Færsluflokkur: Dægurmál

Afeitrun

Um helgina hitti ég á förnum sveitavegi kunningjakonu sem sagði mér að hún hefði farið í afeitrun til Póllands í janúar. Hún lét vel af dvöl sinni en það merkilegasta þótti mér að hreinsunin er svo algjör og aukaefni svo bönnuð að gestir Jónínu fengu ekki að mála sig - látum það nú vera - en heldur ekki að þvo sér með sápu OG EKKI BURSTA TENNUR.

Og nú vildi ég mega senda a.m.k. einn fyrrverandi bankastjóra í afeitrun. Ætli hann kynni ekki m.a.s. að meta það.

Í þorpinu var síðan ein matvöruverslun, ein snyrtistofa (ekki fyrir skjólstæðinga Jónínu), hvort það var ein fataverslun OG SVO ÁTTA SKÓBÚÐIR. Og í kring risastór skógur sem gæti kynt undir innilokunarkennd hvaða meðal-Íslendings sem þarf heima fyrir bara að standa upp til að villast ekki í víðlendum skógunum.


Hr(a)unið

Mér fannst Sigurjón M. Egilsson nokkuð smellinn þegar hann spurði Guðna Th. Jóhannesson í þætti sínum í morgun hvort Hrunið væri fyrsta bók í seríu, og þá myndi sú næsta heita Hraunið. Fólk sem í sakleysi sínu fékk skell vegna þess að fjárglæframenn nýttu sér ímynd Íslands og sakleysi Íslendinga vill, a.m.k. sumt, að réttlætinu verði fullnægt með því að landráðamenn verði leiddir í járnum á viðeigandi stað.

En auðvitað eru menn saklausir þar til sekt þeirra sannast ...


Sólstöðuhátíð 2009

Sjálfa hitar mig í báðar kinnar eftir mikla útivist, en mér finnst samt brýnt að minna á sólstöðuhátíð Fjörukrárinnar sem hófst í dag og heldur áfram á morgun. Og hinn og fram í næstu viku. Þar er sko ekkert 2007 á ferðinni ...

Gengið í frjálsu falli

Eins og fram hefur komið í fyrri þáttum er ég á rápinu með Grikki. Hópstýrurnar koma svo vel undirbúnar að við leiðsögumenn þurfum ekki að hafa mikið fyrir því að tala (eins og mér sé einhver greiði gerður með því, hnuss) en meðal þess sem ég sagði minni samt á fyrsta degi var gengið. Já, já, sagði hún, evran er 172 krónur. Öö, sagði ég, frekar 178 (enda keyptu þau heilu hillumetrana á Geysi í dag). Og nú varð mér litið inn í Seðlabankann og sá að evran er komin yfir 180 krónur. Sossum nógu þénugt fyrir útflutninginn og ferðaþjónustuna en ég hélt að stefnan hefði verið önnur ...

Hið gríska auga gestsins

Þessa dagana rápa ég um þorpagrundir landsins með grískan læknahóp. Í dag var ég spurð um allan þennan fjölda bíla á götunum. Það er von.

Engar lestir, hvorki ofan jarðar né neðan, og strætó sem gengur á klukkutíma fresti á kvöldin - og þykist góður! Grr. Mætti ég biðja um tramma, jafnvel þótt hann ósi stundum af reyk ...? Ég var svo sem ekki á eilífu flandri milli bæjarhluta í Brussel um daginn, hélt mig mest miðsvæðis, en það er alveg hægt að venjast góðu. Ég er þó ekki viss um að við fáum betri almenningssamgöngur í umslagi frá Evrópusambandinu.

Ég er reyndar líka með hið glögga auga gestsins í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins og hef reynt að hafa vit fyrir hr. Strætó. Hann tekur bara lítið mark á mér og heldur áfram að hafa á vefsvæði sínu: Gengið 61 metra.


Aðalbjörn Sigurðsson reyndi að þjarma að Einari Erni Ólafssyni

Þetta var bara augnablik í gær, svo leið það hjá og nú ákveð ég að endurlifa það.

Fréttamaður RÚV spurði forstjóra Skeljungs hvers vegna það hefði tekið alla helgina að leiðrétta álögur á eldsneyti og EÖÓ reyndi að trúa sjálfum sér þegar hann sagði að tíminn hefði verið of skammur. Og þá spurði AS sisona af hverju það hefði gengið svo fljótt að hækka í kjölfar neyðarlaganna (mig minnir að um neyðarlögin hafi verið að ræða). Og Einar trúði algjörlega ekki sínu eigin svari.

Þaðan af síður ég.

Samt höldum við áfram að flissa ofan í handarkrikana á okkur yfir augljósu samráði olíufélaganna. AUGLJÓSU.

Ég er reyndar í mjög lausum viðskiptum við olíufélögin þannig að líklega er ég farin að flissa opinskátt.


Dario Fo á Austurvelli

Þegar ég ætlaði að líta á mótmælendur á Austurvelli um hálfsjö var byltingin farin í mat.

Að öðru leyti er ég dekurdolla, styttist í að ég rápi um ýmsar þorpagrundir með langt að komnum lyfjaspekúlöntum. Það verður Kaldidalur og Jaki - sem er mikil og skemmtileg tilbreyting frá Skálpa. Hehe. Ef veðurguðirnir vildu auka gæði mín enn fremur myndu þeir fresta skúrunum fram á sunnudag og hækka hitastigið um nokkrar gráður. Annars er óvíst að Grikkirnir fækki fötum.


Saga úr atvinnuleysinu

Það er mörg matarholan. Í dag frétti ég af vinnustað sem virðist stunda það að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til þriggja mánaða gegn því að það fái áfram atvinnuleysisbætur og fyrirtækið borgi ekki neitt. Ekki skil ég þessar reglur en mér var sögð sagan svona. Til þriggja mánaða sagði ég, en svo virðist yfirmaðurinn tala langt niður til þessa starfsfólks og hrekja burtu löngu áður en þrír mánuðirnir eru liðnir.

Og þá getur viðkomandi starfsmaður misst bæturnar í 40 daga.

Er ég kannski að tala um matarholu Vinnumálastofnunar?


Hver sló um daginn fram tölunni 72 milljarðar sem endanlegri skuldatölu í Icesave?

Ég missti af öllum Icesave-hasarnum í dag, en man að einhver taldi sig búinn að reikna út fyrr á árinu að skuldin yrði 72 milljarðar. Og ég man gjörla að ég hafði enga trú á því af því að forsendur voru svo yfirgengilega óljósar. Mér duttu einmitt vextirnir í hug.

Og ég spyr enn: Hvað varð um peningana? Juku þeir hagvöxtinn einhvers staðar í alvöru?


Stiklað á ferðasögu

Amsterdam - 0032-49... - Hreinn - jarðarber - Wiertz - nehhei! - Place Lux - Evrópuþingið - Duvel - Matti - BL - skógur - Isidore - Hawaii - laid - sinker & floater - sandalar - dýraslagur - tíhí - Are you Spanish? - Tinni - Tobbi (Snowy) - Hergé - atómið - Ertu að segja að ég sé ljóta systirin? - Hema - suður- og vestursvalir - evra - nehhei - Hvað ertu búin að læra í kvöld? - sveppasósa - gulur boxhanski - afmæli - kökurass - nehhei - Komdu mér á óvart. - Judas - partakláði - Tinni - rúsínubrauð - rúllustigar - blanche - svaladrykkur - sár á milli tánna - Mannequin-Pis - Magritte - Eigum við að ræða það eitthvað? - Ekki viltu brenna. - un glace - MERCI - franskar - bestu frönskurnar - Per Andreas - H&M - moulin frites - Ertu að ljúga þessu? - Hema - Kolbeinn kafteinn (Captain Haddock) - Zombi - veraldarvefurinn - nehhei? - Hreinn, ertu að ljúga? - s'il vous plait - Evrópusambandið - Millenium - pardon - ekki einu sinni partakláði - indverskt - þriggja landa sýn - Magritte - metró - lundi - mæjónes - Brusselhlaupið 20 - djúpur - kúlur (ekkert lán) - Var það komið fram í þættinum? - ævintýri á gönguför - sendiráðið - hýra hverfið - nehhei - sólarvörn - gestabók - Írland - 11. júlí - Hljóðfærahúsið - nehhei - Millenium - kræklingur - ostrur - vaffla, loksins - París

Gaman? Öö, eigum við að ræða það eitthvað?

Veður? Já, geðveikt.

Fólk? Jahhá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband