Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 15. júlí 2009
Áhættusamt að lifa
Fyrir hálfum mánuði fór ég út á ólgusjó á lítilli duggu. Að vísu var veður stillt og duggan ekki svo lítil en allt er svo huglægt að mér finnst þessi byrjun passa. Og nú heyri ég í fréttum að duggan mín hafi fundið sandbotn og fest sig, að vísu tímabundið.
Þetta hefði getað verið ég! Að vísu á ég bágt með að trúa að leiðsögumaður sé hafður með 10 manna hóp en með 20 manns til viðbótar hefði verið komin forsenda fyrir ... mér.
Hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. júlí 2009
Stúlkan sem leikur sér að eldinum
Ég er nógu áhrifagjörn til að lesa bækur sem mér finnst allir vera að tala um. Auðvitað getur ekki bók sem mjög breiður hópur hefur gaman af verið algjörlega frábær. Og ég verð að segja að ég skil ekki alveg þennan æsing yfir bókum Stiegs Larssons. Ég hef alveg gaman af því hvernig hann lætur eftir sér að lýsa því hvernig Lisbeth tekur til í íbúðinni, svitnar af ákefðinni, fær sér brauðsneiðar með lifrarkæfu og grænum baunum (eða hvað það nú var, kannski rauðbeður), fer í bað, sofnar, vaknar um miðnætti í hráköldu vatninu, bölvar, fer upp úr og sofnar svo um leið og hún leggst á koddann. Eða að Mikael reyki sígarettuna og snúi bollanum á undirskálinni meðan boxarinn segir frá með alls kyns krúsindúllum. Stieg dvelur lengi við litla hluti og hægir þannig á frásögninni. Fínt.
Það væri bara meira gaman að súpa stundum hveljur yfir orðalaginu. Fléttan virðist ganga vel upp og það verður að duga. Og ég er svo sannfærð um að Lisbeth geti ekki hafa drepið Dag, Miu og Nils að hún gæti vel hafa gert það. Samt sjáum við stundum í hug hennar sjálfrar.
Flickan sem lekte med elden fer vel í sólinni, fór líka vel í lestinni og flugvélinni. Og ég er þegar búin að kaupa Loftkastalann sem var sprengdur, áhrifagirninni eru engin takmörk sett ... Nú er bara fyrir öllu að sólin skíni glatt alla vikuna eins og veðurfræðingar boða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. júlí 2009
Víst er fiskbúð á Akureyri
Í gær bráðvantaði mig skötusel, hörpudisk, humar, þorsk, steinbít og/eða rækjur og fór í tvær fiskbúðir í Reykjavík. Sú sem er í næsta nágrenni við mig er með lokað til 10. ágúst - sem hentaði aldeilis ekki - þannig að ég fór í búð sem Ásgerður hafði mælt ógurlega með í Gnoðarvoginum. Hún reyndist bara opin virka daga þannig að ég hrökklaðist inn til óvinarins, stórmarkaðanna. Í Bónus var tiltölulega fátæklegt úrval, í Hagkaupum ekkert sem ég fann og í Krónunni skást.
Svo var ég að lesa þriggja daga gamalt Fréttablað áðan, bakþanka dr. Gunna á fimmtudaginn þar sem hann segir í einni línu að engin fiskbúð sé á Akureyri. Döö, minn kæri, það þarf ekki einu sinni að gúgla til að finna fiskbúð á Akureyri, það er nóg að fletta í símaskrá.
Súpan bragðaðist vel.
Tek fram að myndin segir ekkert um kætina ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 11. júlí 2009
Þegar nördinn hitti systur sína
Þrátt fyrir mjög gott frí í Danmörku hef ég saknað þess að fylgjast með öllu atinu heima. Ég náði dálítilli tengingu þegar ég stillti á beina útsendingu frá Alþingi og lét Snorra giska á hver talaði. Það þótti mér gaman en bæði eiginkonu hans og systur þótti sem þar hefði nördinn hitt systur sína, eða ömmu eftir atvikum. Verst var að sumar ræður voru of langar til að veruleg spenna skapaðist í getraunaleiknum.
Svo finnst mér rétt að geta þess að veðrið á Íslandi er til mun betra en í Árósum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. júlí 2009
Loftpeningar
Ef peningarnir voru til eru þeir einhvers staðar til. Ef þeir eru ekki til eru skuldirnar ekki til.
Hvenær á að fara til Tortólu að sækja peningana sem ég trúi að séu til? Er enginn endir á þessum brottflognu sjóðum?
Við þurfum að framleiða meira, selja meira og kaupa minna - byrjum núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. júlí 2009
Jákvæðar afleiðingar kreppunnar
Nú thegar gjaldeyrir er orðinn svo gargandi dýr fer maður a leggja meira upp úr øðrum hlutum, rølti um gøturnar og spjalli við næstu nágranna. Thá er nú aldeilis thénugt að finnast gaman að tala. Ég get ekki með neinni sanngirni kvartað ... lallallala.
Vek athygli á að thað kostar 200 íslenskar krónur undir póstkort til Íslands.
Svo fylgjumst við með øllum fréttum í stað thess að fara á tónleika. Einhver er hvort eð er búinn að borga fyrir nettenginguna. Lallalalla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. júlí 2009
Tvítyngi
Ég hef verið mjøg gagnrýnislaus thegar fólk talar um að børn verði tvítyngd við að alast upp við tvø tungumál. Undanfarna daga er ég búin að hitta urmul barna í Danmørku sem eiga íslenska foreldra og ég get ekki heyrt að børnin hafi fullkomið vald á tveimur tungumálum. Gildir thá einu hvort thau eru a máltøkualdri eða eldri. Tungumál landsins er mjøg ráðandi thótt thau geti vissulega brúkað bæði málin. Thau leggja sig fram og foreldrarnir eru hvetjandi en thau thurfa að hugsa sig vel og vendilega um.
Eða hvað meina menn með tvítyngi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 4. júlí 2009
Krónan að styrkjast?
Ég get ekki betur séð en að íslenska krónan sé aðeins ad sækja í sig veðrið. Enda ef ekki er ég sannfærð um að okkur sé viljandi haldið heima. Kaffibollinn í Danaveldi kostar virkilega heilan helling og líka ferð í stórmarkaðinn.
Ferðaløg innanlands eru kannski framtíðin? Ég held að thau séu a.m.k. ekki enn alveg orðin thað, ekki tróðu Íslendingarnir mér um tær thegar ég sat svo gott sem á miðjum thjóðveginum í síðustu viku með laskaðan bíl - útlendingar stoppuðu hins vegar í stríðum straumum og buðu mér aðstoð.
En mikið verður gaman að mæta í brúðkaup Unnar og Allans í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. júlí 2009
Bólgnir seðlar
Launin mín sexfölduðust á árabilinu 1995 til 2007 enda jók ég við mig menntun og starfsreynslu á sama tímabili. Mér finnst það mikið, enda er ég ósköp nægjusöm. En hvernig má það vera að ein þyrla, ein húsbygging þótt hún sé stór, ein bankastjóralaun eða eitt kúlulán mörghundruðfaldist? Er það efniskostnaður? Óráðsía? Græðgi? Eða er þörfin svona gegndarlaus?
Á þessum tíma lækkaði nefnilega ýmis kostnaður, örbylgjuofnar urðu ódýrari, farsímar, tölvur o.fl. raftæki, í ljósi þess að framleiðslugetan varð meiri og fleiri tæki seldust sem gerði seljendum kleift að lækka verð á hverju stykki.
Ég held að við höfum verið of gagnrýnislaus á tölur - og það þótt við höfum verið gagnrýnin í bland. Tónlistarhúsið á að kosta 13 milljarða, fer upp í 20 milljarða, kostnaðaráætlanir standast aldrei þegar við erum komin upp í milljarðatölur, eins og það sé enginn marktækur munur á einum milljarði eða tveimur, 100 eða 200.
Heilbrigð gagnrýni er þörf og við lögðum hana til hliðar. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson fengu bágt fyrir hjá almenningi þegar þeir ætluðu að skammta sér ríflega kaupréttarsamninga um árið, en strax árið á eftir var úthald gagnrýninnar þrotið. Þeir hröktu mig þó frá Búnaðarbankanum og ég sé ekki að ég geti fyrirgefið þeim framkomuna. Ég get ekki skilið að þeim líði vel í skinninu á sér, en mér finnst ekki nóg að þeir finni vanþóknunarglampann þegar þeir hætta sér út á götu. Mér finnst að þeir eigi að skila sjálftökunni. Löglegt eður ei, þeir eru sjálftökumenn og sölsuðu undir sig peninga nytsamra sakleysingja.
Þetta lá mér á hjarta þótt ég viti að allir séu búnir að átta sig á þessu. Helv. þjóðarskuldir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 29. júní 2009
Bílferðin
Það var gaman að taka rútu út úr bænum. Og nú er ég búin að komast að því að það var líka ódýrt.
Í dag keyrði ég suður á lánsbíl. Eftir 40 kílómetra kom slinkur á bílinn, ég lagði í kantinum og sá að annað framdekkið var algjörlega á förum. Verkstæðinu hafði láðst að herða rærnar.
Þetta þýddi símtöl, viðsnúning, töf - og kostnað. Að ógleymdu stressinu (sem þjakaði reyndar aðra meira en mig).
Svo keypti ég bensín. Ég ætlaði að kaupa bensín í Víðigerði af því að bróðir minn heldur þar til og heilsa upp á hann í leiðinni. Þegar ég lét mig renna - segi og skrifa á sjálfskiptum bíl - niður Bólstaðarhlíðarbrekkuna kviknaði bensínljósið. Ég þorði ekki annað en að setja sopa á bílinn á Blönduósi. Hann var fljótur að klárast. N1 leyfði mér ekki að prenta kvittun og ég man ekki lítraverðið, hjá ÓB kostar hins vegar lítrinn 175,30 krónur.
-Það er gott að ferðast á fæti þótt helgin hafi auðvitað verið skemmtileg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)