Færsluflokkur: Dægurmál

Að koma fyrir kattarnef

Ég veit að ég er óttalegt kvikindi. Þess vegna hló ég upphátt þegar fréttamaðurinn sagði áðan að hér [á skjánum] mætti sjá X koma líkinu fyrir kattarnef [í sjónvarpsþætti].

Hann drap sem sagt líkið. Og það er ekkert gamanmál. En þetta var bara þáttur.

Auðvitað getur líka verið að málkennd mín sé broguð en ekki fréttamannsins. Skv. Snöru þýðir það að koma e-u fyrir kattarnef líka að útrýma e-u, ónýta e-ð.

Ég er samt frekar kokhraust í gagnrýni minni. Og ætla að hlæja að þessu annað slagið.


Hver eru laun flugumferðarstjóra?

Það er voða auðvelt að hrópa á torgum en vantar ekki fleiri upplýsingar inn í umræðuna um kjaramál, uppsagnir og verkföll flugumferðarstjóra? Hjá Flugstoðum fann ég ýmislegt gott um flugumferðarstjórn en auðvitað ekkert um laun.

Á að setja lög og banna þeim tímabundið að fara í verkfall eins og ég heyri fólk tala um?


Styrkbeiðni frá Reykjavíkurborg

Þegar ég kom út í (láns)bílinn minn áðan sá ég að styrkbeiðni frá Reykjavíkurborg hafði verið smokrað undir rúðuþurrkuna. Ég er bóngóð og ætla að styrkja borgina um 2.500 krónur en jafnframt ætla ég að kvarta yfir því að jafnræðis skuli ekki gætt. Að minnsta kosti hér.

Þegar ég kom til baka var annar bíll í stæðinu sem ég hafði lagt ólöglega í. Þar eru bílar næstum alla daga og öll kvöld. Bílum er lagt upp á gangstétt, þeim er lagt þvert á akstursstefnu, þeim er lagt á öllum mögulegum götuhornum. Og ég sá enga miða í plasti með blárri rönd. Samt veit ég þess dæmi að bíll hafi fengið stöðubrotssekt á föstudagskvöldi þannig að einhverjir starfa fram eftir.

Mér er ánægja að því að láta þetta lítilræði renna til Bílastæðasjóðs en fyrst hann er í fjáröflun ætti einhver að benda honum á að Þingholtin eru matarkista.

Svo mætti borgin bæta almenningssamgöngur því að ég þá hefði ég t.d. ekki þegið (láns)bílinn. Og þá væri ekki eins tilfinnanlegur skortur á bílastæðum.


Landið eitt kjördæmi?

Ef mér skjöplast ekki var landið eitt kjördæmi í gær. Er þá ekki hér með komin hefð á svoleiðis kosningar líka? Jafngild atkvæði um land allt? Einn maður með eitt atkvæði?


Á morgun er 6. mars

Og þá er einmitt síðari dagurinn á vænlegu Hugvísindaþingi 2010. Mér finnst þessi setning forvitnileg:

Ef skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður komin út, verður höfð hliðsjón af henni.


Hannað og bannað í umhverfinu

Þegar sumir tala um list hugsa þeir augljóslega - sést á hugsanabólunni sem birtist fyrir ofan þá - um heysátur sem morkna, brauð sem myglar í útstillingu, abstrakt málverk sem segir þeim ekkert, niðurgreidda tónleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni eða annað sem þeim finnst auðvelt að gagnrýna. Ég vildi að nú hefðu fordómarnir tekið af mér völdin en því miður veit ég með vissu að þetta er tilfellið með suma. Ég gæti nafngreint nokkra einstaklinga en sé ekki tilganginn með því.

Mér finnst sum list líka hrikalega óspennandi, er ekki listlærð og hef smekk sem er sennilega bara andskotanum persónulegri. Og margir gætu sagt það sama og ég.

Ég renndi yfir lista þeirra sem fá listamannalaun 2010, vel að merkja kr. 266.737 á mánuði, og þekkti flesta rithöfundana, nokkuð margt sviðslistafólk og örfáa aðra. Ekki persónulega, heldur bara sem listamenn. En ætli háværustu gagnrýnendurnir hafi gefið sér tíma til að velta fyrir sér hvað þessar 200 manneskjur gera ár hvert?

Allt í umhverfi okkar er skapað og hannað á einhvern hátt. Bollinn sem við drekkum kaffið úr, sófinn sem við sitjum í, skórnir sem flytja okkur út úr húsi, já, og innanhúss líka, settið sem blasir við í sjónvarpinu, 500-kallinn, sundlaugin, búningsklefarnir, sundbolurinn, Benzinn, gleraugun, vefsíðurnar, bókakápurnar, vörumerki o.s.frv.

Við kveikjum á útvarpinu og hlustum á lag sem einhver hefur samið og útsett, komið í útgáfuhæft form og hannað umbúðirnar utan um. Rétti upp hönd sá sem vill tónlistarlausan heim.

