Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 28. júní 2009
Skoða fyrst og borða svo
Í hvalaskoðunarferð með þýska ferðamenn sannreyndi ég að sumum ferðamönnum finnst fara vel saman að skoða fyrst og borða svo. Þegar við sáum inn í Hvalfjörðinn benti ég þangað og sagði hvað hann héti og bætti við að þangað inn væru dregnir þeir hvalir sem veiddust. Og á augabragði var ég spurð hvort þau fengju að sjá. Á daginn kom að ein hjónin höfðu borðað hrefnu kvöldinu áður og önnur áttu pantað sama kvöld.
En auðvitað þýðir ekkert að veiða hvali nema það sé markaður ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. júní 2009
Stígagerð og gígagerð
Mér hefur löngum þótt lítt eftirsóknarvert að fá hingað milljón ferðamenn á einu ári en ef það blasir samt við sem veruleiki framtíðar þarf að leggja stíga og bæta aðstöðu, t.d. með fleiri klósettum. Salernisferðir eru ekki skemmtilegt umræðuefni en fólki finnst heldur ekki gaman þegar einhver gengur örna sinna bak við tré. Þess vegna þarf að fá gott fólk til að búa í haginn og taka svo opnum örmum á móti gjaldeyrinum.
Þegar ég kom heim frá Brussel um daginn var ósköp vesöl útlensk kona að leita að bílaleigubílnum sínum í Leifsstöð og spurði Laufeyju hvar H væri. Laufey hljóp um allt bílastæði til að liðka til fyrir konunni þannig að henni fyndist hún velkomin í landinu. Og við vorum öll sammála um að það væri lágmark að sýna aðkomufólki alúð þannig að orðspor okkar yrði okkur í hag.
Og í dag heyrði ég frá hópi Evrópubúa að Icespor Íslendinga væri að öðru leyti nokkuð vafasamt.
Bætum stíga og gíga!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. júní 2009
Laugavegurinn í sólskini
Allt horfir til betri vegar í fallegu veðri. Ég hitti gamlan skólafélaga á Laugaveginum sem ég gekk niður hann og þrátt fyrir að sólin færðist yfir götuna á þessum 20 mínútum sem krufning Íslands tók vorum við sammála um að við værum ágæt og að íslensk fold risi úr sæ á ný.
Eins gott að Siggi stormur hafi ekki farið með fleipur í útvarpinu í morgun þegar hann sagði að öllum spákortum bæri saman um að sólarhelgi færi í hönd um allt land. Líka á golfvöllunum og í skógarrjóðrunum. Væntanlega líka þá á austursvölum Ármanns og norðursvölum Matta.
Mætti ég biðja um þægilega útivinnu í góðviðrinu, t.d. leiðsögn um hvalalendur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 23. júní 2009
Biðlaun og annar launakostnaður
Eru biðlaun rétthærri en önnur laun? Er ekki hægt að svipta vafasama einstaklinga biðlaunum af sanngirnisástæðum?
Bara fræðileg spurning ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 23. júní 2009
Noget for noget eftir Önnu Grue - Samviskulaus glæpur
Hún fór hægt af stað eins og hendir bækur sem verða æ meira spennandi, alls konar fjölskyldu-, vina- og nágrannatengsl kynnt til sögu. Ég skildi það síst fyrir þær sakir að sagan var kynnt sem þriller. Á síðari stigum var svo óforvarandis framið samviskulaust morð sem minnti mig á Glæp og refsingu og eftir það var erfitt að einbeita sér að öðru.
Eins gott að gleypa í sig einn danskan reyfara áður en maður fer að brúka dönsku í brúðkaupi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. júní 2009
Sendum Hafdísi Huld í Júróvisjón
Lagið um kóngulóna kemur mér alltaf í gott skap, það hlýtur að vita á eitthvað. (Og ég meina ekkert með boðhættinum - hann hljómar bara betur í fyrirsögn.)
Að auki legg ég til að Ármann verði sendur sem kynnir - þá lofa ég að horfa OG HLUSTA.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. júní 2009
Prjónaklúbburinn
Að prjóna er góð skemmtun - í höndum sumra. Ég var að klára Prjónaklúbbinn eftir Kate Jacobs sem fjallar vissulega um prjónaskap en bara sem umgjörð utan um vináttu, tengslanet í New York, einstæða hvíta móður svartrar stúlku og vinskap þvert á stéttir, aldur og kyn. Og ef það er eitthvað að marka þessa bók er mjög erfitt að vingast við fólk í New York. Þá kemur prjónaklúbbur á föstudagskvöldum sterkur inn ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 20. júní 2009
Gagnsæi sykraðra mjólkurvara
Nú sit ég hér og borða Frútínu sem Mjólkursamsalan framleiðir. Hún er með viðbættum 2% ávaxtasykri og 3% hvítum sykri. Hún kostaði 75 kr. í vikunni. Hvað mun hún kosta eftir 1. september?
Mér finnst að ég ætti að geta reiknað þetta út. Get það ekki. Og ég þori að hengja mig í hæsta gálga að einhverjir munu nota tækifærið í september til að hækka vöruna sína óeðlilega mikið með tilvísun í hækkaðan virðisaukaskatt. Og þá - þá reynir á hvort neytendur greiða atkvæði með buddunni. Þá reynir á hvort neytendur veita aðhald. Þá sést kannski úr hverju við erum.
Vonandi erum við rúgbrauð en ekki franskbrauð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. júní 2009
Nammi vs. ávextir
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 17. júní 2009
Hlaupist undan ábyrgð
Nýlega frétti ég af hlaupara í Laugardalnum sem hljóp í flasið á uppgjafaauðkýfingi sem sló á létta strengi og sagði: Það er bara verið að hlaupa. Skokkarinn svaraði að bragði: Maður þarf að hlaupa undan skuldunum.
Er bara orðin spurning um hver er fráastur á fæti á þessum síðustu og verstu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)