Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 16. ágúst 2010
Geysir, Dettifoss, Reynisfjara, vörður o.fl.
Það er gaman að segja frá því að Kári Kristjánsson stendur vaktina með sóma í Laka, a.m.k. nú í sumar. Ég hef að vísu bara komið þangað tvisvar en í bæði skiptin spratt hann út úr bílnum, tók sér stöðu við upplýsingaskiltið og leiðbeindi komumönnum. Bæði útskýrði hann leiðina sem best væri að fara og brýndi fyrir mönnum að gróðurinn væri viðkvæmur og að við þyrftum að halda okkur við stígana. Hann býr í Blágili og er alveg vakinn og sofinn.
Þetta vekst upp fyrir mér þegar ég hlusta á Ólöfu Ýrr ferðamálastjóra og Baldvin Jónsson leiðsögumann (ekki í leiðsögumannatalinu) tala í Kastljósinu um gjöld, aðbúnað og öryggismál á fjölsóttum ferðamannastöðum. Ég er alveg á því að aðbúnaður þurfi að batna og ég get ekki skilið að peninga skorti. Peningur kemur inn á þessum stöðum og það ætti að vera hægt að nota hann í stígagerð - og landvörð sem t.d. varar fólk við gáleysislegri hegðun. Og mætti ég biðja um að fólk hætti að henda klinki í Blesa, það væri nær að skilja eftir gild greiðslukort eins og dæmi eru um í Flosagjá ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Farsímafár
Eins og gefur að skilja hefur margur farsíminn ratað inn á heimilið. Allir gefa þeir upp öndina fyrr eða síðar en hver með sínu móti. Nú sýnist mér kreppusíminn sem ég keypti 4. október 2008 af verulega illri nauðsyn vera að syngja sitt síðasta og það í hljóði. Hann slekkur á sér, klárar hleðsluna á fimm klukkutímum í bið, frýs - og tekur myndir að eigin frumkvæði. Í alvöru, hann bara liggur á borðinu og katsjinnng, allt í einu opnast myndavélargatið og hann smellir mynd af borðinu.
Mér finnst þetta skárri aðferð til að ljúka farsímalífi sínu en að hætta skyndilega þegar ég er að hlusta á spennandi þátt í útvarpinu (í símanum).
Og nú þarf ég enn að leita mér að síma sem uppfyllir lágmarkskröfur mínar. Kannski sunnudagurinn fari í það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Hvað hangir á Mílunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 11. ágúst 2010
Í lok ferðar
Nú er ég búin að vera hálfsambandslaus á gangi á Suðurlandi með átta Þjóðverja sem sögðu salíróleg: Meðan þið sem búið á Íslandi eruð róleg yfir eldfjöllunum erum við það líka.
En hvað veit maður? Hekla hótar að gjósa með korterisfyrirvara, Eyjafjallajökull reykti meðan við fórum inn í Þórsmörk og forsetinn ,,hótar" útlendingum með Kötlu sem er löngu komin á tíma. Við keyrum framhjá augljósum ummerkjum um vatnsflóð og á gangi meðfram Skógaá fer ekki á milli mála að þar féll aska fyrir skemmstu. Jöklar aka sér til, hopa og gliðna meðan við stingum niður fæti.
Er öryggið áreiðanlega áreiðanlegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. ágúst 2010
Hengillinn er skæslegur
Að vísu herma heimildir að Hengillinn sé megineldstöð og þótt hann hafi ekki látið á sér kræla í 2000 ár fer því fjarri að hann sé sofnaður svefninum langa. Rölt um hann er því ekki endilega hættulaust, frekar en ráp upp á Heklu. En hey, það er líka hættulegt að ganga yfir götuna þannig að ég mæli eindregið með hæfilegri gönguleið í Henglinum. Þær spanna samtals eina 125 kílómetra þannig að allir ættu að geta fundið sína eigin ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. ágúst 2010
Hvalfjarðargöng
Er verið að spara rafmagn með því að hafa lýsinguna svona naumt skammtaða í göngunum? Ég sá nefnilega í fréttatímanum að það munar miklu. - Kannski er þetta ástæðan fyrir að ég keyrði einu sinni í gegnum göngin á 40 kílómetra hraða ... á mótorhjóli. Þvílíkt sem ég var stressuð.
Væru ríkisrekin göng öruggari? Maður spyr sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 3. ágúst 2010
Traffík í Reykjadalnum
Ég æfði stafagöngu í uppsveitum Hveragerðis í dag. Þar var stríður straumur útlendinga á leið í heitu ána. Fólk stoppaði mig og spurði hvað það ætti langt eftir í heitu laugina. Og ég fór að hugsa um hvers vegna ferðaþjónustan utan um skemmtiferðaskipin býður ekki gönguferðir með hinum ferðunum. Það er langtum yngra og frískara fólk farið að sigla á þessum skipum, fólk sem er til í smááreynslu.
Þarna er himnesk litasamsetning, hverir, hveralykt, smápríl, 2ja tíma róleg ganga. Svo má prjóna Þingvöllum við ef um er að ræða heilan dag.
Þegar ég var í skipunum fórum við stundum salíbunu upp á Langjökul, ekki á sleða eða neitt heldur bara keyrðum upp á jökul með fólkið aftan á vagninum. Kannski voru þær lagðar af en ferðaþjónustan þarf stöðugt að brydda upp á nýjungum. Eitt árið var rúntur í Rauðhólum sem náði ekki flugi.
Ganga í Henglinum gæti hins vegar gert sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. ágúst 2010
Allir í sundi
Það var ekki hægt að kvarta undan mannfæð í sundlaugunum mínum um helgina. Í dag varð ég t.d. að láta mér nægja að svamla í heitasta pottinum og kryfja heimsmálin þar sem allar brautir voru uppteknar þann tíma sem ég hafði tekið frá til sundiðkunar.
Er þessi íþrótt ekki að verða æ vinsælli?
Næstu vikuna eða svo ætla ég að ,,æfa" göngur - enda styttist tíminn í annan endann áður en mitt árlega 10 km hlaup hefst. 21. ágúst er hin heilaga dagsetning þessa árs. Fjölmennum í skokk Reykjavíkurmaraþonsins!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. ágúst 2010
Íbúðin mín óskast
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. júlí 2010
Jarðböðin í Mývatnssveit
Áður en ég fór með þýsku farþegana mína hringinn hafði ég í hyggju að stinga upp á ferð í Jarðböðin af því að mér sýndist við hafa góðan tíma í Mývatnssveit. Á daginn kom svo að ég hafði annað plan í höndunum en þau og Húsavík með hvalaskoðun, Tjörnes, Ásbyrgi og Dettifoss bættist við daginn sem ég ætlaði að stinga þeim í lón.
Daginn eftir ákvað ég því að við keyrðum að böðunum og litum á þau. Þá var ekki búið að opna hálftíma eftir auglýstan opnunartíma, matarleifar voru á veröndinni og engin önnur ummerki um mannaferðir. Þarna stóð ekki til að selja þeim neitt - en helv. hefði það líka verið erfitt. Og það er ekki eins og það taki því ekki að rukka, auglýstur aðgangseyrir er 2.500 kr.
Hefur einhver tekið sprettinn í norðurlóninu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)