Öll þessi færni á bak við alla þessa framleiðslu krefst þekkingar og vinnu. Menn þurfa að reka sig á, sumir verða aldrei frambærilegir, sumir verða aldrei mér að skapi en heilt yfir þokar þróun í listsköpun og hönnun okkur fram á veginn.

Jakob Frímann mætti í Ísland í bítið í morgun og sannfærði mig að auki um hagrænt gildi t.d. tónlistar sem endurspeglast í hinni árvissu Iceland Airwaves tónlistarhátíð sem laðar til landsins fjölda ferðamanna sem kaupa gistingu og ýmsa aðra þjónustu.

Mín vegna má alveg gagnrýna listamannalaunahafa. Á þeim hef ég enga sérstaka skoðun en ef valið ræðst af klíkuskap finnst mér hann jafn ömurlegur og annars staðar. En trúlega verður huglægi þátturinn alltaf með í svona vali. Í síðustu viku fékk göngubrú yfir Hringbraut verðlaun frá Steinsteypufélagi Íslands fyrir framúrskarandi steinsteypt mannvirki á síðustu fimm árum. Mér finnst þessi brú skemmdarverk og á því miður oft leið þarna yfir þetta forljóta ferlíki. Hef ég rangt fyrir mér? Hefur Steinsteypufélag Íslands rangt fyrir sér? Hafa menn spurt sig um kostnaðinn þar? Hafa menn áhyggjur af bruðlinu og hvort útkoman sé þeim að skapi?

Nei, sannarlega mega menn gagnrýna ef þeir rýna til gagns. Ég vildi bara óska þess að þeir myndu að allur andskotinn sem við höfum fyrir augunum og í eyrunum dagana langa er hannaður af kunnáttufólki.

Svo hef ég vitaskuld skoðun á Þráni og Þráni en eitthvað verður maður að hafa fyrir sig ...


Er sjósund málið?

Ef maður þarf að ögra sér held ég að rúntur út í Nauthólsvík gæti verið skynsamlegur. Bað í köldum sjó kvað víkka út æðar (hmm) og vera meinhollt, hreinlega á við íþrótt þótt sundtökin séu fá.

Kannski fullkalt samt í mars, ha?

 


Viðbragðsstaða - biðtími - leiði - uppgjöf

Þetta truflar mig í frétt Eyjunnar:

... íslenska samninganefndin í Icesave málinu er nú í viðbragðsstöðu í Bretlandi ef til nýrra viðræðna kemur. Óformleg samskipti hafa átt sér stað en ekki hefur boðað til formlegs samningafundar í dag.

Íslenska samninganefndin fór aftur til Bretlands í gærmorgun eftir að Bretar sendu þau skilaboð að þeir væru reiðubúnir að ræða tilboð Íslendinga í Icesave málinu.

Auðvitað er fórnarkostnaður í þessu flakki og tímadrápi og það er nógu slæmt en væri ekki eðlilegra að koma sér saman um fundartíma - og velja svo hlutlausan fundarstað? Helst Þórshöfn í Færeyjum eða Svalbarða en annars kannski Gautaborg þar sem hvorugur aðili er á heimaslóðum?

Viðsemjendur okkar virðast hafa forskot þegar þeir ráða stað og tíma.


Hver ,,fékk" auglýsingarnar?

Umræðan um auglýsingamagn í hinum ýmsu fjölmiðlum er mér óskiljanleg. Ég skil reyndar orðið að viðskiptalífið á Íslandi er ekki heilbrigt og stjórnast hvorki af heiðarlegri samkeppni né vilja til að vanda sig og ná meiri viðskiptum út á verðleika sína. Auðvitað eru margir heiðarlegir umsvifamenn en hinir óheiðarlegu sem eru of margir og alltof óheiðarlegir eru svo miklu meira áberandi. Hér er kannski við hæfi að nefna Melabúðina og Reykjavíkurapótek sem ég hef talsvert dálæti á.

Ef mæling sýnir hins vegar fram á það að lestur á einu blaði er útbreiddari en lestur á öðru blaði og markhópur auglýsandans næst í gegnum fyrra blaðið er mjög eðlilegt að auglýsendur noti það. Hvernig er þá hægt að tala um að Fréttablaðið hafi fengið auglýsingar frá Baugi? Er það kannski vegna þess að Baugur er ekki í heiðarlegum viðskiptum frekar en Arion, frekar en FL, frekar en Útilíf, frekar en Vodafone, frekar en Samherji, frekar en Lyf og heilsa, frekar en Sjóvá o.s.frv.?

Eiga allar stóru búðirnar monninga í ólöglegum handraða og þurfa þær ekki að auglýsa til þess að fólk viti hvar varan fæst og á hvaða verði? Er þetta bara montkeppni hananna?

Er ekki í öllu falli orðið tímabært að slíta á milli keðja sem eiga bæði búðir og fjölmiðla? Ég panta hér með gagnsæi, heiðarleika og sanngirni í hvívetna.


Sex grunaðir - sendir í langt frí

Á blaðsíðu 102 gafst ég upp á bókinni og mundi þá mjög skýrt að mér þótti Viltu vinna milljarð? a.m.k. tveimur sögum löng. Líklega kann ég bara ekki gott að meta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband