Færsluflokkur: Dægurmál

Innlenda orku á farartækin!

Jóhannes Björn Lúðvíksson var að segja í Silfri Egils að við ættum að einbeita okkur að því að nota innlenda orku á vélar á Íslandi. Hann spáir gríðarlegri olíukreppu innan ekki margra ára og þá er brýnt að eiga ekkert undir slíkum innflutningi.

Orð hans hljómuðu eins og ómþýðasta tónlist í mínum eyrum. Auka sjálfbærnina, takk. Núna - þið heyrðuð hvað maðurinn sagði.


EFTA vann!

Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar? EFTA vann ESB í söngvakeppninni í gær, allir skynsamir menn sjá þá hvað er eðlilegast að gera í framhaldinu!

Á leið heim úr hinu höfðinglega söngvakeppniboði í gær urðum við tvisvar fyrir gleðilátum áhugasamra áhorfenda og í bæði skiptin tók ég undrunina á þetta: Ha, hvaða keppni? Og: Ó, í hvaða sæti lenti íslenska lagið? Og annað hvort er ég (ennþá) svona góður leikari eða ungmennin sem í hlut áttu voru mjög trúgjörn. Ég skemmti mér konunglega.

Að auki legg ég til að Ármann verði sendur sem kynnir til Björgvinjar á næsta ári.


Arður 2007

Er frumskylda OR virkilega að greiða eigendum sínum arð? Ég átti verðtryggðan reikning og ríkisbankinn leit ekki á það sem frumskyldu sína að greiða mér vexti - og mér finnst það eðlilegt þegar ávöxtunin er neikvæð og þegar síðasti mánuður einkenndist af verðhjöðnun. Ég get viljað gera eitthvað í því, breyta forsendum sjálfrar mín, endurraða, hagræða í rekstri - en þegar OR ætlast til þess af starfsfólki sínu að laun verði lækkuð ofan á kaupmáttarrýrnun alls almennings hljómar mjög undarlega að greiða Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð ARÐ. Arð!

Arð af hverju? Eigið fé hefur minnkað. Guðlaugur Sverrisson svaraði í fréttum RÚV kl. sex eins og sá sem valdið hefur - þó ekki frá mér - og María Sigrún Hilmarsdóttir lét gott heita.

2007 lemur mann enn í hausinn.


Baráttulaus barátta?

Jafnrétti felst ekki bara í kynjun, en líka. Það verður aldrei allt jafnt, sumir eru fallegir, sumir gáfaðir, sumir fyndnir, sumir allt og aðrir ekkert. En barátta hefur aldrei unnist baráttulaust, ásættanlegur vinnudagur, veikindafrí og veikindafrí barna, laun og orlof. Kannski eru réttindi orðin of rík, kannski finnst það einhverjum, en getur einhver haldið því fram að frá 1904 til 2009 hafi aldrei nein kona verið hæf um að veita íslensku þjóðinni forystu? Eða að allir karlarnir sem völdust hafi verið hæfustu einstaklingarnir sem í boði voru hverju sinni?

Jöfn réttindi koma ekki á silfurfati þótt við höldum sum að þau séu sjálfsögð.


Borgarafundur í Borgartúni í kvöld

Yfirskriftin er skuldir heimilanna og aðgerðir.

Við erum landbúnaðarþjóð!

Það var hressandi að lesa pistil Hannesar Péturssonar í Mogganum í gær, um meint fæðuöryggi og íslenskan mat, íslenskt kaffi og fleira sem maður leggur sér til munns. Hannes tekur sér reyndar það skáldaleyfi að eftirláta lesendum að glöggva sig á hvað hann raunverulega meinar en mér sýnist hann mæla ESB-aðild bót.

Ástæðan fyrir því að mér var svo skemmt við lesturinn var að hann vandaði heiðarlega um við okkur með vel völdum orðum. Við erum roðhænsn.

Ég hefði hins vegar ekki stoppað við fyrirsögnina þannig að það var gott að aðrir urðu fyrri til að lesa pistilinn þar sem Hannes Pétursson les okkur pistilinn.


Spá og spá

Vita menn ekki að spár um athafnir manna hafa áhrif, rétt eins og skoðanakannanir? Spár um gang himintunglanna geta haft eitthvert gildi af því að þau láta sér í léttu rúmi liggja hvað háskólar hugsa. Hvað halda menn hins vegar að hugsanlegir kaupendur geri um mitt ár 2009 ef Seðlabankinn spáir að fasteignaverð lækki um 46% frá hæsta verði árið 2007 til ársloka 2010? Ég giska á að þeir bjóði verð í samræmi við framtíðarspá með vísan til hennar.

Þorleifur Arnarsson leikari setti sig í spámannslegar stellingar í Spjalli Sölva Tryggvasonar í gærkvöldi og þóttist hafa verið spámaður með varnaðarorð sem voru flutt á fjölmennum fundi á Norðfirði. Mikið vildi ég að spádómar og skoðanakannanir væru geymdar með öðru ruglandi einmitt þar. Á hverju byggir spádómurinn um frekara fall krónunnar? Og hvernig bregðast menn við? Hamstra?


Að fara í fatabúðir er leiðinleg iðja

Eftir viku fer ég í partí með indversku þema. Er nóg að mála blett á ennið? Eða verð ég að læra sanskrít og að tilbiðja kýr? Hafna ásatrúnni? Verða hlédræg?

Ef ég þarf að vera prúð og stillt get ég eins sleppt því að fara, eins mikill extróvert og ég er. Hmm. Ég læt ytra byrðið duga í þemanu og veðja á að ég finni slæðu eða mussu sem sleppur fyrir horn.


Ofgnótt 2007?

Mikið hafði ég heyrt um Konur eftir Steinar Braga en ekkert af því bjó mig undir lesturinn. Kunningi minn las hana og vildi helst ekki tjá sig fyrr en barnsmóðir hans væri búin að lesa hana. Hann lét að því liggja að hún væri svo kvenfjandsamleg. Vinkona mín rétti mér eintakið sitt og sagðist ekkert ætla að segja fyrr en ég væri búin að lesa hana en ýjaði samt að því að hún væri andstyggileg við konur. Ragnheiður felldi dóm um hana strax eftir jólin og fannst hún ruglingsleg. Á baksíðu kiljunnar eru sögunni gefnar allt að fimm stjörnum og þar gefur að líta gnótt lofsyrða.

Framan af er kynning á Evu sem virðist hafa klúðrað sambandi sínu við Hrafn alveg skiljanleg. Hún er verklítil, gefin fyrir sopann og síögrandi sínu nánasta umhverfi. En það virðist vera holur rammi utan um framtíð hennar í glæstu fangelsi Skuggahverfisins þar sem einhvers konar fjárglæframenn vilja gera hana að viðfangi sínu.

Mér er fyrirmunað að skilja söguna sem ádeilu á það bruðl og óhóf sem kennt er við árið 2007 þótt bankabéusar komi við sögu og flottræfilsháttur. Eva virðist vera tilfallandi fórnarlamb fólks sem hefur nægan tíma, nægt fé og gríðarlegt hugmyndaflug.

Aðallega er ég líklega vanþakklát því að ég þurfti að þræla mér í gegnum síðustu 80 blaðsíðurnar. Gerði það tvisvar og var engu sáttari í seinna skiptið.

Kannski er framboðið á 2007 bara svo yfirþyrmandi.


Flensa skrensa

Tortryggni mín gagnvart meintri grísaflensu er svo megn að ég sleppi engu tækifæri til að hlaupa upp um hálsinn á fólki.*

*Þar sem ég skil sjálf varla þessa ljóðrænu færslu ætla ég að hnykkja á með því að segja og halda til haga að ég held að fregnir af henni séu orðum auknar (eins og af andláti Marks Twains) og að þessum fréttafaraldri hljóta að linna hvað úr hverju.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband