Færsluflokkur: Dægurmál

Hækkanir og vísitölur

Víst væri gaman að geta komið með lausn á vanda en það er ekki svo gott. Ég ætla bara að segja það sama og ýmsir hafa sagt og sjálfsagt fleiri hugsað. Látum vera þótt gjaldskráin hjá OR hækki en látum ekki vera að hækkunin fari inn í vísitöluna og hækki bæði matvöru og húsnæðislán. Er ekki hægt að aftengja það?

Ég endurtek: Er ekki hægt að skilja á milli vísitölunnar og heitavatnshækkunarinnar? Voru þær pússaðar saman í eitt skipti fyrir öll? Kannski með vitund og vilja kirkjunnar?

Nú er tíminn sem menn þurfa virkilega að hugsa út fyrir rammann.


fráfarandi er ekki samasem fyrrverandi

Ég hef heyrt fólk tala um fráfarandi biskup ÓS. Það er ekki hægt, hann er fyrrverandi. Fráfarandi er sá/sú sem er að hætta.

Lotutúlkun

Ég er á hraðnámskeiði, hálfgerðu skyndinámskeiði, í lotutúlkun þessa vikuna. Ég hef aðeins og bara örlítið fengist við túlkun, yfirleitt þá fengið ræðurnar fyrirfram - og fundist það nógu erfitt. Það sem dr. Dorte er að kenna okkur er hvernig á að túlka ræðu sem er haldin í allt að korter og svo kemur að túlkinum. Þá reynir á (tungumálaþekkinguna, jájá, og) punktatækni.

*svitn*

Ég held að það ætti að kenna hraðritun. Dorte þessi hefur komið sér upp, fyrir sig, alls konar dulmálslyklum fyrir Evrópu og Evrópubúa, lýðræði, í gær og á morgun, fyrir 15 árum, síðustu 15 árin, efnahag, fjármálastjórnun, þróun og sjálfbæra þróun - með orðum úr ýmsum tungumálum og brosköllum, samsettum táknum o.s.frv.

Spennandi. Kannski er framtíð í'ðessu.


Ljótu hálfvitarnir eru uppáhalds

Fullseint að plögga á þessu ári nema þið eigið eftir að fara til Færeyja í lok september en ég mæli þvílíkt hástöfum með tónleikum Ljótu hálfvitanna. Ég hló fyrir allt sumarið í gærkvöldi því að ekki aðeins syngja þeir og spila dáindisvel heldur segist þeim svo vel frá sönnum og lognum atburðum. Sævar er í essinu sínu í nánd við hljóðnema. Og Oddur Bjarni á a.m.k. þúsund svipbrigði. Ég gæti hugsað mér að mæta í messu hjá honum ef hann klárar guðfræðina og fær brauð.

Oddur Bjarni pósar

Of margar undirhökur Odds Bjarna miðað við höfðatölu!

Ekki hægt að sjá þreytumerki á hálfvitunum eftir þriggja tíma spilerí og uppistand 


30,5 krónur

Það er verðið á hafinni símamínútu ef maður hringir úr Tal-síma í Nova-síma. Mér sýnist verðið fyrir mínútuna annars á bilinu 16-21 kr.

Fimm símafyrirtæki í fámennu landi gera sér far um að koma hér upp frumskógi þannig að maður viti sem minnst.


Steinull og strigi

Eftir fantafína göngu um Öskjuhlíðina í kvöld (í boði OR) met ég heimsókn í undirheima Perlunnar hápunkt kvöldsins. Einar jarðfræðingur sagði mér að víst væri geymt 80°C heitt vatn í fjórum geymum af sex. Og við nokkur sérlega áhugasöm fengum að ganga undir Perlunni og skoða leiðslurnar - og einangrunina. Utan um leiðslurnar er steinull, utan um steinullina er strigi og hann er málaður hvítur. Kjarval hvað? Svo eru gormar til að mæta breytum í leiðslunum.

Gaman!

Og ekki spillti síðsumarsveðrið, seiseinei.


Frímúrarar, Seðló og strætó

Úrvalsmenningarhátíð í gær. Ég heilsaði upp á frímúrara, gekk um salarkynnin, fékk kleinu og las bæklinginn. Þeir segjast ekki fela neitt.

Ég skemmti mér við að fylgjast með vígslu nýs skiltis á Klambratúni og fór svo í Seðlabankann og reyndi að leysa aðsteðjandi vanda með stýrivöxtum.

Get ekki kvartað.

Verð hins vegar að kvarta undan strætó. Ég ætlaði til Hveragerðis í dag, skoðaði straeto.is og sá að ég gæti ekki tekið vagn upp í Mjódd þaðan sem leið 51 fer. Vagnarnir byrja nefnilega að ganga kl. 12 almennt og yfirleitt á sunnudögum í höfuðborg Íslands. Ég kom mér í Mjóddina með harmkvælum rétt fyrir 12 til að ná vagninum sem færi kl. 12 - en viti menn, á leiðaspjaldinu þar stendur að vagninn fari kl. 12:30. Strætókortasjoppusalinn kom af sömu fjöllum og ég og aðrir farþegar. Þetta er meintur vetrartími sem hófst víst í dag.

Leið 51 til Hveragerðis

Ætli dr. Gunni hefði staðið vaktina betur sem stjórnarformaður?


Reykjavíkur-10-km-LARGE

Ég sótti rásnúmer og önnur gögn í Laugardalinn áðan af því að ég ætla að hlaupa mína árvissu 10 kílómetra á morgun. Ég bið alltaf um stærð L í bol og nú sé ég mér til verulegrar furðu að hún hefur rýrnað um 25% frá árinu 2007. Táknrænt, geri ég ráð fyrir. Nýja L smellpassar utan um mig og þess vegna ætla ég að flagga gróðærinu á morgun.

Ermi 1 og ermi 2Sídd 2007 og sídd 2010


68 kóra söngur

Gva, hvað það var gaman að vera leiðsögumaður í gær. Sólin skein, leiðsögumaðurinn lék við hvurn sinn fingur, farþegarnir hlógu að öllum bröndurunum og launuðu með kórsöng, súkkulaði og faðmlögum. Finnski kórinn frá Vallis og ég vinguðumst hratt og örugglega.

Á morgun syngur hann með 67 öðrum kórum frá Norðurlöndunum og Eystrasalti úti um alla borg á menningarhátíð. Ég mun leita þau uppi og hvet aðra Reykvíkinga til að gera slíkt hið sama.

 


Nú kárnar gamanið - ég mótmæli

Vísir (hefur kannski hagsmuna að gæta?) segir mér að nú eigi að veita uppáhaldsþættinum mínum í útvarpi náðarhöggið. Ef einhver töggur væri í mér tæki ég nú á mig rögg, rigsaði upp í Efstaleiti og ætti gott samtal við símadömuna. Ég efast um að Páll sé ínáanlegur fyrir venjulega aðdáendur eðalþátta á Rás 1.

Skrambans.

Eins gott að Páll frétti ekki af því að ég hlusta líka alltaf á Vikulokin á laugardagsmorgnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband