hægur og þegar sauðfjárburðurinn var sýndur í beinni útsendingu (sem var ekki Landinn samt) gerðist ekki mikið á hverri mínútu eins og í hasarmyndum. Justin Bieber, dýrir hlaupagallar, Icehot1 - mér fannst fyndnast þegar þau þóttust svo hafa slökkt á tölvunni þegar þau voru búin að skrá sig á ævintýrasíðuna - og svo hljómaði lokalagið óþarflega líkt lokalagi annars skaups.

En greindar minnar vegna áskil ég mér rétt til að skipta um skoðun þegar ég horfi aftur eða heyri einhvern hlæja óskaplega að atriði sem mér fannst ófyndið í gær. 


Sögumaður Braga Ólafssonar

Ég vildi óska þess að einhver reyndi að segja mér, með rökum, að Sögumaður Braga Ólafssonar ætti erindi við mig. Ég hef lesið margar af bókum Braga og hann skrifar oft um lúsera, undirmálsmenn, fólk sem er erfitt að gefa rödd af því að það hefur ekkert að segja, ekkert fram að færa, en G. er verri. Hann hefur ekkert gert, ekkert farið, ekki lifað og er orðinn 35 ára. Hann veitir tilgangslausa eftirför manni sem hann á ekkert erindi við og það versta er að sögunni bara lýkur án nokkurra eiginlegra loka. Það er engin afhjúpun, enginn vendipunktur. Vonbrigði.

Af eldri bókum Braga er ég einkum hrifin af Samkvæmisleikjum. Þar var aldeilis aumingi á ferðinni en fantavel skrifuð saga um óskaplega viðkvæmt efni og ég fæ enn hroll þegar ég hugsa til endisins sem varpaði skjannabirtu á alla söguna sem maður var þá að klára.

Ef einhver varpar áhugaverðu ljósi á Sögumanninn er ég tilbúin að endurskoða afstöðu mína og reyna að sjá það ljós.


Halldóra Geirharðs

Sú var tíð, og ég vona að mér fyrirgefist það, að mér þótti Halldóra Geirharðsdóttir leiðinleg leiðkkona. Nú skil ég það ekki. Ég er að horfa á jólatónleika Sinfóníunnar þar sem hún er kynnir í hlutverki Barböru trúðs, alveg stútfull af húmor og væntumþykju. Og það er ekki í dag sem mér snýst hugur. Sem betur fer er langt síðan ég sá hvaða mann hún hefur að geyma. Því miður vill hún ekki verða forseti Íslands því að ég vildi svo gjarnan kjósa hana í það embætti. Úr því að ekki stendur til að leggja það niður.

Lifi Maxímús.


Er öldrun sjúkdómur?

Kannski er svarið já þótt mér finnist það tæpast. En hvenær er maður gamall? Að lögum 67 ára á Íslandi. Hversu margt frískt og lífsglatt fólk þekkir maður sem er samkvæmt því orðið gamalt en er með tryggar tekjur? Margt. Þá er „öldrun“ hvorki sjúkdómur né fötlun. 

Mér leiðist þegar aldur og örorka er spyrt saman eins og gert hefur verið í fjárlagaumræðunni. Í mínum augum er það svo gjörólíkt. Mér finnst hins vegar að fólk sem er undir fátæktarmörkum, fólk sem getur ekki framfleytt sér, t.d. fólk sem hefur unnið slítandi láglaunavinnu alla fullorðinsævina, eigi að vera með örugga framfærslu. ENGINN á að þurfa að lepja dauðann úr skel eða hanga á horriminni.

Er kannski pólitískt rangt að tala um fólk undir hungurmörkum í stað merkimiðans „aldraðir og öryrkjar“?

pabbi í partíi (94)


... velur mann ársins

Vísir biður nú fólk að velja með sér mann ársins 2015. Ég er búin að velja Ástu Kristínu sem var ákærð um manndráp í vinnunni en sýknuð um daginn. Hún hafði ákæruna og mögulegan dóm, vegna manneklu í raun, yfir höfði sér í þrjú ár. Ómanneskjulegt, eins og það kemur mér fyrir sjónir. Ég valdi líka Sigrúnu sem synti yfir Ermarsundið í haust. Ekki aðeins var það mikil dáð heldur var hún svo dásamlega hreinskilin þegar hún kom í land eftir tæpan sólarhring. Ég fylgdist með fréttum með öðru auganu. Ég syndi í Nauthólsvík á sumrin og einstaka sinnum á veturna. Stefni loks á mitt fyrsta nýárssund um áramótin.

Það eru auðvitað margir kallaðir. Ég hefði ekkert á móti því að kjósa Sævar stjörnu sem hefur fært heilu kynslóðunum áhuga á stjörnufræði í gegnum útvarpið og sólmyrkvagleraugun. Alltaf áheyrilegur. 

Kári hefur óvænt tekið sér sérdeilis skýra stöðu með Landspítalanum og það er flott hjá honum. Björgunarsveitirnar eru mannvinir en dálítið andlitslaus hópur. Fólk á að sýna þeim stuðning með buddunni. Finnst mér.

Og þótt ég hafi fylgst með Almari þrauka í kassanum í upphafi desembermánaðar finnst mér hann langt frá því að vera maður ársins. Og ég er sannfærð um að hann er sammála mér.


Bjalla forseta

Ég hef fylgst með hinni æsispennandi rás 73 í kvöld, þar á meðal þegar þingmenn töluðu um að bjalla forseta þingsins truflaði hljóðgæðin. Já! Ítrekaður bjöllusláttur gerir það. En ég er með svarið. Forseti á að hafa leyfi til að rjúfa útsendingu og upptöku ræðunnar þegar tíminn er búinn. Þingmenn vita oftast nær hvað tímanum líður og eiga að virða rauða ljósið eins og við gerum í umferðinni. Mig grunar að þingmenn tali ekki óvart fram yfir tíma sinn, hvort sem hann er mínúta eða klukkutími.

Svo mætti hafa skjá í þingsal sem sýndi áhorfendum á pöllunum nafn þess sem talaði, málsheitið og tímann sem eftir lifði.

Getur ekki verið að í öðrum þingum sé meiri upplýsingar að hafa?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband