Færsluflokkur: Dægurmál

Sögubókadagur

Landsdómur mun koma saman. Það er ómögulegt að segja hvað hann verður lengi að komast að niðurstöðu. Síðast var kosið (pólitískt) í hann 11. maí 2005 og umboðið rennur því út 11. maí 2011. Mun þetta fólk hafa einhver áhrif á framtíðarvirði Íslands?

Landsdómur (síðast kosið 11. maí 2005).

Kosning átta manna í landsdóm og jafnmargra varamanna til sex ára, skv. 2. gr. laga nr. 3 19. febrúar 1963, um landsdóm.
Aðalmenn: Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, fyrrv. borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson lögmaður, Dögg Pálsdóttir hrl., Brynhildur Flóvenz lögfræðingur.
Varamenn: Ástríður Grímsdóttir sýslumaður, Lára V. Júlíusdóttir lögmaður, Már Pétursson hrl., Sveinbjörn Hafliðason lögfræðingur, Björn Jóhannesson hdl., Magnús Reynir Guðmundsson bæjarfulltrúi, Jónas Þór Guðmundsson lögmaður (kosinn 30. nóvember 2009), Sigrún Benediktsdóttir lögmaður.

Vá, Wikipedia er búin að skrá nýjustu tíðindi.


Prófarkalesari sem tekur sig ekki alvarlega

Nei, ekki ég. Ég tek mig mjög alvarlega í vinnu.

Ég rakst á þetta þegar ég var að leita að handhægum upplýsingum um Njálu:

Þeir sem óska eftir frekari upplýsingum um prófarkalestur og/eða tilboðum í einstök verk er bent á netfang fyrirtækisins alvara@alvara.is          [feitletrun mín]

Þetta er það fyrsta sem hugsanlegur verkkaupi sér. Kannski er verkkaupinn ekki líklegur til að sjá beygingarvilluna, hahha, og þá sit ég bara uppi með hláturskastið. 


Kosið á stjórnlagaþingið 27. nóvember

Nú eru rúmar þrjár vikur til stefnu fyrir frambjóðendur til stjórnlagaþings og ég byrjaði í gærkvöldi að velta fyrir mér hvað ég vildi sjá í framboðunum.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er ekkert sérlega seinlesin enda á hún að vera hverjum læsum manni mjög aðgengileg. Henni á að breyta.

-Styrkja þrískiptingu valdsins?

-Halda forsetanum? Fækka tímabilunum ofan í tvö? Auka ábyrgð hans?

-Fækka kjördæmunum, jafna atkvæðavægið?

-Bæta við grein/um um stjórnmálaflokka?

-Aðskilja ríki og kirkju?

-Hnykkja á eignarréttinum?

-Hnykkja á atvinnufrelsinu?

-Hækka/lækka kosningaaldur og/eða kjörgengi?

-Fiskur, heitt vatn, kalt vatn, olía - þjóðareign/almannaeign? Einkaeign?

Línur mínar eru farnar að skýrast og nú bíð ég spennt eftir framboðunum.

Á einum stað í kynningargögnunum stendur:

Maður má því bara mæla með einum frambjóðanda - en hver frambjóðandi þarf bara 30-50 meðmælendur hvort eð er. Einn skólabekk.

Það er líka ábyrgðarhluti að kjósa til þessa þings.


Bíllausi dagurinn 22. september

Það er puð að hjóla, sérstaklega upp brekkur. Mér þætti reyndar raunalegra að hjóla í lausu lofti, sem sagt inni í sal. Þess vegna nota ég gripinn til að koma mér á milli staða. Og þá er nú aldeilis hippt og kúlt að hafa hjólavefsjá til að sjá bestu leiðina milli hverfa.

Hef ég sagt nákvæmlega þetta áður?

Nei, ég held að hjólavefsjáin sé ný.


Aldrei heyri ég sögusagnir fyrr en þær eru bornar til baka

Þessi er dæmi um það. Annað hvort er ég þá svona illa tengd eða ...

Fælingarmáttur hótela

Ég frétti af hóteli áðan sem rukkaði 280 krónur fyrir byrjað símtal. Það stóð yfir í u.þ.b. hálfa mínútu og náði úr fastlínu í Borgartúni í fastlínu í Mánatúni. Engar ýkjur. Fór fram á móðurmálinu.

Ein nótt í herberginu kostaði 33.000 krónur. Maður getur spurt sig hver borgi það verð. Svarið er ekkert annað en að það er meint listaverð. Túristar sem frílysta* sig á eigin vegum á Íslandi og detta inn á stað með svona okurverðlagðri þjónustu byrja að tala um það þegar þeir koma heim, segja svo oft og mörgum sinnum frá okrinu.

Þetta er landkynning sem segir STOPP.

 

*Orðið fer betur í munni en er víst stafsett svona.


Hvort heitirðu A eða Ö?

Ég hef um hríð haft á lofti þá kenningu að fólk skírði börnin sín í auknum mæli nöfnum sem eru framarlega í stafrófinu til að þau þyrftu ekki að bíða lengi eftir að fá að taka leikfimiprófið eða munnlega prófið í ensku. Mér er í fersku minni hvað mér fannst gott að heita alltaf u.þ.b. þriðja nafninu í skóla, var aldrei alveg fyrst en alltaf snemma búin. Kennararnir mínir voru nefnilega mjög ferkantaðir í þessu, byrjuðu fremst og unnu sig niður/aftur stafrófið.

Um helgina spjallaði ég við Þ hjúkrunarfræðing sem man nefnilega hvað það var raunalegt að þurfa alltaf að bíða þangað til hinir voru búnir og þegar á það hefur reynt hjá henni hefur hún lagt sig fram um að byrja stundum aftast, stundum í miðjunni og hafa stundum handahóf. Ef kennarar væru meira vakandi fyrir þessu held ég að Össur, Æsa og Völundur mundu aftur sækja í sig veðrið.


Útlenskukunnátta og túlkaþjónusta

Ef svo einkennilega skyldi vilja til að fólkið sem fór í víking til annarra landa skyldi ekki kunna tilhlýðilega mikið í útlenskunni sem það brúkaði meðan það lagði undir sig land og annað væri alltaf hægt að fá hjálp túlka. Kannski ætti að túlka í dómsmálum í útlöndum yfirleitt svo menn geti einbeitt sér á sínu eigin tungumáli við að skýra mál sitt.

Hvernig dettur mönnum í hug að bera fyrir sig svona bull og halda að þeir þurfi þá ekki að svara fyrir sig í dómsmáli?

Hvað vantar í fréttina? Hefur fólk almennt val um að segjast ekki vilja svara ákærum dómstóla? 

Eftirfarandi orð féllu í þættinum Víðsjá (sé ekki hvenær):

Þannig er mörgum væntanlega í fersku minni að blessuðum bankamönnunum okkar þótti íslenska til lítils brúkleg í allri útrásinni fyrir nokkrum árum og töldu eðlilegt að taka upp ensku í sem flestum þáttum starfsemi sinnar.

Að vísu má leggja þau út sem skoðun Finns Friðrikssonar en ég held að flestir kannist við hugmyndina. Stjórnmálamenn lögðu þetta líka til í fyllstu alvöru. Enskan sótti verulega í sig veðrið út af nálægð við hinn stóra (viðskipta)heim og íslenskan átti meira og meira undir högg að sækja.


Væntingastuðull vegna spennubókar

Einhver segði sjálfsagt að ég hefði óalmennilegan smekk (eins og ég hef verið kölluð húmorheft (með snert af kímni samt) fyrir að finnast ekki The Office skemmtilegur þáttur) en nú er ég komin á blaðsíðu 70 í meðmæltri spennubók (sá m.a. þau meðmæli að best væri að byrja ekki fyrr en maður hefði nægan tíma til að lesa lengi) - og ég sofna út frá henni.

Næst verður það eitthvað almennilegt, t.d. Íslandsklukkan, Innansveitarkronika (sem nemandi mælti með við mig (fyrir 14 árum)), Karamazovbræður eða Atemschaukel eftir Hertu Müller. Já, og Grettla.


Svifryks- eða öskugleraugu hefðu ekki verið til skaða í dag

Ég ,lenti í löngum hjólatúr í dag og sá varla út úr augunum á Sæbrautinni. Nú skilst mér að Eyjafjallajökulsaska hafi byrgt mér sýn en ég var farin að halda að ég væri í vafasömum útlöndum.

Viðey?

Tyrkland

Sveheppir

Ég sá skítugri sveppi en þá var ég orðin svo súr í augunum að ég ákvað að fara stystu og fljótförnustu leið heim og kasta mér í inniskjól.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband