Færsluflokkur: Dægurmál

Millenium í Brussel

Það var mikið malað í bíó í Brussel í gær. Við sáum myndina sem er gerð eftir fyrstu bók Stiegs Larssons hins sænska, myndina sem heitir á útlensku Millenium eftir tímariti þeirra Mikaels og Eriku. Það er gaman þegar æðið grípur mann og maður finnur að enn er hægt að sogast með.

Myndin er ríflega tveir tímar og ég undi hag mínum hið besta allan tímann. Textinn var á sænsku og skjátextinn á frönsku og flæmsku.

Sænskt tal, frönsk þýðing, flæmsk þýðing

 Að öllu samanlögðu skildist allt hið besta (enda er ég nýbúin með fyrstu bókina og vel byrjuð á bók 2). Leikarinn sem lék Mikael vann skemmtilega á meðan myndinni vatt fram, leikarinn sem lék Lisbeth var aðeins of kvenleg miðað við upplifun mína af bókinni, leikarinn sem lék Henrik Vanger var helst til hraustlegur fyrir minn smekk - en, ó, það var svo gaman að fara í bíó og sjá myndina sem við vitum að kemur ekki heim. Bjurman var alveg eins ógeðslegur og ég reiknaði með og allar senurnar með honum snertu viðkvæmu taugarnar í mér. Ég tók fyrir augun og hryllti mig. Tel ég mig þó enga meðalkveif. Kannski var ég svona ánægð með leikarana af því að ég þekkti ekkert þeirra fyrir.

Það var samt dálítið kalt að koma út eftir miðnætti.


Þriggja landa sýn

Hva, ís með tveimur kúlum kostar ekki nema 500-kall, og 350 kr. með almenningssamgöngum bæjarendanna á milli. Annars sætir mestum tíðindum að Mattinn á afmæli og við erum búin að borða mjög sérstaka köku ... þar sem saga Marínar kemur við sögu.

Og nú bíður Tinninn ekki öllu lengur.

Gaman að vera í þessari rjómablíðu.


Þegar almenningssamgöngur eru einkavæddar

Sjálfsagt getur græðgi verið af hinu góða. Áhugasamir segja að ábatavon sé hvati framfara, nýjar leiðir verði uppgötvaðar, hagræðing komist á, almennur sparnaður orðið - og afraksturinn sé hagur allra. Kannski orða áhugasamir það öðruvísi.

Ég horfði stóreyg á The Big Sellout í gærkvöldi og undraðist hversu litla kynningu myndin fékk. Nú er svo komið að Íslendingar þurfa virkilega að velta fyrir sér hvaða afleiðingar geta orðið af einkavæðingu. Fyrir tæpum áratug man ég að Áslandsskóli var rekinn af einkaaðilum. Tilraunin gekk illa og var fordæmd af mörgum. Ég verð víst að viðurkenna að ég trúi að einhverjir skólastjórar sem hefðu sjálfdæmi um fjárveitingar gætu varið peningunum betur en miðstýrt ráðuneyti og náð betri árangri. Mér leiðist t.d. óhemjumikið þegar illa er farið með pappír. Og ég skil ekki af hverju myndin var ekki betur kynnt því að við ættum að vera áhugasöm um að verða meðvitaðri um kosti og galla einkavæðingar. Bankasölurnar eru víti til að varast.

Sjálf er ég efins um einkavæðingu, en ég er líka dálítið efins um myndina. Ef hins vegar bara punktur bresku járnbrautarstarfsmannanna er sannur fordæmi ég einkavæðingu bresku járnbrautanna. Ef ég man rétt keyptu 150 ólík fyrirtæki járnbrautirnar og þau vildu öll setja sitt mark á starfið, m.a. með eigin einkennisbúningum. Stóra sjokkið var samt að heyra af sprungunni í teinunum sem fyrirtækið skellti skollaeyrum við og svo gáfu sig teinarnir með þeim afleiðingum að fjórir farþegar og tveir starfsmenn létu lífið. Gróðavonin var sett ofar örygginu. Ef járnbrautarmennirnir sögðu satt. Er kannski yfirleitt tilfellið þegar flugvélum hlekkist á að eigandinn hefur látið sér öryggið í léttu rúmi liggja?

Ef raforkukerfi í Suður-Afríku er einkavætt og margir fátækir íbúar þurfa að borga þriðjung ráðstöfunartekna sinna (20 af 60 röndum) fyrir orkuna finnst mér salan á villigötum. Ef eigandi samfélagslegrar þjónustu notar öll tækifæri til að keyra upp verð á þjónustunni til að fjármagna bruðlið í sér er mér það á móti skapi. Ef menn nota bolabrögð til að græða á starfsemi sinni, e.t.v. vegna þess að samkeppni er lítil eða hartnær engin, fyrirlít ég það.

Er það það sem við sáum í myndinni? Hafa spítalarnir á Filippseyjum verið einkavæddir til að fjármagna gríðarlega yfirbyggingu? Er munaður að fá blóðskilun á spítalanum eða sjálfsögð þjónusta sem á að greiða í gegnum skattana? Keiluskurður? Súrefnisgjöf?

Er eðlilegt að skattleggja bláu olíuna, vatnið, þannig að aðeins hinir efnameiri geti leyft sér að nota ómengað vatn til drykkjar? Hvers vegna eru eða verða hinir efnaminni það? Er það vegna þess að þeir hafa sóað auðæfum sínum? Forheimskast af sjónvarpsáhorfi? Drukkið frá sér rænuna? Eða fyrst og fremst vegna þess að gáfum, áhuga og tækifærum er dálítið misskipt?

Og ef maður hefur ekki áhuga á að verða forríkur á maður þá ekki skilið að njóta heilsugæslu, menntuntar eða blávatns?

Ég er efasemdarmaður og mér dettur ekki í hug að uppveðrast yfir þættinum og trúa öllu eins og nýju neti. Sögurnar eru mér hvati til að íhuga þetta áfram og mynda mér skoðun á því hvað er eðlilegt. Og ég er alltaf að verða skelkaðri við vitundina um veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hérna. Mér finnst ég enn leynd upplýsingum og ég kann því illa.

Hvað er eiginlega framundan?


Bannmerki í símaskrá

Í kvöld var hringt í mig úr ágætri stofnun og ég beðin um að kaupa 170 söngtexta. Ég sagðist forviða ekki hafa áhuga og maðurinn hálffyrtist við. Það er hins vegar ég sem hefði átt að bregðast verr við því að í símaskránni er bannmerki við númerið og ég þoli ekki símasölumenn. Mér finnst ekki að sjúkrastofnanir eigi að hringja og betla af fólki. Ég held að hluti af sköttunum mínum fari í heilbrigðiskerfið og ég er mjög sátt við það.

Ég hef ekki lent í þessu í fjölmörg ár - ætli bannmerkingunni hafi skolað burt með peningum bankabéusanna?


Kirsuberjatréð

Það er góð tilfinning að kaupa íslenska framleiðslu til að gefa í útlöndum. Við Laufey fórum í Kirsuberjatréð í dag og keyptum þrennt (eins).

Úr Kirsuberjatrénu

Þetta er bara fyrsta vers. Gva, hvað það verður gaman í útlandinu. Skemmtilegt fólk, gott veður - og Tinni!


Ó, þú aftur ...

Það var mikið dekur að sjá hina nýju sýningu Hugleiks í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Stykkið er reyndar í grunninn 25 ára gamalt en fyrir 25 árum var ég ekki orðin aðdáandi þannig að ég hef engan samanburð. Og að vanda var ýmsu í umhverfi okkar í dag fléttað inn í söguþráðinn. Sumu tók ég vel eftir en mér skildist á Antoni að ég hefði farið á mis við ýmsan brandarann. Líklega er hægt að hlæja helmingi oftar en ég gerði.

Nýja fólkið sem ég ætla að leggja á minnið er Jón Svavar Jósefsson, Svanlaug Jóhannsdóttir og Friðjón Magnússon.

Úr leikskrá hló ég mest að baktjaldamakki og dramadurgum.

Þegar Hugleikur á í hlut er alltaf tilhlýðilegt að hlæja mikið, oft og helst innilega og lengi í hvert sinn. Þess vegna tíunda ég þetta samviskusamlega. Hljómsveitin Ær og kýr vakti líka mikla lukku.

Aðeins þrjár sýningar eftir, miðvikudag, fimmtudag og föstudag í þessari viku.


Játning smánotanda

Mér er ekki ljúft að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég fór í Bónus í gær. Mig vantaði bara svo venjulegt heilhveitibrauð og Bónus lá svo vel við höggi enda í kallfæri við heimili mitt. Þá kom mér á óvart að sjá að hálft brauð kostaði meira en helmingi minna en heilt. Já, hálft kostaði 98 en heilt 235 þannig að kílóverðið á stærri einingunni var talsvert hærra en á þeirri minni. Þessir tímar eru sem sagt ekki liðnir.

Og úr því að ég var komin inn - svona er það alltaf - keypti ég líka kassa með 100 tepokum sem kostaði lítið fé. Það er alveg satt, það munar hundruðum prósenta þegar borið er saman við aðra framleiðendur. Gallinn við hina tepokana í hinum búðunum er að þeir pjattast við að vera sérpakkaðir hver og einn. Mér er bara illa við það. Pokarnir eru þegar pakkaðir í kassa og ég vil geta opnað kassann, tekið upp poka og skellt ofan í sjóðandi vatnið. Mér finnst svart te gott, líka þótt það heiti ekki Pickwick (nema það sé Melrose's).

Svona fór um búðarferð þá, en mér til talsverðrar gleði sá ég líka að margt verð er sambærilegt í öðrum verslunum þannig að það verður önnur hálfs árs bið á að ég heiðri Jón með smáinnkaupum.


Ungfrú fegurð

Í kvöld á að velja ungfrú sæta sá ég áður en ég skipti af fréttum Stöðvar 2 yfir á fréttir Stöðvar 1. Valli talaði um hvað þetta væri ómetanleg reynsla og tvær geðugar stúlkur hnykktu á því hvað þetta væri skemmtilegt og lærdómsríkt. Áreiðanlega eitthvað til í því.

Ungfrú Suðurnes 2007 er samt ekki sammála því og rökstuddi skoðun sína í Víkurfréttum fyrr á þessu ári.

Sjálf hef ég enga skoðun á málinu ...


Undarlega lágur prófíll

Mig langaði að vita hverjir ynnu hjá útgáfufyrirtækinu Frjálsum miðli og leitaði á google. Útgáfufyrirtækið er ekki með eigin heimasíðu, er bara skráð í firmaskrá, það er stofnað 1990 og eigandinn er fædd 1968. Ég er ekki viss um að ég myndi veðja á það ef ég ætlaði að kaupa svona vinnu.

En google þekkir ekki alla svo vel ... þótt Davíð væri með meiningar um annað fyrir réttum og sléttum tveimur mánuðum.


Hverjir - eiga - jöklabréfin?

Nú er búið að neyða upp á mann þekkingu á veðköllum, stýrivöxtum, bindiskyldu, kúlulánum, áhættufjárfestum og kjölfestufjárfestum og nú vil ég fara að heyra hverjir eiga jöklabréfin og hvort hægt verður að lágmarka skaðann af stöðutökum.

Gagnsæi eða gegnsæi, ég vil bara staðreyndir á borðið og yfirsýn þaðan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband